Nr. 421/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 9. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 421/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21060051
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 22. júní 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júní 2021, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi, aðallega á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og til vara á grundvelli 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga.
Þann 26. júlí 2021 bárust kærunefnd viðbótarathugsemdir kæranda þar sem hann krefst þess að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 25. júlí 2020. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 1. ágúst 2020, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi og að kærandi hafi hlotið alþjóðlega vernd þar í landi þann 25. október 2019. Við umsókn framvísaði kærandi dvalarleyfisskírteini útgefnu af grískum yfirvöldum með gildistíma frá 3. nóvember 2019 til 2. nóvember 2022 og flóttamannavegabréfi gefnu út af grískum stjórnvöldum með gildistíma til 2. júlí 2023. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 14. september 2020, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 3. desember 2020 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Kærandi kærði ákvörðunina þann 29. desember 2020 til kærunefndar útlendingamála. Þann 4. mars 2021 var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 11. maí 2021. Með ákvörðun, dags. 2. júní 2021, synjaði Útlendingastofnun öðru sinni að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 8. júní 2021. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar þann 22. júní 2021. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 1. júlí. Þá bárust viðbótargögn dagana 6. og 19. júlí 2021 auk viðbótarathugasemda þann 26. júlí 2021.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Grikklands.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til endurrits viðtala hans hjá Útlendingastofnun, greinargerða sem liggja fyrir málinu og viðbótarathugasemda til Útlendingastofnunar er varðar málavexti. Þá vísar kærandi til greinargerðar sinnar til kærunefndar útlendingamála, dags. 11. janúar 2021, er varðar málsástæður. Þar hafi kærandi byggt á því að taka skuli umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á Íslandi vegna sérstakra ástæðna hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi lýst aðstæðum sínum í Grikklandi en hann hafi ekki haft aðgang að húsnæði, framfærslu, heilbrigðisþjónustu og atvinnumarkaði auk þess að þurfa að þola fordóma og ofbeldi. Þessu til stuðnings hafi kærandi fjallað um aðstæður einstaklinga sem hafi hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi og fært fram rök fyrir því að staða hans yrði mun verri en staða almennings þar í landi. Þá hafi kærandi byggt á því að hann njóti verndar 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga sem mæli fyrir um grundvallarregluna um bann við endursendingum (non-refoulement) og að íslenskum stjórnvöldum beri skylda til þess að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga. Þá ítrekar kærandi framangreindar kröfur í greinargerð sinni til kærunefndar þann 1. júlí 2021.
Í greinargerð kæranda, dags. 1. júlí 2021, gerir hann tilteknar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Að mati kæranda séu annmarkar á rannsókn Útlendingastofnunar er varðar mat á afleiðingum þess að kærandi fái ekki viðeigandi eftirfylgni og frekari meðferð við sjúkdómi sínum auk annmarka er varðar þær skýrslur og heimildir sem lagðar hafi verið til grundvallar ákvörðuninni. Þá gerir kærandi athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar á frásögn kæranda af aðstæðum í Grikklandi, s.s. varðandi aðgengi kæranda að aðstoð grískra yfirvalda og heilbrigðisþjónustu. Með hliðsjón af framangreindu telji kærandi að annmarkar hafi verið á rannsókn og mati Útlendingastofnunar á því hvort sérstakar aðstæður séu uppi í máli hans og að stofnunin hafi ekki fullnægt skyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.
Þann 26. júlí 2021 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir kæranda þar sem fram kemur að kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 25. júlí 2020. Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga komi fram að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda skuli taka umsókn hans til efnismeðferðar. Kærandi hafi verið hér á landi í meira en 12 mánuði og mál hans sé enn til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Að mati kæranda verði ekki séð að hann beri ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknarinnar. Kærandi telji að öll lagaskilyrði séu uppfyllt er varðar kröfu hans um að mál hans verði sent til efnismeðferðar hjá Útlendingastofnun og vísar til úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU18010032 frá 6. febrúar 2018 í því samhengi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður samkvæmt 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá telur kærunefnd að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.
Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.
Líkt og áður hefur komið fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 25. júlí 2020 og voru þann 25. júlí 2021 liðnir 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum án þess að hann hefði fengið endanlega niðurstöðu frá stjórnvöldum í máli sínu, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Þann 16. ágúst 2021 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsókna kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar Útlendingastofnunar barst kærunefnd þann 17. ágúst 2021. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki tafið mál sitt að nokkru leyti.
Af framangreindum upplýsingum frá Útlendingastofnun má því ráða að þær tafir sem hafi orðið á málinu hafi ekki verið af völdum kæranda. Að auki hefur kærunefnd farið yfir málsmeðferð í máli hans og er að mati kærunefndar ekkert sem bendir til þess að hann verði talinn bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknar sinnar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 25. júlí 2020, er það niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi niðurstöðu kærunefndar er ekki tilefni til að taka aðrar málsástæður kæranda til umfjöllunar í máli þessu.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.
Tómas Hrafn Sveinsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Sandra Hlíf Ocares