Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 284/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 284/2016

Fimmtudaginn 12. janúar 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. júlí 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. apríl 2016, um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 22. júní 2015 og var umsókn hans samþykkt. Í janúar 2016 var kærandi boðaður í atvinnuviðtal og í kjölfarið barst Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði hafnað atvinnutilboðinu. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2016, var óskað eftir skriflegum skýringum kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði. Skýringar bárust frá kæranda 12. febrúar 2016. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. febrúar 2016, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði frá 1. mars 2016 á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir endurupptöku á máli sínu 29. febrúar 2016 og lagði fram ítarlegri skýringar vegna atvinnutilboðsins. Endurupptökubeiðni kæranda var tekin fyrir á fundi Vinnumálastofnunar og með bréfi, dags. 8. mars 2016, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun um viðurlög væri staðfest. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. mars 2016. Kærandi óskaði á ný eftir endurupptöku á máli sínu þann 31. mars 2016 og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 25. apríl 2016, var þeirri beiðni hafnað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála vegna synjunar á endurupptöku þann 25. júlí 2016. Með bréfi, dags. 3. ágúst 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 16. september 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. september 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hið umdeilda atvinnuviðtal hafi gengið ágætlega og hann ekki fundið annað en að áhugi væri fyrir því að ráða hann til starfa. Vinnumálastofnun hafi ekki tekið til greina úrskýringar kæranda og beiti hann viðurlögum að ósekju.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að það hafi verið mat stofnunarinnar, að teknu tilliti til skýringa kæranda og upplýsinga frá atvinnurekanda, að viðmót kæranda og framferði í umdeildu atvinnuviðtali hafi leitt til þess að honum hafi ekki staðið til boða starf hjá fyrirtækinu. Hið augljósa áhugaleysi kæranda og framferði í viðtalinu skuli jafna við höfnun á atvinnutilboði í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. apríl 2016, um að synja kæranda um endurupptöku máls.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Við mat á því hvort ákvörðun hefur byggst á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik“, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, er horft til þess hvort fram séu komnar nýjar eða fyllri upplýsingar um málsatvik sem telja má að hefðu haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Þær skýringar sem kærandi lagði fram með endurupptökubeiðni sinni 31. mars 2016 eru efnislega þær sömu og hann lagði fram með endurupptökubeiðni frá 29. febrúar 2016. Að mati úrskurðarnefndarinnar hafa því ekki komið fram upplýsingar sem leiða til þess að Vinnumálastofnun skuli taka ákvörðun um viðurlög kæranda til endurskoðunar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að aðstæður kæranda hafi breyst verulega á þann veg að réttlætanlegt sé að mál hans verði tekið aftur til meðferðar hjá Vinnumálastofnun, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. apríl 2016, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta