Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2014.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. mars 2014

í máli nr. 3/2014:

ISS Ísland ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með kæru 28. febrúar 2013 kærir ISS Ísland ehf. útboð Ríkiskaupa nr. 15576 „ISAVIA – ræsting FLE“. Í þessum hluta málsins tekur nefndin afstöðu til stöðvunar samningsgerðar um stundarsakir en úrlausn málsins að öðru leyti bíður endanlegs úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins auglýsti varnaraðili framangreint útboð í janúar 2014. Grein 2.6 í útboðslýsingu nefndist „Framsetning tilboðs“ og þar sagði m.a. að tilboð skyldu sett fram samkvæmt tilboðsblöðum sem voru hluti af útboðsgögnum. Fram kom að varnaraðili áskildi sér rétt til að vísa frá þeim tilboðum sem ekki væru sett fram samkvæmt tilboðsblöðum. Þá sagði einnig í greininni: „Ef reiknivillur eða ósamræmi er í tilboði, ræður það einingaverð sem fram kemur á tilboðsblöðum og skal tilboð leiðrétt með tilliti til þess“.  Á fyrirspurnartíma útboðsins kom í ljós að láðst hafði að kveða á um það tímabil sem verðtilboð áttu að miðast við. Af þeim sökum var gerð breyting á útboðsgögnum 21. janúar 2014 sem birt var á vefsvæði útboðsins. Var nú tekið fram að á tilboðsblaði bjóðenda skyldi fylla inn einingaverð á fermetra á ári. Heildartala tilboðs skyldi þannig vera heildarkostnaður ræstra fermetra á ári.

            Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu og voru tilboð opnuð 30. janúar 2014. Tilboð AÞ þrifa ehf. mun hafa verið lægst eða að fjárhæð 4.828.744 krónur. Tilboð kæranda var næst lægsta tilboðið, að upphæð 75.117.710 krónur. Á opnunarfundinum lét AÞ þrif ehf. bóka að heildartala tilboðs félagsins miðaðist við mánuð en ekki ár. Varnaraðili tilkynnti 19. febrúar 2014 að tilboði AÞ þrifa ehf. hefði verið tekið. Fram kom að varnaraðili hefði leiðrétt tilboðið þannig að tilboðsfjárhæðin var „kr. 4.828.744 x 12 = 57.944.928 kr.“. Kærandi reisir í grundvallaratriðum málatilbúnað sinn á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að leiðrétta tilboðsfjárhæð AÞ þrifa ehf. Því hafi varnaraðila borið að hafna tilboðinu sem of lágu á grundvelli 73. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Kærandi telur einnig að AÞ þrifum ehf. hafi verið óheimilt að breyta tilboði sínu eftir að því var skilað inn enda sé ekki um að ræða reikningsvillu heldur framsetningu á tilboði. Varnaraðila hafi því borið að hafna tilboði AÞ þrifa ehf.           

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, leiðir kæra til sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar ef val tilboðs er kært innan lögboðins tíu daga biðtíma samkvæmt 76. gr. laganna. Ákvörðun um val tilboða var tilkynnt 19. febrúar 2014 og kæra barst nefndinni 28. febrúar 2014. Komst því á sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar. Samkvæmt 2. mgr. 94. gr. a. laganna getur kærunefndin, hvort heldur er að kröfu varnaraðila eða að eigin frumkvæði, ákveðið að aflétta banni við samningsgerð. Í kæru var m.a. gerð krafa um stöðvun samningsgerðar og varnaraðili hefur skilað sérstökum athugasemdum vegna stöðvunarkröfunnar og krafist þess að stöðvun samningsgerðar verði hafnað. Kærunefnd útboðsmála telur rétt að líta svo á að í þessu felist í raun krafa varnaraðila um afléttingu á banni við samningsgerð. Aðilar hafa komið að sjónarmiðum sínum vegna þessa þáttar málsins og auk þess hafa borist athugasemdir AÞ þrifa ehf. Er því ekkert því til fyrirstöðu að taka ákvörðun um hvort aflétta beri banni við samningsgerð.

Óumdeilt er að tilboð AÞ þrifa ehf. miðaðist ekki við heildarkostnað við ræsta fermetra á ári og ræðst lögmæti ákvörðunar um val á tilboði þannig í raun af því hvort varnaraðila hafi verið heimilt að leiðrétta tilboð fyrirtækisins. Þótt bjóðanda sé almennt óheimilt að leiðrétta eða breyta tilboði sínu eftir opnun hefur kærunefnd útboðsmála talið kaupanda heimilt að leiðrétta tilboð ef um er að ræða augljósa villu við tilboðsgerð og fullnægjandi forsendur fyrir leiðréttingu koma fram í tilboðsgögnum. Er þá horft til þess að með slíkri leiðréttingu er í reynd ekki haggað við grundvallarþáttum tilboðs þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun sé að ræða. Samkvæmt gögnum málsins fólst breyting varnaraðila á tilboði AÞ þrifa ehf. eingöngu í því að tilboðið var uppreiknað þannig að það miðaðist við 12 mánuði í stað eins. Að mati nefndarinnar hafa ekki verið færð fyrir því rök að þessi breyting hafi verið varnaraðila óheimil samkvæmt þeim viðmiðum sem áður greinir.

Samkvæmt framangreindu telur nefndin ekki að slíkar líkur hafi verið leiddar að broti gegn lögum um opinber innkaup að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup. Verður stöðvun samningsgerðar því aflétt.

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar varnaraðila, Ríkiskaupa, við AÞ þrif ehf. á grundvelli útboðs nr. 15576 „ISAVIA – ræsting FLE“.

Reykjavík, 13. mars 2014.

Skúli Magnússon

Ásgerður Ragnarsdóttir

Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta