Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 24/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                           

Miðvikudaginn 1. júlí 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 24/2015:

                                                                                              

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

B hefur f.h. A með kæru, dags. 11. apríl 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags 8. apríl 2015, á umsókn hennar um gjaldlækkun á akstursþjónustu.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hefur fengið samþykki fyrir 16 ferðum í 12 mánuði með akstursþjónustu eldri borgara hjá Reykjavíkurborg. Með umsókn, dags. 3. mars 2015, sótti kærandi um gjaldlækkun á akstursþjónustu eldri borgara. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 5. mars 2015. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 8. apríl 2015 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar á umsókn um gjaldlækkun akstursþjónustu eldri borgara í Reykjavík skv. 3. gr. reglna um akstursþjónustu eldri borgara í Reykjavík.

Niðurstaða velferðarráðs Reykjavíkurborgar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 8. apríl 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 14. apríl 2015. Með bréfi, dags. 15. apríl 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 21. apríl 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 22. apríl 2015, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru er greint frá heilsufari kæranda og fjárútlátum hennar vegna veikinda. Lífsgæði kæranda séu ekki mikil og því sé mikilvægt fyrir hana að njóta þeirrar félagslegu örvunar sem hún eigi kost á. Kæranda þyki hver króna sem borga þarf erfið útlát og því myndi það auka lífsgæði hennar og örva hana til félagslegrar þátttöku ef umsókn hennar um gjaldlækkun akstursþjónustu yrði samþykkt.

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til X. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, þar sem sé að finna ákvæði er lúti að þjónustu við aldraða sem sveitarfélögum beri að veita. Framangreind löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga tilgreini þá lágmarksþjónustu sem sveitarfélögum beri að veita en sveitarfélögum sé svo í sjálfsvald sett hvort þau veiti meiri þjónustu en lögin kveði á um. Akstursþjónusta aldraðra sé ekki lögboðin þjónusta ólíkt því sem gildi um ýmsa aðra þjónustu, svo sem fjárhagsaðstoð og félagslega heimaþjónustu, sbr. lög nr. 40/1991. Akstursþjónusta aldraðra sé þjónusta sem Reykjavíkurborg hafi ákveðið að veita og í því skyni hafi Reykjavíkurborg sett reglur um akstursþjónustu eldri borgara í Reykjavík. Í 1. mgr. 3. gr. reglnanna komi fram að gjald fyrir akstursþjónustu eldri borgara skuli miðast við gjaldskrá Velferðarsviðs um akstursþjónustu eldri borgara og ferðaþjónustu fatlaðs fólk.

Í 1. gr. gjaldskrár Velferðarsviðs fyrir akstursþjónustu eldri borgara komi fram að gjald fyrir hverja ferð hjá akstursþjónustu eldri borgara sé 1.095 krónur óháð fjölda ferða. Í 2. gr. gjaldskrárinnar sé fjallað um að hægt sé að sækja um lækkun greiðslu ef tekjur umsækjanda og maka hans eru undir eða við tekjuviðmið Tryggingastofnunar ríkisins.

Litið hafi verið til þess að tekjur kæranda hafi verið 283.074 krónur og því 64.559 krónum yfir viðmiðunartekjum Tryggingastofnunar ríkisins skv. 2. gr. gjaldskrárinnar. Reykjavíkurborg hafi því ekki talið unnt að veita kæranda gjaldlækkun á akstursþjónustu eldri borgara skv. 3. gr. reglna um akstursþjónustu eldri borgara í Reykjavík.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu eldri borgara frá 1. janúar 2006, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um gjaldlækkun á akstursþjónustu eldri borgara, dags. 3. mars 2015.

Í X. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði er lúta að þjónustu við aldraða sem sveitarfélögum ber að veita. Framangreind löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga tilgreinir þá lágmarksþjónustu sem sveitarfélögum ber að veita en sveitarfélögum er svo í sjálfsvald sett hvort þau veiti meiri þjónustu en lögin kveða á um. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Akstursþjónusta aldraðra er þjónusta sem Reykjavíkurborg hefur ákveðið að veita og í því skyni hefur Reykjavíkurborg sett reglur um akstursþjónustu eldri borgara í Reykjavík. Í 1. mgr. 3. gr. reglnanna kemur fram að gjald fyrir akstursþjónustu eldri borgara skuli miðast við gjaldskrá Velferðarsviðs um akstursþjónustu eldri borgara og ferðarþjónustu fatlaðs fólks.

Í 1. gr. gjaldskrá Velferðarsviðs fyrir akstursþjónustu eldri borgara frá 1. janúar 2015 kemur fram að gjald fyrir hverja ferð hjá akstursþjónustu eldri borgara sé 1.095 krónur óháð fjölda ferða. Í 2. gr. gjaldskrárinnar er kveðið á um lækkun greiðslu; þar segir:

Ef tekjur umsækjanda og maka hans eru undir eða við tekjuviðmið TR er unnt að sækja um lækkun greiðslu, og greiða þá sem samsvarar almennu fargjaldi skv. gjaldskrá Strætó bs. hverju sinni fyrir fyrstu 16 ferðirnar á mánuði en kr. 1.095 fyrir hverja ferð umfram 16 ferðir.

Heimilt er að veita þeim sem hafa allt að 5% umfram viðmiðunartekjur lækkun greiðslu og er hægt að leggja inn sérstakt erindi á þjónustumiðstöð með beiðni um lækkun til samræmis við þá sem hafa tekjur undir viðmiðunartekjum TR.

Árið 2014 eru viðmiðunartekjur TR kr. 218.515 fyrir þá sem búa einir og eru með heimilisuppbót og kr. 188.313 fyrir þá sem búa með öðrum. Upphæðir munu hækka í samræmi við hækkanir á bótum almannatrygginga.

Aðrar bætur sem greiddar eru til lífeyrisþega frá TR umfram viðmiðunartekjur skal reikna sem umframtekjur. Greiðslur vegna sjúkra- og lyfjakostnaðar teljast ekki til tekna í þessu sambandi.

Samkvæmt gögnum málsins voru tekjur kæranda 283.074 krónur á mánuði eða 64.559 krónum yfir viðmiðunartekjum skv. 2. gr. gjaldskrárinnar. Að því virtu verður að telja að Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að synja umsókn kæranda um gjaldlækkun á akstursþjónustu.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við úrlausn mála. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Reykjavíkurborgar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

  

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 8. apríl 2015, um synjun á umsókn A um gjaldlækkun á akstursþjónustu er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta