Mál nr. 8/2020 - Úrskurður
Mál nr. 8/2020
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Menntaskólanum við Sund
Ráðning í starf. Hæfnismat. Sönnun.
Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu kennslustjóra hjá kærða þar sem hún hafi verið betur menntuð og haft meiri starfsreynslu en karlinn sem starfið hlaut. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að annmarkar hafi verið af hálfu kærða á mati á kæranda og þeim karli sem starfið hlaut. Kærði hefði einkum vanmetið kæranda samanborið við karlinn varðandi menntun hennar, auk þess sem viðhlítandi grein hefði ekki verið gerð fyrir þeim mun sem gerður var karlinum í hag er laut að skilningi umsækjendanna tveggja á framtíðarsýn skólans og inntaki á starfi kennslustjóra en allt hefðu þetta verið atriði sem birtust í starfsauglýsingu kærða. Að þessu virtu taldist kærandi hafa leitt nægar líkur að því að henni hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna þannig að beita bæri 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við úrlausn málsins. Samkvæmt því stóð það kærða nær að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun hans. Að mati kærunefndarinnar tókst sú sönnun ekki af hálfu kærða. Taldist kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.
1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 21. október 2020 er tekið fyrir mál nr. 8/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
2. Með kæru, dagsettri 20. apríl 2020, kærði A, ákvörðun Menntaskólans við Sund um að ráða karl í starf kennslustjóra. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 24. apríl 2020. Kærði fékk framlengdan frest til þess að skila greinargerð til 22. maí 2020. Greinargerð setts rektors, fyrir hönd kærða, barst með bréfi, dagsettu 22. maí 2020, ásamt minnispunktum úr viðtölum við umsækjendur. Greinargerðin ásamt minnispunktunum var kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 27. maí 2020.
4. Kærandi fékk framlengdan frest til 18. júní 2020 til þess að skila athugasemdum við greinargerð setts rektors. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 15. júní 2020, með athugasemdum við greinargerðina og sem kynnt var settum rektor með bréfi kærunefndar, dagsettu 19. júní 2020.
5. Þar sem rektor kærða hafði lýst sig vanhæfan til að koma að umræddri ráðningu kennslustjóra setti mennta- og menningarmálaráðuneytið rektor til þess að annast um ráðninguna. Af þessum sökum framsendi rektor skólans fyrrnefndar athugasemdir kæranda til ráðuneytisins með bréfi, dagsettu 23. júní 2020, með beiðni um að ráðuneytið fyndi þessu máli eðlilegan farveg þannig að erindi kærunefndarinnar yrði svarað. Ráðuneytið sendi erindið til setts rektors með tölvubréfi 7. júlí 2020 og fór fram á að hann myndi svara því. Settur rektor fékk framlengdan frest til 23. júlí 2020 í því skyni.
6. Athugasemdir setts rektors, fyrir hönd kærða, bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 23. júlí 2020. Í þeim eru gerðar athugasemdir við að kærunefndin hafi afhent kæranda minnispunkta sem fylgdu með greinargerð hans. Með tölvubréfum setts rektors til kæranda 20. október 2019 og 18. janúar 2020 hafði kæranda verið synjað um afhendingu minnispunktanna með vísan til 3. töluliðar 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunefndin sendi kæranda umrædd gögn til þess að gæta að andmælarétti hennar í málinu og var kærða gerð grein fyrir því. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 19. ágúst 2020, voru athugasemdir kærða sendar kæranda til kynningar. Með öðru bréfi, dagsettu sama dag, var óskað eftir frekari gögnum frá kærða. Umbeðin gögn voru móttekin hjá kærunefnd jafnréttismála 3. september 2020 og voru þau kynnt kæranda og settum rektor með bréfi kærunefndar, dagsettu 7. september 2020. Athugasemdir sem borist höfðu frá kæranda 25. ágúst 2020 voru jafnframt kynntar settum rektor með bréfi nefndarinnar, dagsettu 7. september 2020. Þá bárust enn frekari athugasemdir frá kæranda með tölvubréfi 8. september 2020 og voru þær sendar settum rektor til kynningar með bréfi kærunefndar, dagsettu 11. september 2020.
7. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 1. október 2020, var óskað eftir því að settur rektor gerði grein fyrir því á hvern hátt umsækjendum voru gefin stig fyrir þá menntun sem hvor umsækjandi fyrir sig naut umfram þá menntun sem sé lögákveðið skilyrði, hafi verið veitt stig fyrir þá viðbótarmenntun. Með bréfi setts rektors, dagsettu 6. október 2020, barst svar hans við fyrirspurn nefndarinnar. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 6. október 2020, var svar setts rektors sent kæranda. Með bréfi, dagsettu 7. október 2020, bárust athugasemdir frá kæranda sem sendar voru settum rektor til kynningar með bréfi kærunefndar, dagsettu 9. október 2020.
MÁLAVEXTIR
8. Kærði auglýsti laust starf kennslustjóra 25. júní 2019 meðal kennara sem starfa við skólann. Í auglýsingunni kom fram að í umsókn skyldi umsækjandi meðal annars tilgreina með hvaða hætti hann hygðist vinna að stefnu skólans og stuðla að frekari framþróun á þriggja anna kerfinu í skólanum og námskránni þar sem áhersla væri á að byggja upp námskraft nemenda. Í auglýsingunni sagði um starfið að kennslustjóri ynni í teymisvinnu með öðrum stjórnendum skólans. Hann hafi umsjón með nemendabókhaldi, þar á meðal skráningu nemenda, fjarvistarskráningu, mati á námi og útgáfu námsferla. Hann haldi utan um framkvæmd skólareglna og sé tengiliður stjórnenda við félagsmálafulltrúa skólans og stjórn nemendafélagsins. Kennslutjóri annist meðal annars prófstjórn og gerð próftöflu á matsdögum. Þá sitji hann í skólaráði og sé framkvæmdastjóri þess.
9. Alls bárust tvær umsóknir um starfið, frá kæranda og þeim sem ráðinn var. Báðir umsækjendur voru kallaðir í starfsviðtöl og mat lagt á hæfni þeirra í samræmi við matskvarða sem útbúinn var af þessu tilefni. Matskvarðinn var eftirfarandi: Menntun 30 stig, starfsreynsla innan kærða 20 stig, önnur starfsreynsla 10 stig, áhersla á stefnu skólans samkvæmt auglýsingu 30 stig en sá matskvarði skiptist í 6 undirflokka sem hver veitti að hámarki fimm stig, starf kennslustjóra 10 stig en sá matskvarði skiptist í 10 undirflokka sem hver gaf eitt stig. Báðir umsækjendur töldust mjög vel hæfir til að gegna starfinu. Að viðtölum loknum, yfirferð á umsóknum og umsóknargögnum var umsækjendum gefin stig. Bæði kærandi og sá sem starfið hlaut hlutu fullt hús stiga fyrir menntun, starfsreynslu innan kærða og aðra starfsreynslu, kærandi hlaut aftur á móti 19 af 30 stigum fyrir áherslu á stefnu skólans samkvæmt auglýsingu og 6,5 stig af 10 fyrir matskvarðann starf kennslustjóra. Kærandi fékk þannig samtals 85,5 stig á grundvelli matskvarðans, en sá sem starfið hlaut 93 stig. Í kjölfarið var ákveðið að bjóða karlinum starfið sem hann þáði.
10. Með tölvubréfi kæranda, sendu 7. október 2019, óskaði hún eftir rökstuðningi setts rektors fyrir ráðningunni og fór auk þess fram á að fá afrit af öllum skriflegum gögnum málsins sem og af öðrum gögnum varðandi umsóknarferlið og meðhöndlun umsóknanna, þar með taldar umsagnir, minnisblöð og tölvubréf á grundvelli 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi setts rektors, dagsettu 20. október 2020, var rökstuðningur veittur sem og afrit af hluta gagnanna. Synjað var beiðni kæranda um að fá afhent minnisblöð og umsókn þess sem ráðinn var. Með tölvubréfi kæranda, sendu kærða 21. október 2019, ítrekaði hún beiðni um öll gögn málsins. Með tölvubréfi setts rektors, sendu kæranda sama dag, taldi hann sig hvorki hafa heimild til að veita kæranda aðgang að umsókn þess sem ráðinn var né vinnuskjölum vegna ráðningarinnar og tók fram hvað vinnuskjölin varðar að eingöngu væri um að ræða minnisblað um viðtal við umsækjendur, engin önnur gögn væru til staðar.
11. Kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna neitunar á afhendingu hluta gagnanna með bréfi, dagsettu 22. október 2020, sem leiddi til þess að settur rektor afhenti kæranda umsóknargögn beggja umsækjenda með tölvubréfi 9. janúar 2020. Með tölvubréfi kæranda, dagsettu 13. janúar 2020, ítrekaði hún enn á ný beiðni um afhendingu á öllum gögnum málsins, þar með töldum umræddum minnisblöðum, auk nánari gagna um samráð við skólanefnd sem og öll gögn vegna samskipta við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Með tölvubréfi setts rektors, dagsettu 18. janúar 2020, upplýsti hann að kærandi hefði þegar fengið öll gögn málsins afhent að undanskildum minnisblöðum vegna viðtala við umsækjendur, en um væri að ræða gögn sem hún ætti ekki rétt á að fá í hendur, sbr. 3. tölulið 16. gr. stjórnsýslulaga. Að öðru leyti var vísað um efni málsins til mennta- og menningarmálaráðuneytis.
12. Umboðsmaður Alþingis var með til umfjöllunar álitaefni hvað varðar afhendingu gagna. Kærandi kom á framfæri bréfi umboðsmanns Alþingis, dagsettu 21. september 2020, þar sem fram kom að umboðsmaður hafði lokið þeirri umfjöllun með ábendingum sem hann hafði komið á framfæri við kærða.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
13. Kærandi segir að við ráðninguna hafi ekki verið gætt málefnalegra sjónarmiða og henni þannig verið mismunað. Þá hafi verið gengið gegn skýrum lagafyrirmælum sem gildi um ráðningar í slíkar stöður. Að auki hafi kærði brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, til að mynda með ólögmætri synjun um aðgang að gögnum málsins, en vegna þessa hafi kærandi þurft að leita til umboðsmanns Alþingis. Þannig sé einsýnt að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum við ráðninguna.
14. Kærandi telji að hún sé að minnsta kosti jafn hæf þeim sem ráðinn hafi verið. Í þeim efnum sé vísað til þeirrar staðreyndar að í stjórnunarstöðum hjá kærða hafi hallað mjög á konur og geri enn í dag samkvæmt neðangreindri töflu sem sýni stjórnendateymi skólans árin 2014 til 2020:
Skólaár |
Rektor |
Konrektor |
Kennslustjóri |
Námskrárstjóri |
KK |
KVK |
2014-2015 |
Kk |
Kvk |
Kk |
Enginn |
2 |
1 |
2015-2016 |
Kk |
Kvk |
Kk |
Kk |
3 |
1 |
2016-2017 |
Kk |
Kvk |
Kk |
Kk |
3 |
1 |
2017-2018 |
Kk |
Kvk |
Kk |
Kk |
3 |
1 |
2018-2019 |
Kk |
Kvk |
Kk |
Kk |
3 |
1 |
2019-2020 |
Kk |
Kvk |
Kk |
Kk |
3 |
1 |
15. Af ofanrituðu megi ráða að bæði fyrir og eftir umrædda ráðningu hafi konur verið í minnihluta í stjórnunarteymi skólans. Á tilgreindum skólaárum hafi raunar aðeins ein kona verið í stjórnunarteymi á móti þremur körlum nema skólaárið 2014-2015.
16. Auk þessa hafi verið hallað verulega réttu máli gagnvart kæranda hvað varði mat á menntun, reynslu og hæfni umsækjenda. Þannig hafi þessir þættir hjá kæranda ekki verið metnir að verðleikum í samanburði þeim sem hafi farið fram á umsækjendum. Hennar menntun, kennslu- og stjórnunarreynsla sem og hæfni hafi ekki einungis verið vanmetin heldur einnig ranglega metin, líklega vegna kynferðis og jafnvel vegna aldurs.
17. Því sé einsýnt að kynferði og eftir atvikum aldur hafi ráðið valinu fremur en menntun, starfsreynsla og þekking sem og aðrir sérstakir hæfileikar, sem komi að gagni í starfinu, og gerðar séu kröfur um samkvæmt lögum og auglýsingu á hinni lausu stöðu.
18. Í innanhússauglýsingu rektors hafi hvergi verið að finna kröfur um menntun þótt þær séu lögbundnar. Í rökstuðningi setts rektors, dagsettum 24. september 2019, vísi hann í 6. gr. reglugerðar nr. 1100/2007 um starfslið og skipulag framhaldsskóla hvað varði heimild skólameistara til að ráða áfangastjóra en umrædd staða kennslustjóra sé talin ígildi þeirrar stöðu. Jafnframt hafi hann vísað í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla hvað varði skilyrði þess að vera ráðinn kennari við framhaldsskóla. Aftur á móti hafi hann látið það ógert að vísa til 14. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla þar sem kveðið sé á um að við ráðningu í stjórnunarstörf í framhaldsskóla skuli umsækjandi hafa starfsheitið framhaldsskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi.
19. Samkvæmt 20. gr. sömu laga, sem fjalli um mat á umsóknum, skuli við ráðningu skólastjórnenda tekið tillit til menntunar, starfsferils, stjórnunarreynslu eða viðbótarmenntunar í stjórnun og umsagna um starfshæfni umsækjenda. Sæki fleiri en einn um sama starf og uppfylli tveir eða fleiri þær kröfur sem gerðar séu skuli meðal annars tekið tillit til menntunar, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda þegar ákvörðun sé tekin um ráðningu samkvæmt sama ákvæði. Settur rektor hafi aftur á móti gert þeim jafn hátt undir höfði, þrátt fyrir þessi skýru fyrirmæli laga, við mat á menntun og starfsreynslu.
20. Auk þessa haldi settur rektor því ranglega fram í rökstuðningi sínum að samráð hafi verið haft við skólanefnd kærða, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1100/2007. Einu gögnin sem hann hafi afhent kæranda hvað þetta varði séu tölvubréfsamskipti við formann skólanefndar þar sem hann hafi tilkynnt hver hafi verið ráðinn. Það hafi verið 24. september 2019 kl. 13:11, eða um stundarfjórðungi áður en kæranda hafði verið tilkynnt um ráðninguna með tölvubréfi, sendu kl. 13:29. Það sé því útilokað að skólanefndin hafi náð að kynna sér þessi gögn, komið saman til að fjalla um þau sem og komist að niðurstöðu. Einnig veki það eftirtekt að skólanefndin virðist hafa fengið gögn sem settur rektor hafi ekki afhent kæranda, þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni. Að auki virðist nokkuð ljóst að settur rektor hafi ekki leitað eftir umsögnum um starfshæfni umsækjenda, þrátt fyrir skýr fyrirmæli laga hvað það varði.
21. Varðandi mat á lögbundnum hæfnisþáttum sé nokkuð ljóst að settur rektor hafi viljandi eða óviljandi hallað réttu máli gagnvart kæranda við mat á menntun. Fyrir vikið hafi hann lagt menntun umsækjenda að jöfnu þótt ljóst sé að kærandi búi yfir mun meiri formlegri menntun sem nýtist í starfi. Sama gildi um starfs- og stjórnunarreynslu kæranda innan og utan skóla. Í mati sínu hafi settur rektor hrært saman ýmis konar reynslu þess sem ráðinn hafi verið og komist að þeirri niðurstöðu að þau standi þar jöfn að vígi. Kærandi skilji til dæmis ekki hvernig reynsla í ófaglærðum störfum á leikskólum sem og störf sem leiðbeinandi í félagsmiðstöð eigi að vega inn í mat á umsækjendum um stjórnunarstarf í framhaldsskóla. Einnig sé ljóst að settur rektor hafi brotið gegn fyrirmælum laga hvað varði lögbundið samráð og hunsað fyrirmæli laga hvað varði umsagnir um starfshæfni. Því hafi menntun kæranda, starfs- og stjórnunarreynsla, sem og hæfni, ekki einungis verið vanmetin heldur einnig ranglega metin, líklegast vegna kynferðis. Þannig hafi verið leiddar líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis kæranda og falli það því í hlut setts rektors að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. jafnréttislaga, en honum hafi verið óheimilt samkvæmt 1. mgr. sömu greinar að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis.
22. Í rökstuðningi kærða komi fram að við mat á umsóknum hafi verið búinn til fimm þátta matskvarði, að sögn setts rektors til þess að mat á umsækjendum yrði eins hlutlægt og kostur hafi verið: Menntun, starfsreynsla innan kærða, önnur starfsreynsla, áhersla á stefnu skólans samkvæmt auglýsingu, starf kennslustjóra. Það sé því ljóst að matskvarðinn hafi verið útbúinn eftir að kunnugt hafi verið hverjir væru umsækjendur.
23. Settur rektor hafi sagt að báðir umsækjendur væru mjög vel hæfir til að gegna starfinu. Kærandi hafi fengið samtals 85,5 stig á grundvelli matskvarðans, en sá sem starfið hafi fengið 93 stig.
24. Í rökstuðningi kærða hafi það verið látið ógert að sundurliða hvernig komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að umsækjendur væru jafnir að stigum hvað varði menntun þar sem þeir hafi báðir fengið fullt hús stiga. Menntun umsækjenda sé aftur á móti eftirfarandi samkvæmt umsóknum:
Sá sem ráðinn var (hann) – 30 stig |
Kærandi (hún) – 30 stig |
· M.litt í félagslegri mannfræði frá St. Andrews University · BA frá HÍ í mannfræði · Kennslufræði til kennsluréttinda frá HÍ · Starfsþjálfun sem þróunarráðgjafi frá DNS í Danmörku · 6 námskeið/ráðstefnur |
· M.ed-próf frá HÍ, meistarapróf á menntavísindasviði · BA frá HÍ (í sagnfræði og stjórnmálafræði) · Kennslufræði til kennsluréttinda frá HÍ · Nám fyrir leiðsagnarkennara · Hefur lokið a.m.k. 42 námskeiðum, flest hver á sviði kennslu og skólamála, sbr. sérstakt yfirlit |
25. Í frekari rökstuðningi kærða hafi verið fullyrt að báðir umsækjendur væru með meistarapróf. Varðandi þetta mat sé fyrst að nefna að M.litt-gráða þess sem ráðinn hafi verið sé frá St. Andrews University og virðist fremur óþekkt stærð í þessari formúlu setts rektors. Yfirleitt sé M.litt-gráða eins árs framhaldsnám í skoskum háskólum. Að auki sé ekki að sjá að stutt framhaldsnám í mannfræði komi að gagni við að leysa úr verkefnum kennslustjóra eins og starfinu sé lýst í auglýsingu. Þvert á móti hefði sérmenntun kæranda í menntunarfræðum og starfsreynsla hennar í ýmsum störfum í skólanum, þar með talin prófstjórn til áratuga sem og áralöng þátttaka í félagsmálum kennara, getað komið að miklum notum í umræddu starfi. Hér sé einnig mikilvægt að benda á að lokaverkefni kæranda til meistaraprófs í menntunarfræðum hafi verið á sviði stjórnunar. Að auki hafi hún mjög farsælan kennsluferil til margra áratuga og hafi lagt áherslu á gott samstarf við nemendur. Í því sambandi megi nefna niðurstöður nemendakannana hvað varði kennslu kæranda sem sýni að hún skori mjög hátt. Þessu hafi hún gert grein fyrir í ráðningarviðtali og sýnt gögn þessu til stuðnings. Aftur á móti hafi settur rektor kosið að horfa fram hjá þeim lögbundna þætti, þ.e. starfsreynslu, við mat sitt á umsækjendum, sbr. framangreint. Í stað þess hafi hann einungis einblínt á menntun viðkomandi, þ.e.a.s. aðra en í stjórnun, sem kærandi telji tæpast forsvaranlegt í ljósi viðfangsefna starfsins sem og lagafyrirmæla. Auk þessa sé erfitt að átta sig á því hvað felist í „starfsþjálfun sem þróunarráðgjafi frá DNS í Danmörku“. Þannig megi ætla að ekki sé um formlega menntun eða nám að ræða sem hafi lokið með einhvers konar prófgráðu. Settur rektor hafi aftur á móti kosið að kalla þetta „nám“ í frekari rökstuðningi sínum og lagt það að jöfnu við nám kæranda sem leiðsagnarkennari (10 ECT) án þess að útskýra það nánar. Ljóst sé að háskólanám sem leiðsagnarkennari í framhaldsskóla nýtist í umræddu starfi. Það sem veki enn frekar furðu sé að svona stór liður í mati á umsækjendum, þ.e. upp á 30 stig, sé ekki sundurliðaður. Þannig sé engan veginn hægt að átta sig á því tölulega eða út frá röksemdum hvernig settur rektor hafi getað komist að þeirri niðurstöðu að umsækjendur væru jafnir að stigum hvað þennan lið hafi varðað. Menntun þess sem ráðinn hafi verið hafi verið ofmetin í samanburði við menntun kæranda.
26. Ekki hafi heldur verið sundurliðuð niðurstaða um stig umsækjenda við mat á starfsreynslu innan kærða, en þau hafi verið talin jöfn í þeim matsþætti þar sem þau hafi bæði fengið fullt hús stiga. Staðreyndir samkvæmt umsóknum séu þó eftirfarandi:
Sá sem ráðinn var (hann) – 20 stig |
Kærandi (hún) – 20 stig |
· 2007 til 2014 kennari við MS · 2007-2010 fagstjóri í félagsfræði · 2009 félagsmálafulltrúi · 2010-2013 sviðstjóri hugvísinda · 2010-2014 töflusmiður · 2014 til 2019 kennslustjóri |
· Frá 1989 kennari við MS · 1990-2005 prófstjóri · 1994-2019 (með hléum) fagstjóri/deildarstjóri · 1996-1998 Fulltrúi í skólanefnd MS · 1996-2012 leiðsagnarkennari með kennaranemum · 2001-2009 sviðsstjóri · 2003-2005, 2009-2010 forvarnafulltrúi · 2007-2012 fulltrúi í skólaráði MS · 2008-2015 vinnuumhverfisstjóri · 2009-2012 jafnréttisfulltrúi · Frá 2012 fulltrúi í samstarfsnend MS og KÍ · 2015 töflusmiður |
27. Í rökstuðningi kærða megi sjá að kærandi hafi fjölþætta reynslu af ýmsum störfum og faglegri stjórnun innan kærða og teljist því mjög hæf til að sinna starfinu. Kærandi hafi aftur á móti ekki verið sátt við að sú reynsla væri lögð að jöfnu við reynslu þess sem ráðinn hafi verið. Í ljósi þessa hafi kærandi vakið athygli setts rektors á því, þegar hún hafi óskað eftir nánari rökstuðningi, að hún væri með mun lengri starfsreynslu innan kærða en sá sem ráðinn hafi verið, enda hafi reynsla hennar spannað um þrjá áratugi þegar hún hafi sótt um hið lausa starf. Hún hafi sagt að það kæmi því nokkuð spánskt fyrir sjónir að sjá að þar hafi umsækjendur skorað jafn mörg stig, eða 20 alls. Í ljósi þessa hafi kærandi viljað fá upplýsingar um þann kvarða sem hafi legið að baki þessu mati og hvort starfsreynsla úreldist með einhverjum hætti í svona útreikningi. Settur rektor hafi vikið sér undan að svara þessu með beinum hætti, en kosið að svara þessu með almennu orðalagi. Fram hafi komið í svari hans að mat á starfsreynslu hafi bæði verið byggt á verkefnum og hve lengi þeim hafi verið sinnt og niðurstaðan verið sú sama hjá báðum umsækjendum, einkum í ljósi þess að um sé að ræða ráðningu í starf kennslustjóra við kærða og reynsla beggja umsækjenda uppfylli ráðningu til starfs kennslustjóra og því hafi báðir umsækjendur fengið fullt hús stiga undir þessum lið.
28. Starfsreynsla þess sem ráðinn hafi verið hafi þannig verið ofmetin í samanburði við reynslu kæranda, enda sé sá mælikvarði sem hafi verið beitt með öllu hulinn kæranda. Hér hafi ekki einungis starfsaldur hennar og reynsla innan kærða verið vanmetin við samanburðinn heldur læðist sá grunur að henni að lífaldur hennar hafi unnið gegn henni í ljósi þeirra óljósu svara sem hún hafi fengið frá settum rektor.
29. Önnur starfsreynsla.
Sá sem ráðinn var (hann 10 stig) |
Kærandi (hún 10 stig) skv. rökstuðningi og matsblaði 24. september 2019 |
Hér vantar mig upplýsingar, enda hef ég ekki fengið aðgang að rökstuðningi fyrir ráðningu mótumsækjanda míns, sem virðist hafa verið send skólanefnd MS. Sjá hins vegar umsókn mótumsækjanda, sem ég fékk fyrir harðfylgni og textann hér fyrir neðan. |
· 2001-2012 stjórn félags sögukennara · 1995-2005 trúnaðarmaður HÍK/FF í kærða · 2000-2019 stjórn kennarafélags kærða, formaður frá 2005 · 2000-2019 formaður kjörstjórnar FF · 2012-2018 stjórnarmaður í stjórn EUROCLIO-Samtaka evrópskra sögukennara · 2016-2018 forseti EUROCLIO · 2018-í fulltrúaráði EUROPEANA-rafrænum söfnum á netinu |
30. Sama gildi um mat á annarri starfsreynslu en þar sé kærandi ósátt við að umsækjendur séu lagðir að jöfnu. Í beiðni kæranda um frekari rökstuðning hafi hún viljað fá að sjá hvernig settur rektor hafi komist að þessari niðurstöðu. Í svari sínu hafi hann sagt að umsækjendur hefðu báðir víðtæka starfsreynslu sem nýtist í starfi. Kærandi hefði meiri starfsreynslu sem tengist félagsmálum en hinn umsækjandinn meiri kennslureynslu á öðrum skólastigum. Samanlögð kennslureynsla þess sem ráðinn hafi verið nemi þó einungis þriðjungi af kennslureynslu kæranda. Hún sé með 30 ára kennslureynslu, en sá sem ráðinn hafi verið sé með samanlagða 11 ára kennslureynslu, þar af fjögur ár í grunnskóla. Settum rektor hafi þótt eðlilegast að gera ekki mun á umsækjendum. Þetta sé í blóra við 14. gr. laga. nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla þar sem kveðið sé á um að við ráðningu í stjórnunarstörf í framhaldsskóla skuli umsækjandi, auk þess að hafa starfsheitið framhaldsskólakennari, vera með viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi. Í ljósi þessa sé nokkuð einsýnt að settum rektor hafi beinlínis verið óheimilt að líta til kennslureynslu á öðrum skólastigum hvað þá að líta til ófaglærðra starfa sem sá sem hafi verið ráðinn hafi sinnt á leikskóla og sem leiðbeinandi við félagsmiðstöð. Þannig hafi með ógegnsæjum og illskiljanlegum hætti verið gert sem minnst úr reynslu kæranda og þekkingu, jafnt á sviði skólamála sem og við stjórnun með því að draga inn í þennan reikning óljósa starfsreynslu þess sem ráðinn hafi verið á öðrum skólastigum sem og starf í félagsmiðstöð, án þess að skýra það nánar. Þá hafi ekki verið réttilega metið það sem kærandi hafi verið að fást við í skólamálum, aðallega á alþjóðlegum vettvangi, en það virðist hafa verið sett undir hatt með félagsmálum. Ekki einungis hafi kærandi tekið þátt í ótal alþjóðlegum verkefnum heldur staðið í framlínunni og geri enn. Í umsókn kæranda komi meðal annars fram að hún hafi nýlokið formennsku í stórum alþjóðlegum samtökum kennara, staðið fyrir mörgum alþjóðlegum ráðstefnum, haldið erindi um skólamál og sitji nú í stýrihópi um innleiðingu á notkun á stafrænu efni við kennslu og í námi í Evrópu svo eitthvað sé nefnt.
31. Þrátt fyrir að þarna hafi verið gengið gegn skýrum fyrirmælum laga hafi kæranda ekki heldur tekist að átta sig á því með heildstæðum hætti til hvaða sjónarmiða sé beinlínis litið við framangreint mat á starfsreynslu umsækjenda innan og utan kærða og hvernig þeir þættir séu vegnir inn í endanlegar tölur, enda hafi kæranda verið meinaður aðgangur að mikilvægum gögnum málsins. Þannig hafi kærandi ekki fengið aðgang nema að hluta þeirra gagna er varði þann sem ráðinn hafi verið og hafi greinilega verið lögð til grundvallar við ráðninguna. Að auki hafi kærandi ekki fengið aðgang nema að hluta þeirra gagna sem hafi gengið á milli setts rektors og skólanefndar kærða. Þannig hafi settur rektor haft veruleg áhrif á undirliggjandi hagsmuni kæranda, svo sem forsendur og möguleika á að leita til eftirlitsaðila. Því sé eðlilegt að settur rektor beri halla þar af sem og hvað varði önnur atriði þar sem skertur aðgangur kæranda að gögnum málsins hafi áhrif. Auk þessa hafi settur rektor einnig brotið gegn skýrum fyrirmælum laga um að líta til stjórnunarreynslu umsækjenda, sbr. 20. gr. laga nr. 87/2008, en þar hafi kærandi forskot á þann sem ráðinn hafi verið. Ítrekað sé að lokaverkefni kæranda til meistaraprófs í menntunarfræðum hafi verið á sviði stjórnunar. Auk þess hafi hún verið í forsæti fyrir stór alþjóðleg samtök, sem einnig reki skrifstofu, sem sinni stórum alþjóðlegum verkefnum og starfsþróun kennara á alþjóðlegum vettvangi. Í tvö ár hafi kærandi stýrt þessari vinnu á skrifstofunni þar sem vinni fimm til sex fastir starfsmenn og þrír til fimm starfsnemar vinni í senn ásamt framkvæmdastjóra samtakanna. Í þessu starfi hafi reynt á að vinna með fólki með mismunandi sýn og ólíkar nálganir á viðfangsefni, þar hafi verið mikilvægt að vera góður í að vinna í teymi á alþjóðlegum grundvelli. Í umsókn kæranda hafi skýrt komið fram að hún gæti bent á umsagnaraðila um þessa stjórnunarreynslu sína.
32. Í beiðni kæranda um frekari rökstuðning hafi hún viljað fá að vita með hvaða hætti tekið hafi verið tillit til stjórnunarreynslu eða viðbótarmenntunar í stjórnun í matskvarðanum sem og umsagna um starfshæfni umsækjenda, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 87/2008. Svar setts rektors hafi verið eftirfarandi: „Öll reynsla var metin skv. lið 2 og öll menntun skv. lið 1“. Þetta sé algjörlega óásættanlegt svar hvað varði þessa matsliði en möguleg stig fyrir þessa liði nemi samanlagt helmingi matskvarðans. Settur rektor hafi hér vísvitandi verið að víkja sér undan því að svara þessu með beinum hætti, enda hafi verið gert of lítið úr menntun og starfsreynslu kæranda eða of mikið úr menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn hafi verið. Þetta svar sýni fram á óbeina eða beina mismunun af hans hálfu hvað varði kyn kæranda og aldur og beri að túlka honum í óhag.
33. Mikilvægt sé að sérstaklega verði skoðað til hvaða þátta hafi átt að líta varðandi stefnu kærða í ljósi umsóknar kæranda og þeirrar einkunnagjafar sem hún hafi fengið fyrir matshlutann „áhersla á stefnu skólans samkvæmt auglýsingu“ í matinu. Í auglýsingu um starfið hafi komið fram að í umsókn skyldi meðal annars tilgreint með hvaða hætti viðkomandi hygðist vinna að stefnu skólans og stuðla að frekari framþróun á þriggja anna kerfinu í skólanum og námskránni þar sem áhersla sé á að byggja upp námskraft nemenda.
34. Þegar kærandi hafi lesið auglýsinguna í fyrsta skipti hafi hún átt í erfiðleikum með að skilja þessa setningu. Eftir að hafa velt þessu fyrir sér og ígrundað málið hafi skilningur hennar verið sá að hér væru á ferðinni tveir þættir sem þyrfti að svara. Annars vegar hvernig hún gæti stuðlað að framþróun þriggja anna kerfisins með því að fylgja stefnu skólans. Hins vegar að fjalla um námskraft nemenda út frá nýrri námskrá. Hér hafi kærandi ekki hugsað um að þróa námskrána, enda sé það hlutverk námsbrauta- og námskrárstjóra en ekki kennslustjóra að halda utan um og þróa námskrá.
35. Í rökstuðningi kærða segi að í umræddri auglýsingu hafi verið óskað eftir greinargerð frá umsækjendum um ofangreint sem fram hafi komið í auglýsingunni. Þegar grannt sé skoðað sé það vægast sagt erfiðleikum bundið að átta sig á því hvað starfandi rektor hafi átt við með „stefnu skólans“ í auglýsingunni og það sem verra sé, settur rektor virðist hafa miðað sitt mat við aðra þætti eins og síðar verður rakið. Til að bæta gráu ofan á svart virðist sá sem ráðinn hafi verið lítið sem ekkert hafa fjallað um „stefnu skólans“ í sinni umsókn, en kæranda hafi ekki orðið það ljóst fyrr en hún hafi fengið aðgang að umsókninni 9. janúar 2020. Þrátt fyrir það hafi hann fengið 4 af 5 mögulegum stigum fyrir þetta, en settur rektor hafi gefið kæranda 2 stig þótt í umsókn hennar hafi hún rækilega gert grein fyrir því hvernig hún telji að breyttar og góðar námsvenjur leiði til og stuðli að góðri mætingu nemenda. Áhersla hennar sé vettvangsferðir nemenda, fjallað sé um verkefnabundið nám, einstaklings-, para- og hópverkefni. Allt séu þetta þættir sem megi sjá undir upplýsingar um skólann á heimasíðu kærða, í stefnumótunarskjali kærða og á fleiri stöðum.
36. Í rökstuðningi kærða hafi einnig verið afritaður og settur inn í skjalið texti þar sem fram hafi komið hvað kærði leggi áherslu á, þ.e. „Skipulag skólans-þriggja anna kerfi“. Síðan hafi komið texti sem lýsi skólanum og náminu sem þar sé boðið upp á. Þar séu rakin markmið skólans. Þennan texta hafi settur rektor sótt orðrétt á vefsíðu kærða. Þar fyrir neðan hafi verið afritaðar og settar inn þrjár setningar úr umsókn kæranda og millifyrirsagnir úr umsókn hennar hvað varði þau atriði sem hún hafi sérstaklega viljað nefna í tengslum við starfið. Settur rektor hafi síðan tekið fram að kærandi hefði lengst af sinnt kennslu samkvæmt eldra kerfi samkvæmt upplýsingum frá skólanum.
37. Þarna séu greinilega einhver samskipti setts rektors við starfandi rektor skólans hvað varði umsókn kæranda en hún hafi ekki fengið aðgang að þeim gögnum. Þannig hafi þessar upplýsingar aldrei verið bornar undir kæranda og henni þannig ekki verið gefið tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum eða leiðréttingum, væru upplýsingarnar rangar. Þannig sé það aðeins hálfur sannleikurinn að kærandi hafi „tekið þátt“ í nýju kerfi kærða. Staðreyndin sé ekki einungis sú að hún hafi kennt samkvæmt hinu nýja kerfi frá því það hafi verið tekið upp, þ.e. að undanskildu námsleyfi í eitt ár, þá hafi hún einnig verið brautryðjandi sem kennari í hinu nýja kerfi. Að auki hafi sá sem ráðinn hafi verið aldrei kennt í hinu nýja kerfi þótt eitthvað hafi hann komið að þeim málum sem kennslustjóri. Fyrir utan það standist þessi viðhorf setts rektors að „núlla út“ áratugalanga reynslu tæpast skoðun í ljósi fyrirmæla laga um hvað eigi að horfa til við ráðningu skólastjórnenda og hafi verið reifað hér að framan. Hér læðist aftur sá grunur að kæranda að lífaldur hennar hafi unnið gegn henni, enda skilji hún ekki hvers vegna settur rektor sé að spyrða þetta saman við svar kæranda við því hvernig hún hygðist vinna að stefnu kærða, þ.e. að hún hafi lengst af sinnt kennslu samkvæmt eldra kerfi.
38. Settur rektor hafi viðurkennt að framangreindir sjö þættir, sem kærandi hafi tilgreint, séu mikilvægir í öllu skólastarfi. Hann telji þá þó „taka lítt á nýju þriggja anna kerfi skólans með framþróun þess í huga og áframhaldandi vinnu við skólanámskrá þar sem áhersla er að byggja upp námskraft nemenda“. Hann sé þó ekki samkvæmur sjálfum sér þegar hann segi nokkru neðar að „umsækjandi leggur áherslu á námskraft nemenda og mikilvægi þess að virkja þá til vinnu og mætinga með breyttum kennsluháttum“. Það hafi verið eftir að settur rektor hafi talið kæranda fjalla „einhæft um þróun á stefnu skólans og lítillega um framþróun á nýju 3ja anna kerfi nema með áherslu á almenna þætti í skólastarfi“. Það hafi skotið skökku við að lesa þetta í ljósi þess að kærandi hafi einmitt haft til hliðsjónar sömu vefsíðu þaðan sem settur rektor hafi afritað og sett inn áðurgreindan texta í rökstuðninginn. Í skjali um stefnumótun kærða til þriggja ára, sem skilað hafi verið til menntamálaráðuneytis í október 2018, hafi einmitt verið fjallað um sömu atriði í stefnu kærða og kærandi hafi gert í umsókn sinni, en sá sem ráðinn hafi verið hafi lítið sem ekkert fjallað um. Í þessu skjali segi: „Stefna skólans kallar á námsvenjur þar sem ábyrgð nemenda á eigin nám, mæting, virkni og þátttaka gegna lykilhlutverki. Mikilvægt er að nemendur vinni jafnt og þétt, ástundi heiðarleg vinnubrögð og þjálfi með sér þrautseigju þar sem mistök eru eðlilegur hlutur af námsferlinu“. Námsvenjur, ábyrgð á eigin námi, mæting og þátttaka nemenda séu einmitt lykilatriðin í umsókn kæranda varðandi það hvernig hún hygðist vinna að stefnu skólans. Þar hafi hún nefnt alþjóðlegt samstarf nemenda, en samkvæmt heimasíðu kærða sé það eitt af því sem hann leggi áherslu á í námi nemenda.
39. Í ljósi alls þessa hafi kærandi einnig spurt settan rektor um liðinn: „Áhersla á stefnu skólans skv. auglýsingu“ þegar hún hafi sent honum beiðni um frekari rökstuðning. Þar hafi kærandi fyrst og fremst viljað fá að vita hvers vegna námskrárvinna og uppbygging á námskrafti nemenda hafi verið metin hvort í sínu lagi, þ.e. í töluliðum 3 og 4 á matsblaði, þegar umsækjandi hafi samkvæmt auglýsingu átt að gera grein fyrir því hvernig hann hygðist „stuðla að frekari framþróun á þriggja anna kerfinu í MS og námskránni þar sem helsta áhersla er á að byggja upp námskraft nemenda“. Þannig hafi kærandi í umsókn sinni lagt áherslu á að fjalla um námskraft nemenda samkvæmt nýrri námskrá, enda væri það hlutverk námsbrauta- og námskrárstjóra en ekki kennslustjóra að halda utan um og þróa námskrá kærða. Þannig hafi kærandi talið það skjóta skökku við að leggja áherslu á námskrá þegar komið hafi að mati á umsækjendum um umrætt starf. Þar sem settur rektor hafi kosið að líta sérstaklega til þessa atriðis hefði verið rétt að veita kæranda raunhæft tækifæri til að setja fram hugmyndir sínar hvað varði 3. tölulið, þ.e. námskrárvinnu, sbr. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, en án þeirra hafi ekki getað farið fram heildstæður samanburður á umsækjendum á grundvelli fullnægjandi upplýsinga um þau sjónarmið sem matið hafi verið byggt á.
40. Í svari setts rektors hafi verið fullyrt að kennslustjóri komi að þróun námskrár. Það geti vel verið að hann komi að þeirri þróun eins og ýmsir aðrir við skólann. Það falli aftur á móti í hlut námsbrauta- og námskrárstjóra kærða að halda utan um námskrá kærða og gera tillögur til rektors um þróun hennar og samhæfingu breytinga til að tryggja að þær verði í samræmi við markmið. Að settur rektor hafi ekki einungis lagt ofuráherslu á þetta í mati sínu heldur einnig gefið kæranda þar falleinkunn geti hún ekki skilið. Að hann hafi fullyrt í svari sínu að henni hafi gefist kostur á að setja fram hugmyndir sínar varðandi námskrá sýni berlega að settur rektor hafi í raun ekki hugmynd um hlutverk kennslustjóra hvað þetta varði. Þess vegna hefði verið út í hött af hálfu kæranda að reifa hugmyndir sínar um aðkomu kennslustjóra að þróun námskrár skólans við gerð umsóknar sinnar. Með öðrum orðum af hverju hefði hún átt að fjalla um námskrá í umsókninni vitandi að gerð hennar og þróun sé ekki eitt af hlutverkum kennslustjóra. Að sama skapi þyki kæranda með ólíkindum að sá sem ráðinn hafi verið hafði lítið sem ekkert fjallað um þróun námskrár. Það sem segi um námskrárvinnu í umsókn hans sé: „Námskrárvinnan er nærtækt dæmi um vettvang þar sem teymisvinna hefur skilað sér vel þar og þar eru krefjandi verkefni framundan sem krefjast fagmennsku en jafnframt mannlegrar natni“.
41. Í beiðni kæranda um frekari rökstuðning hafi hún gert athugasemdir við það álit setts rektors að umfjöllun kæranda í þessum efnum væri einhæf og lýst því fyrir honum að skrif á innri og ytri vef skólans um þessi atriði hafi verið vandfundin. Hún hafi því farið fram á það við settan rektor að hann myndi upplýsa við hvaða „stefnu skólans“ hafi verið stuðst við mat á umsóknum og hvar/hvernig settur rektor hafi fundið slíkt plagg. Jafnframt hafi verið óskað eftir nánari upplýsingum um það hvernig mat á þessum þætti hafi farið fram og hvort um huglægt mat væri að ræða eða hvort stuðst hafi verið við einhverja mælikvarða. Svör setts rektors í viðbótarrökstuðningnum þyki kæranda athyglisverð í ljósi samskipta kæranda við rektor skólans um sama efni en hann hafi gert umrædda auglýsingu. Í fyrirspurn kæranda til rektors kærða 3. október 2019, sem hún hafi ítrekað 20. október 2019, hafi hún spurt hver væri stefna kærða og hann þá sagt að skólinn væri með ritaða stefnu í fjölmörgum málaflokkum og að þetta væri allt á heimasíðunni.
42. Þetta hafi rektor kærða sagt um stefnu skólans degi eftir svar setts rektors um stefnu skólans. Á heimasíðunni sé ekki að finna nein stefnuskjöl er lúti sérstaklega að þeim atriðum sem rektor hafi óskað eftir að umsækjendur myndu fjalla um í umsóknum sínum. Kærandi sjái að minnsta kosti ekki í fljótu bragði hvernig hún hafi átt að draga til dæmis forvarnir eða stefnu skólans gegn einelti inn í umfjöllun sína um það með hvaða hætti hún „hyggst vinna að stefnu skólans og stuðla að frekari framþrónu á þriggja anna kerfinu í MS og námskránni þar sem áhersla er á að byggja upp námskraft nemenda“. Það megi því segja að auglýsingin hafi verið hálfgerð gestaþraut hvað varði stefnu skólans, enda virðist hvorki settur né starfandi rektor svara á einu máli við hvaða stefnu eigi að miða og/eða hvar hana sé að finna. Þetta séu óforsvaranleg vinnubrögð hjá stjórnvöldum sem eigi að gæta að reglum stjórnsýsluréttarins við umrætt ráðningarferli.
43. Sé leitað eftir því sem nefnt sé í auglýsingu „frekari framþróun á þriggja anna kerfinu í MS og námskránni þar sem áhersla er á að byggja upp námskraft nemenda“ sé einmitt helst að finna það undir áðurgreindri vefsíðu á vefsetri skólans sem innihaldi almennar upplýsingar en einmitt þá vefsíðu hafi kærandi haft til hliðsjónar við gerð umsóknar og það sé einmitt vefsíðan sem settur rektor hafi afritað texta úr og sett inn í rökstuðninginn.
44. Á þessari vefsíðu, sem innihaldi almennar upplýsingar um skólann, sé meðal annars fjallað um skipulag skólans í þriggja anna kerfi, kennslufræði MS og áherslu skólans í námi og kennslu sem snúi að virkni og þátttöku nemenda. Þar sé einnig fjallað um kennslufræði þar sem áhersla sé á að byggja upp námsgetu nemenda og áherslan kalli á eftirfarandi hjá nemendum: Breyttar námsvenjur, mjög góða mætingu, meiri virkni og þátttöku, vinnu jafnt og þétt alla önnina, þjálfun einbeitingar, seiglu og þrautseigju, þora að gera mistök og samvinnu. Einnig sé fjallað um áherslur skólans í námi og kennslu sem snúi að virkni og þátttöku nemenda sem séu: Áhersla á verkefnabundið nám, einstaklings-, para- og hópverkefni, samvinnunám, samræður sem námsaðferð, skapandi nám, vendinám, vettvangsferðir og leiðsagnarnám.
45. Séu umsóknir skoðaðar í ljósi matsliðarins „Framþróun á þriggja anna kerfi“ sem sé að finna undir „Áhersla á stefnu skólans skv. auglýsingu“ á matsblöðum hafi sá sem ráðinn hafi verið fjallað um spennandi tíma, halda vel á spöðum, sóknarfæri í skjalastjórnun, mikilvægi þess að stjórnendur séu sýnilegir í „sjálfri kennslunni“, að teymisvinna stjórnenda hafi skilað góðum árangri og almennt fjallað um félagslíf nemenda. Hann hafi hvergi minnst á þriggja anna kerfið í samnefndum kafla í umsókn hans. Þannig hafi ekkert komið fram hjá honum um það hvernig hann hygðist vinna að stefnu skólans hvað þetta varði. Þrátt fyrir það hafi hann fengið fullt hús stiga í matinu. Í umsókn kæranda sé kafli sem beri yfirskriftina: „Hvernig hyggst ég vinna að stefnu skólans og stuðla að frekari framþróun“ þar sem hún hafi nefnt sex atriði sem þurfi að huga að varðandi framþróun þriggja anna kerfis: Námsferðir og alþjóðlegt samstarf nemenda, mæting, skólareglur, verkefnaskil, atriði varðandi skólaráð og félagslíf nemenda. Hér séu nefnd málefni sem séu á hendi kennslustjóra og kærandi hafi talið að þyrfti að vinna betur með í nýju þriggja anna kerfi. Hér hafi hún fengið þrjú stig af fimm mögulegum, þrátt fyrir framanritað.
46. Varðandi matsliðinn „Námskrárvinna“, þ.e. 3. töluliður undir „Áhersla á stefnu skólans skv. auglýsingu“ hafi svipað verið uppi á teningnum. Í umsókn þess sem ráðinn hafi verið sé eftirfarandi það eina sem komi fram um námskrárvinnu: „Námskrárvinnan er nærtækt dæmi um vettvang þar sem teymisvinna hefur skilað sér vel og þar eru krefjandi verkefni framundan sem krefjast fagmennsku en jafnframt mannlegrar natni“. Ekkert hafi komið fram um það hvernig hann hygðist stuðla að frekari framþróun á námskránni. Hvað umsókn kæranda varði sé tekið fram að hvergi hafi verið minnst á námskrárvinnu í auglýsingunni um starfið. Þar sem það sé ekki hlutverk kennslustjóra að halda utan um og þróa námskrá hafi kærandi ekki fjallað um námskrárvinnu í umsókn sinni. Hér hafi kærandi ekkert stig fengið en sá sem ráðinn hafi verið tvö stig, þrátt fyrir að skauta fram hjá umfjöllun um námskrárvinnu.
47. Í ljósi matsliðarins: „Byggja upp námskraft nemenda“, þ.e. 4. tölulið undir „Áhersla á stefnu skólans skv. auglýsingu“ segi í umsókn þess sem ráðinn hafi verið: „Halda þarf áfram að hvetja kennara til að kynna sér og tileinka sér hugmyndafræði [sic] Building Learning og hvetja til dáða þann öfluga kennarahóp innan skólans sem hafi verið virkur í starfendarannsóknum“. Það eina sem hann hafi viljað gera varðandi þennan þátt sé hér að hvetja kennara, annað sé ekki talað um að sé hlutverk kennslustjóra í að byggja upp námskraft nemenda, en hann hafi þó fengið fjögur stig. Þetta sé sérkennilegt í ljósi þess að honum hafi gefist sérstök tækifæri til að sækja sér þekkingu um þessa hugmyndafræði erlendis. Hér hafi kærandi fengið fullt hús stiga, enda hafi hún ritað umsókn sína að verulegu leyti út frá hugmyndafræðinni.
48. Varðandi matsliði 5 og 6, þ.e. annars vegar „Framtíðarsýn og þróun kennslufræða skv. viðtali“ og hins vegar „Brotthvarf og mæting(ar) nemenda skv. viðtali“ undir „Áhersla á stefnu skólans skv. auglýsingu“ sé skemmst frá því að segja að kæranda sé fyrirmunað að leggja mat á þetta þar sem settur rektor hafi synjað kæranda um aðgang að minnisblöðum sem hafi verið rituð við ráðningarferlið, en augljóst sé að þau innihaldi upplýsingar sem skipti verulegu máli við ákvörðun um ráðningu þess sem ráðinn hafi verið og ekki sé hægt að afla annars staðar.
49. Samanlögð stig þess sem ráðinn hafi verið séu 23 af 30 mögulegum. Kærandi hafi aðeins fengið 19 stig. Í ljósi framangreinds hafi úrlausnir kæranda verið stórlega vanmetnar í samanburði við úrlausnir þess sem ráðinn hafi verið.
50. Við mat á liðnum „Starf kennslustjóra“ eigi kæranda erfitt með að átta sig á stigagjöfinni. Sá sem ráðinn hafi verið hafi fengið fullt hús stiga eða 10 stig en kærandi 6,5. Þannig viti kærandi ekki hvort eitthvað annað liggi að baki þessu mati en eingöngu umsóknirnar. Auglýsingin hafi verið send starfsmönnum skólans með tölvupósti 25. júní 2019, enda flestir starfsmenn verið komnir í sumarleyfi og skólanum að loka. Þar sem um innanhússauglýsingu hafi verið að ræða hafi kærandi ekki talið ástæðu til að fara í smáatriðum í gegnum þau atriði sem talin hafi verið upp í starfslýsingunni, enda ekki dottið annað í hug en að starfandi rektor færi yfir þær og hann hafi þekkt umsækjendur sem og reynslu þeirra og kunnáttu í þeim atriðum sem talin hafi verið upp í auglýsingunni. Hvað varði matsliði 2 og 3 undir „Starf kennslustjóra“, þ.e. annars vegar „Umsjón með nemendabókhaldi og skráningu nemenda“ og hins vegar „Umsjón með fjarvistarskráningu“, sé skemmst frá því að segja að kærandi hafi ekki talið ástæðu til að lýsa fyrir starfandi rektor færni hennar við notkun Innu sérstaklega, en sá sem ráðinn hafi verið hafi oftar en ekki kosið að fjalla almennt um hlutina.
51. Auk þessa veki það athygli kæranda að settur rektor hafi ekki metið tvo þætti undir starfi kennslustjóra hvað kæranda varði, þ.e. matsliði 4 og 5, en það sé annars vegar „Mat á námi“ og hins vegar „Útgáfa námsferla“. Kærandi skilji ekki hvers vegna ekki hafi verið lagt mat á þessa þætti hjá henni.
52. Jafnframt veki matsliðir 8 og 9 furðu kæranda, þ.e. annars vegar „Annast prófstjórn“ og hins vegar „Gerir próftöflu“, sérstaklega í ljósi frekari rökstuðnings kærða þar sem hann segi að skólinn leggi áherslu á breytt námsmat þar sem próftafla hafi verið lögð niður og námsmatsvikur teknar upp, enda sé flestum það ljóst að formleg próf séu ekki lengur lögð til grundvallar við námsmat í hinu nýja þriggja anna kerfi í skólanum.
53. Kærandi eigi erfitt með að meta þessa liði þar sem hún viti ekki nákvæmlega hvaða upplýsingar hafi legið að baki matinu fyrir utan umsóknirnar. Að auki hafi settum rektor láðst að meta kæranda hvað varðar matsliði 4 og 5. Einnig hafi hann lagt til grundvallar í mati sínu þætti sem séu úreltir í hinu nýja þriggja anna kerfi.
54. Samkvæmt framansögðu hafi umsókn kæranda ekki fengið sanngjarna og óhlutdræga meðhöndlun af hálfu kærða. Því hafi ákvörðun um ráðningu mótumsækjenda hennar verið byggð á ómálefnalegum grundvelli og gegn skýrum fyrirmælum laga hvað varði þá þætti sem skuli litið til við mat á umsækjendum. Að auk hafi settur rektor vikið sér undan því að afla upplýsinga um starfshæfni kæranda og umsagnar skólanefndar kærða lögum samkvæmt. Þannig séu stig sem kæranda hafi verið gefin í samanteknu mati á umsókn hennar, sbr. matsblað, dagsett 24. september 2019, vísvitandi röng og hæfnisþáttum gefin stig eftir ófullnægjandi yfirferð og rannsókn. Annað geti kærandi ekki ráðið af lestri þeirra takmörkuðu gagna sem hún hafi fengið afhent eftir aðkomu umboðsmanns Alþingis og sé þessi ómálefnalega meðferð á umsókn hennar á grundvelli kyns og aldurs hennar.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
55. Frá því er greint af hálfu kærða að settur rektor hafi tekið viðtöl við umsækjendur ásamt fyrrum skólameistara […]. Ákveðið hafi verið að loknu ítarlegu og mjög vönduðu mati að endurráða þann umsækjanda sem hafði gegnt starfi kennslustjóra síðastliðin fimm ár.
56. Öllum ásökunum kæranda í garð setts rektors, fyrir hönd kærða, um að kærandi hafi verið „ranglega metin, líklega vegna kynferðis og jafnvel vegna aldurs“ sé hafnað.
57. Í kærunni sé í mjög löngu máli rætt um gögn málsins sem erfitt sé að sjá að eigi erindi vegna þessarar kæru. Kærandi hafi fengið í hendur öll gögn málsins nema minnisblöð sem rituð hafi verið í viðtölum við umsækjendur. Byggi það á 16. gr. laga nr. 37/1993, enda sé þar ekki um að ræða endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá. Umboðsmaður Alþingis sé með það mál til umfjöllunar og hann hafi ekki beðið um þessi gögn.
58. Í gögnum málsins sé að finna þann matskvarða sem notaður hafi verið og báðir umsækjendur verið metnir á nákvæmlega sama hátt. Kærandi sé eðli máls samkvæmt ekki með sambærilega reynslu af umræddu starfi og sá sem ráðinn hafi verið og hafði gegnt starfinu í fimm ár. Að blanda kynferði og aldri inn í þetta sé vægast sagt sérkennilegt.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA
59. Kærandi segir meðal annars að þegar minnisblöð þau sem hún hafi fyrst fengið aðgang að í máli þessu séu rýnd, hafi hún litlar athugasemdir varðandi punkta um „Framtíðarsýn og þróun kennslufræði“, sbr. 5. tölul. á matsblöðum undir „Áhersla á stefnu skólans skv. auglýsingu“ sem og samkvæmt næstsíðustu spurningu á spurningalistanum, sem kærði hafi nú afhent kærunefndinni. Þar hafi báðir umsækjendur fengið fjögur stig. Svör þess sem ráðinn hafi verið séu þó mjög almennt orðuð og framtíðarsýnin því ekki sterk. Svipað sé uppi á teningnum hvað varði 6. tölulið í mati, þ.e. „Brotthvarf og mæting nemenda“. Þar sé kærandi með engar athugasemdir, enda fengið þar fullt hús stiga. Það veki þó athygli að það atriði hafi ekki komið fram á spurningablaðinu.
60. Aftur á móti hafi kærandi veitt því eftirtekt að í minnisblaði vegna viðtals við þann sem ráðinn hafi verið sé lítið sem ekkert sem geti rennt stoðum undir þá góðu einkunnagjöf sem hann hafi fengið í töluliðum 1-3 undir „Áhersla á stefnu skólans skv. auglýsingu“, þ.e. umfram það litla sem fram hafi komið í umsókn hans. Vísist til þess sem fram komi í kæru um þessi atriði.
61. Kærandi hafi fengið afhentan skriflegan rökstuðning fyrir ráðningunni sem sendur hafi verið til skólanefndar 11. júní 2020. Formaður skólanefndar kærða hafi afhent kæranda umrætt tölvubréf frá settum rektor sem og viðhengi, en meðal fylgiskjala hafi verið umræddur rökstuðningur vegna þess sem ráðinn hafi verið. Lestur þess skjals renni enn frekari stoðum undir þá skoðun kæranda að honum hafi verið gert hærra undir höfði en kæranda. Það veki meðal annars athygli kæranda að átta áherslur kærða í námi og kennslu, sem snúi að virkni og þátttöku nemenda, hafi verið sett í skjalið. Um sé að ræða þá punkta sem kærandi hafi sjálf stuðst við þegar hún hafi í umsókn lýst því hvernig hún hygðist vinna að stefnu skólans og stuðla að frekari framþróun þriggja anna kerfisins og námskrárinnar þar sem áhersla sé á að byggja upp námskraft nemenda. Hvers vegna þessi áhersluatriði hafi verið „límd“ inn í matsskjal þess sem ráðinn hafi verið sé kæranda algjör ráðgáta og textinn þar fyrir neðan virðist í litlu samhengi við þá punkta. Verði helst að álíta að þarna sé verið að blása upp röksemdir fyrir ráðningunni, enda hafi hann fjallað um þessi atriði með almennum og mjög takmörkuðum hætti í umsókn sinni, hafi hann á annað borð fjallað um þau. Þess í stað hafi hann talið brýnna að fjalla um óskyld atriði eins og GoPro-kerfið. Aðalatriðið hér sé ekki einungis þessi illskiljanlegi munur á rökstuðningi fyrir ráðningunni og þeim rökstuðningi sem ritaður hafi verið vegna umsóknar kæranda, heldur staðfesti þetta enn frekar það sem kærandi haldi fram í kærunni hvað varði þennan lið matsins.
62. Einnig hafi komið fram að settur rektor hafi aflað upplýsinga um kæranda hjá skólanum en henni sé óljóst með öllu hvernig þeirri upplýsingagjöf hafi verið háttað, hver hafi veitt þær og hverjar þær hafi verið nákvæmlega. Þannig hafi kærandi alls engin tök haft á því að tryggja að þessar upplýsingar væru réttar.
63. Samkvæmt þeirri röksemdafærslu, sem komi fram í greinargerð kærða um að kærandi sé eðli máls samkvæmt ekki með sambærilega reynslu af umræddu starfi og sá sem ráðinn hafi verið og hafi gegnt því í fimm ár, sé engin þörf á að hafa tímabundna ráðningu í starfið. Sá sem sé ráðinn í það geti alltaf vísað til reynslu sinnar kjósi hann að halda starfinu.
64. Samkvæmt framansögðu hafi aldrei annað staðið til af hálfu kærða en að ganga frá ráðningu þess sem ráðinn hafi verið í ljósi þess að hann hafði gegnt starfinu síðastliðin fimm ár, fyrst í eitt ár án auglýsingar og síðan í fjögur ár á grundvelli vægast sagt hæpinnar stjórnsýslu sem hafi leitt til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8956/2016. Að vísa til reynslu í starfi sé reyndar málefnalegt sjónarmið út af fyrir sig, en ljóst sé að sú reynsla hafi myndast upphaflega með því að ráða þann sem ráðinn hafi verið án auglýsingar. Þannig hafi honum verið skapað ákveðið forskot umfram aðra sem hafi hugsanlega getað keppt við hann þegar komið hafi að ráðningu í stöðuna innan fjögurra ára. Aftur á móti hafi verið kosið að horfa fram hjá lögbundnum atriðum sem skylt hafi verið að líta til við síðustu ráðningu í starfið á haustmánuðum 2019. Ítrekaðar tilraunir til að halda almennt gögnum frá kæranda, sem og stóryrði í hennar garð, renni frekari stoðum undir að tryggja endurráðningu þess sem ráðinn hafi verið. Það sé því ljóst að aldur kæranda og kyn hafi valdið þessari ómálefnalegu meðferð á umsókn hennar.
ATHUGASEMDIR KÆRÐA
65. Kærði segir að kærandi haldi því fram að rökstuðningur (matsblað) fyrir ráðningunni hafi ekki verið aðgengilegur fyrr en með tölvubréfi frá formanni skólanefndar. Þetta sé rangt. Kærandi hafi fengið þetta skjal um leið og tilkynnt hafi verið um ráðninguna.
66. Sömuleiðis sé rangt að ekki hafi verið haft samráð við skólanefnd. Kærunefndin hafi gögn sem sýni fram á að fullt og eðlilegt samráð hafi verið haft við skólanefnd.
67. Kærandi haldi því fram að reynslu þess sem ráðinn hafi verið eigi ekki að meta vegna þess að sú reynsla hafi orðið til vegna meinbuga á ráðningunni á sínum tíma. Hvernig hægt sé að komast að þessari niðurstöðu sé fjarstæðukennt.
68. Í athugasemdum kæranda og í fyrri málsgögnum sé ítrekað gert lítið úr menntun og reynslu þess sem ráðinn hafi verið. Orðalagið „kyn mitt og aldur“ komi einnig ítrekað fram í þeim tilgangi að kalla fram þá tilfinningu að um hafi verið að ræða mismunun. Um hafi verið að ræða vonda, ósæmilega stjórnsýslu. Ekkert slíkt hafi átt sér stað og sé þessum málatilbúnaði hafnað. Í gögnum málsins komi fram að þvert á móti hafi mat á umsækjendum verið eins vandað og nokkur hafi verið kostur.
FREKARI UPPLÝSINGAR FRÁ SETTUM REKTOR
69. Fram kemur að starf kennslustjóra sé sambærilegt starfi áfangastjóra í framhaldsskólum landsins. Ekkert hafi komið fram í auglýsingu um starfið um menntun umsækjenda. Þess vegna hafi verið talið eðlilegt að horfa til reglugerðar nr. 1100/2007 um starfslið og skipulag framhaldsskóla þar sem segi í 6. gr.: „Skólameistara er heimilt að ráða áfangastjóra að höfðu samráði við skólanefnd til allt að fjögurra ára í senn úr hópi framhaldsskólakennara við skólann eftir að starfið hefur verið auglýst innan skólans. Endurráðning er heimil að undangenginni auglýsingu.“ Í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla séu tilgreind skilyrði til þess að vera ráðinn kennari við framhaldsskóla. Báðir umsækjendur hafi uppfyllt ofangreind skilyrði.
70. Í nýjum lögum, lög nr. 95/2019, samþykktum á Alþingi 20. júní 2019 (lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla) séu tilgreind þau hæfniviðmið sem kennarar skuli búa yfir til að kenna ólíkar kennslugreinar á mismunandi skólastigum. Jafnframt hafi lög nr. 87/2008 verið höfð til hliðsjónar, en þau hafi fallið úr gildi 1. janúar 2020.
71. Báðir umsækjendur séu með meistarapróf. Sá sem ráðinn hafi verið sé með M.litt í félagslegri mannfræði frá ST. Andrews University (M.litt: The Master of Letters degree is a postgraduate degree awarded by a few select British and Irish Universities). Kærandi sé með M.ed. frá Háskóla Íslands. Hvað aðra menntun varði sé sá sem starfið hafi fengið með starfsþjálfun sem þróunarráðgjafi frá DNS Danmörku (DNS International Teacher Training College) og kærandi hafi lokið námi fyrir leiðsagnarkennara við Háskóla Íslands. Að þessu virtu hafi báðir umsækjendur verið taldir jafnstæðir varðandi menntun.
FREKARI UPPLÝSINGAR FRÁ KÆRANDA
72. Kærandi segir að settur rektor hafi látið duga að vísa til 6. gr. reglugerðar nr. 1100/2007 þegar hann hafi gefið skýringu á því hvers vegna ekki hafi verið að finna neinar menntunarkröfur í starfsauglýsingunni. Rétt sé að halda því til haga að sú reglugerð hafi verið sett með heimild í 11. gr. þágildandi laga um framhaldsskóla, þ.e. lögum nr. 80/1996, þar sem fjallað sé um áfangastjóra í 2. mg. 11. gr. Það starfsheiti sé aftur á móti ekki að finna í núgildandi lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Það sé þó óumdeilt að kennslustjóri (áfangastjóri) skuli að lágmarki uppfylla sömu menntunarkröfur og framhaldsskólakennarar (þ.e. hafa starfsheitið framhaldsskólakennari), sbr. 14. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Aftur á móti þurfi viðkomandi að auki að hafa viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi. Þar beri kærandi höfuð og herðar yfir mótumsækjanda sinn, að minnsta kosti hvað síðarnefnda atriðið varði, en samkvæmt 20. gr. laga nr. 87/2008 skuli meðal annars tekið tillit til menntunar sem og stjórnunar- og starfsreynslu og umsagna um starfshæfni þegar ákvörðun sé tekin um ráðningu í starfið. Þetta lögbundna skilyrði sé mikilvægt í málinu.
73. Samkvæmt framansögðu sé rangt hjá settum rektor að vísa til hæfniviðmiða í lögum nr. 95/2019 en þau lög hafi tekið gildi löngu eftir að ráðningin hafi átt sér stað, eða 1. janúar 2020. Honum hafi því borið að líta til gildandi laga nr. 87/2008 en ekki hafa þau „til hliðsjónar“ eins og hann hafi sagt í svari sínu, enda sé í 3. mgr. 8. gr. framhaldsskólalaga vísað til gildandi laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda. Í þeim efnum megi einnig vísa til lögmætisreglunnar, þ.e. ákvarðanir stjórnvalda þurfi ekki einungis að eiga sér stoð í lögum heldur megi þær ekki vera í andstöðu við lög. Einnig megi benda á réttmætisregluna sem sé einnig ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Þannig sé stjórnvaldshafa skylt samkvæmt henni að haga ákvörðunum sínum og athöfnum í samræmi við ákveðin sjónarmið sem leiða megi af þeim lagagrundvelli sem sé undir hverju sinni.
74. Settur rektor hafi aftur á móti kosið að skauta fram hjá þessum lögbundnu skilyrðum þegar hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að báðir umsækjendur „uppfylla ofangreind skilyrði“ án þess að hafa minnst einu orði á lögbundin atriði, það er að segja fyrir utan þá augljósu staðreynd að báðir umsækjendur séu framhaldsskólakennarar.
75. Því næst sé því slegið fram af hálfu setts rektors að báðir umsækjendur séu með meistarapróf. Þeirri staðreynd fylgi örstutt lýsing á því hvaða gráður umsækjendur séu með, allt upplýsingar sem hafi komið fram í umsóknum nema settur rektor hafi fundið á Netinu skýringar á gráðunni M.litt, án þess að útskýra það nánar. Sama gildi um aðra menntun. Ekki sé eitt einasta orð um það hvernig lagt hafi verið hlutlægt mat á þessa þætti, til dæmis hvaða ECT-einingar séu að baki námi umsækjenda og hvernig það nám nýtist í starfinu. Þannig hafi settur rektor, án nokkurra skýringa og án þess að vísa til viðurkenndra viðmiða sem almennt séu notuð við slíkt mat, komist að þeirri niðurstöðu að umsækjendur séu jafnstæðir varðandi menntun.
76. Samkvæmt framansögðu hafi ekki farið fram neitt raunverulegt hlutlægt mat á umsækjendum í þeim tilgangi að kanna hvort þeir uppfylli hæfnisskilyrði, bæði lögbundin og ólögbundin, og það eigi jafnt við um menntun sem og önnur skilyrði. Því sé einsýnt að hér hafi verið brotið gegn þeirri rannsóknarskyldu sem hvíli á veitingarvaldshafa samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.e. að upplýsa málið að fullu áður en ákvörðun sé tekin.
77. Kærandi leyfi sér enn að efast um hæfi setts rektors í málinu, sbr. hina óskráðu hæfisreglu stjórnsýsluréttar sem hafi verið lögfest í reglum II. kafla laga nr. 37/1993, enda greinilegt að settur rektor eigi erfitt með að greina í sundur störf sín sem slíkur og sem skrifstofustjóri Skólameistarafélags Íslands hvar mótumsækjandi kæranda sé félagsmaður. Jafnvel þótt kærunefndin komist að þeirri niðurstöðu að þetta hafi ekki valdið vanhæfi af hálfu setts rektors, sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga, sé þetta ámælisvert og nærtækast fyrir kæranda að líta svo á að þarna sé um að ræða skjöl og tölvupóst sem ritaður hafi verið á vegum þessarar hálfopinberu stofnunar (og þar með á ábyrgð stjórnar þess, sbr. UA-5286-2008. Hvað varði vistun persónugreinanlegra gagna áskilji kærandi sér aftur á móti allan rétt til að bera það atriði undir þar til bær stjórnvöld.
78. Hvað varði framsetningu starfsauglýsingarinnar ætti það atriði að vera sérstakt athugunarefni en ljóst sé, þ.e. fyrir utan að minnast ekki einu orði á lögbundnar hæfis- og hæfnikröfur, að þar hafi verið brotið gegn hinni svonefndu skýrleikareglu sem sé meðal hinna óskráðu grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins. Þannig beri stjórnvöldum að fylgja reglunni án undanbragða, enda sé auglýsing á lausu opinberu starfi í raun formleg og opinber tilkynning um að stjórnvaldið hafi hafið tiltekið stjórnsýslumál sem miði að því að ráða þann hæfasta úr hópi umsækjenda. Af henni leiði að ákvarðanir stjórnvalda, sem og tilkynningar sem sé beint til borgaranna, verði jafnan að vera eins skýrar og glöggar að efni til og kostur sé. Borgarinn eigi því, meðal annars af lestri þess sem stjórnvöld birti, að geta gert sér grein fyrir því hvaða skilyrði hann þurfi að uppfylla til þess að geta komið til greina til að njóta tiltekinna réttinda eða gæða sem stjórnvöld taki ákvörðun um, sbr. UA-7144/2012. Svo hafi ekki verið miðað við framsetningu umræddrar auglýsingar.
NIÐURSTAÐA
79. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
80. Kærði auglýsti starf kennslustjóra laust til umsóknar meðal kennara sem starfa við skólann 25. júní 2019. Fram kom að ráðið yrði í starfið frá 1. ágúst, tímabundið til fjögurra ára, eða til 31. júlí 2023. Umsóknum átti að skila fyrir 25. júlí 2019. Tekið var fram í auglýsingu að umsækjendur skyldu meðal annars tilgreina í umsókn með hvaða hætti (hvernig) viðkomandi hygðist vinna að stefnu skólans og stuðla að frekari framþróun á þriggja anna kerfinu og námskránni þar sem áhersla væri á að byggja upp námskraft nemenda. Rakið var að kennslustjóri ynni í teymisvinnu með öðrum stjórnendum og hefði umsjón með nemendabókhaldi, þar á meðal skráningu nemenda, fjarvistaskráningu, mati á námi og útgáfu námsferla. Einnig héldi hann utan um framkvæmd skólareglna og væri tengiliður við félagsmálafulltrúa skólans og stjórn nemendafélagsins. Enn fremur kom fram að kennslustjóri skyldi meðal annars annast prófstjórn og gerð próftöflu á matsdögum. Kennslustjóri ætti sæti í skólaráði og væri framkvæmdastjóri ráðsins. Tekið var fram að um fullt starf væri að ræða og að launaröðun væri samkvæmt stofnanasamningi skólans við félagsmenn Kennarasambands Íslands. Samningur yrði gerður við kennslustjóra um vinnuskil, vinnutíma og heildarkjör.
81. Þegar ráðningarferlið stóð yfir og ráðið var í starf kennslustjóra höfðu lög nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, sem samþykkt voru 20. júní 2019 og birt 1. júlí sama ár, ekki tekið gildi. Samkvæmt 20. gr. laganna tóku þau gildi 1. janúar 2020. Lög nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla áttu því við um ráðningu kennslustjóra. Í V. kafla laganna var fjallað um starfsréttindi og ráðningar í framhaldsskólum. Í 13. gr. laganna var kveðið á um að til að vera ráðinn til kennslu í framhaldsskóla skyldi umsækjandi hafa öðlast leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari en samkvæmt 14. gr. laganna þarf umsækjandi að hafa það starfsheiti og annaðhvort viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi til að vera ráðinn í stjórnunarstöðu við framhaldsskóla.
82. Heimild til að ráða kennslustjóra til fjögurra ára byggir á 6. gr. reglugerðar um starfslið og skipulag framhaldsskóla nr. 100/2007, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Skólameistari getur þannig að höfðu samráði við skólanefnd ráðið kennslustjóra úr hópi framhaldsskólakennara við skólann með auglýsingu sem birt er innan skólans. Þá er endurráðning heimil að undangenginni auglýsingu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var framkvæmd ráðningar kennslustjóra í samræmi við fyrirmæli reglugerðarinnar hvað auglýsingu og ráðningartímabil snertir. Hvað samráð við skólanefnd snertir má ráða af gögnum málsins að skólanefndin hafi ekki látið ráðningarferlið sig varða á annan hátt en þann að æskja þess að settur rektor myndi upplýsa nefndina um ákvörðun um hver yrði fyrir valinu.
83. Kærandi reisir málatilbúnað sinn bæði á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Séu vísbendingar um að umsækjanda hafi sérstaklega verið mismunað á grundvelli aldurs við ráðningu í starf kemur til greina að beita 8. gr. laga nr. 86/2018 við úrlausn máls og þá eftir atvikum samhliða lögum nr. 10/2008. Í máli þessu hefur kærandi aftur á móti ekki dregið fram í málatilbúnaði sínum einstök atriði sem gefa til kynna að hún hafi orðið fyrir mismunun á grundvelli aldurs hennar og bera gögn málsins slíka mismunun ekki með sér. Að þessu virtu hefur kærandi ekki leitt líkur að því að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 86/2018, sbr. 15. gr. laganna.
84. Er í ljós kom að kærandi og starfandi kennslustjóri voru umsækjendur um stöðu kennslustjóra vék rektor kærða sæti vegna fyrri ágreinings við kæranda vegna ráðningar kennslustjóra sem afráðin var 2015. Mennta- og menningarmálaráðuneytið setti því annan aðila í stöðu rektors kærða til að annast ráðninguna 30. ágúst 2019. Settur rektor kynnti ákvörðun sína um að ráða starfandi kennslustjóra áfram til starfsins 24. september sama ár.
85. Settur rektor útbjó sérstakan fimm þátta matskvarða þar sem þeim menntunar- og hæfniskröfum er fram komu í auglýsingu um starfið var skipt niður í ákveðna matsflokka og hverjum matsflokki gefið vægi með það að markmiði að leggja mat á hæfni umsækjenda. Samkvæmt þeim kvarða vó menntun 30 stig, starfsreynsla innan kærða 20 stig, önnur starfsreynsla 10 stig, áhersla á stefnu skólans samkvæmt auglýsingu 30 stig en sá matskvarði skiptist í sex undirflokka sem hver veitti að hámarki fimm stig, starf kennslustjóra 10 stig en sá matskvarði skiptist í 10 undirflokka sem hver gaf eitt stig. Hæsta mögulega einkunn var þannig 100 stig.
86. Tekin voru viðtöl við umsækjendur og lagðar til grundvallar sömu spurningar og umræðuefni í þeim báðum. Að viðtölum loknum, yfirferð á umsóknum og umsóknargögnum voru umsækjendum gefin stig. Bæði kærandi og sá sem starfið hlaut hlutu fullt hús stiga fyrir menntun, starfsreynslu innan kærða og aðra starfsreynslu, kærandi hlaut aftur á móti 19 af 30 stigum fyrir áherslu á stefnu skólans samkvæmt auglýsingu og 6,5 stig af 10 fyrir matskvarðann „Starf kennslustjóra“. Kærandi fékk þannig samtals 85,5 stig af 100 á grundvelli matskvarðans, en sá sem starfið hlaut 93 af hundraði stiga. Í kjölfarið var ákveðið að bjóða karlinum starfið sem hann þáði.
87. Ákvörðun kærða um ráðningu kennslustjóra var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verður almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 2/2020. Þá verður einnig að líta til þeirra hæfniskrafna sem leiða af þeim lögum sem gilda um starfið, þ.e. einkum lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, sbr. einnig lög nr. 92/2008 um framhaldsskóla.
88. Í ljósi þessa svigrúms kærða eru hvorki forsendur til að gera athugasemd við að útbúinn hafi verið sérstakur matskvarði til að leggja mat á hæfni umsækjenda né að horft hafi verið til auglýsingar um starf kennslustjóra þegar afmarkað var hvaða hæfnisþættir voru metnir. Á hitt ber þó að líta að sérstaka varfærni þarf að viðhafa við að beita kvarða sem útbúinn er að loknum umsóknarfresti, þegar fyrir liggur hverjir umsækjendurnir eru eins og hér um ræðir svo að kvarðinn hygli ekki einum umsækjenda umfram aðra.
89. Í auglýsingu um starfið var ekki vikið að menntunarkröfum en í rökstuðningi kærða er vísað til 3. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2008 um skilyrði þess að vera ráðinn kennari við framhaldsskóla. Í nefndu ákvæði er vísað til ákvæða gildandi laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og fleira, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Samkvæmt síðargreinda ákvæðinu verður umsækjandi að njóta menntunar sem framhaldsskólakennari og annaðhvort hafa viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi. Í því ljósi er skýrt hvaða menntunarkröfur lágu hæfnismati til grundvallar en eðli máls samkvæmt verður ekki vikið frá lögbundnum hæfniskröfum þótt þeirra sé ekki sérstaklega getið í auglýsingu.
90. Samkvæmt matskvarðanum, sem nýttur var, vó menntun 30 stig, eins og áður gat og fengu báðir umsækjendur 30 stig með þeim rökum að menntunin væri að mati kærða sambærileg og að báðir uppfylltu lagaskilyrði og væru því hæf til ráðningar í starf kennslustjóra. Af hálfu kærða hefur menntun beggja verið talin upp til að rökstyðja þessa ályktun.
91. Kærandi hefur gert athugasemd við mat kærða í þessum efnum þar sem hún búi að betri menntun en sá sem starfið hlaut. Báðir umsækjendur búa að háskólanámi til kennsluréttinda og bæði hafa lokið BA prófi, kærandi í sagnfræði og stjórnmálafræði en sá sem starfið hlaut í mannfræði. Að auki býr kærandi að viðbótarnámi M.ed. meistaraprófi frá menntavísindasviði Háskóla Íslands og námi fyrir leiðsagnarkennara. Í umsóknargögnum kæranda kom fram að lokaverkefni hennar í meistaranámi hafi verið á sviði stjórnunar. Sá sem starfið hlaut býr einnig að viðbótarnámi en hann hefur lokið M.litt. gráðu í félagslegri mannfræði frá háskóla í Skotlandi og lagt stund á starfsþjálfun sem þróunarráðgjafi frá DNS í Danmörku. Námsferill þeirra tveggja að loknu námi til kennsluréttinda er nokkuð ólíkur og má færa rök fyrir því að nám kæranda hafi verið umfangsmeira, og sérhæfðara enda meistaranám hennar á sviði kennslufræða. Sýnast standa rök til þess að gagnrýna þá niðurstöðu kærða að leggja til grundvallar að bæði fengju fullt hús stiga fyrir að lagaskilyrðum um menntun hafi verið náð. Sérstaklega orkar þessi niðurstaða tvímælis þegar horft er til þess að sá sem starfið hlaut naut engrar viðbótarmenntunar í stjórnun, sem er annað tveggja mögulegra skilyrða til að vera ráðinn stjórnandi við framhaldsskóla samkvæmt 14. gr. laga nr. 87/2008. Lokaverkefni kæranda var aftur á móti á því sviði eins og áður gat og uppfyllir hún því áðurnefnt skilyrði laganna hvað menntun snertir. Í ljósi þessa má álykta að kærandi hefði átt að fá fleiri stig fyrir menntun en sá sem starfið hlaut.
92. Báðir umsækjendur fengu 20 stig vegna starfsreynslu innan veggja kærða þar sem þau töldust í ljósi fjölþættrar reynslu mjög vel hæf til að sinna starfi kennslustjóra. Kærandi hafði starfað í rétt 30 ár hjá kærða er hin umdeilda ráðning fór fram og sinnt margskonar verkefnum, auk kennslu. Sá sem starfið hlaut hafði unnið hjá kærða í 13 ár og einnig sinnt fjölbreyttum verkefnum, auk þess sem hann hafði sinnt starfi sem kennslustjóri um fimm ára skeið. Þó að fyrri ráðning hans sem kennslustjóri hafi orðið kæranda tilefni til kvörtunar til umboðsmanns Alþingis á sínum tíma, sem gert hafi athugasemdir við stjórnsýslu kærða, breytir það ekki þeirri staðreynd að sá sem starfið hlaut býr að starfsreynslu sinni sem kennslustjóri. Honum verður enda ekki lagt til lasts þótt ágallar kunni að hafa verið á stjórnsýslu kærða þegar hann var ráðinn í öndverðu. Umsækjendur sem starfa þá þegar hjá þeim atvinnurekanda, sem auglýsir starf, verða að njóta sannmælis þannig að starf þeirra vinni ekki gegn þeim í ráðningarferlinu. Á hinn bóginn verður að gæta jafnræðis á milli umsækjenda þannig að í þessum efnum sé þeim sem eru í starfi hjá viðkomandi atvinnurekanda ekki veitt ómálefnalegt forskot. Í því tilviki sem hér um ræðir háttar svo til að báðir umsækjendur vinna hjá kærða og því báðir mjög vel kunnugir starfsemi hans eftir áralöng störf og fullnægja tvímælalaust skilyrði 14. gr. laga nr. 87/2008 að hafa kennslureynslu á framhaldsskólastigi. Með hliðsjón af reynslu beggja umsækjenda eru því ekki forsendur til að gera athugasemdir við það mat kærða að bæði hafi verið mjög vel hæf til að sinna starfi kennslustjóra í því ljósi sem svo hafi endurspeglast í stigagjöf kærða hvað þennan hæfnisþátt snertir.
93. Þegar horft er til framantalinna matsþátta, menntunar og starfsreynslu innan veggja kærða, er á hinn bóginn óhjákvæmilegt annað en að líta til þess að kærandi fullnægir báðum viðbótarskilyrðum 14. gr. laga 87/2008 um annaðhvort viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi. Sá sem starfið hlaut býr ekki að slíkri viðbótarmenntun eins og áður gat.
94. Umsækjendur fengu einnig fullt hús stiga vegna annarrar starfsreynslu, 10 stig. Kærandi með þeim rökstuðningi að hún teldist mjög hæf til að gegna starfi kennslustjóra þegar mat væri lagt á reynslu innan kærða og faglega reynslu utan skólans. Sem starfsreynsla, sem felld var undir þennan matsflokk, var tíunduð margskonar félagsstörf kæranda, bæði á vettvangi fagfélaga og stéttarfélags kennara, auk þátttöku í alþjóðlegu félagsstarfi, meðal annars stjórnarformennsku í Euroclio, Evrópusamtaka sögukennara, allt frá aldamótum til 2019. Starfsreynsla þess sem starfið hlaut var fjölþættari þar sem hún tekur bæði til félagsstarfa á vettvangi fagfélags og stéttarfélags en einnig til atvinnuþátttöku, meðal annars sem sjálfboðaliði í þróunarstarfi í Afríku, vinnu á leikskóla og kennslu við grunnskóla. Þegar horft er til fjölbreytileika þessara verkefna sem kærandi og sá sem starfið hlaut hafa sinnt, eru ekki forsendur til að gera athugasemd við mat kærða þess efnis að báðir umsækjendur hafi búið að góðri starfsreynslu umfram reynsluna af kennslu og þau því bæði fengið 10 stig fyrir matsflokkinn, enda verður ekki áskilið á grundvelli auglýsingar eða matskvarða kærða að önnur starfsreynsla sem metin er undir þessum flokki þurfi að hafa skírskotun til starfs kennslustjóra.
95. Fjórði matsflokkur á matskvarða kærða var skilgreindur svo að hann lyti að áherslu á stefnu skólans samkvæmt auglýsingu og gilti í heild 30 stig en matskvarðinn skiptist í sex undirflokka sem hver veitti að hámarki fimm stig. Undirflokkar þessir voru, 1) vinna að stefnu skólans, 2) framþróun á þriggja anna kerfi, 3) námskrárvinna, 4) byggja upp námskraft nemenda, 5) framtíðarsýn og þróun kennslufræða, 6) brotthvarf og mæting nemenda. Ólíkt fyrstu þremur matsflokkum kærða sem þegar hefur verið fjallað um, sem lutu að menntun og starfsreynslu og byggðu á mati á hlutrænum upplýsingum, fól mat samkvæmt þessum flokki í sér huglægt mat á viðhorfum umsækjenda til þeirra umfjöllunarefna sem féllu undir hvern undirflokk fyrir sig. Fyrstu fjórir undirflokkarnir byggðu á skilgreindum skriflegum kröfum samkvæmt auglýsingu en þess var getið að síðustu tveir undirflokkarnir hefðu verið metnir samkvæmt viðtali. Brýnt er að við slíkt huglægt mat sé ljóst eftir hverju verið er að höggva hjá umsækjendum svo að öruggt sé að ekki orki tvímælis eða vafi leiki á til hvers sé ætlast af þeim í auglýsingu.
96. Kærandi hefur gagnrýnt niðurstöðu kærða og mat í þessum efnum. Hvað varðar fyrsta undirflokkinn, með hvaða hætti viðkomandi hyggðist vinna að stefnu skólans, væri óljóst hvað átt væri við. Kæranda voru gefin tvö stig fyrir þennan undirflokk en þeim sem starfið hlaut fjögur stig. Viðfangsefnið sýnist umfangsmikið og næsta óafmarkað til hvers ætlast var að umsækjendur fjölluðu um. Kærandi hefur að auki fengið ólík svör frá kærða við fyrirspurn um hvert inntak stefnunnar er sem umfjöllun umsækjenda átti að beinast að. Í þessu ljósi sýnist vart unnt að leggja kæranda til lasts að svör hennar hafi ekki verið í samræmi við það sem vænst var að yrði fjallað um í þessum efnum. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að líta framhjá þeim stigum sem veitt voru fyrir þennan undirflokk.
97. Hvað undirmatsflokkana, framþróun á þriggja anna kerfi, námskrárvinna og byggja upp námskraft nemenda varðar orkar á hinn bóginn ekki tvímælis af auglýsingu að kallað var eftir viðhorfum umsækjenda til þessara álitaefna. Kærandi fékk þrjú stig fyrir fyrsta flokkinn en sá sem starfið hlaut fimm stig. Fyrir flokkinn námskrárvinna fékk kærandi ekkert stig en sá sem starfið hlaut tvö stig. Fyrir síðasttalda flokkinn er laut að námskrafti nemenda fékk kærandi fimm stig en sá sem starfið hlaut fjögur stig. Þótt augljóst samhengi sé á milli þessara umfjöllunarefna eins og þau eru sett fram í auglýsingunni eru ekki forsendur til að gera athugasemd við þá nálgun kærða að meta þessi atriði í aðskildum undirmatsflokkum, enda verður ekki séð að það hefði haft áhrif á niðurstöðuna að stigunum 30 sé skipt niður á sex flokka eða færri þar sem matsandlagið er hið sama. Í ljósi umsóknargagna og samantekta vegna viðtala eru síðan ekki forsendur til að gera athugasemd við niðurstöðu kærða um stigagjöf umsækjendanna fyrir þessa þrjá liði. Stigagjöf fyrir fyrsta og síðasta undirflokkinn byggði á huglægu mati kærða á umfjöllun kæranda og þess sem starfið hlaut sem ekki eru forsendur til að gera athugasemd við af hálfu kærunefndar jafnréttismála. Að sama brunni ber hvað varðar undirflokkinn framþróun námskrárinnar í ljósi þess að sérstaklega var krafist umfjöllunar um þetta álitaefni í auglýsingu um starfið. Þrátt fyrir það fjallaði kærandi ekki um þetta atriði með þeim rökum að námskrárvinna væri kennslustjóra óviðkomandi. Ekki verður séð að kærða hafi verið takmörk sett um það hvaða atriði hann ætlaði umsækjendum að fjalla um, auk þess sem ekki verður séð að hallað hafi á kæranda í þessum efnum í ljósi starfsreynslu hennar hjá kærða. Í þessum efnum stóð það kæranda næst að fjalla um þetta efni óháð því að hún teldi gerð námskrár ekki vera verkefni sem kennslustjóri leysti af hendi, enda eftir því leitað í auglýsingu. Sá sem sækir um starf ber almennt ábyrgð á því sjálfur hvaða upplýsingum hann kemur á framfæri. Í ljósi þess að lagðar voru staðlaðar spurningar fyrir umsækjendur í ráðningarviðtölum sem höfðu víðtækari skírskotun en leiddi af auglýsingu um starf kennslustjóra þannig að umsóknargögn umsækjenda voru ekki umfjöllunarefnið verður það ekki talið valda því að líta beri framhjá þessum matslið að kærði hafi ekki gefið kæranda sérstakt tækifæri til að bæta úr ágalla á umsókn hennar við það tækifæri.
98. Síðustu tveir undirflokkarnir sem gefin voru stig fyrir undir þessum liðum í matskvarða kærða byggðu báðir á munnlegum upplýsingum sem umsækjendur létu í té í viðtölum. Flokkar þessir eru framtíðarsýn og þróun kennslufræði, sem báðir umsækjendur fengu fjögur stig fyrir og svo brotthvarf og mæting nemenda en fyrir þann flokk fékk kærandi fimm stig en sá sem starfið hlaut fjögur stig. Ekki eru forsendur til að gera athugasemd við niðurstöðu kærða um stigagjöf umsækjendanna fyrir þessa tvo liði.
99. Af ofangreindu samanteknu stendur óhögguð sú ályktun kærða að kærandi standi þeim sem starfið hlaut lítillega að baki í matsflokknum áhersla á stefnu skólans samkvæmt auglýsingu.
100. Síðasti matsflokkurinn sem kærði skilgreindi var starf kennslustjóra en sá matsflokkur byggði beint á framsetningu í auglýsingu þar sem undirflokkarnir, sem kærði skipti stigunum niður á 10 undirflokka, endurspegla þau atriði sem talin eru í auglýsingunni þar sem fjallað er um starf kennslustjóra. Hver undirflokkur fyrir sig gaf eitt stig. Sá sem starfið hlaut fékk eitt stig fyrir hvern undirflokk fyrir sig, samtals 10 stig, en kærandi fékk ýmist eitt stig, hálft stig eða ekkert stig fyrir undirflokkana, fyrir fimm matsflokka fékk hún eitt stig fyrir hvern, samtals fimm stig: Teymisvinna með öðrum stjórnendum; framkvæmd skólareglna; annast prófstjórn; gerir próftöflu og situr í skólaráði og er framkvæmdastjóri þess. Fyrir þrjá aðra matsflokka fékk hún hálft stig fyrir hvern, samtals eitt og hálft stig: Umsjón með nemendabókhaldi og skráningu nemenda, umsjón með fjarvistaskráningu og tengiliður við félagsmálafulltrúa skólans og stjórn nemendafélags. Fyrir tvo matsflokka; mat á námi og útgáfa námsferla fékk hún ekkert stig. Samtals hlaut hún þannig 6,5 stig af 10 mögulegum. Í mati kærða á umsækjendum voru ofangreindir matsflokkar taldir upp og stig gefin en engin rök færð fyrir niðurstöðunni.
101. Kærandi hefur gagnrýnt stigagjöf þessa en í rökstuðningi kærða hefur ekki verið gerð frekari grein fyrir stigagjöfinni að öðru leyti en því að láta þess getið að kærandi hafi eðli máls samkvæmt ekki sambærilega reynslu af umræddu starfi eins og sá sem ráðinn var sem hafði gegnt starfinu í fimm ár. Af minnispunktum úr ráðningarviðtölum má síðan ráða að sá sem starfið hlaut hafi fjallað í nokkrum atriðum um undirflokka þessa matsliðar í viðtalinu, auk umfjöllunar í upphaflegri umsókn. Ráða má af viðtalspunktum þess sem starfið hlaut að hann hagnýtti sér þekkingu sína á ráðagerðum kærða um þróun skólastarfs. Þótt vissulega hafi hann þannig notið þeirrar vitneskju verður ekki talið að það hafi ráðið úrslitum í þessum tileknu efnum gagnvart kæranda. Fyrir liggur í minnispunktum frá viðtali við kæranda að þar er ekki fjallað með sama hætti um þessi atriði, þrátt fyrir að tækifæri kæranda hafi verið þau sömu, enda báðir umsækjendur inntir svara við sama spurningalistanum. Í dæmaskyni má nefna umfjöllun um námsferla sem sá sem starfið hlaut fjallaði um í viðtali en kærandi ekki. Þess er jafnframt getið í kæru af hálfu kæranda að þar sem um innanhússauglýsingu hafi verið að ræða hafi hún ekki talið ástæðu til að fara í smáatriðum í gegnum þau atriði sem talin væru upp í starfslýsingunni, enda ekki vænst annars en að starfandi rektor myndi fara yfir umsóknirnar en hann þekki umsækjendurna, reynslu þeirra og kunnáttu á þeim atriðum sem talin hafi verið upp í auglýsingunni. Eins og áður hefur verið rakið ber sá sem sækir um starf almennt ábyrgð á því sjálfur hvaða upplýsingum hann kemur á framfæri. Það varð ljóst nokkru áður en ráðið var í starfið að skipaður rektor hefði vikið sæti og annaðist því ekki um ráðninguna. Kæranda gafst þannig nægt svigrúm til að auka við umsókn sína þeim upplýsingum sem hún hafði sleppt í öndverðu vegna væntinga um innanbúðarþekkingu skipaðs rektors. Hún átti því þess kost annaðhvort skriflega eða með því að gera grein fyrir þessum atriðum í viðtali. Þar sem gögn málsins bera ekki með sér að hún hafi gert það eru ekki forsendur til að gera athugasemdir við mat kærða hvað varðar þá matsflokka sem kærandi fékk lakari stigagjöf en sá sem starfið hlaut. Það væri almennt innan svigrúms kærða við mat á umsækjendum og á engan hátt ómálefnalegt að taka slíka afstöðu til þessarar ólíku nálgunar umsækjenda sem endurspeglast í þessum efnum í viðtalspunktum kærða. Á hinn bóginn er greining og röksemdarfærsla kærða í þessum efnum á hæfni umsækjenda svo áfátt að vart sýnast rök til að gera svo mikinn mun á stigagjöf þeirra eins og raun ber vitni.
102. Fyrir liggur að á konur hallar í stjórnendateymi kærða sem skipað er þremur karlmönnum og einni konu. Sú staðreynd fær sérstakt vægi þegar horft er til þess að undirbúningur ráðningar með gerð matskvarða átti sér stað eftir að fyrir lá að einungis tveir umsækjendur sæktust eftir stöðu kennslustjóra. Því var brýnt að mælikvarðar væru hlutlægir og sanngjarnir gagnvart umsækjendum. Þá var mat kærða á menntun kæranda tæpast í samræmi við áskilnað laga og matsgrundvöllurinn næsta óljós hvað varðar stefnu skólans og þau atriði sem talin voru upp varðandi starf kennslustjóra.
103. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Í 4. mgr. 26. gr. laganna kemur meðal annars fram að séu líkur leiddar að því að við ráðningu hafi einstaklingum verið mismunað á grundvelli kyns skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar skal kærunefndin við nánara mat á þessu taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.
104. Eins og rakið er hér að framan gætir ýmissa annmarka af hálfu kærða við mat á kæranda og þeim karli sem starfið hlaut. Með hliðsjón af öllu framangreindu telur kærunefndin að kærði hafi vanmetið kæranda samanborið við karlinn varðandi menntun hennar sem var fortakslaust skilyrði að lögum og hafi að auki lagt ófullnægjandi grundvöll að mati á sýn kæranda á stefnu skólans sem þó var sérstaklega óskað eftir í auglýsingu kærða og einnig hvað varðar þau atriði er lúta að inntaki starfs kennslustjóra. Í þessu ljósi hefur ekki verið sýnt fram á að fyrir hafi legið forsendur til að gera greinarmun á kæranda og þeim sem starfið hlaut þannig að þau hafi ekki verið í það minnsta jafnhæf til að gegna starfinu.
105. Með hliðsjón af umfjöllun kærunefndarinnar um einstaka matsþætti starfsauglýsingarinnar telst kærandi hafa leitt nægar líkur að því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna þannig að beita beri 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við úrlausn málsins. Samkvæmt þessu kemur það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Málatilbúnaður kærða fyrir nefndinni hefur aftur á móti verið því marki brenndur að þar skortir verulega á efnislegan rökstuðning. Þannig er ekki brugðist við fjölda athugasemda sem kærandi rekur í kæru sinni og síðari athugasemdum til nefndarinnar. Umfjöllun kærunefndarinnar hér að framan um einstaka matsþætti leiða í ljós að ríkt tilefni var fyrir kærða að svara athugasemdum kæranda efnislega.
106. Að mati kærunefndarinnar nægja þau sjónarmið sem kærði hefur dregið fram í málinu ekki til þess að ályktað verði að sá sem ráðinn var hafi staðið kæranda framar við ráðningu í umrætt starf.
107. Að öllu framangreindu virtu hefur kærða ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu kennslustjóra hjá kærða, sbr. 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Telst kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.
108. Þess skal getið vegna margháttaðra athugasemda kæranda við stjórnsýslu kærða og hæfi setts rektors að meðferð málsins fyrir kærunefnd jafnréttismála afmarkast við að skera úr því hvort gætt hafi verið að ákvæðum laga nr. 10/2008 og laga nr. 86/2018 og felur því ekki í sér sérstaka stjórnsýsluúttekt á störfum kærða við ráðninguna umfram þá greiningu sem nauðsynleg er við úrlausn málsins. Telji kærandi almennt séð að ekki hafi verið gætt að lögum og reglum við ráðninguna getur hún eftir atvikum borið slíkt mál undir umboðsmann Alþingis.
109. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna veittra fresta til málsaðila undir rekstri málsins og gagnaöflunar.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, Menntaskólinn við Sund, braut gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf kennslustjóra 24. september 2019. Kærði braut við sömu ráðningu ekki gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
Björn L. Bergsson
Grímur Sigurðsson
Þórey S. Þórðardóttir