Mál nr. 61/2002
Mál nr. 61/2002
Þriðjudaginn, 11. febrúar 2003
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.
Þann 20. september 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 20. september 2002.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu á fæðingarorlofi umfram þá tvo mánuði sem hún hafði áður fengið samþykkta.
Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 11. september 2002, var kæranda tilkynnt um synjun á frekari framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Í kærubréfi er lýst langvarandi veikindum kæranda í tengslum við fæðingu barns hennar þann 23. janúar 2002 og endurteknum aðgerðum og innlögnum á sjúkrahús sem af þeim leiddu. Fram kemur að þegar kæran er rituð þann 20. september 2002 er kærandi enn í reglulegu eftirliti á kvennadeild.
Með bréfi, dags. 23. september 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 16. október 2002. Í greinargerðinni segir:
„Kærð er synjun á að lengja framlengingu vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu úr tveimur mánuðum í a.m.k. þrjá mánuði.
Með læknisvottorði dags. 2. mars 2002 var sótt um framlengingu á fæðingarorlofi kæranda vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu. Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 14. mars var henni tilkynnt um samþykkt og afgreiðslu á 30 daga framlengingu.
Í læknisvottorði dags. 11. mars var gerð grein fyrir áframhaldandi veikindum hennar og var með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 11. apríl henni tilkynnt um samþykkt og afgreiðslu á 30 daga framlengingu til viðbótar áður samþykktri 30 daga framlengingu. Samtals var þá búið að samþykkja 60 daga/tveggja mánaða framlengingu sem er hámarksframlenging samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000.
Þann 9. september barst bréf dags. 9. júlí þar sem veikindasögu kæranda var lýst auk þess sem mælt var eindregið með því að hún fengi fæðingarorlof lengt um a.m.k. 3 mánuði. Með bréfi læknasviðs TR dags. 11. september var því synjað á þeim grundvelli að hún ætti úrskurð í gildi dags. 5. apríl 2002 (sem tilkynnt hafði verið um samþykkt og afgreiðslu á með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 11. apríl) og nýtt vottorð gæfi ekki tilefni til breytinga. Í athugasemdum kom síðan fram að þegar hefði verið samþykkt framlenging í hámark vegna veikinda efir fæðingu.
Þannig hefur verið samþykkt og afgreidd hámarksframlenging á greiðslum vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu og liggur því ljóst fyrir að heimild til frekari framlengingar er ekki fyrir hendi.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 22. október 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu á fæðingarorlofi umfram þá tvo mánuði sem hún hafði áður fengið samþykkta.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), er heimilt að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, sbr. og 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Kærandi ól barn 23. janúar 2002. Viðurkennt er að kærandi hafi vegna veikinda í tengslum við fæðinguna átt rétt á framlengingu fæðingarorlofs.
Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. apríl 2002, var samþykkt að framlengja fæðingarorlof kæranda vegna veikinda eftir fæðingu. Um var að ræða staðfestingu á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í einn mánuð, en áður hafði kærandi á sömu forsendum fengið greiddan mánuð vegna framlengingar á fæðingarorlofi.
Í 3. mgr. 17. gr. ffl. er heimild til að framlengja fæðingarorlof í tilvikum sem þessu um tvo mánuði. Lögin heimila ekki frekari framlengingu.
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um frekari framlengingu er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um frekari framlengingu á fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Gylfi Kristinsson
Jóhanna Jónasdóttir