Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 56/2002

Mál nr. 56/2002

Þriðjudaginn, 11. febrúar 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 4. september 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 1. september 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um lengingu fæðingarorlofs vegna andvanafæðingar.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 13. júní 2002, var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

  1. „Öll meðganga var mjög erfið, sérstaklega eftir að annað barnið lést og var undirrituð m.a. sett af stað eftir 37 vikur þar sem ekki var talin ástæða til að draga meðgönguna frekar á langinn, sökum áhættu fyrir það fóstur sem heilbrigt var.
  2. Ekki er hægt að leggja að jöfnu meðgöngu og fæðingu þegar um heilbrigt fætt eða heilbrigða meðgöngu er að ræða og slíkt tilvik sem hér greinir þar sem að foreldrar þurfa að byrja á því að jarða annað barnið og með því fylgir sorgin og erfiðleikar sem gera fyrstu dagana eftir fæðingu mjög erfiða. Að sama skapi er ekki hægt að bera saman tilvik það sem annar tvíburi andast á fyrstu vikum meðgöngu (eins og oftast er í slíkum tilfellum) og tilvik eins og hér er um að ræða þar sem ¾ hlutar meðgöngunnar eru að baki.
  3. Miklir erfiðleikar voru í meðgöngunni eftir að annar tvíburinn andaðist, sem höfðu í för með sér að mikið eftirlit var haft með móðurinni, meðal annars vegna sýkingarhættu sökum blóðtengsla við látna fóstrið.
  4. Ekkert í lögunum kveður á um grein nr. 12 gildi ekki þegar um fjölburafæðingu er að ræða og því er hér um tvö aðskild dæmi þ.e. andvana fætt og lifandi fætt barn.
  5. Ákaflega erfitt er fyrir vinnuveitendur að skipuleggja sig varðandi afleysingar og slíkt þegar að tilvik sem þetta er að ræða. Fyrst er um 9 mánaða orlof að ræða en þegar búið er að ráða fyrir viðkomandi þá gerist ofangreint og orlofið styttist í 6 mánuði. Slíkir hlutir eiga ekki að vera á gráu svæði eftir ákveðinn tíma þ.e. 22 vikur eins og greinir á í lögunum.“

Með bréfi, dags. 6. september 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 14. nóvember 2002. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á umsókn um að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar lifandi barns skv. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) lengdust um þrjá mánuði vegna andvana fæðingar skv. 12. gr. ffl. þannig að um greiðslur yrði að ræða í 9 mánuði.

Kærandi sótti í maí 2002 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með ódagsettri umsókn þar sem óskað var eftir greiðslum í 9 mánuði. Með umsókninni fylgdu staðfesting á væntanlegri fæðingu 2. júlí, tilkynning um töku fæðingarorlofs tímabilið 2. júlí 2002 – 2. apríl 2003, læknisvottorð til atvinnurekanda vegna fjarvista og læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs skv. lögum nr. 97/2002 vegna sjúkdóms móður.

Í læknisvottorði vegna lengingar fæðingarorlofs var gerð grein fyrir því undir lýsingu á sjúkdómi móður í meðgöngu að fósturdauði tvíbura B hefði komið í ljós við ómun 29. apríl 2002. Þetta hefði í för með sér andlegt álag og að hún þurfi eftirlit vegna þessa m.a. vegna hættu á fylgikvillum og hætti því vinnu. Ekki fylgdi með staðfesting frá vinnuveitanda um að hún hefði lagt niður störf vegna veikinda á meðgöngu heldur var greint frá því að verið væri að sækja um það að greiðslur vegna fæðingar lifandi barns lengdust um 3 mánuði vegna andvana fæðingar þess barns sem væri látið.

Með bréfi lífeyristryggingasvið dags. 13. júní var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 9 mánuði á grundvelli þess að í lögunum sé ekki kveðið á um að greiðslur vegna lifandi og andvana fæðingar geti farið saman og til samanburðar var vísað til þess að skilyrði fyrir framlengingu vegna fjölburafæðingar að tvö eða fleiri börn fæðist á lífi hafi á sínum tíma einmitt verið sett með það í huga að réttur á 3ja mánaða framlengingu fyrir hvert barn umfram eitt væri ekki fyrir hendi ef fjölburar fæddust ekki allir á lífi.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 19. nóvember 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á lengingu fæðingarorlofs vegna andvana fæðingar.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofs.

Samkvæmt 16. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt. Í 6. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að skilyrði fyrir framangreindri framlengingu vegna fjölburafæðinga sé að börnin fæðist á lífi.

Samkvæmt 12. gr. ffl. skulu foreldrar eiga sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu.

Til skýringar á því hvað telst vera sameiginlegur réttur til fæðingarorlofs er rétt að líta til 1. mgr. 8. gr. ffl. Þar segir að réttur foreldra til töku fæðingarorlofs er annars vegar sjálfstæður fyrir hvort um sig og hins vegar sameiginlegur. Annað foreldrið getur þannig tekið orlofið í heild eða þeir skipt því á milli sín.

Kærandi gekk með tvíbura en annar þeirra lést á 31. viku eða eftir sjö mánaða meðgöngu og var fæddur andvana þann 13. júní 2002.

Samkvæmt framangreindri 16. gr. ffl., sbr. og 6. gr. reglugerðarinnar nr. 909/2000, byggist sameiginlegur réttur foreldra til þriggja mánaða framlengingar vegna tvíburafæðingar á því að börn fæðist lifandi. Sú framlenging kemur því ekki til álita í máli þessu. Kærandi ól andvana barn ásamt því að fæða lifandi barn á sama tíma. Með hliðsjón af því verður að líta svo á að kærandi eigi rétt skv. 12. gr. ffl. á fæðingarorlofi í þrjá mánuði vegna andvanafæðingar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um lengingu fæðingarorlofs vegna andvanafæðingar er hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um lengingu fæðingarorlofs vegna andvanafæðingar er hafnað. Kærandi á rétt á fæðingarorlof í þrjá mánuði vegna andvanafæðingar.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta