Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 74/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 74/2022

Miðvikudaginn 9. mars 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 30. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. október 2021 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 25. ágúst 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. október 2021, var umsókn kæranda synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. ágúst 2021 til 31. júlí 2023. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 12. nóvember 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. janúar 2022. Með bréfi, dags. 1. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2022, barst greinargerð frá stofnuninni og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi andmæli því að hafa einungis fengið metna 50% örorku þar sem hún sé með öllu óvinnufær. Kærandi sé með mikinn kvíða og félagsfælni sem aftri henni bæði frá því að sækja vinnu, sinna daglegum hlutum eins og að fara í búð eða á mannamót. Auk þess sé hún með mikið þunglyndi og finnist oft eins og hún sé með geðhvarfasýki. Þetta allt bitni á nætursvefninum. Kærandi hafi verið hjá VIRK frá 2017 til 2019 og hafi svo farið að vinna en hafi flosnað úr henni þar sem vinnan hafi verið of erfið. Í haust hafi kærandi hitt lækni hjá VIRK sem hafi ráðlagt henni að fara á örorku þar sem hún væri ekki tilbúin að fara í VIRK vegna líðanar sinnar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um örorkulífeyri með vísan til þess að skilyrði örorkumatsstaðals hafi ekki verið uppfyllt. Örorkustyrkur hafi hins vegar verið ákveðinn.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Tryggingastofnun krefjist staðfestingar á hinni kærðu ákvörðun.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett sé með skýrri lagastoð. Staðlinum sé skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum sé fjallað um líkamlega færni og þurfi að fá 15 stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lúti að andlegri færni. Þar leggist öll stig saman og þurfi tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins geti hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Tryggingastofnun sé bundin af staðlinum eins og hann hafi verið ákveðinn. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar til langframa. Mat á skilyrðum örorkustyrks sé því framkvæmt sem mat á starfsorkuskerðingu, þ.e. getu til að afla atvinnutekna.

Við afgreiðslu málsins hafi legið fyrir spurningalisti, dags. 31. ágúst 2021, skoðunarskýrsla, dags. 20. október 2021, starfsgetumat, dags. 18. ágúst 2021, læknisvottorð, dags. 25. ágúst 2021, og umsókn, dags. 25. ágúst 2021.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. október 2021, hafi umsókn kæranda verið synjað með vísan til þess að skilyrði örorkumatsstaðals hafi ekki verið uppfyllt. Örorkustyrkur hafi hins vegar verið ákveðinn fyrir tímabilið 1. ágúst 2021 til 31. júlí 2023.

Rökstuðningur hafi verið veittur með bréfi, dags. 12. nóvember 2021. Þar komi fram að kærandi hafi ekki fengið stig í mati á líkamlegri færniskerðingu en fengið sex stig í mati á andlegri færniskerðingu. Það nægi ekki til að uppfylla skilyrði örorkustaðals um hæsta örorkustig. Örorkustyrkur hafi hins vegar verið ákveðinn á grundvelli 50% örorku.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi kærandi tæmt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Skilyrði greiðslna endurhæfingarlífeyris hafi síðast verið uppfyllt á tímabilinu 1. maí 2021 til 31. júlí 2021.

Til grundvallar örorkumati hafi legið skýrsla álitslæknis, dags. 19. október 2021, læknisvottorð, dags. 25. ágúst 2021, og önnur gögn, sbr. bréf Tryggingastofnunar, dags. 21. október 2021.

Vegna framkominnar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi Tryggingastofnun farið á ný yfir gögn málsins.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því sem fram kemur í skoðunarskýrslu.

Í fyrri hluta skýrslu álitslæknis, er varði mat á líkamlegri færniskerðingu, komi ekki fram nein þau atriði sem gefi tilefni til stigagjafar samkvæmt örorkustaðli. Sú niðurstaða sé studd upplýsingum í læknisvottorði, dags. 25. ágúst 2021, spurningalista vegna færniskerðingar sem hafi verið lagður fram með umsókn um örorkulífeyri, dags. 25. ágúst 2021, og læknisskoðun hjá álitslækni.

Í mati á andlegri færniskerðingu komi fram að kærandi hafi fengið tvö stig fyrir að geðræn vandamál valdi henni erfiðleikum í tjáskiptum við aðra, kærandi hafi fengið eitt stig fyrir að kjósa að vera ein sex tíma á dag eða lengur, kærandi hafi fengið tvö stig fyrir að andlegt álag (streita) hafi átt þátt í að hún hafi lagt niður starf og eitt stig fyrir að hún kvíði því að sjúkleiki hennar versni, fari hún aftur að vinna. Samtals hafi kærandi fengið sex stig samkvæmt örorkumatsstaðli.

Framangreindur stigafjöldi nægi ekki til að uppfylla skilyrði staðals um hæsta örorkustig, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar og reglugerð um örorkumat. Örorkustyrkur hafi hins vegar verið ákveðinn með gildistíma frá 1. ágúst 2021 til 31. júlí 2023.

Að öllu samanlögðu hafi fyrirliggjandi gögn, sem hafi legið fyrir þegar kærð ákvörðun hafi verið tekin, ekki gefið tilefni til að ætla að kærandi uppfylli skilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar um að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar, sbr. einnig skilyrði örorkustaðals samkvæmt reglugerð um örorkumat.

Með vísan til framangreinds sé það því niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri, en ákveða þess í stað örorkustyrk, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn, byggð á faglegum sjónarmiðum og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. október 2021, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 25. ágúst 2021. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„[Þunglyndi

Mixed anxiety and depressive disorder

Kvíði

Átröskun

Félagsfælni]“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„X ára gömul kona sem hefur verið að kljást við félagsfælni og verið feimin frá unga aldri. Um X ára gömul fékk hún átröskun og fékk kvíðaröskun. Kláraði ekki grunnskólann (fór ekki í 10. bekk) útaf einkennum kvíða og þunglyndis.

Eftir að hafa farið í […] hafði átröskun svo byrjað aftur.

Átröskun hennar lýsir sér sem svelti yfir daginn en stundum mikið ofát án þess þó að kasta upp. Vegna kvíða þá finnst henni erfitt að fara út úr húsi jafnvel erfitt að fara út með ruslið. Lýsir depurð og er með svefnvandamál.

Jafnframt á hún til að sofa mikið og lýsir áhugaleysi. Mikil vanlíðan á daginn. Hefur fengið sjálfsvígshugsanir en aldrei nein plön. Hefur síðast verið með sjálfsvígshugsanir í síðustu vikur að sögn. Almennt er hún ekki í miklum fjárhagsörðugleikum en er það í þessum mánuði þar sem sambýlismaður hennar hefur ekki farið í vinnu í X en mun snúa aftur […] í næsta mánuði og verður fjárhagslega staðan aðeins betri þá.

A hefur verið lögð í einelti mest öll grunnskólaár. Hún lýsir svo ákveðnu atviki sem hafði gerst á þessum árum sem hafði ýtt undir hennar kvíðaeinkenni enn frekar. Hún vill helst ekki tjá sig um það mál.

Hún hafði reynt að fara menntaksóla en gafst upp eftir X daga.

Útskrifaðist úr menntastoðum

Hefur áður prófað sertral, esopram og venlafaxin og er nú á fluoxetin

Félagssaga: Hún á stelpu sem er X ára gömul og býr með sambýlismanni

Ekki saga um lyfjamisnotkun drekkur ekki daglega en viðurkennir að hún missir stjórn á sér þegar hún drekkur áfengi og drekkur þá óhóflega mikið.

ekki saga um fíkniefnaneyslu

Hefur áður farið á HAM námskeið en sinnti því ekk inægilega vel.

Hefur verið hjá virk til 2019 og fór síðan að vinna hjá C en hætti. Ekki frekari endurhæfing eftir það og er í raun enn á svipuðum stað og áður.“

Í lýsingu á læknisskoðun segir:

„Útlit samrýmist aldri, snyrtilega tilhöfð.

Talþrýstingur lækkaður, talar í samhengi og heldur þræði. Affect flatur og geðbrigði samkvæmt því. Geðrofseinkenni koma ekki fram í viðtali.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær að hluta frá 1. september 2020 og að búast megi við að færni aukist með tímanum, eftir læknismeðferð og/eða endurhæfingu. Í frekara áliti á vinnufærni kæranda segir í vottorðinu:

„Viðkomandi þarf á frekari meðferð að halda á vegum heilbrigðiskerfisins áður en raunhæft sé fyrir hana að hefja starfsendurhæfingu. Andleg veikindi of mikil svo hún geti starfað á almennum vinnumarkaði.“

Í starfsendurhæfingarmati VIRK, dags. 18. ágúst 2021, kemur fram að andlegir þættir hafi mikil áhrif á færni kæranda og er þar vísað til mikils kvíða, að vera í kringum fólk, mæta eitthvert, hún sé döpur og líði sjaldnast vel. Auk þess er vísað til þess að kærandi sé með virk átröskunareinkenni, hún svelti sig og fái átköst. Í samantekt og áliti segir:

„X ára gömul kona með stopula vinnusögu að baki. Útkrifaðist frá Virk árið 2019 eftir 36 mánaða endurhæfingartímabil, m.a. hjá Samvinnu. Vann í C í rúmt ár en reyndist henni erfitt og hætti í september 2020. Alltaf átt erfitt með samskipti, talaði lítið á grunnskólaárum og var mjög feimin.

Eineltissaga og fór ekki í 10 bekk, var í sjúkrakennslu en tók prófin. Lenti einnig í öðru áfalli í grunnskóla.

Löng saga um kvíða- og þunglyndiseinkenni. Átröskunareinkenni komu fram á unglingsárum.

Áframhaldandi einkenni verið til staðar, kvíði að vera kringum fólk, mæta einhvert og er döpur og líður sjaldnast vel. Einnig með virk átröskunareinkenni, að svelta sig og fær átköst. Ekki verið í sálfræðiviðtölum nýlega en lyfjameðferð fyrir hendi.

Mat undirritaðs að þessi kona sé langt frá vinnumarkaði og frekari uppvinnslu innan geðheilbrigðiskerfisins sé þörf. Samanber ofan, auk kvíða og þunglyndis með virk átröskunareinkenni.

Mæli með tilvísun á göngudeild geðsviðs LSH með Hvítabandið í huga. Starfsendurhæfing því ekki raunhæf á þessum tímapunkti.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að um sé að ræða andleg veikindi. Kærandi svarar öllum spurningum varðandi líkamlega færniskerðingu neitandi. Kærandi svarar játandi spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða og vísar þar til átröskunar, kvíða, þunglyndis og félagsfælni.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 19. október 2021. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir það svo að kærandi væri ekki með líkamlega færniskerðingu. Skoðunarlæknir metur það svo að geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kjósi að vera ein sex tíma á dag eða lengur. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni, fari hún aftur að vinna. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Er 168 sm og 68 kg. Göngulag eðlilegt. Situr eðlilega í viðtalinu. Stendur upp án þess að styðja sig við. Getur staðið á tám og hælum og sest niður á hækjur sér. Hreyfingar í hálsi og baki eru eðlilegar og sársaukalausar. Lyftir báðum örmum beint upp. Tekur 2kg lóð á borði með sitt hvorri hendi. Sækir blað á gólf. Getur staðið upp á pall með vinstri og hægri fót til skiptis nokkrum sinnum. Stendur þrisvar upp af armlausum stól án þess að styðja sig við.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Saga um félagskvíði og þunglyndi, almennur kvíði. Átröskun á tímabili, ekki verið greind með þennan sjúkdóm, var milli 50-60 kg. Tekur Fluoxetín, virkar vel, var á venlafaxín.“

Atferli kæranda í viðtali er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Klæðaburður og og persónuhirða í góðu lagi. Ekki merki um depurð né kvíða.Kurteis og svarar spurningum greiðlega. Gott minni og einbeiting. Heldur athygli. Lýsir daglegri virkni, ekki áráttuhegðun né þráhyggja. Eðlilegt sjálfsmat og álagsþol.“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„Vaknar um kl. 7. Kemur barninu í skóla. Vaknar úthvíld. Fer út suma daga, oft heilu dagana innivið. Notar spinninghjól heima. Engin önnur hreyfing. Keyrir bíl. Hefur alltaf eitthvað fyrir stafni. Er með X hunda sem hún fer út með. Engin handavinna, horfir á sjónvarp, hlustar á tónlist, les á netinu. Helstu áhugamál: lestur og spinning og tölvuleikir. Sinnir öllum heimilisstörfum sjálf. Fer í sturtu og skiptir um föt. Fer lítið að hitta fólk, á ættingja á E sem hún hittir.“

Í athugasemdum í skoðunarskýrslu segir:

„Ung kona með geðrænar raskanir sem ekki hafa valdið neinni verulegri skerðingu á daglegri almennri færni. Líkamleg einkenni eru engin.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, engin. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir telur að kærandi kjósi að vera ein sex tíma á dag eða lengur. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir telur að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt staðli. Þá telur skoðunarlæknir að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni, fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er þó heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að misræmis gæti í skoðunarskýrslu varðandi mat á andlegri færni kæranda.

Samkvæmt skoðunarskýrslu er það mat skoðunarlæknis að svefnvandamál hafi ekki áhrif á dagleg störf kæranda með þeim rökstuðningi að hún eigi að jafnaði ekki erfitt með svefn. Aftur á móti kemur fram í læknisvottorð B, dags. 25. ágúst 2021, að kærandi sé með svefnvandamál og sofi mikið. Úrskurðarnefnd telur að framangreint gefi til kynna að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Ef fallist yrði á það fengi kærandi eitt stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli. Samkvæmt skoðunarskýrslu er það mat skoðunarlæknis að kærandi sé ekki hrædd við að fara ein út með þeim rökstuðningi að hún hafi ekki lent í því. Samkvæmt framangreindu læknisvottorði B finnst kæranda erfitt að fara út úr húsi, jafnvel erfitt að fara út með ruslið. Úrskurðarnefnd telur að framangreint gefi til kynna að kærandi hræðist að fara út án fylgdar. Ef fallist yrði á það fengi kærandi eitt stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli. Þrátt fyrir að kæranda væri veitt stig fyrir þessi atriði myndi það hins vegar ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins.

Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera aðrar athugasemdir við skoðunarskýrslu en að framan greinir og leggur hana að öðru leyti til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk ekki stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og hefði að hámarki getað fengið átta stig úr andlega hlutanum, uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. október 2021 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta