Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2005

Þriðjudaginn, 28. júní 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 23. maí 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 10. maí 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 28. apríl 2005 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég skrifa þetta bréf til að óska þess að úrskurður sá sem gefinn var varðandi fæðingarorlof verði endurskoðaður vegna sérstakra kringumstæðna. Ég er föðuramma B og er með tímabundið forræði yfir drengnum að ósk foreldra hans sem geta ekki sinnt honum sem skildi vegna persónulegra ástæðna.

Forræðið sem um ræðir er til 31. ágúst næstkomandi.

Þegar foreldrar B sáu fram á að geta ekki sinnt honum þá báðu þau mig að hugsa alfarið um hann og farið var strax í það að ganga frá allri pappírsvinnu, á þessum tíma var drengurinn tveggja mánaða gamall. Við skrifuðum upp á að ég fengi tímabundið forræði og fór ég þá strax í sumarfrí frá vinnu minni til að geta sinnt drengnum þar til ég fengi fæðingarorlof eða aðra fjárhagsþjónustu sem þörf er til sex mánaða aldurs þegar hann getur farið að fara til dagmömmu og ég aftur út á vinnumarkaðinn. Mér til mikillar furðu var umsókn minni um fæðingarorlof/styrk hafnað þar sem ég hef einungis tímabundið forræði.

Móðir barnsins D hefur í alla þessa mánuði fengið fæðingarstyrk og barnabætur og hefur ekki króna af því runnið til barnsins utan 20.000 kr. sem hún afhenti mér eftir að ég bað um það.

Á þessum tíma bjó ég með unnusta mínum E og þó ákvörðunin hafi verið erfið þá ákváðum við í sameiningu að taka að okkur B. Fjárhagsstaða mín hefur farið mjög illa úr þessum tíma.

Ég hef forræðið til enda ágúst svo það eru allavega tveir mánuðir. Miðað við allar aðstæður þá verður forræðið lengt þar sem foreldrar hans hafa ekki sýnt fram á neinar breytingar á sínum högum.

Að mínu mati ætti fæðingarorlof að ganga til þeirra sem annast barnið og hafa þurft að breyta öllu sínu lífi til þess. Það er mín ósk að ég fái þessu fram og þá verði orlofið reiknað út frá mínum tekjum en ekki eftir tekjum móður barnsins og verði afturvirkt til þess tíma er ég þurfti að hætta að vinna.“

 

Með bréfi, dagsettu 25. maí 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 3. júní 2005. Í greinargerðinni segir:

„Kærandi sótti með umsókn, ódags. sem móttekin var 4. mars 2005, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði. Umsóknin varðar barn sem kærandi fékk tímabundna forsjá yfir, frá 1. mars til 31. ágúst 2005.

Með umsókn kæranda fylgdu fæðingarvottorð barnsins, dags. 28. nóvember 2004 og staðfesting sýslumannsins í F á samningi um tímabundna breytingu á forsjá barnsins, dags. 3. mars 2005.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 28. apríl 2005, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði væri synjað á þeirri forsendu að í lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof væri ekki að finna heimild til greiðslna í fæðingarorlofi vegna töku barns í tímabundið fóstur.

Í 1. mgr. 7. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, með síðari breytingum, er fæðingarorlof samkvæmt lögunum skilgreint sem leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. laganna er kveðið á um rétt foreldra á vinnumarkaði til fæðingarorlofs og þar segir í 1. mgr. að foreldrar á innlendum vinnumarkaði eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, auk þess sem foreldrar eigi sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar. Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er síðan kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sem foreldrar öðlast á grundvelli réttar síns til fæðingarorlofs.

Samkvæmt framlögðum gögnum staðfesti sýslumaðurinn í F, þann 3. mars 2005, að fengnum meðmælum félagsmálayfirvalda, samning um tímabundna breytingu á forsjá barnsins, sem umsókn kæranda varðar. Felur hinn staðfesti samningur í sér að forsjá barnsins flytjist frá kynforeldrum barnsins til kæranda sem skuli fara með forsjá barnsins tímabundið, sbr. 4. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003 og er gildistími samningsins 6 mánuðir, frá 1. mars til 31. ágúst 2005.

Á grundvelli niðurstöðu úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í kærumáli nr. 8/2003 verður á það fallist af hálfu lífeyristryggingasviðs að staðfesting sýslumanns á samningi um forsjá barns, að fengnum meðmælum félagsmálayfirvalda, feli í sér staðfestingu á töku barns í fóstur. Eins og að framan er rakið er í lögum um fæðingar- og foreldraorlof veittur réttur til fæðingarorlofs og þar með greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, þegar barn hefur verið tekið í varanlegt fóstur. Þar er hins vegar enga heimild að finna fyrir fæðingarorlofi sé um tímabundna fósturráðstöfun að ræða og því getur lífeyristryggingasvið ekki fallist á að staðfestur samningur um tímabundna forsjá barns veiti rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið ekki unnt að fallast á umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem kærandi fer tímabundið með forsjá barnsins.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 6. júní 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er fæðingarorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Foreldrar eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sbr. 1. mgr. 8. gr. ffl. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur.

Samkvæmt gögnum málsins var staðfestur samningur um tímabundna breytingu á forsjá B, þann 3. mars 2005 af sýslumanninum í F, eftir að félagsmálayfirvöld í Reykjanesbæ höfðu gefið álit vegna málsins. Með vísan til 4. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003 er samningurinn tímabundinn og gildistími hans sex mánuðir frá 1. mars 2005 til 31. ágúst 2005.

Í 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 8. gr. ffl. er kveðið á um rétt til fæðingaorlofs við töku barns í varanlegt fóstur, sbr. og 1. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt lögunum stofnast hins vegar ekki réttur til fæðingarorlofs við tímabundna forsjá barns.

Með hliðsjón af framangreindu er engin heimild í lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem hægt er að leggja til grundvallar greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til aðila sem fengið hefur tímabundna forsjá barns. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

     

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta