Hoppa yfir valmynd

Nr. 743/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 743/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23090117

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 22. september 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. september 2023, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli náms.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei verið með dvalarleyfi á Íslandi. Hinn 8. júní 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. september 2023, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina með tölvubréfi, dags. 22. september 2023, til Útlendingastofnunar. Með tölvubréfi, dags. 26. september 2023, framsendi stofnunin kæruna ásamt greinargerð og beiðni um frestun réttaráhrifa til kærunefndar útlendingamála, til samræmis við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Í kæru óskaði kærandi eftir því að  réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt gögnum málsins dvelst kærandi í heimaríki og þarf hann vegabréfsáritun til landgöngu á Íslandi, sbr. 8. viðauka við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Réttaráhrif hinnar kærðu ákvörðunar takmarkast því við synjun umsóknarinnar sjálfrar. Réttarstaða kæranda, fyrir og eftir ákvörðunartöku Útlendingastofnunar, er því óbreytt gagnvart dvalarheimild á Íslandi sbr. 1. málsl. 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Í ljósi framangreinds tók kærunefnd ekki sjálfstæða afstöðu til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa heldur lætur nægja að fjalla um það í úrskurði þessum, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til fyrirliggjandi ákvörðunar kæranda. Kærandi kveðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með ákvörðun Útlendingastofnunar. Hann hafi gjarnan viljað bregðast við bréfum og tölvubréfum stofnunarinnar með betri hætti en ekki tekist það vegna mannúðarstarfa sinna í dreifbýli og tæknilegra örðugleika. Kærandi greinir frá mannúðarstörfum sínum sem tengjast útrýmingu fátæktar í dreifbýli með nýsköpun og tækni í landbúnaði. Kærandi kveðst eiga bankareikninga í mörgum bönkum og það sé tímafrekt að afla bankayfirlita frá hverjum og einum. Loks bendir kærandi á að tæknibúnaður í tölvu hans hafi orðið fyrir skemmdum sem hafi takmarkað aðgengi hans að nauðsynlegum skjölum. Með stjórnsýslukæru leggi kærandi fram ný bankayfirlit og kveður tafir á framlagningu gagnanna fyrir Útlendingastofnun ekki hafa verið af ásetningi. Óskar hann því endurskoðunar á ákvörðun Útlendingastofnunar. Meðal fylgigagna sem kærandi lagði fram á kærustigi eru ný bankayfirlit ásamt ljósmyndum úr störfum hans.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Þá skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gera kröfu um til staðfestingar að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um, sbr. 1. ml. 2. mgr. 52. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins, m.a. hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til framlagðra gagna, hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn.

Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 10. gr. segir að Útlendingastofnun geti krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér landi. Þá geti stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem stofnunin meti það nauðsynlegt. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan. Í 5. mgr. 10. gr. er m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjist ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæli með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki.

Við meðferð dvalarleyfisumsóknar kæranda óskaði Útlendingastofnun eftir því að kærandi legði fram tilgreind gögn, m.a. sakavottorð, sjúkrakostnaðartryggingu, staðfestingu á greiðslu skólagjalda, auk framfærslugagna. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi lagði ekki fram gögn sem sýna fram á framfærslu í eigin nafni, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli stofnunarinnar um að tilgreind gögn vantaði. Kærandi hafði áður lagt fram bankayfirlit í nafni þriðja manns til þess að sýna fram á framfærslugetu sína. Kæranda var bent á að framfærslugögn þyrftu að vera í hans eigin nafni, síðast með tölvubréfi, dags. 21. ágúst 2023. Að mati kærunefndar er ekki tilefni til að gera athugasemdir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, enda voru kæranda gefnar skýrar leiðbeiningar um hvaða fylgigögn skorti og hvaða kröfur væru gerðar til þeirra. Þá liðu tæpir tveir mánuðir frá fyrsta bréfi stofnunarinnar og þar til ákvörðun var tekin í máli kæranda. Verður því að líta svo á að kæranda hafi gefist nægt ráðrúm til að verða við gagnabeiðnum Útlendingastofnunar.

Líkt og rakið er í greinargerð kveðst kærandi eiga marga bankareikninga í mismunandi bönkum. Á kærustigi voru lögð fram afrit þriggja bankayfirlita á nafni kæranda. Hið fyrsta er frá 1. ágúst til 18. september 2023 í bankanum [...] en lokastaða reikningsins eru [...] nígerískar nærur. Annað yfirlit er frá 1. ágúst til 13. september 2023 í bankanum [...] en lokastaða reikningsins eru [...] nærur. Þriðja og síðasta yfirlitið er frá 1. ágúst til 18. september 2023 við [...] en lokastaða reikningsins eru [...] nærur. Líkt og fram kemur í bréfi Útlendingastofnunar, dags. 18. júlí 2023, þurfa bankayfirlit að vera í frumriti og stimpluð af viðkomandi banka. Hvorki afrit úr netbanka né skjáskot sem send eru með tölvubréfum fullnægja kröfum stofnunarinnar. Gögn sem lögð voru fram af kæranda á kærustigi uppfylla ekki framangreindar kröfur. Að framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Kæranda er bent á að hann geti lagt fram aðra dvalarleyfisumsókn á sama eða öðrum grundvelli og lagt fram fullnægjandi fylgigögn svo stjórnvöld geti metið hvort skilyrðum laga sé fullnægt.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta