Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 137/2012.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 137/2012.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, hafði fengið lífeyrissjóðsgreiðslur samhliða töku atvinnuleysisbóta frá september 2010 til maí 2012 án þess að fyrir lægi tekjuáætlun hjá Vinnumálastofnun. Þar af leiðandi myndaðist skuld við Vinnumálastofnuna á sama tíma og kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Ofgreiddum atvinnuleysisbótum var skuldajafnað sem nam 25% af atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Skuld kæranda við Vinnumálastofnun nemur nú 481.684 kr. Framangreind skuldamyndun var kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, móttekinni 30. júlí 2012. Kærandi krefst þess að skuld hennar við Vinnumálastofnun verði felld niður. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar um skuld kæranda. Vinnumálastofnun tekur fram að ekki er krafist 15% álags á skuld kæranda.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 23. febrúar 2009.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. september 2010, var kæranda tilkynnt að við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra virtist sem kærandi hafi haft tekjur í júní 2010, án þess að gera grein fyrir þeim, á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur. Var kæranda gefinn sjö daga frestur til að skila inn upplýsingum vegna þessa til Vinnumálastofnunar. Í kjölfarið barst stofnuninni tilkynning um tekjur fyrir ágústmánuð 2010. Vinnumálastofnun bárust ekki frekari tilkynningar um tekjur frá kæranda vegna lífeyrissjóðsgreiðslna fyrr en 25. júlí 2012 þegar tekjuáætlun barst fyrir júnímánuð það ár og var þá jafnframt gerð grein fyrir áætluðum mánaðarlegum greiðslum frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og frá Greiðslustofu Lífeyrissjóða. Upplýsingar um lífeyrissjóðsgreiðslur kæranda bárust Vinnumálastofnun í kjölfar samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra sem fram fara þremur mánuðum eftir að greiðslur eru inntar af hendi. Kærandi hafði fengið lífeyrissjóðsgreiðslur samhliða töku atvinnuleysisbóta án þess að fyrir lægi tekjuáætlun hjá stofnuninni á löngu tímabili, eða frá september 2010 til maí 2012. Þar sem tekjuáætlun lá ekki fyrir safnaði kærandi upp skuld á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur og var ofgreiddum atvinnuleysisbótum skuldajafnað sem nam 25% af atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skuld kæranda við Vinnumálastofnun nemur nú 481.684 kr.

Kærandi kveðst fyrst hafa uppgötvað skuld sína við Vinnumálastofnun í maí 2012 þegar hún hafi litið á launaseðil sinn frá Vinnumálastofnun á heimasíðu stofnunarinnar. Tekur kærandi fram að hún hafi haft samband við Greiðslustofu Vinnumálastofnunar í kringum 5. júní 2010 og óskað eftir því að fá sent heim skattkort sitt þar sem hún væri að fá greiðslur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Af þeim sökum telur kærandi að um mistök sé að ræða af hálfu Vinnumálastofnunar og fer fram á niðurfellingu skuldar sinnar við stofnunina á þeim grundvelli.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. september 2012, kemur fram að það leiði af 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að rík upplýsingaskylda hvíli á kæranda að upplýsa Vinnumálastofnun um allt það sem kann að hafa áhrif á rétt hennar samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hún fær greiddar atvinnuleysisbætur og þar með talið greiðslur frá lífeyrissjóðum.

Vinnumálastofnun vísar til 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um frádrátt frá greiðslum atvinnuleysisbóta vegna tekna umsækjanda. Í ákvæðinu sé meðal annars kveðið á um að tekjur sem kærandi þiggur úr almennum lífeyrissjóði geti skert atvinnuleysisbætur ef þær ásamt öðrum tekjum eru hærri en óskertur réttur hennar til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki. Af ákvæðinu leiði að ef Vinnumálastofnun berast ekki þær upplýsingar sem kveðið er á um í ákvæðinu getur kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem henni ber að endurgreiða.

Vinnumálastofnun tilgreinir að þar sem ekki lá fyrir tekjuáætlun vegna lífeyrissjóðsgreiðslna kæranda hjá stofnuninni hafi safnast upp skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar á sama tíma og kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Var ofgreiddum atvinnuleysisbótum skuldajafnað sem nam 25% af atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum greiðslum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun bendir á að skuld kæranda nemi nú 481.684 kr. og tekur fram að ekki hafi verið krafist 15% álags á skuld kæranda.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. September 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 1. október 2012. Athugasemdir kæranda og frekari gögn bárust úrskurðarnefndinni 24. september 2012. Kærandi sendir með samskiptasögu sína við Vinnumálastofnun eins og hún birtist henni á mínum síðum á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Kærandi bendir á að þar megi sjá tilkynningu um ofgreiðslu atvinnuleysisbóta þann 30. mars 2012. Hún segist ekki hafa fengið umrætt bréf frá 8. september 2010 en ef það hefði borist hefði hún strax haft samband. Kærandi greinir frá því að hún hafi tilkynnt um að hún væri farin að fá lífeyrissjóðsgreiðslur og beðið um að fá skattkortið sitt sent þar sem greiðslurnar voru hærri en atvinnuleysisbæturnar. Kærandi telur að um mistök sé að ræða af hálfu Vinnumálastofnunar þar sem ljóst sé að hún hefði ekki beðið um að fá skattkortið sitt til að nýta það einungis í eitt skipti annars staðar.

 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá september 2010 til maí 2012. Vinnumálastofnun tiltekur að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur þar sem tekjuáætlun kæranda lá ekki fyrir hjá stofnuninni um lífeyrissjóðsgreiðslur til hennar. Kærandi telur hins vegar að hún hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna mistaka Vinnumálastofnunar og því beri að fella skuld hennar niður.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er mælt fyrir um frádrátt frá greiðslum atvinnuleysisbóta vegna tekna umsækjanda:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Ljóst er að lífeyrissjóðsgreiðslur þær er kærandi fékk falla undir framangreint ákvæði og hefðu því réttilega átt að dragast frá greiðslum atvinnuleysisbóta á sama tímabili. Kærandi fékk því ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá september 2010 til maí 2012 og eru eftirstöðvar nú að fjárhæð 481.684 kr. Útreikningur Vinnumálastofnunar er ekki vefengdur.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu atvinnuleysisbóta. Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna skal Vinnumálastofnun ekki krefjast 15% álags á þá fjárhæð sem ofgreidd var ef hinn tryggði færir rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka sem leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Fyrir liggur í máli þessu að Vinnumálastofnun hefur ekki krafist 15% álags á skuld kæranda. Aðferð Vinnumálastofnunar við að endurheimta hið ofgreidda fé styðst við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með hliðsjón af framanrituðu verður ekki fallist á þær röksemdir kæranda að henni beri engin skylda til að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna þess að hún hafi tekið á móti greiðslum atvinnuleysisbótanna í góðri trú. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, verður hún því staðfest.


 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um skuld kæranda vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest. Kærandi skal endurgreiða 481.684 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta