Mál nr. 367/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 367/2019
Miðvikudaginn 13. nóvember 2019
A
gegn
Fjölskyldunefnd C
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.
Með bréfi, dags. 4. september 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, afgreiðslu Fjölskyldunefndar C vegna beiðni hans um umgengni við dóttur hans,B.
Úrskurðarnefndin telur kæruheimild vera í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segir að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt gögnum málsins er dóttir kæranda í vistun utan heimilis og hefur verið það síðan í X. Engin formleg ákvörðun hefur verið tekin um umgengni kæranda við dóttur hans. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda tilkynnt með tölvupósti X að Félagsmálanefnd C myndi taka afstöðu til umgengni við barnið að „sumarfríi loknu“.
Með bréfi, dags. X, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fjölskyldunefndar C vegna kærunnar. Greinargerð barst með bréfi, dags. X. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. X , var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti X. Frekari gagnaöflun fór ekki fram.
II. Sjónarmið kæranda
Kærð er sú afgreiðsla Félagsmálanefndar C að taka ekki ákvörðun um umgengni kæranda við dóttur hans, B.
Kærandi heldur því fram Fjölskyldunefnd C fari ekki að barnaverndarlögum nr. 80/2002 (bvl.) þar sem hann hafi ekki fengið umgengni við dóttur sína og henni hafi ekki verið skipaður talsmaður. Kærandi kveður ákvarðanir fjölskyldunefndarinnar bæði persónulegar og duttlungafullar.
Fram kemur í kæru að kærandi sé ekki með forræði yfir dóttur sinni. Hann hafi ekki fengið að hitta hana í níu mánuði nema þegar hún fermdist og nú megi hann ekki lengur tala við hana í síma. Kærandi telur óumdeilt að hann sé góður faðir en kveður starfsmenn Fjölskyldunefndar C koma í veg fyrir að hann fái að hitta dóttur sína. Kærandi telur að kæra hans til Barnaverndarstofu vegna málsmeðferðar fjölskyldunefndarinnar í málinu hafi haft þau áhrif að starfsmenn nefndarinnar séu nú að koma í veg fyrir að hann fái umgengni. Kærandi kveðst upplifa stífni og erfiðleika í samskiptum við fjölskyldunefndina.
Kærandi vísar til þess að barn í vistun eigi rétt til umgengni við foreldra sína. Kærandi kveðst ekki skilja þau höft sem sett séu af hálfu fjölskyldunefndarinnar um að hann ræði stöðu barnsins. Dóttir hans hafi engan talsmann sem hægt sé að ræða við og hefur fjölskyldunefndin brugðist þeirri skyldu að skipta stúlkunni talsmann líkt og bvl. gera ráð fyrir, sbr. 46. gr. bvl.
III. Sjónarmið Fjölskyldunefndar C
Í greinargerð Fjölskyldunefndar C kemur fram að umgengni kæranda við barnið hafi aldrei verið lögð fyrir nefndina og því liggi engin gögn fyrir þess efnis. Barnaverndarstofa hafi erindi kæranda til meðferðar og hefur Félagsþjónusta og Barnavernd C svarað því erindi. Kærandi hafi óskað formlega eftir gögnum málsins með tölvupósti 11. október 2019 og kærandi fari ekki með forsjá barnsins.
IV. Niðurstaða
B er tæplega X ára gömul stúlka sem er vistuð utan heimilis á grundvelli 65. gr. bvl. með samþykki móður sem fer með forsjá barnsins. Samkvæmt fóstursamningi er tímalengd fósturs samkvæmt 2. mgr. 65. gr. bvl. frá X til X
Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi. Dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra þann drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Við mat á því hvort mál hafi tafist óhæfilega verður jafnframt að líta til þess hve langan tíma sambærileg mál almennt taka.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur barnaverndarnefndin úrskurðað að foreldri njóti ekki umgengnisréttar við barnið.
Samkvæmt 2. mgr. 46. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Þegar barnaverndarnefnd hefur tekið ákvörðun um að hefja könnun máls skal hún taka afstöðu til þess hvort þörf sé á því að skipa barni talsmann. Að jafnaði skal skipa barni talsmann áður en gripið er til ráðstafana samkvæmt 25., 27. og 28. gr. bvl. Ekki verður séð að Fjölskyldunefnd C hafi tekið ákvörðun um hvort þörf sé á að skipa barninu talsmann þrátt fyrir áskilnað bvl. þar um. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála bar fjölskyldunefndinni því að taka afstöðu til þess hvort þess væri þörf áður en gripið var til framangreindra ráðstafana.
Samkvæmt 74. gr. bvl. ber Fjölskyldunefnd C að taka afstöðu til umgengni hafi ekki tekist samkomulag við foreldra um umgengni. Taka skal réttmætt tillit til skoðana barns í samræmi við aldur þess og þroska þegar slík ákvörðun er tekin, sbr. 2. mgr. 46. gr. bvl. Af hálfu Fjölskyldunefndar C hefur komið fram að málið hafi ekki verið lagt fyrir nefndina og fyrir liggja ekki haldbærar skýringar á ástæðu þess.
Samkvæmt framangreindu er ljóst að Fjölskyldunefnd C hefur ekki hagað meðferð málsins í samræmi við 74. gr. bvl. og er slíkt ámælisvert. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur jafnframt að um óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls hafi verið að ræða í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Afgreiðsla Fjölskyldunefndar C í máli A var ekki í samræmi við málshraðareglu 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt er fyrir Fjölskyldunefnd C að hraða afgreiðslu máls kæranda og taka ákvörðun um umgengni svo fljótt sem auðið er.
Kári Gunndórsson
Björn Jóhannesson Guðfinna Eydal