Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 29/2001

Mánudaginn, 22. október 2001

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður


Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 5. júlí 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 26. júní 2001.

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslu til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 30. maí 2001.

Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:
"Með bréfi þessu vil ég koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslum til mín úr fæðingarorlofssjóði....

Forsaga málsins er sú að 16. desember flutti ég til Íslands frá Danmörku, þar sem ég starfaði sem táknmálstúlkur. Laun mín þar voru um x þús. á mánuði. Mér reynist þrautin þyngri á [að] fá atvinnu, enda barnshafandi og komin á 5. mánuð. Mér bauðst starf á leikskóla í byrjun janúar sl. og tók því fegins hendi. Ég hóf störf 10. janúar 2000 og gefa tekjur mínar í janúar og febrúar, sem lagðar eru til grundvallar útreiknings fæðingarorlofsgreiðslna, skakka mynd af meðaltekjum mínum á starfstímabili mínu... 10. jan.-18. maí...

Ég tel sanngjarnt að tekið sé tillit til starfshlutfalls hvers mánaðar fyrir sig þegar mánaðarlaun eru lögð til grundvallar útreiknings fæðingarorlofsgreiðslna. Þar sem ég vann fulla vinnu fram að fæðingu á tímabilinu 10. janúar-18. maí þykir mér eðlilegt að reikna mér þær tekjur sem ég hafði, en ekki túlka uppgefin laun í janúar sem full mánaðarlaun. Full mánaðarlaun mín koma fram á launaseðlum annarra mánaða á starfstímabilinu.

Ég vil því fara fram á það við nefndina að vægi janúarlauna í útreikningi fæðingarorlofsgreiðslna verði lækkað í samræmi við 20/30 starfshlutfall.

Við fyrirspurnum mínum til Tryggingastofnunar um hvort tekið yrði tillit til tekna minna í Danmörku fékk ég mörg ólík og loðin svör. Afdráttarlaust svar barst mér ekki fyrr en með fyrrnefndu bréfi Tryggingastofnunar. Skömmu fyrir móttöku bréfsins var mér tjáð af starfsmönnum Tryggingastofnunar að tekið yrði tillit til tekna minna í Danmörku. Mig langar til að inna nefndina eftir ástæðum þess að svo er ekki og þeim rökum er liggja að baki?"

Með bréfi, dags. 2. ágúst 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 14. ágúst 2001. Í greinargerðinni segir:
"A óskar endurskoðunar á greiðslum í fæðingarorlofi. Líta verður svo á að annars vegar vilji hún að við útreikning greiðslna verði tekið mið af tekjum sem hún aflaði í Danmörku á árinu 2000, og hins vegar að ef eingöngu verði tekið mið af tekjum hennar hér á landi fái hún greidd 80% af fullum mánaðarlaunum sínum, þrátt fyrir að ná ekki fullu starfshlutfalli á viðmiðunartímanum.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laganna skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Um þau tilvik þegar foreldri hefur starfað í öðrum EES-ríkjum er nánar fjallað í 3. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir m.a. í 2. mgr. að við ákvörðun á mánaðarlegri greiðslu til foreldris skuli eingöngu höfð hliðsjón af meðaltali heildartekna þann tíma sem foreldri hefur unnið á innlendum vinnumarkaði á hinu 12 mánaða viðmiðunartímabili.

Af þessu ákvæði leiðir að Tryggingastofnun var ekki heimilt að taka mið af tekjum A í Danmörku við útreikning á greiðslum til hennar úr Fæðingarorlofssjóði.

Greiðslur til A úr Fæðingarorlofssjóði nema 80% af meðaltekjum hennar þá 2 mánuði sem hún starfaði á Íslandi á 12 mánaða tímabili sem lauk tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Er það í samræmi við ofangreinda laga- og reglugerðarákvæði. Í öðrum mánuðinum vann hún ekki fullt starf af ástæðum sem hún tilgreinir í kæru, og fékk greidd laun í samræmi við það. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof er ekki að finna heimild til að draga úr vægi einstakra mánaða í útreikningi meðallauna, eins og farið er fram á. Þvert á móti má sú meginregla vera ljós af lögunum, reglugerð og greinargerð með 13. gr. laganna að foreldri skuli fá úr Fæðingarorlofssjóði 80% af meðaltali heildarlauna sinna á tilteknu tímabili, óháð starfshlutfalli. Það er því mat Tryggingastofnunar ríkisins að greiðslur til A hafi verið réttilega ákveðnar."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 17. ágúst 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Engar athugasemdir bárust.



Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum skal taka til greina hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 909/2000.

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. Í athugasemdum í greinargerð kemur fram að átt sé við almanksmánuði.

Með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar skal við ákvörðun mánaðarlegra greiðslna þeirra sem starfað hafa í öðru EES-ríki ásamt því að starfa innanlands eingöngu höfð hliðsjón af meðaltali heildartekna þann tíma sem foreldri hefur unnið á innlendum vinnumarkaði á hinu 12 mánaða viðmiðunartímabili sem kveðið er á um 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi hóf störf á Íslandi 10. janúar 2001, um var að ræða 100% starf hjá B og starfaði hún þar fram að upphafsdegi fæðingarorlofs, 18. maí 2001. Samkvæmt því var kærandi í starfi á innlendum vinnumarkaði frá 10. janúar til og með febrúar 2001 á hinu 12 mánaða viðmiðunartímabili, en mars og apríl telst ekki til þess tímabils. Skal því útreikningur á meðaltali heildarlauna vera í réttu hlutfalli við raunverulegan starfstíma kæranda á innlendum vinnumarkaði, það er tímabilið 10. janúar til og með febrúar 2001.


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að eingöngu skuli leggja til grundvallar útreikningi innlendar tekjur A, er staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um meðaltal heildarlauna til kæranda er felld úr gildi. Endurreikna ber meðaltal heildarlauna á grundvelli starfstíma kæranda tímabilið 10. janúar til 28. febrúar 2001.

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir


 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta