Hoppa yfir valmynd

Nr. 308/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 13. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 308/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050069

 

Beiðni […] og barna hennar um endurupptöku

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 56/2019, dags. 12. febrúar 2019, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 6. desember 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir einstaklings er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefnd kærandi) og barna hennar, […], fd. […], ríkisborgara Afganistan (hér eftir A) og […], fd. […], ríkisborgara Afganistan (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Úrskurður kærunefndar var birtur kæranda þann 18. febrúar 2019. Kærandi lagði fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 25. febrúar sl. og þann 22. mars sl. barst fyrri beiðni kæranda um endurupptöku málanna. Beiðnum kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og endurupptöku málanna var synjað af kærunefnd með úrskurðum nr. 162/2019 og 165/2019, dags. 4. apríl 2019.

Þann 31. maí sl. lagði kærandi öðru sinni fram beiðni um endurupptöku málanna. Með beiðninni lagði kærandi fram greinargerð og fylgigögn.

Kærandi krefst aðallega endurupptöku mála hennar og barna hennar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo og þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hér á landi. Þá leggur kærunefnd þann skilning í varakröfu kæranda að hún geri kröfu um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi og börn hennar byggja beiðni sína um endurupptöku á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem atvik hafi breyst verulega frá því að ákvarðanir hafi verið teknar í málum þeirra.

Í greinargerð kæranda kemur fram að sérfræðingi í klínískri barnasálfræði, með áfallasálfræði sem undirgrein (hér eftir Þ), hafi nýlega verið falið að gera sálfræðilegt mat á A, sem sé hjálagt. Sálfræðiprófin Beck‘s Youth Inventory (BYI) og UCLA-PTSD Reaction Index – útgáfa fyrir börn og unglinga, DSM-IV, hafi legið til grundvallar vottorðinu. Það sé mat Þ að A uppfylli greiningarskilmerki kvíða og miðlungs alvarlegrar geðlægðar. Þá telji Þ að öll óvissa sé til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á geðheilsu A og að fyrirhuguð brottvísun myndi valda A sálrænum skaða.

Þá hafi B leitað til sálfræðings í teymi umsækjenda um alþjóðlega vernd (hér eftir H) en í hjálögðu vottorði H komi fram að B hafi m.a. misst tvö ár úr skólagöngu vegna mismununar í heimaríki sínu. Það hafi því verið B til ólýsanlegra hagsbóta að fá að aðlagast vel í grunnskóla hér og mikið hafi áunnist í öruggu umhverfi hans hér á landi. Þá kemur fram að B sýni viss einkenni einhverfu sem e.t.v. sé þarft að greina nánar af fagaðilum. Hann sé mjög viðkvæmur fyrir öllum breytingum og varhugavert sé fyrir þroska hans að rífa hann úr þeim stuðningi sem hann nýtur hér á landi.

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að um sé að ræða atriði sem skipti miklu máli við úrlausn málanna og nauðsynlegt sé að skoða betur, m.t.t. þess að heilsu kæranda og barna hennar hafi hrakað verulega frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp. Heilsufar sé einn þeirra þátta sem stjórnvöldum beri að líta til við mat á því hvort aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd teljist sérstakar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og fara þurfi fram heildstætt mat á aðstæðum kæranda og barna hennar. Kærunefnd útlendingamála hafi lagt áherslu á að mat á því hvort heilsufar teljist til sérstakra ástæðna sé ekki bundið við skoðun á heilbrigðiskerfi viðtökuríkis heldur þurfi matið að fara fram á einstaklingsgrundvelli. Vísar kærandi í því sambandi m.a. til 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013, hér eftir Dyflinnarreglugerðin, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, lögskýringargagna að baki 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga, lögskýringargagna að baki breytingarlögunum og úrskurða kærunefndar í kjölfar gildistöku breytingarlaganna.

Kærandi byggir á því að hún og börn hennar séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, og þá beri stjórnvöldum að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi við ákvarðanatöku. Vísar kærandi í því sambandi til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, einkum 3. gr. hans, 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Þá kveður kærandi að það væri andstætt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum ef framlögð gögn frá Þ og H yrðu ekki könnuð frekar á þeim grundvelli að þau teldust of seint fram komin, enda ótækt að láta börnin gjalda þess. Hagsmunir fjölskyldunnar allrar og ekki síst barnanna krefjist þess að málin verði endurupptekin og skoðuð betur, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Að mati kæranda væri beinlínis ómannúðlegt að vísa börnum hennar úr landi við þær aðstæður sem séu uppi í málunum og í ljósi þeirrar aðlögunar sem hafi farið fram.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 12. febrúar 2019, var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsókna kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærunefnd mat fjölskylduna í heild í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá var ekki talið að kærandi eða börn hennar hefðu slík tengsl við landið eða að aðstæður þeirra væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Svo sem fram hefur komið lagði kærandi m.a. fram með endurupptökubeiðni sinni vottorð sálfræðings vegna A, dags. 30. maí 2019, og vottorð sálfræðings vegna B, dags. 26. apríl 2019. Í framlögðum gögnum kæranda kemur m.a. fram að A uppfylli greiningarskilmerki kvíða og miðlungs alvarlegrar geðlægðar, sem fyrr segir. Þá hafi B sýnt viss einkenni einhverfu, sem e.t.v. þurfi að greina nánar af fagaðilum, en hafi tekið framförum í félagsþroska hér á landi. Aðlögun hans í skóla hafi gengið vel og hér hafi hann eignast sinn fyrsta vin. Þá hafi hann stundað knattspyrnu og námskeið í Myndlistarskóla Reykjavíkur utan skólatíma.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 12. febrúar sl. og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málunum, einkum m.t.t. andlegs heilsufars barna kæranda og tengsla þeirra við landið. Í úrskurði kærunefndar útlendingamála í málum A og B, sem endurupptökubeiðni kæranda lýtur að, var á því byggt af hálfu nefndarinnar að A væri almennt við góða andlega heilsu en að B þyrfti stuðning í skóla og hafi notið sálfræðiaðstoðar og fjölskyldu- og námsstuðnings. Þá væri hann lokaður, feiminn, félagsfælinn og dapur vegna hvarfs föður síns. Í málum barna kæranda var þá lagt til grundvallar að þau gætu aflað sér endurgjaldslausrar grunnheilbrigðisþjónustu í Grikklandi. Við uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar lá jafnframt fyrir að A og B stunduðu nám í grunnskólum hér á landi. Þá var byggt á því við úrlausn málanna að eiginmaður kæranda og faðir barnanna nyti alþjóðlegrar verndar í Grikklandi og að hún hafi kveðið í viðtali hjá Útlendingastofnun að hún hefði engin tengsl við Ísland.

Að mati kærunefndar felur vottorð um B í sér ítarlegri upplýsingar um aðstæður hans sem eru þó ekki þess eðlis að litið verði svo á að fyrri úrskurður kærunefndar í málinu hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að um sé að ræða verulega breyttar aðstæður frá því úrskurðurinn var kveðinn upp.

Þó að í úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 12. febrúar 2019 hafi verið byggt á því að A væri við góða andlega heilsu kemur jafnframt fram í úrskurðinum að nefndin hafi kynnt sér gögn um aðstæður í Grikklandi og að af þeim verði ráðið að kærandi og börn hennar eigi rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, þ. á m. nauðsynlegum lyfjum. Í ljósi þeirra upplýsinga var það niðurstaða nefndarinnar að hún hefði ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að kærandi og börn hennar geti fengið viðhlítandi aðstoð í Grikklandi vegna heilsufarsvandamála sinna. Þótt vottorð sálfræðings gefi til kynna að andleg heilsa A sé verri en gögn sem lágu fyrir við uppkvaðningu úrskurðar nefndarinnar bentu til hefur mat nefndarinnar á aðstæðum í Grikklandi og möguleikum kæranda og börnum hennar á að fá viðeigandi aðstoð ekki breyst. Því er það niðurstaða nefndarinnar að aðstæður í málinu séu ekki verulega breyttar að þessu leyti.

Í ljósi ofangreinds telur kærunefnd að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kæranda og barna hennar, sem þau bera fyrir sig í málum þessum, í úrskurði kærunefndar frá 12. febrúar 2019. Þá ítrekar kærunefnd það sem fram kom í áðurgreindum úrskurði nefndarinnar þess efnis að kærandi og börn hennar, sem handhafar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi, eiga rétt á sambærilegri félagslegri aðstoð og grískir ríkisborgarar. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og fyrirliggjandi gagna, þ.m.t. framlagðra gagna kæranda, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur eigi ekki rétt á því að málið sé tekið til meðferðar að nýju enda hafi úrskurður í málinu hvorki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik né hafi atvik málanna breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda og barna hennar um endurupptöku málanna er því hafnað.

Vegna umfjöllunar í beiðni um endurupptöku telur kærunefnd útlendingamála rétt að árétta sérstaklega að ákvörðun í máli kærenda er ekki byggð á Dyflinnarreglugerðinni þar sem þeim hefur verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi.

Með beiðni um endurupptöku gerði kærandi jafnframt kröfu um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útlendingamála á meðan málið sé til meðferðar hjá dómstólum. Kærunefnd útlendingamála hefur þegar tekið afstöðu til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 165/2019 frá 4. apríl 2019, þar sem beiðninni var synjað. Með vísan til úrskurðarins og gagna málsins að öðru leyti telur nefndin ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna meðferðar máls kærenda fyrir dómstólum.

Samantekt

Kröfu kæranda og barna hennar um endurupptöku málanna er hafnað. Kröfu kæranda og barna hennar um frestun framkvæmdar endanlegra ákvarðana er jafnframt hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda og barna hennar um endurupptöku er hafnað.

 

 

The request of the appellant and her children to re-examine their cases is denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

               

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta