Hoppa yfir valmynd

Nr. 86/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. febrúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 86/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21120008

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 6. desember 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. nóvember 2021, um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar. Til vara að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 78. gr. laga um útlendinga. Að lokum krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæra fyrir lok kærufrests.

  1. Málsmeðferð

    Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 28. nóvember 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. október 2018, var kæranda veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Með bréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 3. mars 2021, var kæranda tilkynnt um hugsanlega afturköllun alþjóðlegrar verndar. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun vegna málsins hinn 7. apríl 2021. Hinn 22. nóvember 2021 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi kæranda ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 6. desember 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 27. desember 2021.

  2. Ákvörðun Útlendingastofnunar

    Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnuninni hefðu borist upplýsingar frá lögreglunni á Suðurnesjum hinn 13. janúar 2021 þess efnis að kærandi hefði ferðast til heimaríkis síns þar sem fundist hafi írakskt vegabréf ánafnað henni í hennar fórum við komu til landsins hinn 7. janúar 2021. Vegabréfið hafi verið útgefið í Kirkuk í Kúrdistan hinn 26. ágúst 2019. Þá hafi einnig verið að finna stimpla í vegabréfinu sem hafi sýnt tvær ferðir til Íraks. Fyrri ferðin hafi verið út úr Írak hinn 2. september 2019 og síðari ferðin hafi verið til Íraks hinn 20. september 2020 og út úr Írak hinn 7. janúar 2021.

    Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 7. apríl 2021 hafi kærandi greint frá því að hafa kynnst manni í gegnum samfélagsmiðla árið 2018. Hafi þau átt samskipti á samfélagsmiðlum í eitt og hálft ár og í kjölfarið orðið ástfangin. Að endingu hafi kærandi ákveðið að ferðast til Íraks og hitta kærasta sinn, nánar tiltekið í Sulaymaniyah í Kúrdistan. Kærandi kvaðst hafa farið í tvær ferðir til Íraks, þá fyrri árið 2019 og þá síðari 2020 og hafi hún farið í báðar í þeim tilgangi að vera með kærasta sínum. Í fyrra skiptið hafi kærandi ferðast til Íran og þaðan yfir til Íraks. Kvaðst kærandi hafa fengið vegabréfsáritun til Írans á grundvelli íslenskra ferðaskilríkja hennar gegnum íranska sendiráðið í Danmörku. Þá kvað kærandi kærasta sinn hafa náð í írakska vegabréfið hennar og komið með það til Írans þegar hann hafi komið til að hitta hana. Kærandi kvaðst hafa dvalið í Íran í einn mánuð áður en hún hafi farið til Íraks ásamt kærasta sínum. Þegar kæranda hafi verið bent á að frásögn hennar stemmdi ekki við útgáfu vegabréfsins og stimpla í því og að stimpill í því sýndi að hún hafi yfirgefið Írak hinn 2. september s.á. þá hafi kærandi gefið þær útskýringar að íröksk stjórnvöld hafi ekki sett réttan útgáfudag í vegabréfið. Kærandi hafi í viðtalinu síðar leiðrétt frásögn sína og kvað þá að kærasti hennar hafi ekki komið með írakska vegabréf hennar til Íran heldur hafi hann sótt það fyrir hana þegar þau hafi verið í Írak og afhent henni. Þá kvaðst kærandi í viðtalinu hafa dvalið fjóra mánuði hjá kærasta sínum árið 2020. Kærandi hafi upphaflega ætlað að fara fyrr frá Írak en vegna Covid-19 hafi dvölin lengst. Kærandi kvaðst hafa dvalið allan tímann hjá kærasta sínum.

    Kærandi hafi greint frá því í viðtalinu að foreldrar hennar hafi ekki mótmælt þessum ferðalögum hennar til Íraks þar sem hún hafi sagt ekki sagt þeim frá því en hún hafi sagt þeim að hún ætlaði í frí til Þýskalands eða Hollands. Að auki kvað kærandi að foreldrar hennar hafi ekki spurt hana mikið um ferðir hennar þar sem hún hafi verið orðin 18 ára gömul. Kærandi kvaðst hafa kostað ferðir sínar sjálf.

    Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda hafi hinn 3. október 2018 verið veitt alþjóðleg vernd með vísan til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá er vísað til þess að grundvöllur verndar samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga sé í veigamiklum atriðum annars eðlis en samkvæmt 37., 39. og 44. gr. sömu laga. Tengist grundvöllur verndar sem veitt sé samkvæmt ákvæðinu aðeins óbeint skilyrðum afturköllunar sem útlistuð séu á tæmandi hátt í 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga. Vísar stofnunin til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 422/2021 frá 2. september 2021 þar sem það sé mat nefndarinnar að afturköllun verndar sem veitt sé á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga komi almennt aðeins til greina ef forsendur verndarinnar, þ.e. þau fjölskyldutengsl sem í ákvæðinu séu tilgreind séu ekki lengur fyrir hendi, aðili hafi notfært sér vernd heimaríkis og uppfyllt séu önnur skilyrði almennra reglna stjórnsýsluréttar. Vísaði Útlendingastofnun til þess að kærandi uppfyllti ekki aldursskilyrði sem útlistuð séu í 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga þar sem hún væri 21 árs gömul. Þá hefði Útlendingastofnun undir höndum vegabréf kæranda sem útgefið hafi verið hinn 27. ágúst 2019 með gildistíma til 26. ágúst 2027 þar sem fram kæmi að hún hefði tvívegis og af sjálfsdáðum farið til heimaríkis eftir að umrætt vegabréf hefði verið gefið út. Af stimplum í vegabréfi og samkvæmt frásögn kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi hún dvalið um 30 daga í heimaríki sínu árið 2019 og um 110 daga í heimaríki sínu árin 2020 til 2021. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði sjálfviljug notfært sér á ný vernd heimaríkis og að ekki væri annað séð en að hún hefði dvalið í heimaríki sínu í alls 150 daga að því virtist án erfiðleika. Þá var það mat Útlendingastofnunar að þau gögn sem kærandi hefði lagt fram, svo sem myndir af henni og kærasta hennar og afrit ferðamannaáritunar til Írans, hefðu ekki sýnt fram á nauðsyn ferða hennar til heimaríkis. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið og trúverðugleikamats að forsendur væru til að afturkalla þá vernd sem kæranda hefði verið veitt hér á landi árið 2018 og dvalarleyfi hennar á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga, sbr. 59. gr. sömu laga, þar sem skilyrði þess væru ekki lengur uppfyllt og væri sú niðurstaða reist á ólögfestum afturköllunarheimildum stjórnsýsluréttarins.

    Þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar að virtum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda að hún hefði ekki sýnt fram á aðstæður sem næðu því alvarleikastigi að hún teldist hafa ríka þörf fyrir vernd líkt og kveðið væri á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Var framangreind niðurstaða Útlendingastofnunar byggð m.a. á því að kærandi hefði ekki borið við neinum heilsufarsvandamálum við meðferð máls hennar, kærandi hefði aldrei sjálf upplifað hótanir og vissi ekki hverjir það væru sem faðir hennar óttaðist í heimaríki og þá hafi hún greint frá því í viðtali að hafa kostað sjálf ferðir sínar til heimaríkis og að tilgangur þeirra hafi verið að vera með kærasta hennar. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði bakland í heimaríki sínu og þá bentu upplýsingar í skýrslum um aðstæður í heimaríki hennar ekki til þess að aðstæður þar væru með þeim hætti að veita ætti henni dvalarleyfi á grundvelli alvarlegra aðstæðna á svæðinu.

  3. Málsástæður og rök kæranda

    Í greinargerð kæranda kemur fram að hún byggi á þeirri málsástæðu að ákvarðanir um samband hennar við kærasta hennar hafi verið teknar fyrir [...] ára afmæli hennar þrátt fyrir að þær hafi komið til framkvæmda eftir þann tíma. Kærandi hafi farið til Íraks [...] ára og fjögurra vikna gömul. Kærandi hafi logið að foreldrum sínum að hún væri stödd í Evrópu þar sem að hún hafi vitað að henni yrði meinuð för á þeim grundvelli að ferðalag til Íraks gæti reynst henni hættulegt. Kærandi mótmælir þeirri niðurstöðu Útlendingastofnunar að hún hafi sjálfviljug nýtt sér vernd heimaríkis síns enda hafi hún enga vernd fengið. Kærandi hafi ekki á neinum tímapunkti upplifað sig örugga og hafi ekki yfirgefið heimili kærasta síns á meðan dvöl hennar hafi staðið. Þeirri hugmynd að alþjóðleg vernd kæranda á Íslandi væri stefnt í hættu með för til Íraks hafi ekki skotið upp í kollinum. Kærandi hafi ekki haft ástæðu til að álykta annað en að hún hefði alþjóðlega vernd hvort sem hún væri stödd þar í landi eða annars staðar. Kærandi vísar til þess að samkvæmt orðanna hljóðan grundvallist andlag a-liðar 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga við ásetning flóttamanns að nýta sér vernd heimaríkis. Þar sem kærandi hafi ekki haft þann ásetning telur hún liggja beinast við að ógilda ákvörðun Útlendingastofnun.

    Kærandi byggir á því að þar sem henni hafi ekki verið tilkynnt um réttaráhrif þess að súa aftur til Íraks sé ekki rétt að hún beri hallan af sönnunarbyrði þar að lútandi. Þá sé ekki rétt að kærandi beri hallann af því að foreldrar hennar hafi vanrækt að segja henni frá afleiðingum þess að ferðast til Íraks. Kærandi telur að gera megi þá kröfu til íslenskra stjórnvalda að skýra stálpuðum flóttabörnum skilmerkilega frá áhrifum niðurstöðu sinnar, þ. á m. mögulegum ástæðum fyrir afturköllunar alþjóðlegrar verndar.

    Kærandi byggir á því að rangt sé að láta ákvarðanatöku ástsjúks [...] ára unglings sem hafi fallið fyrir manni kunnugum hennar menningu og háttum hafa þær afleiðingar að sú vernd sem foreldrar hennar hafi barist fyrir verða að engu gerð. Kærandi hafi ekki haft þroska til að átta sig á afleiðingum gjörða sinna enda hafi enginn upplýst hana um þessar mögulegu afleiðingar. Framangreindu til stuðnings vísar kærandi í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Kærandi sé efnahagslega og félagslega upp á foreldra sína og fjölskyldu komin og geti ekki hugsað sér að lifa án fjölskyldu sinnar.

    Þá byggir kærandi á því að afturköllun verndar megi telja til refsikenndra viðurlaga. Kærandi vísar til þess  að nú á dögum þyki almennt óréttlátt og ómannúðlegt að refsa börnum og sé á þeim grundvelli gerðar kröfur til ákæruvaldsins í málum er varða sakhæf börn, eða verka til mildunar refsingar gagnvart þeim allt til 21 árs aldurs, sbr. 56. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærandi telur rétt og sanngjarnt að litið sé til þess hve íþyngjandi viðurlög liggi við háttseminni sem henni sé gefið að sök og ítrekar að það hafi ekki sannast að ásetningur hennar hafi lotið að því að njóta verndar heimaríkis. Með vísan til alls framangreinds byggir kærandi á því að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar sé ógildanleg á þeim grundvelli að stofnuninni hafi borið að taka mun ríkara tillit til ungs aldurs hennar og ásetningsstigs gjörða hennar.

    Kærandi byggir jafnframt á því að í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi hvergi komið fram hvar hún geti lifað örugg í Írak. Vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. 359/2021 frá 12. ágúst 2021 þar sem fram hafi komið að flóttamenn frá svæðum innan Íraks undir stjórn Daesh samtakanna geti ekki notið verndar í öðrum hluta landsins. Hvort kærandi gæti gert ráð fyrir því að enda á slíkum stað hafi ekki komið til skoðunar hjá Útlendingastofnun og þá telur kærandi að stofnunin hafi ekki rökstutt um hvernig kærandi hafi nýtt sér vernd heimaríkis með því að vitja kærasta síns.

    Til vara gerir kærandi dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að hún sé háð foreldrum sínum í bæði efnahaglegum og félagslegum skilningi þannig sé skilyrði 78. gr. laga um útlendinga um rík umönnunarsjónarmið fullnægt.

    Að lokum gerir kærandi þá kröfu að henni verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir þá kröfu á því að sé inntak ákvæðisins túlkað með tilliti til athugasemda með ákvæðinu þar sem fram kemur að börnum skuli veitt ríkari réttarvernd sé ljóst að löggjafinn hafi haft það að markmiði að tryggja réttarvernd viðkvæmari hópa. Kærandi hafi verið á barnsaldri þegar ákvarðanir sem hafi leitt til afturköllunar dvalarleyfis hennar hafi verið teknar. Þá hafi kærandi verið táningur í bæði skiptin sem hún hafi heimsótt kærasta sinn. Kærandi telur að taka beri tillit til ungs aldurs hennar, sem og persónulegra aðstæðna og félagslegra þarfa. Kærandi telur að samkvæmt vilja löggjafans beri að gera slakari kröfur til útgáfu dvalarleyfa í tilfelli barna og með vísan til þess telur kærandi að eðlilegt sé að kröfur séu enn ríkari við ákvarðanatöku afturköllunar þegar um börn sé að ræða. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi við mat sitt ekki tekið tillit til almennra og sérstakra ástæðna með sérstöku tilliti til félagslegra þátta. Kærandi ítrekar að hún hafi verið á barnsaldri þegar hún hafi orðið ástfangin af kærasta sínum í Írak sem hafi haft áhrif á dómgreind hennar. Á þeim grundvelli telur kærandi bæði rétt og sanngjarnt að stjórnvöld taki tillit til ungs aldurs hennar sem og persónulegra aðstæðna hennar. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun ekki metið núverandi ástand Íraks eða hvernig ástandið í landinu hafi breyst með tilliti til aðstæðna kæranda frá því að henni og fjölskyldu hennar hafi verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi. 

  4. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Áður en hægt er að taka stjórnvaldsákvörðun í máli verður að undirbúa málið og rannsaka með það að markmiði að afla nauðsynlegra upplýsinga um málsatvik. Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um nánari afmörkun verður m.a. að líta til þess hversu mikilvægt málið er og hversu nauðsynlegt það er að taka skjóta ákvörðun í málinu. Því til finnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig. Þá verður efni rökstuðnings ákvarðananna að endurspegla þessi sjónarmið enda segir m.a. í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggir á, meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat og málsatvika sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að því að heimilt væri að afturkalla alþjóðlega vernd kæranda á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Líkt og að framan greinir var sú niðurstaða byggð á almennum afturköllunarheimildum stjórnvalda og þeirri staðreynd að kærandi væri nú 18 ára gömul og hefði fengið útgefið vegabréf heimaríkis og dvalið þar í um 150 daga að því er virtist án vandkvæða. Þá taldi Útlendingastofnun að heilsufar kæranda og félagslegar aðstæður hennar í heimaríki væru ekki slíkar að ástæða væri til að veita henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er almennt ekki að finna sérstaka umfjöllun um einstaklingsbundna stöðu kæranda við endurkomu hennar til heimaríkis.

Kærandi er [...] árs gömul kona sem hlaut alþjóðlega vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga í október 2018 þegar hún var [...] ára gömul. Hlutu foreldrar hennar og tveir bræður einnig alþjóðlega vernd hér á landi á sama tíma og eru þau búsett hér á landi. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hvort kærandi eigi föður- eða móðurfjölskyldu í Kirkuk þar sem kærandi er fædd og uppalin og var búsett áður en hún yfirgaf heimaríki sitt ásamt fjölskyldu sinni árið 2017. Þá verður ekki séð að hún eigi fjölskyldu annars staðar í heimaríki en Útlendingastofnun lagði hins vegar til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi ætti bakland í heimaríki. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er hins vegar ekki að finna umfjöllun um hvert bakland kæranda sé í heimaríki. Má draga þá ályktun að með baklandi eigi Útlendingastofnun við umræddan kærasta kæranda sem búsettur sé í Sulaymaniyah.

Í 48. gr. laga um útlendinga eru ákvæði um afturköllun alþjóðlegrar verndar. Samkvæmt a-lið 1. mgr. ákvæðisins er heimilt að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar ef flóttamaður eða ríkisfangslaus einstaklingur fellur ekki lengur undir skilyrði 37. og 39. gr. ef hann hefur sjálfviljugur notfært sér á ný vernd heimalands síns. Í athugasemdum við 48. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið eigi sér stoð í C-lið 1. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Útlendingastofnun taki ákvörðun um afturköllun alþjóðlegrar verndar og skuli túlkun ákvæðisins fara fram í samræmi við leiðbeiningar í handbók flóttamannastofnunar.

Kærunefnd hefur í úrskurði sínum nr. 49/2018, skýrt að grundvöllur verndar skv. 2. mgr. 45. gr. er í veigamiklum atriðum annars eðlis en skv. 37., 39. og 44. gr. laga um útlendinga. Slík vernd er þannig ótengd þeim ástæðum sem tilgreindar eru í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Af því leiðir að grundvöllur þeirrar alþjóðlegu verndar sem veitt er skv. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga tengist aðeins óbeint þeim skilyrðum afturköllunar sem útlistuð eru á tæmandi hátt í 1. mgr. 48. gr. laganna. Hefur kærunefnd í ljósi orðalags 1. mgr. 48. gr. laga um útlendinga og samræmis milli ákvæða laganna ekki talið unnt að túlka ákvæðið með þeim hætti að afturköllun verndar skv. 2. mgr. 45. gr. geti verið byggð á ákvæðum 48. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða að ákvörðunin er ógildanleg. Umboðsmaður Alþingis hefur talið að stjórnvöldum sé einnig heimilt að afturkalla ákvarðanir sínar á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttarins, sbr. m.a. álit hans frá 13. júlí 2011 í máli nr. 6073/2010 og 22. janúar 2019 í máli nr. 9730/2018. Getur afturköllun verndar kæranda því að mati kærunefndar verið heimil ef forsendur verndarinnar, þ.e. þau fjölskyldutengsl sem þar eru tilgreind við útlending sem nýtur alþjóðlegrar verndar, eru ekki lengur fyrir hendi og uppfyllt eru önnur skilyrði almennra reglna stjórnsýsluréttar um afturköllun slíkrar verndar.

Samkvæmt 4. mgr. 48. gr. laga um útlendinga skal Útlendingastofnun tilkynna flóttamanni um það fyrir fram þegar til greina kemur að afturkalla veitingu alþjóðlegrar verndar og hvers vegna það kemur til greina. Ef veiting alþjóðlegrar verndar er afturkölluð skal stjórnvald taka til athugunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laganna eða hvort 42. gr. þeirra eigi við.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Af skýrslum um aðstæður í Kúrdistan verður ekki annað ráðið en að ungar, ógiftar konur séu að mörgu leyti háðar vernd fjölskyldu sinnar og búi í foreldrahúsum eða hjá öðrum fjölskyldumeðlimum þar til þær giftast. Afar sjaldgæft sé að ungar og ógiftar konur búi einsamlar. Þá gefa heimildir í skýrslum um aðstæður í Kúrdistan ekki til kynna að það sé viðurkennd háttsemi að ung og ógift kona búi hjá kærasta sínum, raunar verður ekki annað ráðið af skýrslunum en að slíkt fyrirkomulag yrði litið hornauga af fjölskyldumeðlimum og samfélaginu. Kærandi er ógift en hefur samkvæmt gögnum málsins verið í fjarsambandi við mann í heimaríki hennar og kveðst hafa verið búsett hjá honum þegar hún hafi farið til heimaríkis árin 2019 og 2020. Ekki liggur fyrir hvort það sé ætlun þeirra að giftast eða hvernig fyrirkomulag þeirra sambands sé eða muni verða í ljósi þess að þau búa í sitthvoru landinu. Í viðtali við kæranda sem tekið var hinn 7. apríl 2021 var hún ekki spurð út í samband hennar við kærasta hennar eða aðrar aðstæður hennar í heimaríki, m.a. hvort hún ætti fjölskyldu eða ættingja þar, hefði aðgang að húsnæði, atvinnu eða menntun. Þá var í ákvörðun Útlendingastofnunar engin umfjöllun um það hvernig atvinnu- og félagslegir þættir séu í heimaríki kæranda fyrir konur á hennar aldri sem snúi til baka frá vestrænni menningu eða stöðu ungra og einhleypra kvenna þar í landi. Þá er það mat kærunefndar að ekki hafi farið fram hjá Útlendingastofnun rökstutt mat á þeirri hættu í heimaríki kæranda sem hafi verið grundvöllur alþjóðlegrar verndar fyrir föður hennar árið 2018, hvort kærandi væri í hættu af sömu ástæðu og ef svo væri hvort stjórnvöld í Írak gætu veitt kæranda fullnægjandi vernd gegn þeirri hættu.

Að mati kærunefndar hefur allt framangreint áhrif á það hvernig hægt er að meta það hvernig staða hennar við komu til heimaríkis kunni að verða og hvort að afturköllun verndar hennar verði henni til tjóns.

Kærunefnd telur að framangreint leiði til þess að málið teljist ekki hafa verið nægilega upplýst til þess að Útlendingastofnun gæti tekið efnislega rétta ákvörðun. Kærunefnd telur að með þessu hafi málsmeðferð Útlendingastofnunar ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á máli hennar. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hennar. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta