Hoppa yfir valmynd

1250/2025. Úrskurður frá 18. febrúar 2025

Hinn 18. febrúar 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1250/2025 í máli ÚNU 24110001.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 2. nóvember 2024, kærði […] til úrskurðarnefndar um upplýsinga­mál ákvörðun Garðabæjar að synja beiðni hans um aðgang að gögnum.
 
Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 1218/2024 frá 25. september 2024 var beiðni kæranda um aðgang að PDF-skjölum sem inni­halda yfirlit úr málaskrá Garðabæjar yfir mál og gögn sem varða kæranda og dóttur hans vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Garðabær af­greiddi beiðnina að nýju 1. nóvember 2024 og afhenti yfirlitin. Undanskilin voru yfirlit úr mála­skrá yfir mál á kennitölu dóttur kæranda af þeirri ástæðu að hún hefði nú náð sjálfræðisaldri og yrði því sjálf að standa að beiðni um afhendingu þeirra.
 
Í kæru bendir kærandi á að stofnað hafi verið til málsins löngu áður en dóttir kæranda hefði náð sjálfræðisaldri. Eina ástæðan fyrir því að gögnin hefðu ekki verið afhent væri seinagangur af hálfu sveitarfélagins.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Garðabæ með erindi, dags. 4. nóvember 2024, og sveitarfélaginu gefinn kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Umsögn Garðabæjar barst úrskurðarnefndinni 22. nó­vem­ber 2024. Í umsögn­inni kemur fram að ekki skipti máli að til málanna hafi stofnast áður en dóttir kæranda varð lögráða. Einstaklingur taki sjálfur við aðild og forræði máls þegar hann verði lögráða og öllum þeim réttindum og skyldum sem tengjast aðild hans að máli sem varðar hann per­sónulega í samræmi við lögræðislög, nr. 71/1997.
 
Umsögn Garðabæjar var kynnt kæranda með erindi, dags. 25. nóvember 2024, og honum gefinn kostur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Þær bárust daginn eftir. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðar­nefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Garðabæjar að synja beiðni kæranda um aðgang að PDF-skjali sem hefur að geyma yfirlit úr málaskrá sveitarfélagsins yfir mál og gögn sem varða dóttur kæranda. Ákvörðunin er á því byggð að dóttir kæranda þurfi sjálf að óska eftir aðgangi að gagninu. Þegar beiðni kær­anda um aðgang að PDF-skjalinu var fyrst lögð fram var dóttir kæranda undir 18 ára aldri. Með úrskurðum úr­skurð­ar­nefndar um upplýsingamál nr. 1199/2024 og 1218/2024 var beiðninni í tvígang vísað til Garða­bæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Óumdeilt er að þegar Garðabær tók hina kærðu ákvörð­un í máli þessu hafði dóttir kæranda náð 18 ára aldri.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá afstöðu Garða­bæjar að þar sem dóttir kæranda væri orðin lögráða væri ekki unnt að leggja til grundvallar að kær­andi færi í málinu með lögformlegt fyrirsvar fyrir hana sem faðir hennar. Í því sambandi at­hugast að þótt Garðabær hafi áður afgreitt sömu beiðni kæranda var hin kærða ákvörðun frá 1. nó­vem­ber 2024 ný ákvörðun um rétt eða skyldu, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar þess efnis að mál skuli nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því telur úrskurðarnefndin að Garðabæ hafi verið rétt að taka mið af breyttum málsatvik­um eins og þau lágu fyrir þegar hin nýja ákvörðun var tekin.
 
Á hinn bóginn er til þess að líta að beiðni kæranda um skjalið er grundvölluð á ákvæðum upplýs­inga­laga. Það þýðir að Garðabæ var skylt að taka beiðnina til meðferðar á grundvelli laganna. Í því felst að leggja mat á rétt kæranda til aðgangs að skjalinu annaðhvort á grundvelli 5. eða 14. gr. upp­lýsingalaga með hliðsjón af takmörkunarákvæðum 6.–10. gr. laganna, sbr. 2.–3. mgr. 14. gr. lag­anna og taka ákvörðun um hvort aðgangur skuli veittur í heild eða að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. lag­anna. Ljóst er að þetta hefur Garðabær ekki gert heldur hafnaði sveitarfélagið beiðninni einung­is á þeim grundvelli að dóttir kæranda hefði náð 18 ára aldri og þyrfti sjálf að standa að beiðni um gagnið.
 
Samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefndin að ákvörðun Garðabæjar hafi því ekki byggst á réttum lagagrundvelli. Þar sem lagagrundvöllur hinnar kærðu afgreiðslu er ófull­nægjandi telur nefnd­in nauðsynlegt að vísa beiðni kær­anda til Garða­bæjar til nýrrar meðferðar og leggja fyrir sveit­arfélagið að afgreiða beiðni kæranda á grundvelli upplýsingalaga. Úrskurðar­nefnd­in tekur fram í þessu sambandi að nokkur hluti þeirra upp­lýs­inga sem finna má í skjalinu sem kærandi ósk­ar eftir eru upplýsingar sem stafa frá honum sjálfum eða varða hann sérstaklega umfram aðra.
 

Úrskurðarorð

Beiðni kæranda, […], dags. 31. október 2023, er vísað til Garðabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta