Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 139/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 139/2012.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. ágúst 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 7. ágúst 2012 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta. Beiðni kæranda um að rafræn staðfesting atvinnuleitar, sbr. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, væri samþykkt og atvinnuleysisbætur greiddar afturvirkt, var hafnað enda væri ekki séð að um mistök af hálfu Vinnumálastofnunar væri að ræða. Kærandi vildi ekki una þessu og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 14. ágúst 2012. Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og beiðni hennar tekin til greina. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. júní 2012 með rafrænni skráningu. Í kjölfarið kom kærandi á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og staðfesti umsókn sína. Tók kærandi fram á umsókninni að hún væri í orlofi til 12. júlí 2012 og að hún gæti ekki hafið störf fyrr en 1. ágúst 2012.

Kærandi reyndi án árangurs 20. júlí 2012 að staðfesta atvinnuleit sína rafrænt í gegnum heimasíðu Vinnumálastofnunar því samkvæmt umsókn gat hún ekki hafið störf fyrr en 1. ágúst það ár. Kærandi hafði samband við þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og sagði þetta vera misskilning og hún gæti hafið störf strax. Var umsókn hennar breytt í samræmi við það. Formleg beiðni um breytingu barst Vinnumálastofnun 30. júlí 2012.


 

Kærandi segir í rökstuðningi fyrir kæru að henni hafi verið sagt upp 1. ágúst 2011. Hún hafi verið í 70% starfi og vegna aldurs hafi hún verið með sex mánaða uppsagnarfrest. Hún hafi því átt að vinna til 1. febrúar 2012 en var beðin um að vinna til 30. maí 2012 sem hún samþykkti. Í beinu framhaldi tók hún sumarfrí, alls 30 virka daga, og því hafi starfslok hennar verið 12. júlí 2012. Kærandi telur sig þar af leiðandi eiga rétt til atvinnuleysisbóta frá og með 13. júlí 2012. Kærandi greinir frá því að misskilningur hafi orðið af hennar hálfu varðandi reglur um rétt til atvinnuleysisbóta. Hún hafi talið að réttur hennar miðaðist við 20. hvers mánaðar eða þann tíma sem atvinnuleit er staðfest.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 28. ágúst 2012, kemur fram að málið varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 13. til 19. júlí 2012.

Vinnumálastofnun greinir frá því að forsenda þess að hægt sé að greiða atvinnuleysisbætur sé að hinn tryggði sæki um slíkt til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun þurfi jafnframt að geta treyst þeim upplýsingum sem fram komi í umsókn hins tryggða, enda sé það hinn tryggði sjálfur sem fylli hana út og sé sá eini sem geti ákveðið hvenær hann telji sig geta hafið störf. Í tilfelli kæranda hafi það verið hennar eigin mistök að tiltaka í umsókn sinni að hún gæti ekki hafið störf fyrr en 1. ágúst 2012. Ekkert lagaákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingar eða stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, leggi þá skyldu á Vinnumálastofnun að kanna sérstaklega hvort þær upplýsingar sem umsækjandi veitir um það hvenær hann geti hafið störf séu réttar. Í samræmi við þá upplýsingaskyldu sem hvíli á kæranda samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, svo sem 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr., sé það mat Vinnumálastofnunar að það sé kærandi sjálf sem verði að bera hallann af því að hafa skráð inn ranga dagsetningu enda sjáist það á gögnum Vinnumálastofnunar að stofnunin hafi ekki átt neinn þátt í þeim mistökum. Vinnumálastofnun hafi lagfært umsókn kæranda um leið og kærandi setti sig í samband við stofnunina þannig að hún gæti hafið störf þann dag sem hún hafði samband, þ.e. 20. júlí 2012.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því sú að þar sem kærandi hafi ekki verið skráð atvinnulaus frá 13. til 19. júlí 2012 eigi hún ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir það tímabil.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. september 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. september 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var henni tilkynnt að afgreiðsla máls hennar myndi tefjast vegna gríðarlegs málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.


2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna.

Í a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna segir að launamaður sem er tryggður samkvæmt lögunum verði að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Í c-lið 14. gr. kemur fram að með virkri atvinnuleit sé meðal annars átt við að hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara. Í h-lið sömu greinar er einnig kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að vera reiðubúinn að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. júní 2012. Í rafrænni umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur kemur fram að hún sé reiðubúin að hefja störf 1. ágúst 2012. Kærandi hefur fært fram þau rök að skráningin hafi átt sér stað fyrir mistök. Í máli þessu liggur fyrir að þjónusta Vinnumálastofnunar við kæranda hafi tekið mið af því að kærandi væri fyrst reiðubúin að hefja störf 1. ágúst 2012, enda er atvinnuleitandi ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar fyrr en viðkomandi er reiðubúinn að hefja störf skv. c-lið 14. gr. laganna. Ákvörðun um að greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda myndu hefjast fyrst 1. ágúst 2010 grundvallaðist því á upplýsingum sem kærandi sjálf veitti Vinnumálastofnun.

Þýðingarmikið er að réttar upplýsingar um hagi atvinnuleitanda liggi fyrir svo Vinnumálastofnun sé gert kleift að veita atvinnuleitanda viðeigandi aðstoð og þjónustu, en kveðið er á um upplýsingaskyldu atvinnuleitanda í h-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Verður að telja af skýru orðalagi 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að atvinnuleitandi geti einungis átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga frá þeim tíma sem hann er reiðubúinn til starfa og uppfyllir að öðru leyti almenn skilyrði laganna. Vinnumálastofnun var því ekki heimilt að hefja greiðslur atvinnuleysistrygginga til handa kæranda fyrr en hún taldist tryggð samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var byggð á upplýsingum sem kærandi skráði sjálf og breytir þar engu um að skráningin hafi verið gerð fyrir mistök. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun verður hún staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. ágúst 2012 í máli A um synjun á greiðslu atvinnuleysisbóta afturvirkt er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta