Mál nr. 151/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 151/2017
Miðvikudaginn 11. október 2017
A
gegn
Tryggingstofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.
Með kæru, dags. 11. apríl 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. mars 2017 um stöðvun greiðslna ellilífeyris.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um ellilífeyri með umsókn, dags. 31. október 2016. Greiðslur til kæranda hófust 1. desember 2016. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. mars 2017, var kæranda tilkynnt um að greiðslur til hans yrðu stöðvaðar 1. apríl 2017 ef kærandi myndi ekki veita stofnuninni leyfi til að afla upplýsinga sem nauðsynlegar væru til að taka ákvörðun um bótarétt.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. apríl 2017. Með bréfi, dags. 19. apríl 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi, dags. 3. maí 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. júlí 2017. Athugasemdir bárust ekki. Tryggingastofnun ríkisins sendi 1. september 2017 til úrskurðarnefnd velferðarmála afrit af úrskurði Persónuverndar í máli kæranda, nr. [...], dags. X 2017.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva ellilífeyrisgreiðslur til hans verði felld úr gildi, að minnsta kosti þar til niðurstaða Persónuverndar liggur fyrir. Þá gerir kærandi einnig kröfu um að úrskurðarnefndin úrskurði um hverjar skuli vera greiðslur til þeirra lífeyrisþega sem kæra sig ekki um að verða fyrir barðinu á persónunjósnum Tryggingastofnunar ríkisins.
Í kæru segir að á árinu 2016 hafi kærandi kynnt sér lög og reglur er varða ellilífeyri ásamt því að skoða umsóknareyðublað Tryggingastofnunar ríkisins um þær greiðslur. Kæranda hafi þá verið ljóst að með undirritun á umsóknareyðublaðið væri hann að afsala sér öllum persónuréttindum sínum til stofnunarinnar. Hafi hann ákveðið að skrifa ekki undir slíka umsókn.
Kærandi hafi sótt um ellilífeyri 31. október 2016 og hafi hann sent Persónuvernd afrit af þeirri umsókn ásamt formlegri kvörtun til Persónuverndar. Kærandi hafi breytt eyðublaði Tryggingastofnunar ríkisins um ellilífeyri. Í stað tilvísana í lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og lög nr. 100/2007 um almannatryggingar hafi hann sett inn tilvísun í 76. gr. stjórnarskrárinnar sem sé svohljóðandi: „Öllum sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“ Ekki verði séð af þessari grein að til þess að fá rétt sinn uppfylltan, þá sé aðila gert að afsala sér öllum persónuréttindum og þau lög sem hafi verið sett til fullnustu hennar séu því afar hæpin og geti ekki átt sér stoð í henni að þessu leyti. Kærandi hafi bætt inn á umsóknareyðublað um ellilífeyri eftirfarandi texta: „Undirritaður heimilar engar persónunjósnir um sig í sambandi við töku þessa lífeyris.“
Þá segir að kærandi hafi ekki átt von á að fá greiðslur frá Tryggingastofnun en hann hafi fengið þær athugasemdalaust frá 1. desember 2016. Stofnunin hafi haft samband við hann um miðjan mars 2017 þar sem honum hafi verið hótað að fella niður greiðslur ef hann yrði ekki við vissum tilmælum. Kærandi hafi ekki svarað þessu þar sem að það hafi borið öll einkenni þeirra persónunjósna sem kærandi hafi frábeðið sér. Í kjölfarið hafi stofnunin fellt niður greiðslur til hans 1. apríl 2017.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um stöðvun greiðslna til kæranda vegna ellilífeyris frá og með 1. apríl 2017 þar sem kærandi hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir upplýsingaöflun þegar hann hafi sótt um ellilífeyri.
Þá segir að kærandi hafi sótt um ellilífeyri til Tryggingastofnunar 31. október 2016 en hafi gert þar ýmsa fyrirvara við upplýsingaöflun stofnunarinnar sem nauðsynleg sé til þess að ákvarða bótarétt. Vegna mannlegra mistaka hjá stofnuninni hafi ekki verið tekið tillit til útstrikana kæranda á samþykkisyfirlýsingu í umsókninni. Af þeim orsökum hafi kærandi fengið greiðslur vegna ellilífeyris frá 1. desember 2016 án þess að fyrir lægi samþykki kæranda um að Tryggingastofnun mætti afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur hjá skattayfirvöldum og um aðrar tekjutengdar greiðslur s.s. frá lífeyrissjóðum.
Tryggingastofnun sé falið lögum samkvæmt að annast greiðslur almannatrygginga samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar svo og lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í því lögbundna hlutverki felist meðal annars að greiða ellilífeyri samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar. Skilyrði fyrir greiðslu ellilífeyris séu, auk aldurstakmörkunar, lágmarks búseta á Íslandi og tekjur undir tilteknum mörkum. Stofnunin hafi auk þess eftirlitsskyldu með því að réttar bætur séu greiddar, sbr. 45. gr. sömu laga. Til þess að stofnuninni sé mögulegt að gegna hlutverki sínu sé stofnuninni nauðsynlegt að hafa aðgang að tilteknum upplýsingum. Þær heimildir séu nánar tilgreindar í lögum um almannatryggingar.
Umsækjanda og bótaþega sé því skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta auk þess sem stofnunin hafi víðtækar heimildir til að afla upplýsinga frá öðrum aðilum, sbr. 39. gr. og 43. gr. laga um almannatryggingar. Jafnframt sé bent á að samkvæmt 41. gr. laga um almannatryggingar þá sé Tryggingastofnun heimilt að fresta greiðslum ef umsækjandi veiti ekki upplýsingar sem nauðsynlegar séu til að ákvarða um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Nefna megi sem dæmi að þar sem ellilífeyrir sé tekjutengdur sé nauðsynlegt að fá upplýsingar um tekjur bæði samkvæmt tekjuáætlun viðkomandi en einnig með staðfestingu frá skattyfirvöldum. Þrátt fyrir þær víðtæku heimildir sem stofnunin hafi í krafti upplýsinga og eftirlitsheimilda sinna þá sé meðalhófs gætt við alla öflun upplýsinga í hvívetna og ekki sé óskað eftir meiri upplýsingum en nauðsynlegar séu til að geta tekið afstöðu til hverrar umsóknar fyrir sig.
Þá er greint frá því að Tryggingstofnun telji upplýsingaöflun stofnunarinnar vera í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og hvernig Tryggingastofnun sinni fræðsluskyldu sinni til ellilífeyrisþega.
Tryggingastofnun telji sér ekki heimilt að samþykkja greiðslu ellilífeyris nema umsækjandi hafi samþykkt heimild stofnunarinnar til að afla upplýsinga samkvæmt framangreindum lögum.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur ellilífeyris til kæranda.
Í 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með síðari breytingum er kveðið á um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Umsækjanda eða greiðsluþega er rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá er skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.
Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um maka umsækjanda eða greiðsluþega eftir því sem við getur átt.“
Í 40. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um upplýsingar um tekjur umsækjenda og greiðsluþega. Svohljóðandi er 1. mgr. ákvæðisins:
„Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda og greiðsluþega, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og greiðslur hjá lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt.“
Í 41. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um afleiðingar skorts á upplýsingum. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur, skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar og gera honum grein fyrir afleiðingum þess ef áskorun um að veita upplýsingar er ekki sinnt.“
Í 45. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um eftirlit Tryggingastofnunar og viðurlög. Ákvæðið hljóðar svo:
„Tryggingastofnun skal reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Stofnuninni er heimilt í þágu eftirlits að óska eftir upplýsingum og gögnum frá þeim aðilum sem taldir eru upp í 43. gr. og nauðsynleg eru til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna.
Grundvöll bótaréttar má endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa á aðstæðum greiðsluþega.
Leiki rökstuddur grunur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi er heimilt að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fer skv. 55. gr.
Leiki rökstuddur grunur á að bætur séu greiddar á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga frá greiðsluþega er heimilt að afla upplýsinga frá þriðja aðila sem ætla má að geti veitt upplýsingar er máli skipta í því skyni að leiðrétta bótagreiðslur.
Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.“
Fyrir liggur í málinu úrskurður Persónuverndar í máli nr. [...] þar sem fram kemur að fyrirhuguð vinnsla Tryggingastofnunar ríkisins á persónuupplýsingum um kæranda í tilefni af umsókn um greiðslu ellilífeyris samrýmist ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Þá liggur fyrir að kærandi hefur ekki veitt Tryggingastofnun ríkisins heimild til upplýsingaöflunar á grundvelli 40. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 41. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til bætt er úr skorti á nauðsynlegum upplýsingum. Að mati úrskurðarnefndar er nauðsynlegt fyrir Tryggingastofnun að fá upplýsingar um tekjur kæranda til þess að geta tekið ákvörðun um bótarétt hans. Því er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að stöðva greiðslur ellilífeyris til kæranda.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun greiðslna ellilífeyris til kæranda.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun greiðslna ellilífeyris til A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir