Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 18/2014.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 8. október 2014

í máli nr. 18/2014:

Logaland ehf.

gegn

Ríkiskaupum og

Landspítala

Sjúkrahúsinu á Akureyri

Heilbrigðisstofnun Vesturlands

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja

Heilbrigðisstofnun Austurlands

Heilbrigðisstofnun Þingeyinga

Heilbrigðisstofnun Blönduóss

Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks

og Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins

Með kæru 30. september 2014 kærir Logaland ehf. rammasamningsútboð nr. 15629 „Skurðstofuhanskar og nitril skoðunarhanskar“. Kröfur kæranda eru aðallega þær að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir varnaraðila, sem eru Ríkiskaup ásamt Landspítalanum og 10 öðrum heilbrigðiststofnunum, að auglýsa útboðið að nýju en til vara að vöruflokkar A, C og D verði auglýstir að nýju. Þá er þess krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila og að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um að gerð samnings verði stöðvuð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Niðurstaða

Hið kærða útboð lýtur að kaupum á skurðstofuhönskum og nitril skoðunarhönskum. Boðnir voru út nokkrir vöruflokkar og þeir auðkenndir með bókstöfunum A, B, C, D, E, F1 og F2. Fram kom í útboðsgögnum að heimilt væri að bjóða í einstaka vöruflokka en bjóðendur í vöruflokkum A-F skyldu bjóða í alla vöruliði í viðkomandi vöruflokki.

Hjá kærunefnd útboðsmála er til meðferðar önnur kæra vegna sama útboðs. Sú kæra barst nefndinni 19. september 2014 og leiddi til sjálfkrafa banns við samningsgerð. Í ákvörðun kærunefndar útboðsmála 3. október 2014, í máli nr. 16/2014, var fjallað um kröfu varnaraðila um að aflétt yrði stöðvun samningsgerðar á grundvelli útboðsins. Niðurstaða nefndarinnar var að aflétta stöðvun samningsgerðar vegna vöruflokka E og F2 en að öðru leyti var hafnað kröfu varnaraðila um að aflétta stöðvun samningsgerðar. Af því leiðir að nú þegar er í gildi ákvörðun þess efnis að varnaraðilum sé óheimilt að gera samning um vöruflokka A, B, C, D og F1. Kærandi gerði tilboð í vöruflokka A, C og D en samkvæmt framansögðu nær stöðvun þegar til þeirra vöruflokka. Eins og málið liggur fyrir þykir kærandi allt að einu hafa nægilega hagsmuni af því að krafa hans um stöðvun samningsgerðar nái fram að ganga í þeim vöruflokkum þar sem hann átti tilboð. Hins vegar hefur kærandi ekki  rökstutt að hann eigi slíkra hagsmuna að gæta vegna annarra vöruflokka.

Kærunefnd útboðsmála hefur í úrskurðum sínum fallist á að kaupendum sé heimilt að líta til eðli vöru og ætlaðrar notkunar þegar gerðar eru kröfur til eiginleika hennar við innkaup. Einnig hefur nefndin talið heimilt að meta eiginleika vöru með sjálfstæðum prófunum, meðal annars með hliðsjón af huglægri afstöðu þeirra sem vöruna eiga að nýta við störf sín. Nefndin hefur hins vegar lagt áherslu á að slíkar prófanir kaupanda séu háðar nánar tilteknum skilyrðum sem tryggja gagnsæi og jafnræði bjóðenda. Að svo stöddu liggja í málinu ekki fyrir slík gögn eða skýringar á þeim prófunum, sem varnaraðilar létu fara fram, að nefndinni sé unnt að leggja á það raunhæft mat hvort varnaraðilum var rétt að meta tilboð kæranda ógild á þessum grundvelli. Er því fullnægt skilyrðum til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup svo sem nánar greinir í ákvörðunarorði.

Ákvörðunarorð:

Stöðvuð er samningsgerð á grundvelli rammasamningsútboðs varnaraðila, Ríkiskaupa, Landspítalans o.fl., nr. 15629 „Skurðstofuhanskar og nitril skoðunarhanskar“ vegna vöruflokka A, C og D. Að öðru leyti er kröfu kæranda hafnað.

                                                                                                 Reykjavík, 8. október 2014.

                                                                                                 Skúli Magnússon

                                                                                                 Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                                 Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta