Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2001

Mánudaginn, 2. júlí 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 7. maí 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A. Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til kæranda í fæðingarorlofi.

Málavextir eru þeir að A sendi inn kæru, dags. 25. apríl 2001, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Með umsókn sinni til Tryggingastofnunar ríkisins óskar kærandi eftir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Hún óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur frá 4. apríl 2001 til 4. október 2001.

Með bréfi, frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 23. apríl 2001, var kæranda tilkynnt um greiðslur fæðingarstyrks í fæðingarorlofi. Kærandi telur sig eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Þann 24. apríl síðastliðinn fékk ég bréf í pósti um að beiðni minni um fæðingarorlof væri hafnað vegna þess að ég uppfyllti ekki þau 6 mánaða vinnuskilyrði sem beðið er um. Vantar hjá mér tekjur fyrir októbermánuð 2000. Ég var ráðin til vinnu í matvöruverslun tímabundið og endaði sú vinna í lok ágúst 2000, svo að ég var á milli starfa þegar ég er komin 3 mánuði á leið. Ég leitaði að vinnu og sagði hverjum vinnuveitanda eins og málin stæðu að ég væri ólétt. Það er ansi fáir sem bjóða óléttum konum vinnu í dag! Ég í rauninni gerði mér ekki grein fyrir því að ég þyrfti að skrá mig atvinnulausa strax og þar að auki fannst mér ekki þörf á því að biðja um fjárhagslega aðstoð eins og mínar aðstæður voru á þeim tíma. Ef litið er betur á málið er ansi skrýtið ef að maður er ekki betlandi um peninga frá hinu opinbera eða er í vinnu þá er maður alveg réttindalaus, ég hélt líka að reynt væri að stuðla að því að fólk væri ekki að notfæra sér kerfið ef ekki væri þörf á því.

Ég fór snemma á meðgöngunni að grennslast fyrir um hvernig ég ætti að bera mig að hjá Tryggingarstofnun um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði þegar að fæðingarorlofi kæmi í apríl 2001. Ég fékk ekki mikla aðstoð, mér voru réttir pappírar sem ég þurfti að fylla út og reyndi ég að fá útskýringar á því hver skilyrðin væru fyrir því að fá fullt orlof. Þá var mér sagt að ég þyrfti að vera búin að vinna 1032 vinnustundi á sl. ári. Ég er með þennan vinnutíma en reglunum var víst breytt um áramótin! Við þetta breyttust allar forsendur sem ég var búin að ganga út frá og mér ekki gefið tækifæri til að bregðast við nýjum reglum vegna þess að þær eru í rauninni afturvirkar. Mér var ekki sagt frá því af Tryggingastofnun, í október, að til stæði að breyta reglunum á þennan hátt heldur bara að ég þyrfti að skila 1032 vinnustundum.

Ég get ekki sætt mig við að fá 35.000 kr. í fæðingarstyrk þegar mér finnst að ég eigi rétt á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði. Hefði ég vitað þetta fyrr, að betra væri að nota kerfið en ella til þess að fá fæðingarorlofið greitt hefði ég örugglega sótt um atvinnuleysisbætur strax til þess að ná þessum samfelldum 6 mánuðum.

Vinsamlegast endurskoðið mál mitt og athugið hvort hægt sé að gera eitthvað vegna þess að ég var í góðri trú að ég væri að fara eftir öllum tilsettum reglum. Auk þess sem ég reyndi að afla mér allra nauðsynlegra upplýsinga en sit samt í súpunni vegna reglugerðabreytingar sem ég get ekki á nokkurn hátt brugðist við. Þar með er mér refsað og ekki tekið tillit til aðstæðna."

Með bréfi, dags. 8. maí 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 29. maí 2001. Í greinargerðinni segir:

"Með umsókn dags. 1. febrúar 2001 sótti A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 4. apríl vegna væntanlegrar fæðingar sama dag.

Henni var með bréfi dags. 25. apríl synjað um greiðlur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki það skilyrði laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 fyrir þeim greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði í starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þess í stað yrði henni greiddur fæðingarstyrkur frá 1. janúar [á að vera 1. apríl. HJ]

Í 2. mgr. [7.] gr. laganna segir m.a.: "Starfsmaður er í lögum þessum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði."

Í 1. mgr. 13. gr. laganna segir m.a.: "Foreldri... öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs."

Í [2. og] 3. mgr. 8. gr. laganna segir.: "Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns. Þó er konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Kona skal vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns."

Í 3. mgr. 15. gr. laganna segir.: "Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar."

Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk A á árinu 2000 greidd laun í júlí, ágúst og desember, á árinu 2001 í janúar, febrúar og mars. Auk þess fékk hún greiddar atvinnuleysisbætur í desember 2000, janúar og febrúar 2001 en með umsókn hennar fylgdi yfirlit yfir greiddar atvinnuleysisbætur frá 31. október 2000-16. janúar 2001.

A sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá væntanlegum fæðingardegi þann 4. apríl 2001. Fyrir liggur að hún var ekki í vinnu í október 2000 og byrjaði ekki á atvinnuleysisbótum fyrr en 31. dag þess mánaðar. Hún uppfyllti því ekki það skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að vinna í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði síðustu sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 31. maí 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 4. apríl 2001 til 4. október 2001.

Í rökstuðningi með kæru kemur m.a. fram að kærandi telur sig hafa fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar hjá Tryggingastofnun ríkisins um skilyrði fyrir rétti til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Réttur til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði byggir á því að uppfyllt séu þau skilyrði sem kveðið er á um í ffl. Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldri hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn um skilyrði fyrir slíkum greiðslum. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hinsvegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar samkvæmt framangreindu.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með samfelldu starfi er átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi uppfyllir ekki það skilyrði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hún starfaði ekki á vinnumarkaði í október 2000 né ávann sér rétt á annan hátt, sbr. 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta