Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 15/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                      

Miðvikudaginn 10. júní 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 15/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 27. febrúar 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 11. desember 2014, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi óskaði eftir þjónustu ráðgjafa hjá Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar þann 17. nóvember 2014. Kærandi greindi ráðgjafa frá aðstæðum sínum í símtali þann 21. nóvember 2014 og var tjáð að hún ætti ekki rétt á fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ þar sem hún væri yfir tekjuviðmiði. Með bréfi, dags. 2. desember 2014, óskaði kærandi eftir skriflegu svari við erindi sínu ásamt rökstuðningi. Með bréfi Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, dags. 11. desember 2014, var umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð synjað þar sem tekjur hennar væru yfir viðmiðunarmörkum. Kærandi áfrýjaði afgreiðslu Fjölskylduþjónustunnar til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 16. janúar 2015 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir niðurstöðu afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um fjárhagsaðstoð með vísan til 10. og 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ, þar sem tekjur eru yfir viðmiðunarmörkum reglnanna. Fyrir liggur að umsækjandi á rétt á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði að upphæð 205.971.- kr. á mánuði, en viðmiðunarmörk fjárhagsaðstoðar eru 158.552.- kr. á mánuði.

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 19. janúar 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 6. mars 2015. Með bréfi til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 11. mars 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð sveitarfélagsins þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt öðrum gögnum málsins. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 27. apríl 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 4. maí 2015, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 14. maí 2015.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hún hafi eignast barn í maí 2014 og hafi þá verið í sambúð með barnsföður sínum. Haustið 2014 hafi slitnað upp úr sambandi þeirra og hún hafi flutt út og leigi nú íbúð í Hafnarfirði. Kærandi og barnsfaðir hennar hafi ákveðið að hún yrði heima með barn þeirra í eitt ár og því hafi hún dreift fæðingarorlofsgreiðslunum. Kærandi tekur fram að hún hafi ekki fengið neina pössun fyrir barn sitt og geti því ekki farið að vinna strax en hún eigi ekki að snúa aftur til vinnu fyrr en í byrjun sumars 2015. Tekjur hennar frá Fæðingarorlofssjóði séu 102.986 krónur á mánuði en auk þess fái hún meðlag frá barnsföður sínum og barnabætur frá áramótum. Kærandi greiði 120.000 krónur í húsaleigu á mánuði en fái 36.000 krónur í húsaleigubætur. Kærandi bendir á að þetta sé raunveruleg staða hennar en það reynist henni ómögulegt að framfæra sig og barn sitt á þessari fjárhæð.

Kærandi vísar til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem fram komi að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segi einnig í 2. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára nema gildar ástæður hamli því. Kærandi telur ástæður sínar gildar. Sambandsslit hennar hafi ekki verið fyrirsjáanlegt, hún hafi ekki fengið gæslu fyrir barn sitt og vinna hennar geri ekki ráð fyrir að hún snúi aftur fyrr en í byrjun sumars. Hún sé ánægð í vinnunni og það sé mikilvægt fyrir hana að halda starfinu. Samkvæmt reglunum skuli veita fólki í tímabundnum erfiðleikum fjárhagsaðstoð en hún sé hugsuð sem stuðningur við einstakling eða fjölskyldur til að mæta grunnþörfum þeirra. Kærandi sé í verulegum fjárhagserfiðleikum og geti ekki mætt grunnþörfum sínum og barns síns en þeir erfiðleikar séu tímabundnir og hún muni ekki þurfa aðstoð sveitarfélagsins þegar hún verði farin að vinna aftur. Eins og staðan sé núna fari erfiðleikar hennar hins vegar vaxandi með hverjum mánuði sem líði.

Kærandi tekur fram að hún hafi óskað eftir ráðgjöf og leiðbeiningum um það hvernig hún ætti að snúa sér í þeirri erfiðu stöðu sem hún væri í. Hún hafi spurt hvort hún ætti rétt á fjárhagsaðstoð ef hún myndi fá greiðslufyrirkomulagi fæðingarorlofsins breytt, þ.e. fá orlofið greitt út og gera upp skuldir sínar. Hún hafi fengið þær upplýsingar að þá myndi hún ekki eiga neinn rétt þar sem hún þyrfti að fara að vinna eða skrá sig á atvinnulausa og henni bent á að hafa samband við atvinnufulltrúa Hafnarfjarðarbæjar. Kærandi hafi haft samband við atvinnuráðgjafa og fengið þær upplýsingar að hún gæti ekki sótt um og fengið atvinnuleysisbætur án þess að hætta eða láta segja sér upp í þeirri vinnu sem hún væri í.

Kærandi telur að umsókn hennar hafi ekki verið afgreidd á málefnalegan og faglegan hátt. Hún hafi fengið svar við umsókninni símleiðis og þurft að óska eftir skriflega svari ásamt rökstuðningi. Hún hafi aldrei verið kölluð til viðtals né hafi henni verið veitt ráðgjöf eða leiðbeiningar nema þær sem hún hafi sjálf kallað eftir. Hún telur að það hafi ekki farið fram heildstætt mat á aðstæðum hennar og barns hennar og því hvort hún geti séð fyrir sér og barni sínu eða ekki. Við heildstætt mat á aðstæðum hennar hljóti að þurfa að líta til raunverulegra aðstæðna hennar og þess hvort henni standi önnur úrræði til boða þannig að hún geti mögulega séð sér og barni sínu farborða. Hún hafi þurft að þiggja lán frá vandamönnum vegna synjunar um fjárhagsaðstoð en það muni reynast henni verulega erfitt að greiða það til baka þar sem hún sé ekki tekjuhá. Þessir erfiðleikar hennar eigi því eftir að hafa veruleg áhrif á þá stöðu sem hún verði í þegar hún fari aftur að vinna. Kærandi telur að synjun á umsókn hennar gangi gegn 12. gr. laga nr. 40/1991 og 1. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð þar sem fram komi meðal annars að tilgangur aðstoðar sé að styðja einstaklinga til sjálfsbjargar, gera þeim kleift að framfleyta sér og fjölskyldu sinni án aðstoðar og stuðla að valdeflingu þeirra.

 

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar er greint frá aðstæðum kæranda. Hún hafi óskað eftir þjónustu ráðgjafa hjá Fjölskylduþjónustunni í nóvember 2014 og fengið þær upplýsingar að miðað væri við greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði eins og sjóðurinn geri ráð fyrir þótt einstaklingar kjósi að dreifa greiðslum á lengri tíma. Kæranda hafi verið bent á að snúa sér til Fæðingarorlofssjóðs til athugunar á því hvort unnt væri að breyta þeim greiðslum sem eftir stæðu.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ sé framfærslugrunnur miðaður við útgjöld vegna daglegs heimilishalds og breytist í janúar ár hvert miðað við vísitölu neysluverðs. Grunnfjárhæð hafi verið 154.384 krónur á árinu 2014 en 158.552 krónur frá janúar 2015. Samkvæmt greiðsluyfirliti frá Fæðingarorlofssjóði skyldu greiðslur til kæranda nema 205.971 krónu á mánuði en það hafi verið hennar ákvörðun að dreifa greiðslunum á lengra tímabil og lækka þær þar með. Fjölskylduráð Hafnarfjarðar líti svo á að það geti ekki verið hlutverk sveitarfélaga að bæta foreldrum þá fjárhæð sem mánaðarlegrar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði lækki við að dreifa greiðslunum á fleiri mánuði en sex ef foreldrar kjósi að vera lengur í fæðingarorlofi. Það hafi verið álit afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar í Hafnarfirði og síðan fjölskylduráðs Hafnarfjarðar að miða yrði við þær mánaðarlegu greiðslur sem kærandi hefði fengið ef hún hefði ekki kosið að fara þessa leið. Miðað við grunnfjárhæðina 154.384 krónur hafi tekjur hennar því verið yfir viðmiðunarmörkum reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð og því hafi beiðni hennar verið synjað.


IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ frá 3. apríl 2014. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 28. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skuli umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Þá segir í 31. gr. reglnanna að þar sem starfsmenn fjölskylduráðs hafi umboð til að taka ákvörðun um fjárhagsaðstoð skuli þeir kynna umsækjanda niðurstöðu tryggilega og kynna honum um leið rétt hans til að fara fram á að fjölskylduráð fjalli um umsóknina. Ákvörðun fjölskylduráðs skuli kynnt umsækjanda tryggilega og um leið skuli honum kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Samkvæmt gögnum málsins verður ekki séð að gætt hafi verið að framangreindu fyrr en kærandi leitaði sérstaklega eftir því. Úrskurðarnefndin leggur áherslu á að vitneskja málsaðila um efni stjórnvaldsákvörðunar er forsenda þess að hann hafi möguleika á því að taka afstöðu til hennar og haga ráðstöfunum sínum í samræmi við hana. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Hafnarfjarðarbæjar að gætt sé að framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga og reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir hjá sveitarfélaginu. Beinir úrskurðarnefndin því til Hafnarfjarðarbæjar að framkvæmd og ákvarðanataka í sambærilegum málum verði framvegis í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð var synjað á þeirri forsendu að tekjur kæranda væru yfir viðmiðunarmörkum 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og kaus að dreifa þeim greiðslum á tólf mánuði frá maí 2014 til maí 2015 í stað sex mánaða en við það lækkuðu mánaðarlegar greiðslur úr sjóðnum. Samkvæmt 11. gr. reglnanna miðast framfærslugrunnur við útgjöld vegna daglegs heimilishalds og breytist í janúar ár hvert miðað við vísitölu neysluverðs. Grunnfjárhæðin var 154.384 krónur á þeim tíma sem umsókn kæranda barst en er nú 158.552 krónur á mánuði. Í 4. mgr. 1. gr. sömu reglna kemur fram að jafnan skuli kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna. Kærandi kaus sjálf að dreifa greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á lengri tíma þannig að mánaðargreiðslur lækkuðu, en hún hefði ella getað fengið 205.971 krónu á mánuði. Telur úrskurðarnefndin að miða verði við þá fjárhæð sem kærandi hefði getað fengið, þrátt fyrir aðstæður kæranda, og er sú fjárhæð hærri en grunnfjárhæðin eins og rakið hefur verið.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Hafnarfjarðarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Synjun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn A um fjárhagsaðstoð er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður 

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta