Hoppa yfir valmynd

Nr. 170/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. mars 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 170/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030010

Beiðni […] og barns hennar um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 31. janúar 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 18. október 2016 um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefnd kærandi), og dóttur hennar […], fd. […], um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda þær til Danmerkur. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 6. febrúar 2017.

Þann 8. mars 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins hjá kærunefnd á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ásamt beiðni um endurupptöku skilaði kærandi inn fylgigögnum til kærunefndar.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi krefst þess að mál hennar verði endurupptekið á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun kærunefndar hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og á atvikum sem breyst hafi verulega frá því ákvörðun var tekin í máli hennar og dóttur hennar.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að tilefni sé til að endurupptaka mál kæranda á grundvelli nýrra gagna í málinu sem hafi ekki legið fyrir þegar kærunefnd úrskurðaði í málinu. Varðandi málavexti er vísað til gagna málsins sem hafi legið fyrir þegar úrskurðað var í máli hennar hjá kærunefnd.

Með beiðni um endurupptöku skilaði kærandi inn fylgigögnum til kærunefndar. Meðal fylgigagna voru […] frá sjúkrahúsi í Danmörku, ákæra á hendur […], bréf varðandi sjálfviljuga heimför kæranda, bréf frá útlendingastofnun í Danmörku, bréf frá lögreglunni í Danmörku, gagn frá innanríkisráðuneytinu í […], umsögn frá leikskóla dóttur kæranda og sálfræðimat á kæranda. Þann 21. mars 2017 lagði kærandi fram frumrit gagns frá […] innanríkisráðuneytinu, varðandi árás […], ásamt frumriti af þýðingu gagnsins frá löggiltum skjalaþýðanda.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að stjórnvaldsákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um 1. og 2. tölulið:

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 31. janúar 2017, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda og dóttur hennar til Danmerkur bryti ekki gegn 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. sömu laga ekki talið eiga við í máli kæranda, þ.e. að kærandi hefði ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hennar væri að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi hefur greint frá því að hún óttist eiginmann sinn sem sé búsettur í […] og í endurupptökubeiðni kæranda er því haldið fram að með því að senda kæranda til Danmerkur sé í raun verið að senda hana til […]. Áréttað er það sem fram kemur í úrskurði kærunefndar um að máli kæranda í Danmörku er ekki lokið. Gefi hún sig fram við yfirvöld verði hægt að taka endurupptökubeiðni hennar til meðferðar. Þá á kærandi raunhæfa möguleika á að leita aðstoðar yfirvalda í Danmörku óttist hún tiltekna aðila eða að á henni verði brotið. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar ásamt þeim gögnum sem bárust með beiðninni. Það er mat kærunefndar að þær upplýsingar og fylgigögn sem endurupptökubeiðni kæranda byggir á séu ekki slíkar að þær hefðu haft grundvallarþýðingu fyrir niðurstöðu í máli kæranda. Niðurstaða kærunefndar er því sú að ákvörðun kærunefndar hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Beiðni kæranda byggir á því að endurupptaka skuli mál kæranda á grundvelli nýrra gagna í málinu sem ekki lágu fyrir er kærunefnd úrskurðaði í málinu. Með beiðni kæranda voru lögð fram fjögur fylgigögn sem hafa ekki verið lögð fyrir kærunefnd áður. Umrædd gögn eru […] frá sjúkrahúsi í Danmörku, dags. 18. nóvember 2015, ákæra á hendur […] vegna […], dags. 11. desember 2015, bréf frá innanríkisráðuneytinu í […], dags. 12. desember 2016 og umsögn frá leikskóla dóttur kæranda, dags. 6. mars 2017. Kærunefnd hefur kynnt sér framangreind gögn og er það niðurstaða nefndarinnar að gögnin styðji við þau atvik og aðstæður sem lágu fyrir í máli kæranda og var byggt á í úrskurði nefndarinnar frá 31. janúar 2017. Að mati kærunefndar benda gögnin ekki til þess að ákvörðunin hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum eða á atvikum sem breyst hafi verulega frá því ákvörðun var tekin í máli kæranda. Þá kemur fram í endurupptökubeiðninni að kærandi eigi tíma hjá sálfræðingi í vikunni 13. - 17. mars þar sem hún muni fá vottorð sem lagt verði fyrir nefndina. Engin frekari sálfræðigögn hafa borist kærunefnd. Áréttað er að ítarlegt sálfræðivottorð frá 3. október 2016 liggur nú þegar fyrir í málinu, þar sem fram kemur að andleg heilsa kæranda sé bág, og tók kærunefnd mið af því við töku ákvörðunar í máli kæranda.

Í ljósi þessa verður ekki séð að úrskurður kærunefndar frá 31. janúar 2017, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafa atvik máls kæranda ekki breyst verulega frá því að þessi ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefndin telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda og barns hennar um endurupptöku máls þeirra hjá kærunefnd því hafnað.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda og barns hennar er hafnað.

The appellant’s and her child’s request is denied.

 

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                            Erna Kristín Blöndal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta