Mál nr. 3/2001
Fimmtudaginn, 10. maí 2001
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.
Þann 6. mars 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A. Kærður er útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Málavextir eru þeir að A sendir inn kæru, dags. 5. mars 2000, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Hún tilkynnti sínum atvinnurekanda um töku fæðingarorlofs 5. janúar 2001. Þann 5. janúar 2001 sækir kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk samkvæmt lögum nr. 95/2000 (ffl.) og óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur í fæðingarorlofi frá 1. febrúar 2001 til 31. júlí 2001. Kærandi fæddi barn 31. janúar 2001.
Kærandi fer þess á leit að meðaltal launa í fæðingarorlofi verði reiknað með sanngjarnari hætti. Þannig að ekki verið tekið mið af þeim hálfu launum sem hún fékk á meðan hún var í fæðingarorlofi hjá D frá 1. ágúst 1999 til 1. ágúst 2000. Síðan segir í rökstuðningi með kæru:
"Tel að ég eigi að fá hærra fæðingarorlof en það sem sést á meðfylgjandi fylgiskjali en eins og sjá má eru laun mín í dag (frá því [að] ég byrja að vinna aftur eftir síðasta fæðingarorlof) ekki í líkingu við þá upphæð sem ég fékk greidda úr síðasta fæðingarorlofssjóði (sem voru hálf laun í 1. ár) ég tel að ekki eigi að taka mið af þeim hálfu launum sem ég var á þar sem ég var í fæðingarorlofi hjá D frá 01.08.99-01.08.00. Heldur skuli meðaltal tekið af þeim 6 mán. sem ég hef verið að vinna frá 01.08.00-01.02.01, réttur minn á ekki að skerðast á meðan ég er í fæðingarorlofi."
Með bréfi 6. mars 2001 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 10. apríl 2001. Í greinargerðinni kemur fram að mánaðarlegar greiðslur til kæranda nemi 80% af meðaltali heildarlauna hennar samkvæmt staðgreiðsluskrá tímabilið desember 1999 til og með nóvember 2000. Síðan segir:
"Útreikningar á [greiðslum] til A í fæðingarorlofi hennar byggja [á] þeim launagreiðslum sem hún fékk skv. staðgreiðsluskrá RSK á viðmiðunartímabilinu. Hún fer hins vegar fram á að eingöngu sé miðað við laun hennar frá ágúst 2000 eða frá því [að] hún fór aftur að vinna eftir að hafa verið í fæðingarorlofi í 12 mánuði á hálfum launum enda séu laun hennar á því tímabili ekki í líkingu við þau laun sem hún fékk greidd meðan hún var í fæðingarorlorlofinu. ...meðan hún fékk í fæðingarorlofi greidd laun samkvæmt lögum um tryggingagjald nr. 113/1990 var hún í starfi og þau laun sem hún fékk greidd á þeim tíma reiknast með við útreikninga á greiðslum til hennar úr Fæðingarorlofssjóði."
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. apríl 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Þann 27. apríl 2001 barst úrskurðarnefndinni bréf frá kæranda, í bréfinu er ekki um að ræða frekari kröfur en áður hafa komið fram.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegum greiðslum til A vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 1. febrúar 2001 til og með 31. júlí 2001.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda var 1. febrúar 2001 og tímabil til útreiknings á meðaltali heildarlauna samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. frá 1. desember 1999 til 30. nóvember 2000. Á því tímabili var kærandi frá og með desember 1999 til og með júlí 2000 á hálfum launum í fæðingarorlofi, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, þar sem kveðið er á um rétt fastráðinnar konu sem starfað hefur í þjónustu ríkisins til töku fæðingarorlofs vegna barnsburðar, á þeim dagvinnulaunum sem stöðu hennar fylgja. Frá og með 1. ágúst 2000 til og með nóvember 2000 starfaði hún hjá B. Þær greiðslur sem kærandi fékk á þessu tímabili sem lagt er til grundvallar við útreikning á greiðslum í fæðingarorlofi frá og með 1. febrúar 2001 þ.e.a.s. greiðslur á hálfum launum í fæðingarorlofi og greiðslur vegna starfa kæranda hjá B teljast að mati nefndarinnar til heildarlauna samkvæmt 2. mgr. 13. ffl.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur til A, í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir, hdl.
Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri
Jóhanna Jónasdóttir, læknir