Hoppa yfir valmynd

Nr. 137/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 25. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 137/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19010032 og KNU19010033

 

Kærur […] og […]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með kæru, dags. 25. janúar 2019, kærðu […] (hér eftir K), fd. […] og […] (hér eftir M), fd. […], ríkisborgarar Kósóvó, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 21. janúar 2019, um að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 69. laga um útlendinga nr. 80/2016, og sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. sömu laga.

Af kærum kærenda má ráða að þau krefjist þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi.

Fyrrgreindar ákvarðanir voru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

Í ljósi þess að málsatvik, málsástæður og kröfur kærenda í málum KNU19010032 og KNU19010033 eru sambærilegar, kærendur eru í hjúskap og eru með sama umboðsmann, auk þess sem ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra eru samhljóða, verður kveðinn upp einn úrskurður í báðum málum.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu fyrst um dvalarleyfi hér á landi vegna fjölskyldusameiningar þann 2. júní 2016 og var þeim umsóknum synjað af Útlendingastofnun. Þann 1. nóvember 2017 sóttu kærendur aftur um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 13. febrúar 2018, var umsóknum þeirra synjað á þeim grundvelli að þau uppfylltu ekki 67 ára aldursskilyrði 69. gr. laga um útlendinga fyrir fjölskyldusameiningu foreldra. Þann 3. apríl 2018 var mál kærenda endurupptekið þar sem stofnuninni hafði í fyrri ákvörðun sinni láðst að taka afstöðu til dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 21. janúar 2019, var kærendum synjað um dvalarleyfi hér á landi. Umboðsmanni kærenda var tilkynnt um ákvarðanirnar þann 24. janúar 2019 og kærðu kærendur ákvarðanirnar til kærunefndar útlendingamála þann 25. janúar 2019.

III.          Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að kærendur væru búsett í Kósóvó en að sonur þeirra, sem væri íslenskur ríkisborgari, væri búsettur hér á landi ásamt eiginkonu og tveimur börnum þeirra. Samkvæmt 69. gr. laga um útlendinga gæti nánasti aðstandandi íslensks ríkisborgara sem væri með fasta búsetu hér á landi fengið dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til nánustu aðstandenda teldust m.a. foreldrar 67 ára og eldri. Fram kom að M væri […] ára gamall og K […] árs og að þau uppfylltu því ekki aldursskilyrði 69. gr. laga um útlendinga. Var umsóknum þeirra um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar því synjað.

Í ákvörðununum tók Útlendingastofnun einnig til skoðunar hvort veita skyldi kærendum dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Í niðurstöðu sinni vísaði Útlendingastofnun til þess að kærendur hefðu búið alla sína tíð í Kósóvó og hefðu mun sterkari tengsl við heimaríki en Ísland. Kærendur ættu dóttur sem væri búsett í Svartfjallalandi og son sem væri búsettur í Evrópu. Var það mat Útlendingastofnunar að fjölskyldu- og félagsleg tengsl kærenda við heimaríki sitt væru ekki slík að bersýnilega væri ósanngjarnt að veita þeim ekki dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Í hinum kærðu ákvörðunum var einnig rakið að samkvæmt framlögðum gögnum hefði sonur kærenda hér á landi framfleytt þeim fjárhagslega á tímabilinu desember 2016 til maí 2018. Fram kom að M væri óvinnufær og að örorkubætur dygðu ekki til að framfleyta honum og K. Vísaði Útlendingastofnun m.a. til þess að í gögnum málsins væru ekki að finna upplýsingar um heilsufar kærenda sem bentu til þess að þau þörfnuðust annarrar umönnunar en fjárhagslegrar. Þá væru M og K búsett saman í heimaríki. Með vísan til framangreinds var það mat Útlendingastofnunar að ekki væru til staðar umönnunarsjónarmið sem leiddu til þess að kærendum skyldi veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga og var þeim synjað um dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laganna.

Þá rakti stofnunin að í greinargerð kærenda til stofnunarinnar væri einnig byggt á því að veita skyldi kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Tók stofnunin fram að slíka heimild hefði áður verið að finna í f-lið 12. gr. eldri laga um útlendinga nr. 96/2002. Heimild til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða væri nú að finna í 74. gr. laga um útlendinga en samkvæmt ákvæðinu væri dvalarleyfi á grundvelli þess ekki veitt nema að undangenginni umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Kæmi því ekki til skoðunar hvort kærendur ættu rétt á dvalarleyfi skv. 74. gr. laganna.

IV.       Málsástæður og rök kærenda

Kærendur lögðu ekki fram greinargerð við meðferð málsins hjá kærunefnd. Í greinargerð kærenda til Útlendingastofnunar, dags. 26. september 2017, kemur m.a. fram að sonur þeirra hafi flust til Íslands árið 2008 og búið hér síðan. Hafi hann fengið íslenskan ríkisborgararétt árið 2012. Hafi kærendur orðið eftir í heimaríki þegar sonur þeirra fluttist hingað til lands. Þá sé M óvinnufær vegna áverka sem hann hafi orðið fyrir í stríðinu milli Serba og Kósóvó í kringum aldamót. Hann sé með alvarlega skaddað mjaðmabein og hafi þurft að gangast undir aðgerðir vegna þessa en ekki náð fullum bata. Hafi sonur þeirra sent peninga til foreldra sinna í heimaríki en M fái aðeins 75 evrur í örorkubætur sem dugi ekki til að framfleyta þeim. Þá búi þau við erfið lífsskilyrði í heimaríki. Hafi þau þörf fyrir að fá aðstoð innan fjölskyldunnar þar sem börn þeirra búi utan heimaríkis og geti ekki aðstoðað þau. Þá sé gott fyrir fjölskyldutengsl þeirra á Íslandi að þau búi hér og geti m.a. haft regluleg samskipti við barnabörn sín. Telja kærendur að líta verði til mannúðarsjónarmiða í tilfelli þeirra, vegna fötlunar M, óvinnufærni hans og aðstæðna þeirra í heild í heimaríki.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í 1. mgr. 69. gr. laganna segir m.a. að nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandenda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Þá kemur fram í 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga að heimilt sé að veita útlendingi sem er 67 ára eða eldri dvalarleyfi eigi hann uppkomið barn hér á landi. Í þeim tilvikum er jafnframt heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur, sbr. 55. gr. laganna, ef barn hans sýnir fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi.

Af framangreindu er ljóst að foreldri verður aðeins veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga hafi það náð 67 ára aldri en um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði. Í máli þessu liggur fyrir að kærendur hafa ekki náð þeim aldri. Verður af þeirri ástæðu að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kærendum um dvalarleyfi fyrir foreldra, sbr. 72. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Fyrir liggur að kærendur hafa aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og hafa því ekki myndað tengsl við landið með lögmætri dvöl. Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr., m.a. hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. ákvæðisins. Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 hefur ráðherra sett fram skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi. Er þar kveðið á um að útgáfa slíks dvalarleyfis sé heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem búi á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari eða hafi ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu- og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá kemur fram að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Samkvæmt gögnum málsins eru kærendur […] árs og […] ára. Gögn málsins benda ekki til annars en að þau hafi búið í heimaríki alla sína tíð. Tengsl kærenda við landið eru þau að sonur þeirra er íslenskur ríkisborgari og hefur hann verið búsettur hér á landi síðan 2008. Þá á sonur þeirra tvö börn hér á landi. Samkvæmt greinargerð eiga kærendur einnig dóttur sem er búsett í Svartfjallalandi og son sem er búsettur í Evrópu. Gögn málsins benda jafnframt til þess að kærendur hafi að einhverju leyti verið á framfæri sonar síns sem er búsettur hér á landi en skv. framlögðum gögnum millifærði hann 1.625.339 krónur inn á reikning K á tímabilinu 1. desember 2016 til 11. maí 2018. Þá kemur fram í greinargerð að M sé óvinnufær vegna áverka og fái örorkubætur sem þó dugi ekki til að framfleyta þeim hjónum.

Að mati kærunefndar eru aðstæður kærenda ekki slíkar að þær falli innan undanþáguheimildar 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Við það mat leggur kærunefnd til grundvallar að kærendur hafi búið í heimaríki alla sína tíð og geta notið fjárhagslegrar aðstoðar frá þarlendum yfirvöldum. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að M þarfnist ekki annarrar umönnunar en fjárhagslegrar. Eru aðstæður kærenda því ekki slíkar að bersýnilega ósanngjarnt sé að veita þeim ekki dvalarleyfi hér á landi, sbr. 4. mgr. 74. gr. laganna. Verða ákvarðanir Útlendingastofnunar því staðfestar.

Líkt og greinir í ákvörðunum Útlendingastofnunar verður dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ekki veitt nema að undangenginni umsókn um alþjóðlega vernd, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Kemur veiting dvalarleyfis á grundvelli þess ákvæðis því ekki til frekari skoðunar hjá kærunefnd.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

 

 

 

 

                          Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                    Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta