Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 55/2004

Föstudaginn, 8. júlí 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 15. desember 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 15. desember 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 16. september 2004, um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ekki er ég viss um að ég skilji ástæður synjunar Tryggingastofnunar rétt, en skil þær svona:

Að ég hafi ekki verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingu barns. Að starfshlutfall mitt á mánuði sé undir 25%. Ekki skilað inn skattskýrslu fyrir tekjur 2003. Sjálfur gert áætlun um skil á tryggingagjaldi. Þessu er til að svara að ég var miklu lengur en sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingu barnsins, reyndar í yfir 30 ár. Sést í staðgreiðsluskrá að ég hef greitt mánaðarlega skatta og tryggingagjald í áratugi.

Starf mitt nú er 50% og er reiknað endurgjald skattstjóra miðað við það. Laun mín eru það lág að 80% þeirra verða lægri en lágmarksupphæð laganna til greiðslu fæðingarorlofs gera ráð fyrir... Það er því tæplega hægt að synja vegna framtals 2004 þar sem upphæðin er lágmarksupphæð. Auk þess var mér ekki tjáð þegar ég sótti um, að skil á skattframtali mínu væru forsenda greiðslna úr fæðingarorlofssjóði. Hvernig sem litið er á hlýt ég alltaf að eiga rétt á lágmarks fæðingarorlofsgreiðslu. Þar að auki sótti ég um fæðingarorlofið 18. maí 2004, þá var framtalsfrestur fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga ekki runninn út. Þannig að ef svar hefði borist innan þriggja vikna eins og mér var tjáð þegar ég skilaði inn umsókninni hefði varla verið hægt að synja vegna framtals.

Eins og kunnugt er greiða allir sjálfstætt starfandi einstaklingar tekjuskatt og tryggingargjald af reiknuðu endurgjaldi. Í mínu tilfelli er að það er skattstjórinn í B-umdæmi sem ákvarðar reiknað endurgjald mitt. Ég greiði því tryggingagjald af því, en ekki samkvæmt eigin áætlun. Ég greiddi 2003 samkvæmt ákvörðun skattstjóra af D kr. á mánuði og af E kr. árið 2004.“

 

Með bréfi, dagsettu 4. apríl 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 18. apríl 2005. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 3. maí 2004, sem móttekin var 17. maí 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 1. apríl 2004. Umsóknin varðar barn kæranda sem fætt er F dag 2003.

Með umsókn kæranda fylgdu í ljósriti fæðingarvottorð barnsins, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 3. maí 2004, greinargerð um reiknað endurgjald sjálfstætt starfandi manna, dags. 14. maí 2004, skilagreinar vegna launagreiðslna, dags. 15. febrúar, 15. mars og 15. apríl 2004 og greiðslukvittanir fyrir greiðslu tryggingagjalds, dags. 15. mars og 15. apríl 2004.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda lágu enn fremur fyrir útprentanir úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og tekjubókhaldi ríkisins.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 16. september 2004, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði laga fyrir slíkum greiðslum, þar sem ekki hefðu verið gerð skil á skattframtali fyrir hann vegna tekjuársins 2003 og því lægi ekki fyrir staðfesting á að greitt hefð verði tryggingagjald vegna tekna hans tímabilið 10. maí til og með F dag 2003.

Kærandi sendi lífeyristryggingasviði rafbréf þann 22. september 2004, þar sem hann gerði athugasemdir við afgreiðslu umsóknar hans og þann 24. september 2004 sendi hann sem símbréf tilkynningar ríkisskattstjóra frá janúar 2003 og janúar 2004 um reiknað endurgjald 2003 og 2004. Rafbréfi kæranda var svarað með rafbréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 8. október 2004, þar sem ítrekaður var réttur kæranda til að kæra ákvörðun lífeyristryggingasviðs til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, auk þess sem kæranda var bent að með skilum á skattframtali 2004 vegna tekjuársins 2003 væri sá möguleiki fyrir hendi að umsókn hans yrði endurupptekin. Enn frekari tölvupóstssamskipti fóru fram milli kæranda og lífeyristryggingasviðs á tímabilinu 29. nóvember til 15. desember 2004.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri á innlendum vinnumarkaði rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Eins og fram er komið er barn kæranda fætt F dag 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 10. maí 2003 til fæðingardags barnsins.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra var kærandi á árinu 2003 skráður sem sjálfstætt starfandi og áætlaði hann mánaðarlegt reiknað endurgjald sitt D kr., sem hann greiddi tryggingagjald af samkvæmt upplýsingum úr tekjubókhaldi ríkisins. Þegar umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði var til afgreiðslu hafði hann hins vegar ekki talið fram til skatts tekjur sínar árið 2003 og hefur reyndar ekki enn gert skil á skattframtali þess árs. Einu upplýsingarnar sem liggja fyrir varðandi að kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði á umræddu viðmiðunartímabili eru því byggðar á áætlun um reiknað endurgjald hans.

Lífeyristryggingasvið telur sér ekki fært, þegar frestir til framlagningar skattframtala eru liðnir, að byggja rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eingöngu á áætluðu reiknuðu endurgjaldi foreldris. Með vísan til þess og þess sem að framan er rakið telur lífeyristryggingasvið að rétt hafi verið að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 19. apríl 2005, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með ódagsettu bréfi, þar sem kærandi ítekar fyrri kröfur.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna þess að dráttur hefur orðið á skilum gagna frá kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. ffl.

Um gildissvið laga nr. 95/2000 segir í 1. mgr. 1. gr. að þau taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Einnig segir að þau eigi við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Í 3. mgr. 7. gr. ffl. segir að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé sá sem starfar við eigin rekstur án tillits til félagsforms í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda skil á tryggingagjaldi.

Í 35. gr. ffl. er kveðið á um heimild félagsmálaráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sem sett er samkvæmt þeirri lagaheimild segir að með samfelldu starfi sé átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Samkvæmt 5. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar skal fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir þegar meta á starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skuli nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil, sbr. einnig 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Í 4. mgr. 13. gr. ffl. er kveðið á um lágmarksgreiðslu til foreldris í 50-100% starfi, sbr. 6. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 915/2002.

Barn kæranda er fætt F dag 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. er því frá 10. maí fram að fæðingardegi barns.

Ekki var gert ráð fyrir því í lögum nr. 95/2000 að ákvarðanir um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skyldu tengjast endanlegri álagningu skattyfirvalda. Samkvæmt því telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda dagsettri 3. maí 2004, á þeim grundvelli að skattframtali hafi ekki verið skilað hafi ekki næga lagastoð.

Kærandi greiddi tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi D kr. á mánuði á sex mánaða viðmiðunartímabilinu fyrir fæðingu barnsins. Þá er staðfest af skattstjóra B-umdæmis að kærandi gerði reglulega skil á virðisaukaskatti vegna starfsemi sinnar árið 2003. Fjárhæð reiknaðs endurgjalds kæranda á viðmiðunartímabilinu var í samræmi við tilkynningu ríkisskattstjóra til hans dagsettri 27. janúar 2003. Samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra var lágmarksviðmiðun reiknaðs endurgjalds samkvæmt flokki E2 175.000 kr. á mánuði árið 2003. Með hliðsjón af því telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að kærandi hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs í 50% starfshlutfalli.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði hafnað. Kærandi ávann sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sbr. 13. gr. laga nr. 95/2000.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Kærandi ávann sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sbr. 13. gr. laga nr. 95/2000.

 

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta