Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 62/2005 - uppbót/styrkur til bifreiðakaupa.

62/2005 - uppbót/styrkur til bifreiðakaupa.



Miðvikudaginn 25. maí 2005

A

gegn


Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með kæru dags. 13. desember 2004, mótt. 28. desember 2004 kærir B læknir f.h. A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn mótt. 12. ágúst 2004 sótti kærandi um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.


Í læknisvottorði vegna umsóknar dags. 20. júlí 2004 segir:


Hefur átt við þrálát verkjavandamál að stríða eftir að hafa lent í árekstri, en ekið var á bíl þeirra hjóna á C. Marðist og tognaðist illa á brjóstkassa og rifjum.

Einnig bakverkir vegna slits og eftir áverka.

Fór í aðgerð fyrir all nokkru síðan vegna krabbameins í ovarium en ekki hafa fundist nein meinvörp.

Illa haldin af sogæðabólgu í báðum ganglimum og skinbrenglun eftir geislameðferð sem að hún fór í eftir fyrrnefnda aðgerð.

Við skoðun 57 ára gömul kona sem er með viðvarandi óþægindi í ganglimum eftir skurðaðgerð og geislameðferð við eggjastokkskrabbameini. Háir henni við göngur og alla áreynslu samanber ofan. Hjarta og lungnahlustun eðlileg en hún hefur einnig brjósthryggjar óþægindi vegna fleygmyndunar á liðbolum sem talin eru afleiðingar af gömlum Morbus Schauermann.

Í hálshrygg er hún með samkvæmt röntgen niðurstöðu ligament kölkum við liðþófabil C5-C6 en aðrar breytingar greinast ekki. Blóðþrýstingur hefur mælst 148/88 og eins og fyrr er sagt hjarta og lungnahlustun eðlileg.”


Umsókn var synjað með bréfi Tryggingastofnunar dags. 28. október 2004.


Í rökstuðningi með kæru segir læknir kæranda:


Ofanskráð hefur falið undirrituðum að vísa málum sínum varðandi úrskurð Tryggingastofnunar vegna styrk til bílakaupa til úrskurðarnefndar TR.

Hún vill sérstaklega taka fram að hún telur fötlun sína jafngilda þeim skilyrðum sem sett eru vegna bílakaupa, þó að hennar óþægindi séu ekki þar upp talin.

En í stuttu máli sagt fékk hún krabbamein í eggjastokka fyrir einum 3 árum síðan. Fór þá í töluverða aðgerð þar sem að nema þurfti burt eggjastokka og leg.

Eftir þetta fór hún í krabbameinsmeðferð sem hefur tekist vel.

Afleiðingar af þessum aðgerðum er truflun á sogæðaflæði úr neðri hluta líkamans með mikilli bjúgmyndun á báðum fótleggjum og verkjum. Göngugeta er ekki skert á stuttu færi, en hún á erfitt með að ganga lengra.

Að auki fékk hún töluverð óþægindi af taugabólgum eftir krabbameins­meðferðina og er með skyntruflanir í báðum í fótum vegna þess.”


Úrskurðarnefndin kallaði eftir umboði frá kæranda til læknis síns með bréfi þann 28. desember 2004. Barst umboð 3. mars 2005.


Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar með bréfi dags. 3. mars 2005. Barst greinargerð dags. 18. mars 2005. Þar segir:


Við mat á hreyfihömlun þann 25.08.04 lá fyrir læknisvottorð C dags. 20.07.04.

Fram kom að A hefði sogæðabólgu í ganglimum og skynbrenglun eftir meðferð við krabbameini í eggjastokkum. Einnig var lýst verkjum í baki og brjóstkassa.

Við mat á hreyfihömlun er miðað við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni umsækjanda til að komast ferða sinna, s.s. vegna lömunar eða skerts hreyfanleika í ganglimum, mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóms eða blindu.


Ekki varð séð að þetta skilyrði væri uppfyllt og taldist A því ekki hreyfihömluð.”


Greinargerðin var send lækni kæranda til kynningar með bréfi dags. 23. mars 2005 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Barst læknisvottorð B dags. 2. apríl 2005. Var það kynnt Tryggingastofnun.


Úrskurðarnefndin ákvað á fundi sínum 20. apríl 2005 að fresta afgreiðslu málsins og óska ítarlegri upplýsinga frá lækni kæranda um reglubundna endurhæfingu kæranda og læknismeðferð. Barst svarbréf B læknis dags. 29. apríl 2005. Þar segir:


Eins og áður hefur verið rakið í fyrri bréfum til úrskurðarnefndar og Tryggingastofnun ríkisins er vandamál A af tvennum toga spunnin.

Í fyrsta lagi fór hún til aðgerðar vegna illkynja meins í eggjastokkum þar sem að eggjastokkar voru teknir. Fór eftir það í lyfjameðferð og eftir þessa meðferð fékk hún skemmdir á sogæðakerfið með bólgusöfnun á fætur og skyntruflunum eftir lyfjameðferðina. Hún hefur þurft af þessum sökum að vera í sjúkraþjálfun sem beinst hefur af því að reyna að minnka bjúgsöfnun og minnka óþægindi í fótum. En þrátt fyrir nokkuð stöðuga meðferð hjá sjúkraþjálfurum hefur ekki tekið betur en að halda þessu rétt í horfinu.

Hún þarf því á reglubundinni endurhæfingu og sjúkraþjálfun að halda vegna þessa.

Í öðru lagi varð hún fyrir því að lenda í árekstri fyrir 2 árum síðan fékk þá slæmt högg á hæ síðu og tognaði illa bæði í baki og öxl og hefur verið til sjúkraþjálfunar vegna óþæginda frá þessum svæðum sem hafa þó heldur minnkað við meðferðina.

Eftir stendur þó alltaf óþægindi frá þessum svæðum og hún þarf reglubundið að fara í sjúkraþjálfun út af því. Vegna sinna sjúkdóma hefur hún verið í reglubundnu eftirliti hjá kvensjúkdómalæknum og krabbameinslæknum auk þess þurft að fara nokkrar ferðir til bæklunarlækna vegna óþæginda frá öxlinni.

Sýnist því ljóst að umsækjandi þarf að fara í reglubundna endurhæfingu og læknismeðferð vegna sinna meina.”


Bréfið hefur verið kynnt Tryggingastofnun.


Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.


Í rökstuðningi fyrir kæru segir að kærandi telji fötlun sína jafngilda þeim skilyrðum sem sett eru vegna bílakaupa, þó hennar óþægindi séu ekki talin þar upp.


Í rökstuðningi Tryggingastofnunar segir að af fyrirliggjandi upplýsingum hafi ekki verið séð að hreyfihömlunarskilyrði væru uppfyllt.


Lagaheimild fyrir veitingu styrks vegna kaupa á bifreið er að finna í a. lið 33. gr. laga nr. 117/1993. Skilyrðið er að bifreiðin sé nauðsynleg vegna þess að líkamstarfssemi er hömluð eða vantar líkamshluta.


Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar til kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsynlegt að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi kemst ekki af án uppbótarinnar er í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 118/1993.


Með stoð í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993 og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 118/1993 hefur ráðherra sett reglugerð nr. 752/2002 um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.


Fram kemur í 1. gr. reglugerðar nr. 752/2002 að markmið hennar sé m.a. að gera hreyfihömluðum kleift að stunda atvinnu eða skóla, njóta endurhæfingar eða læknismeðferðar. Að mati nefndarinnar eru reglur sem miða að þessu á málefnalegum rökum reistar.


Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar er unnt að veita uppbót vegna kaupa á bifreið sem nemur kr. 250.000 að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Hærri uppbót eða kr. 500.000 er veitt að uppfylltum sömu skilyrðum til þeirra sem eru að kaupa bifreið í fyrsta skipti. Þá er samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar veittur styrkur að fjárhæð kr. 1.000.000 til þeirra sem bundnir eru hjólastól, nota hækjur, spelkur eða gervilimi að uppfylltum öðrum skilyrðum reglugerðarinnar. Þar sem kærandi notar ekki nefnd hjálpartæki kemur 5. gr. ekki til álita við úrlausn máls þessa.


Í 2. og 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002 segir:


,,Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði er undir 75 ára aldri.

2. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

3. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir .

4. Mat á ökuhæfni liggi fyrir.


Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og m.a. taka tillit til eftirfarandi efnisatriða:

  1. Umferðarhömlunar umsækjanda eða umönnunarþarfa barns.

  2. Hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, þ.e. til vinnu, í skóla eða í reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

  3. Hvers konar bifreið umsækjandi hyggst kaupa, þ.e. hvort bifreiðin sé í samræmi við þörf umsækjanda og hvaða hjálpartæki eru nauðsynleg.

  4. Félagslegra aðstæðna umsækjanda, þ.e. heimilis- og fjölskyldu­aðstæðna.”


Samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum þarf kærandi að uppfylla grundvallarskilyrði um hreyfihömlun og nauðsyn á bifreið af þeim sökum. Ekki er að finna í lögunum sjálfum eða tilvitnaðri reglugerð skilgreiningu á hreyfihömlun. Þarf því að skýra og fylla ákvæðið að þessu leyti með lögskýringu. Samkvæmt orðanna hljóðan felur hreyfihömlun í sér að hreyfingar líkamans séu hamlaðar vegna t.d. meðfæddrar fötlunar, sjúkdóms eða slyss.


Nefndin lítur einnig til þess, að um er að ræða skilyrði fyrir styrk/uppbót vegna bifreiðakaupa eða reksturs. Af því leiðir að verið er að styðja einstakling til að nota bifreið sem eins konar hjálpartæki til að komast frá einum stað til annars. Er því eðlilegt að mati nefndarinnar að horfa fyrst og fremst til þess hvort göngugeta er skert og ennfremur hvort viðkomandi geti notað önnur úrræði til að komast ferða sinna, svo sem almenningssamgöngutæki. Telur nefndin að þessi orðskýring og sjónarmið, leiði til þess, að það sé fyrst og fremst líkamleg fötlun sem liggi til grundvallar hreyfihömlun.


Kærandi uppfyllir skilyrði í 1. og 2. tl. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002 varðandi aldur og ökuréttindi samkvæmt umsókn. Spurning er þá hvort nauðsyn á bifreið sé ótvíræð vegna hreyfihömlunar sbr. 3. tl. 2. mgr. Í læknisvottorði C dags. 20. júlí 2004, sem lá fyrir við afgreiðslu umsóknar, segir að kærandi sé illa haldin af sogæðabólgu í báðum ganglimum og skinbrenglun eftir geislameðferð. Hún sé með viðvarandi óþægindi í ganglimum eftir skurðaðgerð og geislameðferð við eggjastokkakrabbameini, sem hái henni við göngur og alla áreynslu. Gönguþol er sagt vera frekar lítið, hún komist upp undir 100 metra í rólegheitum og þurfi þá að hvíla sig. Í læknisvottorði B dags. 2. apríl 2005 segir að kærandi sé með mikla bjúgsöfnun á fótum auk skyntruflunar sem geri hana ófæra til göngu lengra en 200 til 300 metra á jafnsléttu.


Samkvæmt 11. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð þarf hreyfihömlun að vera svo mikil að viðkomandi sé nauðsyn á bifreið vegna fötlunar sinnar. Í reglugerð er þetta skilyrði áréttað með enn strangari hætti þar sem talað er um ,,ótvíræða nauðsyn”. Fyrirliggjandi læknisvottorð lýsa veikindum kæranda. Þar koma fram heilsufarsleg vandamál sem skerða göngugetu kæranda verulega. Læknisvottorð eru ótvíræð varðandi hreyfihömlun kæranda, Tryggingastofnun hefur ekki hnekkt þeim vottorðum svo sem með því að kalla kæranda til læknisskoðunar og eigin mats á göngugetu. Það er mat úrskurðarnefndar almannatrygginga, sem m.a. er skipuð lækni, að göngugeta og gönguþol kæranda séu verulega skert og leggur nefndin til grundvallar við úrlausn málsins fyrirliggjandi læknisvottorð sem rökstyðja að kærandi sé ekki fær um að ganga 400 metra, sem er almennt viðmið um göngugetu. Kærandi uppfyllir því skilyrði um hreyfihömlun.


Fyrir liggur svarbréf B læknis dags. 29. apríl 2005 þar sem staðfest er að kærandi sé í þörf fyrir reglubundna þjálfun og stundi hana. Skilyrði 2. tl. 3. mgr. 4. gr. um nauðsyn bifreiðar vegna reglubundinnar þjálfunar er því uppfyllt.


Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli skilyrði lagaákvæðis og reglugerðar um uppbót til bifreiðakaupa og er samþykkt að veita kæranda slíka uppbót.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Samþykkt er uppbót til kaupa á bifreið fyrir A.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta