Mál nr. 74/2002
Mál nr. 74/2002
Þriðjudaginn, 15. apríl 2003
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl. Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.
Þann 22. nóvember 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 21. nóvember 2002 undirrituð af B. Með bréfi dags. 17. desember 2002 barst veitti kærandi B umboð til að sjá um kærumálið.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 28. ágúst 2002 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:
„A er neitað um fæðingaorlof þar sem hann hafi ekki verið í launaðri vinnu á tímabilinu 19. apríl til 22. maí árið 2002.
Fyrir 19. apríl vann A m.a. hjá D á skipinu E sem gert er út frá F. A og sambýliskona hans leigðu íbúð og héldu heimili í G, þar sem hún er við nám í H. Sambýliskonan er á samningi við stofu í sinni iðngrein á I, sem er hennar heimabær. Vegna væntanlegrar barnsfæðingar hjá þeim síðastliðið sumar, réðust þau í flutning austur á I frá G. Íbúð þá er þau leigðu í G þurftu þau að vera búin að losa 15. maí, koma dótinu sínu í gám og senda á I. A var ekki í launaðri vinnu á tímabilinu vegna flutnings á milli landshluta og þar sem sambýliskonan var í prófum í maí. Mjög fljótlega eftir flutninginn á I, var A búin að ráða sig í vinnu.
Óskað er eftir fullu fæðingarorlofi, fyrir A, og að þær aðstæður sem sköpuðust við flutning á milli landshluta hafi ekki áhrif á rétt hans til fæðingaorlofs.“
Með bréfi, dags. 19. desember 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 17. febrúar 2003. Í greinargerðinni segir:
„Með umsókn dagsettri 8. júlí 2002 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði tímabilin 2. september – 2. október 2002 og 16. júní – 11. ágúst 2003 vegna væntanlegrar fæðingar barns 29. ágúst. Með umsókninni fylgdi tilkynning um fæðingarorlof þar sem fram kom að hann hefði verið í 100% starfi síðustu þrjá mánuðina fyrir upphafsdag fæðingarorlofs / áætlaðan fæðingardag barns. Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK fékk hann fyrst greidd laun frá J ehf. í maí 2002 en hafði fengið greitt laun frá D í apríl og þess utan einnig verið með laun fram að því.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 13. ágúst 2002 var óskað eftir afriti af launaseðlum hans annars vegar fyrir apríl 2002 frá D og hins vegar frá J ehf. fyrir maí 2002. Einnig var óskað eftir starfslokavottorði frá D og staðfestingu frá J ehf. um hvenær hann hóf störf hjá þeim.
Samkvæmt staðfestingu frá D dags. 16. ágúst 2002 sem bárust á faxi 27. ágúst var hann ráðinn tímabundið á skipinu E tímabilið 26. mars – 18. apríl 2002. Með fylgdu launaseðlar fyrir tímabilin 25. mars - 2. apríl (9daga), 3. - 9. apríl (7daga) og 10. - 18. apríl (9daga). Samkvæmt staðfestingu frá 2. apríl (9 daga), 3. – 9 apríl (7 daga) og 10. - 18. apríl (9 daga). Samkvæmt staðfestingu frá J ehf. dags. 19. ágúst 2002 sem barst 26. ágúst hóf hann störf þar 22. maí 2002 og hafði verið í starfi þar síðan með smáhléum þó. Á launaseðli þaðan kom fram að hann hefði unnið samtals 33 tíma þar í maímánuði.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 28. ágúst 2002 var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann uppfyllti ekki það skilyrði 1. mgr. 13. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns). Af gögnum sem hann hefði lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sjáist að hann hefði ekki verið á vinnumarkaði frá 18. apríl -22. maí.
3. september 2002 barst á faxi önnur staðfesting frá D þar sem auk þeirra upplýsinga sem komið höfðu fram í fyrri staðfestingunni kom fram að kærandi hefði verið ráðinn í þrjár ferðir og að ekki væri óeðlilegt að áætla að hann hefði tekið frítúr í framhaldi af því ef um frekari ráðningu hefði verið að ræða. Engin föst regla væri um frítöku sjómanna en algengt væri að unnir séu tveir til þrír túrar á móti einum frítúr.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs sama dag var synjað að breyta fyrri afgreiðslu á grundvelli viðbótargagna, þ.e. þessarar viðbótarstaðfestingar frá D.
Samkvæmt staðfestingunum frá D og launaseðlum þaðan var kærandi ráðinn þar í þrjár ferðir sem voru ýmist 7 eða 9 daga að lengd og hann vann þar í samtals 25 daga. Þann tíma sem leið frá því hann lauk störfum þar 18. apríl og fram til þess að hann hóf störf að nýju 22. maí 2002, þ.e. 33 daga, er ekki hægt að líta á sem frítúr eins og kemur fram í seinni staðfestingu D að ekki væri óeðlilegt að áætlað að hann hefði tekið í framhaldi af þeim þremur veiðiferðum sem hann þar sem sá tími er lengri en sá tími sem ráðningin stóð yfir. Þá er ekki í ffl. eða reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 að finna heimild til þess að taka tillit til þess við mat á því hvort um samfellt starf hafi að ræða að hann hafi á tímabilinu verið að flytja milli landshluta og að sambýliskona hans hafi verið í prófum.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. febrúar 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 27. mars 2003 þar sem kærandi ítrekar fyrri athugasemdir sínar.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.
Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Foreldri öðlast rétt skv. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að til samfellds starfs teljist enn fremur:
„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,
c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“
Barn kæranda fæddist 10. september 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er samkvæmt því frá 10. mars 2002 fram að fæðingardegi barnsins. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki það skilyrði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hann var ekki á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi í maí 2002 né ávann hann sér rétt á annan hátt, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Gylfi Kristinsson
Jóhanna Jónasdóttir