Hoppa yfir valmynd

Nr. 204/2020 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 18. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 204/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20020003

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. febrúar 2020 kærði […], fd. […], ríkisborgari Níkaragva (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. janúar 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 3. september 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 9. desember 2019, ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 14. janúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 4. febrúar 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 10. febrúar 2020 ásamt fylgigögnum. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd taldi ekki ástæða til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi og vegna almenns ástands í heimaríki sínu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. gr. laganna. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur og uppalinn í […] í Níkaragva og hafi búið þar alla tíð. Kærandi sé andsnúinn yfirvöldum í heimaríki sínu og styðji flokkinn La Alianza Civica. Kærandi hafi í tvígang tekið þátt í mótmælum í heimaríki sínu vegna handtöku systursonar síns sem sé fjölmiðlamaður þar í landi.

Kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu [...] sem aðstoði fólk og fyrirtæki við innflutning varnings. Kærandi hafi verið í samskiptum við mann að nafni […]. Sá hafi beðið kæranda um að aðstoða sig við að fá sex bifreiðar leystar út án þess að lagaleg skilyrði væru uppfyllt, svo sem greiðsla kaupverðs, skatta og gjalda. Hann hafi boðið honum 4.000 dollara greiðslu fyrir. Kærandi hafi ekki samþykkt að gera það og tilkynnt atvikið til yfirmanns síns sem hafi talað við starfsmann hjá tollyfirvöldum. Að kvöldi, þremur dögum síðar, hafi bíll keyrt aftan að kæranda og sex menn stokkið út og ráðist að honum með líkamlegu ofbeldi og kallað hann „sapo“ (sem sé notað yfir þá sem kjafta frá, e. snitch). Þeir hafi ekki hætt fyrr en vegfarendur hafi komið kæranda til aðstoðar. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar frá sérfræðingum hér á landi að nauðsynlegt sé að hann fari í aðgerð vegna þeirra áverka sem hann hafi hlotið á fæti. Auk þeirra áverka hafi hann hlotið innvortis blæðingar og verið með blóð í hægðum eftir atvikið. Kærandi hafi ekki leitað til lögreglunnar þar sem […] þekki fólk innan raða lögreglunnar auk þess sem hann notist við mútur og geti mútað yfirvöldum til að fá þau til að gera það sem honum henti. Enn fremur geti kærandi ekki treyst á vernd yfirvalda vegna þátttöku sinnar í mótmælum gegn stjórnvöldum. Kærandi hafi ekki fengið aðstoð frá lögreglu þegar hann hafi leitað til hennar vegna ránsatviks árið 2018 auk þess sem lögreglan geri almennt ekki neitt nema fá greiddar mútur.

Kærandi kvaðst ekki hafa farið til vinnu í viku eftir árásina og í framhaldi hafi honum verið veitt eftirför, bæði af bílum og gangandi vegfarendum. Þá hafi hann og fjölskylda hans flutt tvívegis. Tveimur og hálfum mánuði síðar hafi kærandi tekið ákvörðun um að flýja hingað til lands. Eiginkona kæranda hafi tvívegis verið spurð hvar kærandi sé niðurkominn og hafi flutt ásamt börnum þeirra til ömmu sinnar. Hún haldi sig heima við, mæti ekki lengur í vinnu og segi að fylgst sé að henni.

Í greinargerð kæranda er fjallað um aðstæður í heimaríki kæranda og vísað til alþjóðlegra skýrslna. Þar komi fram að í apríl 2018 hafi forsetahjónin gefið lögreglu og öryggissveitum skipanir um að ráðast gegn þátttakendum í friðsamlegum mótmælum sem hafi hafist vegna andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um skerðingar á almannatryggingum. Í aðgerðunum hafi skotvopnum og leyniskyttum m.a. verið beitt. Í lok nóvember á sama ári hafi tala látinna af völdum yfirvalda í átökunum verið komin í 325 manns og yfir 2000 hafi slasast. Hundruð einstaklinga hafi verið haldið ólöglega. Mótmælendum hafi verið neitað um heilbrigðisþjónustu, lögregla hafi orðið uppvís að gerræðislegum handtökum og öryggissveitir tengdar yfirvöldum framið mannrán. Prófessorum og heilbrigðisstarfsmönnum hafi verið vikið úr starfi á þeim grundvelli að þeir teldust hliðhollir mótmælunum. Í apríl 2019 hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna greint frá því að um 62.000 manns hafi lagt á flótta vegna ástandsins í landinu. Þá hafi mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna lýst yfir áhyggjum af ástandinu í landinu í skýrslu frá 26. febrúar 2019 og fordæmt ýmsar aðgerðir yfirvalda. Sem dæmi hafi ráðið gagnrýnt lög sem hafi tekið gildi árið 2018 sem feli í sér mjög víðtæka túlkun á hryðjuverkastarfsemi sem hafi verið notuð gegn fólki sem hafi tekið þátt í mótmælum. Lýst hafi verið yfir áhyggjum af hinu mikla mannfalli sem hafi átt sér stað í mótmælum og meðlimir ráðsins lýst því að þeim hafi blöskrað ofbeldisfull viðbrögð öryggissveita við mótmælum gegn félagslegum umbótum.

Þá bendir kærandi á að í leiðbeiningum Flóttamannastofnunar, sem gefnar hafi verið út 24. ágúst 2018 í tengslum við flótta fólks frá Níkaragva, komi fram að meirihluti umsókna um alþjóðlega vernd byggi á einstaklingsbundnum, raunverulegum eða ætluðum stjórnmálaskoðunum og því telji stofnunin að þessir einstaklingar séu líklegir til að þarfnast alþjóðlegrar verndar.

Til stuðnings aðalkröfu kæranda um að honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vísar kærandi til þess að hann hafi stjórnmálaskoðanir sem séu yfirvöldum í Níkaragva ekki þóknanlegar. Ljóst megi vera að yfirvöld í Níkaragva ráðist af hörku gegn einstaklingum sem lýsi yfir slíkum skoðunum. Þá hafi kærandi greint frá því að hann sé andsnúinn yfirvöldum í Níkaragva og sé mótfallinn stefnu þeirra og aðgerðum. Kærandi hafi verið hlynntur mótmælum sem hafi átt sér stað í landinu undanfarið eitt og hálft ár og hafi verið þátttakandi í þeim. Skoðanir hans séu yfirvöldum kunnar og þá beri að líta til þess að verði kæranda gert að snúa aftur til Níkaragva eigi hann á hættu að vera krafinn svara af yfirvöldum um ástæður flótta hans frá landinu en þær ástæður feli í sér andstöðu hans við yfirvöld. Komi það til af þátttöku hans í mótmælum og viðbrögðum lögreglu er hann hafi leitað aðstoðar þeirra í maí 2018 vegna ráns sem hann hafi orðið fyrir. Allt að einu verði ekki gerð sú krafa til kæranda að hann leyni skoðunum sínum í heimaríki. Því sé ljóst að kærandi hafi stjórnmálaskoðanir í skilningi e-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og að þær aðgerðir sem yfirvöld í landinu hafi gripið til gegn þeim sem þau telji sér andsnúin samkvæmt framangreindum heimildum feli í sér ofsóknir samkvæmt skilgreiningu 1. og 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til alls framangreinds, frásagnar kæranda og tilvísaðra heimilda sé ljóst að ótti kæranda við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana af hálfu yfirvalda í Níkaragva sé ástæðuríkur. Þá eigi hann ekki möguleika á vernd yfirvalda í heimaríki sínu. Kærandi sé því flóttamaður skv. skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum alþjóðlega vernd á Íslandi skv. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi endursending kæranda til heimaríkis brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Sérstök athygli er vakin á því í greinargerð að með því að senda kæranda til Níkaragva yrði enn fremur brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins er sú krafa gerð til vara að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga enda sé raunhæf ástæða til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis. Þá eigi síðari hluti málsgreinarinnar einnig við í málinu. Ljóst sé af heimildum að grafalvarlegt ástand hefur ríkt í Níkaragva undanfarið eitt og hálft ár. Að undirlagi yfirvalda hafi lögregla og öryggissveitir ráðist gegn mótmælendum og almennum borgurum með þeim afleiðingum að hundruð hafi verið drepnir, þúsundir særst og fólk brottnumið ólöglega og pyndað. Einnig séu ýmis alvarleg mannréttindabrot af hálfu yfirvalda framin, þ.m.t. brot á tjáningarfrelsi auk þess sem fólk sem talið er hafa mótmælt yfirvöldum hafi verið neitað um heilbrigðisþjónustu.

Þá telur kærandi að innri flutningur sé ótækur og að ljóst sé að kærandi geti ekki búið annars staðar í Níkaragva og verið öruggur enda óttist hann yfirvöld og því skuli vera gengið út frá því að raunverulega vernd sé ekki að fá í neinum hluta landsins.

Til þrautavara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé sárkvalinn vegna þeirra áverka sem hann hafi hlotið við árásina þann 27. apríl 2019. Sérfræðingar hér á landi hafi metið það sem svo að kærandi þarfnist aðgerðar vegna þessa. Í þessu sambandi sé vísað til þess sem komið hafi fram um að einstaklingum sem hafi tekið þátt í mótmælum í Níkaragva hafi gjarnan verið neitað um heilbrigðisþjónustu með vísan til tilmæla stjórnvalda þar um. Að því sögðu sé ljóst að kæranda sé ekki tryggð nauðsynleg meðferð í heimaríki og verði ekkert að gert muni það valda kæranda áframhaldandi óbærilegum þjáningum.

Kærandi gerir athugasemd við að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé lítið gert úr þátttöku kæranda í framangreindum mótmælum. Kærandi vísar í skýrslu Lifos frá 23. apríl 2019 þar sem komi fram að einstaklingar hverra þátttaka í mótmælum hafi verið minniháttar geti verið skotmörk stjórnvalda. Þá er því mótmælt að umbætur sem Útlendingastofnun vísi til séu jafn miklar og raun ber vitni. Ríkisstjórnin hafi haldið áfram að áreita meðlimi hreyfinga sem séu andsnúin sér með fangelsunum og morðum á pólitískum andstæðingum fari fjölgandi. Fram hafi komið að ríkisstjórnin hafi í aðgerðum sínum á árinu 2019 tekið 60 einstaklinga af lífi. Búist sé við að í lok árs 2019 verði hælisumsóknir í nágrannaríkinu Kosta Ríka frá Níkaragva komnar upp í 100.000. Þá er gerð athugasemd við framsetningu í ákvörðun Útlendingastofnunar á áverkum kæranda auk þess sem gerð er athugasemd við að stofnunin hafi með öllu látið hjá líða að fjalla um þá málsástæðu kæranda sem snúi að viðskiptum hans við [...]. Rétt sé að sú málsástæða fái umfjöllun á tveim stjórnsýslustigum og ljóst að ekki sé mögulegt að bæta úr þeim annmarka hjá kærunefnd.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Við umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi hefur kærandi m.a. borið fyrir sig að hafa orðið fyrir ofbeldi, áreiti og hótunum tiltekins aðila í heimaríki og að hann geti ekki leitað verndar yfirvalda vegna tengsla aðilans við stjórnvöld þar í landi. Þá hefur kærandi í greinargerð sinni gert athugasemd við að Útlendingastofnun hafi með öllu látið hjá líða að fjalla um þá lögregluvernd sem kæranda standi til boða í heimaríki vegna þeirra deilna.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda, dags. 14. janúar 2020, verður ekki séð að tekin hafi verið afstaða til framangreindra málsástæðna kæranda sem hann lýsti í viðtali hjá Útlendingastofnun m.a. þann 9. desember 2019 sem aðalástæðu flótta síns frá heimaríki. Í ákvörðun stofnunarinnar er ekki minnst á eða tekin afstaða til veigamikilla atriða í frásögn hans er vörðuðu ástæður flótta frá heimaríki, þ. á m. nánari atvik varðandi framangreindan aðila sem kærandi kveðst óttast og möguleika kæranda á að fá vernd og aðstoð yfirvalda vegna deilna við hann. Er það mat kærunefndar að með þessum annmörkum á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á máli hans. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant´s case.

 

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                     Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta