Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 36/2004

Þriðjudaginn, 1. mars 2005

A

gegn

Bláa Lóninu hf.

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 11. ágúst 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála bókun kærunefndar jafnréttismála þar sem máli A, gegn Bláa Lóninu hf. var vísað til úrskurðarnefndarinnar. Í bókun kærunefndar jafnréttismála kemur eftirfarandi meðal annars fram: „Í 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er fjallað um vernd gegn uppsögnum. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. sömu laga er það hlutverk sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli þeirra laga. Að áliti kærunefndar jafnréttismála teljast tilvísuð lög um fæðingar- og foreldraorlof sértækari að þessu leyti en ákvæði laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þykir því rétt að kærunefnd jafnréttismála vísi máli þessu til tilvísaðrar úrskurðarnefndar, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Kæra varðar uppsögn kæranda úr starfi hjá Bláa Lóninu hf. við lok töku á fæðingarorlofi.

 

Í kæru segir meðal annars:

„Þann 1. júlí 2003 fór ég í barneignafrí hjá Bláa Lóninu, þar sem ég starfaði sem deildarstjóri baðsvæðis. Ég tók 6 mánuði sem lauk núna 31. des. og síðan janúar sem sumarfrí. Mér var svo sagt upp störfum að afloknu fæðingarorlofi. Yfirmaður minn heimsótti mig í byrjun desember og sagðist ekki treysta mér til að sinna starfi mínu með tvö ung börn. Ég og maðurinn minn eigum þrjá syni fædda 1988, 2001 og 2003. Hún sagði að ég væri ekki líkleg til að geta unnið mikla yfirvinnu og auk þess hætt á fjarvistum hjá mér vegna mögulegra veikinda barnanna. Milli jóla- og nýárs, þ.e. áður en mér barst formleg uppsögn, var næstráðendum mínum tilkynnt að staðgengill minn væri formlega tekin við mínu starfi. Ég fékk uppsagnarbréfið á gamlársdag og mér var boðið annað starf þar sem ég var lækkuð í skipuriti og laun lækkuð um ca 40%. Ég afþakkaði það og mætti ekki til vinnu eftir fæðingarorlof þar sem staðfengill minn var þegar formlega tekinn við starfi mínu.

Ég tel að atvinnurekandi hafi brotið jafnréttislög með því að segja mér upp störfum að afloknu fæðingarorlofi, þar sem aðalástæða uppsagnar er í raun breyttar fjölskylduaðstæður með nýju barni. Ég vísa sérstaklega í 23. og 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.“

 

Með bréfi dagsettu 22. mars 2004 óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir afstöðu Bláa Lónsins hf. Með bréfi dagsettu 27. apríl 2004 gerði Bláa Lónsis hf. grein fyrir afstöðu sinni og segir þar meðal annars:

„Hvað varðar orsök uppsagnar er þeim rökstuðningi alfarið hafnað að hún sé vegna breyttra fjölskylduaðstæðna, Jafnframt er ekki á nokkurn hátt hægt að tengja uppsögnina við kynferði fyrrverandi deildarstjóra, enda er starfsmaður sá, sem nú gengir deildarstjórastöðunni af sama kyni. Þess má geta að stjórnendur og milli stjórnendur Bláa Lónsins hf. eru 10, 6 konur og 4 karlar.

A hóf störf hjá Bláa Lóninu hf í lok ágústmánaðar 2002 og var ráðin til að sinna starfi deildarstjóra á baðsvæði í heilsulind fyrirtækisins. Starfið er umfangsmikið stjórnunarstarf með mikilli verkstjórn. Deildarstjórar hjá Bláa Lóninu hf eru ráðnir á föstum mánaðarlaunum og eru iðulega með langan og óreglulegan vinnutíma. Þetta var A vel ljóst við ráðninguna og taldi hún ekkert því til fyrirstöðu að hún gæti sinnt slíku starfi.

Heilsulindin er opin alla daga ársins og er opnunartími frá 11 til 13 klukkustundir á dag. Á árinu 2003 var tekið á móti 320.000 gestum. Almennir starfsmenn vinna á vöktum og er heildarfjöldi starfsmanna á baðsvæði frá 25 til 40. Talsverður munur er eftir árstíðum hve annasamt er. Þegar A hóf störf var „sumarvertíðin“ í fullum gangi og umsvif mikil. Af þessum orsökum var ekki eðlilegt að líta á fyrstu 3 mánuði í starfinu sem reynslutíma að venju, heldur þurfti lengri tíma til að komast að raun um, hvort A væri rétt manneskja í umrætt starf. Um það leyti sem A lét vita af því, að hún væri barnshafandi í upphafi árs 2003 og mundi fara í fæðingarorlof, var orðið ljóst að starfið hentaði henni ekki og hún uppfyllti ekki þær kröfur sem Bláa Lónið hf. gerir til deildarstjóra baðsvæðis, bæði hvað varðar færni og viðveru á annatímum.

Hefðu aðstæður verið aðrar, þ.e. starfsmaðurinn ekki á leið í fæðingarorlofi, hefði á þessum tíma verið farið að kanna möguleika á að finna annað starf innan fyrirtækisins, sem hentaði A betur. Bæri slík viðleitni ekki árangur, hefði væntanlega orðið samkomulag um starfslok eða komið strax til uppsagnar.

Fæðingarorlof A hófst þann 1. júlí 2003. Þegar mánuður var eftir af áætluðu fæðingarorlofi óskaði aðstoðarframkvæmdastjóri eftir fundi með A og átti sá fundur sér stað þann 6. desember 2003 á heimili hennar. Á þeim fundi var upplýst að stjórnskipulagsbreytingar væru fyrirhugaðar hjá Bláa Lóninu hf frá næstkomandi áramótum 2003-04. Um áramótin urðu breytingar á baðsvæði þær, að ábyrgð sölumála (baðgjöld, nudd o.fl.) voru færð frá deildinni í sérstaka sölueiningu innan heilsulindar, en við deildina bættust umsjón með næturvörslu og ræstingum. Breytingar þær sem urðu á stjórnskipulagi fyrirtækisins voru þó mestar á verslunarsviði.

Á þessum fundi upplýsti aðst.frkvstj. að fyrirtækið mundi ekki óska eftir að A tæki aftur við deildarstjórastarfi á baðsvæði. Því starfi hafði B gegnt í fæðingarorlofi A. Jafnframt óskaði aðst.frkvstj. eftir því, að A kæmi til fundar á vinnustaðnum til viðræðna við sig og sviðstjóra verslunarsviðs, D, sem fyrst. Fyrirhugað var að bjóða A aðst.verslunarstjórastarf, en innan verslunarsviðs er reiknað með talsverðum vexti á næstu misserum og ljóst að miklir möguleikar og skemmtileg uppbygging stendur þar fyrir dyrum. Því miður leið allur desembermánuður án þess að A kæmi á vinnustaðinn eða léti nokkuð frá sér heyra.

Þegar fæðingarorlofi lauk 31. desember 2003 afhenti aðst.frkvstj. A því uppsagnarbréf sem deildarstjóra baðsvæðis, en um leið ítrekaði hann óskir um að hún kæmi til fundar til að ræða hugsanlegt annað starf hjá Bláa Lóninu hf. Það er síðan 16. janúar 2004, sem A mætir til fundar og þá farið yfir starf það, sem hugmyndir voru um, að hún tæki að sér. Hvað varðaði lýsingu á hinu nýja starfi, var ekki annað að heyra, en að A teldi starfið geta hentað sér og hafði hún orð á, að hún hefði ekki verið alls kostar ánægð í fyrra starfi, og teldi sölutengd störf henta sér betur. Ljóst var að launakjör yrðu með öðrum hætti, en vinnutími yrði fastur og yfirvinna greidd ef til hennar kæmi. Í tölvupósti 27. janúar sl. hafnaði A tilboði um hið nýja starf.

Ekki var óskað eftir því af hálfu Bláa Lónsins hf, að A mætti til starfa á uppsagnartímanum, sem er þrír mánuðir eins og kjarasamningar Verslunarmannafélags Suðurnesja gera ráð fyrir. Bláa Lónið hf. greiddi A laun vegna janúar og febrúar, en hún óskaði eftir að fresta greiðslu vegna síðasta mánaðar uppsagnartímans vegna framlengingar fæðingarorlofs, en hún verður greidd á þeim tíma, sem A óskar eftir.

Í ljósi málavaxta vilja undirrituð því ítreka þá afstöðu, að í þessu máli hefur ekki verið brotið á starfsmanni vegna breyttra fjölskylduaðstæðna eða kynferðis eða á annan hátt brotið gegn lögum um jafnan rétt kvenna og karla.“

 

Með bréfi dagsettu 30. apríl 2004 sendi kærunefnd jafnréttismála kæranda greinargerð Bláa Lónsins hf. og henni gefinn kostur á að koma með athugasemdir. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 10. maí 2004. Þar sem kærandi greinir meðal annars frá því að hún hafi verið ósátt við þau laun sem henni voru boðin vegna nýja starfsins. Með bréfi 11. maí 2004 sendir kærunefnd jafnréttismála athugasemdir kæranda til Bláa Lónsins hf. og gefur fyrirtækinu kost á að koma með athugasemdir. Með bréfi dagsettu 4. júní 2004 bárust athugasemdir frá fyrirtækinu. En þar segir meðal annars:

„Við ráðningu A var reiknað með ákveðinni launahækkun að loknum reynslutíma. Sú hækkun kom til framkvæmda rúmum fjórum mánuðum eftir að A hóf störf, sem var mánuði síðar en reiknað hafði verið með. Var hækkun framkvæmd í kjölfar viðræðna um, hvað A þyrfti að bæta í störfum sínum.“

 

Kæranda var með bréfi kærunefndar jafnréttismála dagsettu 8. júní 2004 sent afrit af bréfi Bláa Lónsins hf. til kynningar.

 

Með bréfi dagsettu 5. janúar 2005 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir því að fyrirtækið gerði grein fyrir því ef það vildi koma að frekari athugasemdum. Með bréfi dagsettu 18. janúar 2005 ítrekaði Bláa Lónið hf. afstöðu sína um að ekki hafi verið brotið á kæranda vegna breyttra fjölskylduaðstæðna og/eða kynferðis. Afrit af bréfinu var sent til kæranda og henni gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Ágreiningur í máli þessu varðar það hvort uppsögn kæranda úr starfi hjá Bláa Lóninu hf. hafi brotið gegn ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. ffl. helst ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda óbreytt í fæðingarorlofi. Starfsmaður skal eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingaorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning, sbr. 2. mgr. 29. gr. ffl.

Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof segir:

„Einnig eru tekin af öll tvímæli um rétt starfsmanns til að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- og foreldraorlofi. Í því felst þó ekki takmörkun á réttindum fyrirtækis eða stofnunar til að gera almennar rekstrarlegar breytingar sem kunna að hafa áhrif á stöðu starfsmanns á svipaðan hátt og þær hafa áhrif á störf annarra starfsmanna. Slíkar breytingar á starfi starfsmannsins skulu ekki hafa áhrif á launakjör hans til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi.“

Í 30. gr. ffl. segir að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs skv. 9. eða 26. gr. eða sé í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skuli þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama skuli gilda um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem nýlega hafi alið barn.

Samkvæmt gögnum málsins hóf kærandi störf hjá Bláa Lóninu hf. í lok ágústmánaðar 2002. Var hún ráðin sem deildarstjóri á baðsvæði í heilsulind fyrirtækisins. Eftir fjögurra mánaða starf fékk kærandi tæplega 25% launahækkun, en hóf síðan fæðingarorlof 1. júlí 2003 og hugðist koma aftur til starfa eftir að hafa lokið fæðingarorlofi 31. desember 2003 og orlofstöku í janúar 2004. Á fundi með aðstoðarframkvæmdastjóra fyrirtækisins 6. desember 2003 munu kæranda hafa verið kynntar fyrirhugaðar skipulagsbreytingar og jafnframt tilkynnt að ekki væri óskað eftir því að hún tæki aftur við deildarstjórastarfi á baðsvæði. Jafnframt mun hafa verið óskað eftir viðræðum við kæranda um annað starf hjá fyrirtækinu. Með bréfi dagsettu 31. desember 2003 er kæranda formlega sagt upp starfi með vísan til fyrri samtala. Jafnframt er þar lýst vilja til viðræðna um starf aðstoðarverslunarstjóra. Kærandi hafnaði því starfstilboði þar sem ekki væri um sambærilegt starf að ræða meðal annars hvað laun varði.

Ekki kemur fram rökstuðningur uppsagnar í bréfi Bláa Lónsins hf. dagsettu 31. desember 2003. Fyrirtækið hefur vísað til þess að ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að starfið hafi ekki hentað kæranda þar sem hún uppfyllti ekki þær kröfur sem fyrirtækið geri til deildarstjóra baðsvæðis, bæði hvað varðar færni og viðveru á annatímum. Af hálfu kæranda er því haldið fram að fjölskylduaðstæður hafi átt sinn þátt í uppsögninni. Sú staðreynd að hún þyrfti að hugsa um þrjá syni fædda 1988, 2001 og 2003 hafi verið ástæða uppsagnarinnar. Bláa Lónið hf. hefði borið því við að hún gæti ekki sinnt starfinu samhliða þeirri ábyrgð sem nú hvíldi á henni á heimilinu. Kærandi benti á að hún hafi hlotið launahækkun að reynslutíma loknum og taldi hún það mótsögn við það sem haldið er fram af hálfu Bláa Lónsins hf. um ástæður uppsagnarinnar.

Fram er komið að kærandi átti þess ekki kost að hverfa aftur til fyrra starfs síns eða sambærilegs starfs hjá Bláa Lóninu hf. að loknu fæðingarorlofi. Þá hefur Bláa Lónið hf. að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að gildar ástæður hafi legið til uppsagnar kæranda en telja verður að sönnunarbyrði hvíli á fyrirtækinu hvað það varðar.

Samkvæmt því sem að framan er rakið telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að Bláa Lónið hf. hafi með uppsögn kæranda úr starfi og aðdraganda hennar brotið gegn ákvæðum 29. og 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Bláa Lónið hf. braut gegn ákvæðum 29. og 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, við uppsögn A, úr starfi deildarstjóra baðsviðs í heilsulind fyrirtækisins.

   

    

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta