Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 158/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 30. september 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 158/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 17. október 2013, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hann greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Skuldin nam 331.925 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 49.789 kr. eða samtals 381.714 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 27. desember 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 5. janúar 2012, en hann hafði áður sótt um atvinnuleysisbætur 23. maí 2011. Kærandi reiknaðist með 100% bótarétt.

Við samkeyrslu gagnagrunns Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra sem fram fór seinni part árs 2011 kom í ljós að kærandi hafði fengið greitt frá Greiðslustofu lífeyrissjóða 67.067 kr. í september 2011 án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Þann 4. janúar 2012 skilaði kærandi Vinnumálastofnun yfirliti frá Tryggingastofnun ríkisins og Greiðslustofu lífeyrissjóðanna vegna ársins 2011. Í kjölfarið voru kæranda greiddar atvinnuleysisbætur fyrir mánuðina maí til nóvember 2011 endurreiknaðar með hliðsjón af tekjum hans frá Tryggingastofnun ríkisins og Greiðslustofu lífeyrissjóðanna. Áður höfðu atvinnuleysisbætur greiddar kæranda vegna nóvember 2011 verið endurreiknaðar með hliðsjón af því að hann var í 50% hlutastarfi þann mánuðinn hjá B og hafði skilað inn launaseðli vegna þeirra vinnu 29. nóvember 2011.

Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 5. janúar 2012 barst Vinnumálastofnun ekki greiðsluáætlun frá kæranda vegna tekna hans frá Tryggingastofnun ríkisins eða Greiðslustofu lífeyrissjóðanna. Fram kemur að þann 22. ágúst 2012 var færð inn tekjuáætlun vegna tekna kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins í samræmi við greiðslur hans frá janúar til júlí, en Vinnumálastofnun hafði óskað eftir áætlun þar að lútandi frá kæranda, meðal annars 2. ágúst og 22. ágúst 2012 eins og fram kemur í samskiptasögu kæranda við Vinnumálastofnun, en þar segir að ítrekað sé búið að biðja kæranda um áætlun frá Tryggingastofnun ríkisins, hann hafi ekki skilað áætlun og sé að safna skuld. Þann 22. október 2012 var tekjuáætlun að fjárhæð 70.000 kr. vegna tekna kæranda frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna á tímabilinu júlí til desember á árinu 2012 sett inn í tölvukerfi Vinnumálastofnunar. Kærandi hafði einnig verið í tilfallandi vinnu hjá B í maí til ágúst en engin tekjuáætlun hafði verið til staðar vegna þeirrar vinnu kæranda nema vegna ágústmánaðar. Kærandi skilaði þó inn launaseðlum vegna þeirrar vinnu, sbr. færslur í samskiptaskrá Vinnumálastofnunar 29. maí, 25. júní, 4. júlí og 3. ágúst 2012. Þar sem engin tekjuáætlun var til staðar vegna tekna kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins, Greiðslustofu lífeyrissjóðanna og B fyrr en í ágúst og október 2012 gat Vinnumálastofnun ekki reiknað út rétt kæranda til atvinnuleysisbóta með hliðsjón af þeim tekjum. Af þeim sökum hafði kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna janúar til september 2012. Kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu maí til nóvember 2011 og janúar til september 2012 að fjárhæð samtals 611.583 kr. Búið er að skuldajafna af þeirri skuld 279.658 kr. Höfuðstóll skuldar kæranda nemur 331.925 kr. og við það bætist 15% álag að fjárhæð 49.789 kr. eða samtals 381.714.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi gert sitt til þess að leiðrétta ofgreiddar atvinnuleysisbætur til hans, þar sem hann vildi hafa allt á hreinu. Hann hafi spurt Vinnumálastofnun hver staðan væri og hafi honum verið sagt að hún væri á núlli og hann hafi staðið í þeirri trú að svo væri. Þegar hann hafi fengið innheimtubréf tveimur árum síðar hafi Vinnumálastofnun sagt að stofnunin hefði staðið við sína tilkynningarskyldu og birt innheimtuna á „mínum síðum“. Hann hafi aldrei farið þangað inn nema aðeins til þess að skrá atvinnuleysi og hafi ekki vitað að bréf Vinnumálastofnunar væru sett þar og honum hafi aldrei verið sagt það. Hann hafi áður fengið bréf frá Vinnumálastofnun bæði í pósti og tölvupósti, en ekki honum vitandi inn á nefnda síðu.

Kærandi kveður fjárhagsstöðu sína vera mjög slæma. Hann hafi verið með íbúðasjóðslán í frystingu og þegar þeirri frystingu hafi lokið hafi Íslandsbanki fryst lánin sem hann hafi verið með hjá þeim. Þeirri frystingu sé að ljúka og í framhaldinu muni fjárhagsstaðan bjargast leyfi þau hjónin sér ekkert og spari á öllum sviðum. Þá hafi bréf Vinnumálastofnunar komið með kröfu um greiðslu margra ára gamallar skuldar. Þurfi þau hjónin að borga það missi þau allt. Þau geti engum greiðslum bætt á sig eins og staðan sé í dag. Þau hafi staðið í þeirri trú að þau skulduðu hvergi neitt sem ekki hafi verið inni í tölunum sem miðað hafi verið við hjá Íslandsbanka.

 Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. febrúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að málið varði þá ákvörðun stofnunarinnar að skerða afturvirkt atvinnuleysisbætur kæranda á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem hafi leitt til skuldamyndunar. Kærandi hafi fengið greitt frá Tryggingastofnun ríkisins og Greiðslustofu lífeyrissjóðanna á tímabilinu maí til nóvember 2011 og janúar til september 2012 samhliða því sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Á þeim tíma hafi hvorki verið til staðar tekjuáætlun vegna tekna kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins né heldur Greiðslustofu lífeyrissjóðanna. Þegar stofnunin hafi fengið upplýsingar um tekjur kæranda frá framangreindum tveimur stöðu hafi stofnunin þurft að endurákvarða rétt kæranda til atvinnuleysisbóta vegna þeirra tímabila. Enn fremur hafi kærandi verið við störf hjá B í nóvember 2011 og maí til ágúst 2012 og þar sem engin tekjuáætlun vegna starfa hans þar hafi legið fyrir fyrr en eftir að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans vegna þeirra mánaða hafi átt sér stað hafi Vinnumálastofnun einnig orðið að endurákvarða rétt kæranda til atvinnuleysisbóta með hliðsjón af tekjum kæranda frá fyrirtækinu.

Fyrir liggi að kærandi hafi greitt 279.658 kr. með skuldajöfnun skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Meginreglan um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna sé í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistrygginga segi að gert sé ráð fyrir því að hvers konar tekjur eða greiðslur úr öðrum tryggingakerfum komi til frádráttar atvinnuleysisbótum hins tryggða. Sé tekið fram að miðað skuli við óskertan rétt umsækjanda til atvinnuleysisbóta.

Skerðing vegna tekna sé síðan framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Helmingur þeirrar fjárhæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndi skerðingu atvinnuleitanda. Staðið hafi verið að skerðingu í máli þessu með þessum hætti. Meðal gagna í máli kæranda sé yfirlit yfir greiðslur til kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins, Greiðslustofu lífeyrissjóðanna og B ásamt þeim greiðsluseðlum sem birtir hafi verið kæranda á „mínum síðum“ hans á vef Vinnumálastofnunar þar sem kæranda sé tilkynnt að hann hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Verði ekki séð að ranglega hafi verið staðið að greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda á tímabilinu og beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. ágúst 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 8. september 2014. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 8. september 2014. Þar kemur meðal annars fram að hann hafi alltaf látið vita af öllum greiðslum sem hann hafi fengið. Vinnumálastofnun hafi líka alltaf vitað að hann væri öryrki og með bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði. Þegar honum hafi verið boðin vinna hjá Bílasprautun Suðurnesja ehf. hafi kona hans hringt fyrir hann í Vinnumálastofnun og hafi henni verið sagt að vinnan væri svo óregluleg að hann yrði bara að skila inn launaseðlum, sem hann hafi gert. Sú vinna hafi aðeins verið tímabundin.

Þegar hann hafi verið látinn vita að hann hefði fengið ofgreitt hafi bætur verið skertar og hafi hann þá talið að málið væri komið í réttan farveg. Honum hafi einnig verið tjáð hjá Vinnumálastofnun að allt væri í lagi og hafi hann staðið í þeirri trú að hann væri skuldlaus við stofnunina. Síðan hafi hann fengið innheimtubréfið í október 2013. Kona hans hafi hringt í Vinnumálastofnun og henni verið sagt að stofnunin hafi staðið við sína tilkynningarskyldu og sett rukkun inn á „mínar síður“. Kærandi hafi ekki vitað að „mínar síður“ væru fyrir annað en að tilkynna sig atvinnulausan. Hann hafi auk þess áður fengið bréf send heim eða tölvupóst ef eitthvað hafi verið. Auk þess hafi hann á þessum tíma verið hættur á atvinnuleysisbótum og hafi haldið að engin ástæða væri fyrir hann að fara inn á „mínar síður“.

Kærandi kveður fjárhagsstöðu sína vera slæma. Verði hann að greiða kröfu Vinnumálastofnunar sjái hann ekki annað en það verði til þess að þau hjónin verði gjaldþrota.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna tímabilsins janúar til september 2012 að fjárhæð 331.925 kr. án 15% álags sem nemur 49.789 kr., eða samtals að fjárhæð 381.714 kr. Samkvæmt Vinnumálastofnun á skuld kæranda rætur sínar að rekja til þess að hann lagði ekki fram tekjuáætlun vegna tekna frá Tryggingastofnun ríkisins, Greiðslustofu lífeyrissjóðanna og B fyrr en í ágúst og október 2012 eins og rakið hefur verið.

Eins og fram hefur komið fékk kærandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu maí til nóvember 2011 og janúar til september 2012 að fjárhæð samtals 611.583. Skuldajafnað hefur verið af þeirri fjárhæð 279.658 kr. Eftirstöðvar skuldarinnar nema 331.925 kr. auk 15% álags að fjárhæð 49.789 kr. eða samtals 381.714 kr. Kæranda var tilkynnt um skuld sína við Vinnumálastofnun með birtingu greiðsluseðla og tilkynningu á „mínum síðum“. Af samskiptasíðu Vinnumálastofnunar á umræddu tímabili má sjá að kærandi eða eiginkona hans höfðu töluverð samskipti við Vinnumálastofnun og meðal annars tilkynntu þau ítrekað um vinnu kæranda hjá B Eigi að síður myndaðist skuld kæranda við Vinnumálastofnun vegna starfa hans hjá B, tekna frá Tryggingastofnun ríkisins og Greiðslustofu lífeyrissjóða en honum bar skylda til þess að upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær tekjur sem hann fékk á þeim tíma sem hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda ber, með vísan til framangreinds og skv. 2. mgr. 39. gr. sbr. einnig 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að endurgreiða skuld sína við Vinnumálastofnun að fjárhæð samtals 381.714 kr.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt innheimtubréfi frá 17. október 2013, þess efnis að hann endurgreiði stofnuninni 331.925 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 49.789 kr. eða samtals að fjárhæð 381.714 er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta