Mál nr. 19/2015
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Miðvikudaginn 10. júní 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 19/2015:
Kæra A
á ákvörðun
Reykjavíkurborgar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A hefur með kæru, dags. 16. mars 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 4. mars 2015, á umsókn hans um námsstyrk fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 31. maí 2015.
I. Málavextir og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 28. janúar 2015, sótti kærandi um námsstyrk hjá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 31. maí 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 19. febrúar 2015, á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 15. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 4. mars 2015 og samþykkti svohljóðandi bókun:
„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð til náms tímabilið 1.janúar 2015 til 31. maí 2015 skv. 8. sbr. 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.“
Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 4. mars 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 16. mars 2015. Með bréfi, dags. 18. mars 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 8. apríl 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 10. apríl 2015, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Málsástæður kæranda
Kærandi greinir frá því að hann hafi aldrei áður sótt um opinbera fjárhagsaðstoð en nú hafi hann ekki nein önnur úrræði. Hann sé í fullu námi í B en fái ekki lengur námslán þar sem hann sé á vanskilaskrá. Kærandi tekur fram að hann eigi ekki pening til að framfleyta sér, borga fyrir mat eða leigu og að öllu óbreyttu eigi hann á hættu að verða húsnæðislaus og þurfa að hverfa frá námi sem sé það alvarlegasta. Kærandi bendir á að hann hafi komist að því í janúar 2015 að hann ætti ekki rétt á námslánum og hafi þá ákveðið að óska eftir fjárhagsaðstoð. Það hafi tekið langan tíma að fá viðtal og nú sé staðan orðin mjög slæm.
Kærandi tekur fram að hann óski eftir undanþágu frá reglum Reykjavíkurborgar til þess að geta lokið því námi sem hann stundi í stað þess að neyðast til að hætta náminu. Þá sé beiðni hans einnig sett fram með vísan til 24. gr. reglnanna, þ.e. aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Hann sé að reyna að koma málum sínum á réttan kjöl en á sama tíma að reyna að halda áfram í náminu. Hann hafi fengið þær upplýsingar að það væri auðveldara fyrir hann að fá fjárhagsaðstoð ef hann myndi hætta í náminu. Það telur kærandi vera slæman kost, bæði fyrir hans framtíðarhorfur og samfélagið.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda og fjölskyldu hans. Kærandi hafi lokið námi í C á árunum 2008 til 2009 en hafi verið atvinnulaus í eitt og hálft ár að loknu námi. Kærandi hafi síðan farið að vinna við D í tvö ár. Í ágúst 2013 hafi kærandi hafið nám í E og lokið þremur önnum þar. Hann hafi fengið námslán fyrstu tvær annirnar en hafi verið synjað um námslán í janúar 2015 þar sem hann væri komin á vanskilaskrá. Kærandi kveðst eiga þrjár annir eftir af náminu og ekki eiga kost á ábyrgðarmanni vegna námslánanna en hann sé nú í gjaldþrotaferli.
Í 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga segi að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Í 20. gr. laganna segi síðan að um skyldur sveitarfélags til að veita fjárhagsaðstoð gildi almenn ákvæði um félagsþjónustu skv. IV. kafla laganna. Í 12. gr. laganna sé að finna ákvæði sem kveði á um að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.
Á grundvelli framangreindra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga hafi Reykjavíkurborg sett sér reglur um fjárhagsaðstoð. Í 1. gr. reglnanna segi að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. og III. kafla reglnanna. Í 2. gr. reglnanna sé áréttað að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Í 15. gr. sé skýrt kveðið á um að einstaklingar sem stundi nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna njóti ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Aðrir námsmenn eigi ekki rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu nema fullnægt sé skilyrðum 18. gr. um námsstyrki/lán vegna náms.
Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sé ekki að finna ákvæði sem skyldi sveitarfélög til að framfæra einstaklinga sem leggi stund á lánshæft nám. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 40/1991 skuli sveitarfélag tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og sínum en aðstoð skuli vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Almennt sé gert ráð fyrir að einstaklingar sem leiti eftir fjárhagsaðstoð séu í atvinnuleit en leggi ekki stund á nám. Í þessu samhengi verði einnig að líta til þess sem fram komi í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 40/1991 en þar segi um 1. gr. að opinber félagsþjónusta megi ekki verða til þess að deyfa tilfinninguna fyrir ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér og öðrum. Gera verði þá kröfu að einstaklingar hugi að framfærslu sinni og þeirra sem þeim ber lögum samkvæmt skylda til að framfæra. Fjárhagsaðstoð sé öryggisnet til þrautarvara, þ.e. tímabundið úrræði og neyðarráðstöfun til þess að forða þeim einstaklingum og fjölskyldum frá örbirgð sem ekki eigi neinna annarra kosta völ til þess að eiga í sig og á.
Litið hafi verið til þess að kærandi hafi lokið námi í C og sé vinnufær en það hafi verið mat nefndarinnar að kærandi ætti að hafa tök á því að vinna með námi til að framfleyta sér. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 40/1991 hvíli sú skylda á kæranda að framfæra sjálfa sig og honum beri að leita leiða til að framfæra sig áður en leitað sé eftir aðstoð frá sveitarfélagi. Í 15. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð sé skýrt kveðið á um að þeir einstaklingar sem stundi nám sem sé lánshæft hjá LÍN njóti ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Fyrir liggi að nám kæranda sé lánshæft hjá LÍN og því verði að líta svo á að það girði fyrir rétt kæranda til fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg.
Með hliðsjón af öllu framansögðu, og með hliðsjón af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sem skyldi stjórnvöld til að gæta jafnræðis og samræðis við úrlausn mála, hafi velferðarráð ekki talið unnt að veita kæranda fjárhagsaðstoð til náms fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 31. maí 2015. Velferðarráði beri að fara að þeim reglum sem í gildi séu varðandi fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg auk þess sem gæta beri þess að jafnræðis sé gætt í afgreiðslu á erindum íbúa borgarinnar.
Í kæru til úrskurðarnefndar hafi kærandi óskað eftir undanþágu frá 15. eða 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg en kærandi hafi ekki sótt um aðstoð á grundvelli 24. gr. reglnanna. Krafa kæranda um styrk á grundvelli 24. gr. reglnanna sé því ekki tæk til afgreiðslu úrskurðarnefndarinnar þar sem ekki sé um að ræða ákvörðun félagsmálanefndar skv. 63. gr. laga nr. 40/1991.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um námsstyrk fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 31. maí 2015.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Umsókn kæranda um námsstyrk var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið uppfyllt. Þar kemur fram að einstaklingar sem stundi nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna njóti ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Aðrir námsmenn eigi ekki rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu nema fullnægt sé skilyrðum 18. gr. um námsstyrk/lán vegna náms.
Vegna tilvísunar Reykjavíkurborgar til 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að margsinnis hefur verið úrskurðað að ákvæði 15. gr. reglnanna leiði til þess að ekki fari fram eiginlegt mat á aðstæðum umsækjenda. Þrátt fyrir að kærandi stundi lánshæft nám liggur fyrir að hann fær ekki notið þeirra réttinda sem í því felst. Þar sem löggjafinn hefur eftirlátið stjórnvöldum mat til þess að geta tekið ákvörðun sem best hentar hag hvers aðila, með tilliti til allra aðstæðna, er stjórnvöldum óheimilt að afnema matið með því að setja til dæmis verklagsreglu sem tekur til allra mála, sambærilegra sem ósambærilegra. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að framangreint verði framvegis haft í huga við afgreiðslu sambærilegra mála.
Kemur þá til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði 18. gr. reglnanna um námsstyrk. Í 1. mgr. 18. gr. framangreindra reglna kemur fram að heimilt sé að veita námsstyrki, ásamt almennum skólagjöldum, innritunarkostnaði og bókakostnaði, í eftirfarandi tilvikum:
-
til einstaklinga 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða.
-
til einstæðra foreldra á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa haft atvinnutekjur sem eru lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna þessara, undanfarna tólf mánuði. Skilyrði er að umsækjandi hafi átt í félagslegum erfiðleikum.
-
til einstaklinga á aldrinum 18–24 ára sem ekki hafa lokið framhaldsskóla og eiga eftir ólokið að hámarki tvær annir. Um sé að ræða einstakling sem ekki hefur tök á að vinna með skóla og fyrir liggur mat á því að ef ekki komi til aðstoðar sé ljóst að viðkomandi flosni upp úr námi.
-
til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni.
-
heimilt er að veita tekjulágum foreldrum fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna. Hér er átt við tekjulága foreldra sem átt hafa í langvarandi félagslegum erfiðleikum.
Þá kemur fram í 2. mgr. 18. gr. reglnanna að leggja þurfi inn umsókn tveimur mánuðum áður en nám hefst nema hvað varðar c-liðinn og í 3. mgr. 18. gr. segir að starfsmaður og námsmaður skuli gera með sér samkomulag um félagslega ráðgjöf þar sem fram komi meðal annars hvernig skuli staðið að skilum varðandi skólasókn, námsframvindu og/eða einkunnir. Einkunnum skuli þó ætíð skilað í annarlok.
Í a–c-liðum 18. gr. reglnanna er meðal annars gert að skilyrði að umsækjandi sé á aldrinum 18–24 ára. Kærandi var 26 ára þegar hann sótti um framangreindan styrk og því koma ákvæði a–c-liða 18. gr. reglnanna ekki til skoðunar. Þá á e-liður 18. gr. ekki við um kæranda. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi hvorki verið atvinnulaus án bótaréttar né notið fjárhagsaðstoðar sér til framfærslu í sex mánuði eða lengur þegar umsókn hans barst Reykjavíkurborg líkt og gert er að skilyrði í d-lið 18. gr. Úrskurðarnefndin telur því að d-liður 18. gr. reglnanna hafi ekki átt við í máli kæranda. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrðum 18. gr. reglnanna hafi ekki verið fullnægt í málinu og kærandi því ekki átt rétt á námsstyrk á tímabilinu 1. janúar 2015 til 31. maí 2015. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.
Hvað varðar tilvísun kærða til 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð um aðstoð vegna sérstakra erfiðleika tekur úrskurðarnefndin undir sjónarmið Reykjavíkurborgar að beiðnin sé ekki tæk til meðferðar hjá nefndinni. Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og skal kæra til nefndarinnar lögð fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls barst vitneskja um ákvörðun. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að Reykjavíkurborg hafi tekið ákvörðun um rétt kæranda til aðstoðar á grundvelli 24. gr. reglnanna. Þeim þætti kærunnar er því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 4. mars 2015, um synjun á umsókn A um námsstyrk fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 31. maí 2015 er staðfest.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Arnar Kristinsson
Gunnar Eydal