Mál nr. 141/2012.
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 141/2012.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. júní 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann sama dag fjallað um rétt hennar hjá stofnuninni. Tekin hefði verið sú ákvörðun að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá og með 26. janúar 2012 í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 59. gr., sbr. 35. gr. a, laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kærandi lét hjá líða að tilkynna um tekjur frá B. Kærandi vildi ekki una ákvörðuninni og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 1. ágúst 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 20. febrúar 2012.
Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra komu fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur kæranda vegna vinnu hjá B og var kæranda tilkynnt um það með bréfi, dags. 7. júní 2012. Í bréfinu var óskað eftir skriflegum skýringum á hinum ótilkynntu tekjum. Vinnumálastofnun bárust engar skýringar frá kæranda og var mál hennar tekið fyrir hjá stofnuninni 22. júní 2012 og með bréfi, dags. 25. júní 2012, var henni tilkynnt að greiðslur til hennar væru stöðvaðar þar sem hún hefði ekki skilað umbeðnum upplýsingum um ótilkynntar tekjur.
Vinnumálastofnun barst 27. júní 2012 afrit af launaseðlum kæranda vegna mars, apríl og maí 2012 og tók stofnunin mál hennar upp í kjölfarið á fundi 29. júní 2012 en á þeim fundi var hin kærða ákvörðun tekin.
Vinnumálastofnun móttók skýringarbréf kæranda, dags. 18. júlí 2012, en á grundvelli þess var mál kæranda tekið fyrir að nýju hjá stofnuninni. Með bréfi Vinnumálstofnunar, dags. 26. júlí 2012, var kæranda tilkynnt að mál hennar hefði verið tekið fyrir að nýju hjá stofnuninni og fyrri ákvörðun hefði verið staðfest.
Kærandi greinir frá því í kæru að þegar Vinnumálastofnun hafi haft samband við hana hafi kærandi bent á að um væri að ræða uppgjör vegna vinnu sem hefði farið fram árinu áður vegna bókhalds. Kærandi hafi lagt fram blað frá vinnuveitanda þar sem fram komi að hún hafi ekki verið starfsmaður C eftir áramót heldur hafi verið um að ræða uppgjör frá fyrri tíma. Kærandi hafi svo komið síðar á eina vakt til að klára verkefnið og kenna starfsmanni á bókhaldið.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 29. ágúst 2012, vísar Vinnumálastofnun til þess að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Ákvörðun um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu þeirra sem tryggðir eru samkvæmt þeim lögum. Vinnumálastofnun bendir á að á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin fái réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sér í lagi þær upplýsingar sem geta ákvarðað rétt aðila til atvinnuleysistrygginga og í lögum um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði þar sem þessi skylda sé ítrekuð. Vinnumálastofnun vísar til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar, en atvinnuleitanda beri skylda til þess að upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunni að verða á högum hans, eða annað sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, svo sem um tilfallandi vinnu, hversu lengi vinnan standi yfir og tekjur fyrir umrædda vinnu.
Vinnumálastofnun bendir á að einnig sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Þar komi fram að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.
Vinnumálastofnun telur að af ákvæðunum sé ljóst að hinum tryggða beri að tilkynna fyrirfram um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun vísar til 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt sé fyrir um hvernig þessi tilkynning á tilfallandi vinnu skuli fara fram. Þar segi að tilkynna skuli til Vinnumálastofnunar um hina tilfallandi vinnu með að minnsta kosti eins dags fyrirvara. Heimilt sé þó að tilkynna um vinnuna samdægurs enda sé um tilvik að ræða sem sé þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki hafi verið unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skuli koma fram upplýsingar um hver vinnan sé, hvar hún fer fram og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu sé ætlað að vara. Af framangreindum lagaákvæðum megi ráða að ekki sé heimilt að tilkynna um tilfallandi vinnu eftir á enda sé ákvæðið ekki hugsað til þess að koma til móts við hlutastarf hins tryggða. Sé kærandi í föstu hlutastarfi beri honum að tilkynna það starf til stofnunarinnar. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar sé að finna greinargóðar leiðbeiningar um tilkynningu um vinnu og að auki sé farið ítarlega yfir þær reglur á svokölluðum kynningarfundum stofnunarinnar.
Í kjölfar samkeyrslu Vinnumálastofnunar við gagnagrunn ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur hjá kæranda vegna mars 2012. Kærandi hafi skilað í framhaldinu launaseðlum vegna tilfallandi vinnu hjá C (B) í mars, apríl og maí 2012.
Vinnumálastofnun bendir á að kærandi segi meðal annars í kæru að um hafi verið að ræða uppgjör frá síðasta ári og einnig að hún hefði verið beðin um að koma til vinnu til að klára verkefni hjá C og að kenna öðrum starfsmanni á bókhaldið hjá þeim. Í yfirlýsingu frá forstöðuþroskaþjálfa C sé staðfest að kærandi hafi ekki verið starfsmaður sambýlisins á árinu 2012 en hún hafði þó komið á því ári til að ljúka við verkefni og komið til að aðstoða við ákveðið verkefni, samtals hafi hún starfað í 43 stundir á árinu. Af launaseðlum kæranda sé það einnig ljóst að verið sé að greiða henni laun fyrir tímabilið 11. febrúar til 10. maí 2012. Vinnumálastofnun vekur athygli á því að þó að hluti af þeim greiðslum sem kærandi fékk frá B sé uppgjör vegna síðasta árs þá sé í því tilfelli um að ræða tekjur sem hún þáði á sama tíma og hún var að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Af þeim sökum hafi henni borið að tilkynna um þær til stofnunarinnar líkt og um aðrar tekjur sem hún fær vegna vinnu. Ljóst sé af gögnum málsins og þeim bréfum sem kærandi hafi skilað inn að hún starfaði hjá C á árinu 2012 og þáði tekjur þaðan án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar. Tilkynning sem berist eftir að samkeyrsla við ríkisskattstjóra hafi átt sér stað geti ekki talist sem tilkynning um tilfallandi vinnu í samræmi við 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar enda tekið fram í þeirri grein að tilkynna skuli um tilfallandi vinnu með að minnsta kosti eins dags fyrirvara eða samdægurs í vissum tilfellum.
Vinnumálastofnun bendir einnig á að í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að sá sem starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Feli ákvæðið í sér þau viðurlög að atvinnuleitandi á ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Ljóst sé að atvik í máli kæranda falli undir verknaðarlýsingu 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem biðtímaákvörðun hafi þegar verið tilkynnt kæranda og þar sem 60. gr. laganna feli í sér mun þyngri viðurlög fyrir kæranda telur Vinnumálastofnun að ekki standi efni til að breyta ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. september 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. september 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
Með bréfum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. nóvember 2012 og 12. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt um að mál hennar myndi tefjast sökum gríðarlegs málafjölda hjá nefndinni.
2.
Niðurstaða
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur síðast 20. febrúar 2012. Með bréfi, dags. 7. júní 2012, var kæranda gerð grein fyrir því að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur á kæranda vegna vinnu hjá B. Óskað var skriflegra upplýsinga um ótilkynntar tekjur. Stofnuninni bárust ekki skýringar frá kæranda og var sú ákvörðun tekin að stöðvar greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda um tveggja mánaða skeið, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur kærandi borið því við að um sé að ræða uppgjör vegna vinnu sem fram hefði farið í febrúar og mars árið áður. Hún hefði einungis komið í einn dag til að kenna starfsmanni á bókhaldið. Af fyrirliggjandi launaseðlum er ljóst að kærandi fékk greidd laun fyrir tímabilið 11. febrúar til 10. maí 2012 en frá 12. febrúar 2012 þáði kærandi jafnframt greiðslur atvinnuleysisbóta.
Þegar atvinnuleitandi sinnir tilfallandi vinnu, samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta, ber honum að upplýsa um slíkt fyrir fram, sbr. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Brjóti atvinnuleitandi á þessu ákvæði kann hann að sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. til dæmis úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 7. desember 2010 í máli nr. 80/2010. Sinni atvinnuleitandi hlutastarfi, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur, kann hann einnig að sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Viðurlög á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru mun meira íþyngjandi en þau sem getið er í 59. gr. laganna. Í ljósi þess að kærandi var í starfi, eftir að hún hóf töku atvinnuleysisbóta, og án þess að hún upplýsti fyrir fram um starfið, verður að leggja til grundvallar að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi fremur við í máli hennar en 59. gr. laganna. Leggja verður til grundvallar að hin kærða ákvörðun hafi verið reist á röngum lagagrundvelli, þ.e. beita átti fremur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í málinu en 59. gr. laganna. Þar sem viðurlög skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru afar íþyngjandi í garð atvinnuleitenda verður að veita þeim kost á að leita endurskoðunar á ákvörðun sem reist er á ákvæðinu. Af þessari ástæðu getur úrskurðarnefndin ekki afgreitt málið á þeim lagagrundvelli. Því verður hin kærða ákvörðun ómerkt og Vinnumálastofnun falið að taka málið til löglegrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá dags. 29. júní 2012 í máli Aum niðurfellingu bótaréttar hennar í tvo mánuði er ómerkt og málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.
Brynhildur Georgsdóttir,
formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir Helgi Áss Grétarsson