Mál nr. 2/2014. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 18. mars 2014
í máli nr. 2/2014:
Hiss ehf.
gegn
Ríkislögreglustjóranum og
Ríkiskaupum
Með kæru 27. janúar 2014 kærði Hiss ehf. útboð Ríkiskaupa, fyrir hönd Ríkislögreglustjórans, nr. 15577 „Aðgerða og búnaðarvesti með kevlarplötum“. Skilja verður kröfugerð kæranda þannig að þess sé aðallega krafist að varnaraðilum verði gert að breyta útboðsgögnum á þann veg að felldur verði niður skilmáli útboðsgagna sem leggur bann við því að eigendur, stjórnendur og aðilar tengdir bjóðendum megi ekki vera starfandi lögreglumenn eða tengjast þeim. Til vara krefst kærandi þess að lagt verði fyrir varnaraðila að bjóða út kaupin á nýjan leik og breyta útboðsauglýsingu og útboðsgögnum „hvað varðar kafla 1.6.2. um að lögreglumenn megi ekki tengjast bjóðanda“.
Varnaraðilum var gefinn kostur á að tjá sig um kæruna og bárust athugasemdir þeirra 12. og 13. febrúar 2014 þar sem Ríkislögreglustjórinn krafðist þess að kröfum kæranda yrði hafnað. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð varnaraðila 20. febrúar 2014 og gerði þá einnig kröfu um málskostnað.
I
Árið 2011 hafði Ríkisendurskoðun til skoðunar kaup löggæslustofnana á ýmiss konar vörum af fyrirtækjum í eigu lögreglumanna eða náinna venslamanna þeirra án þess að leitað væri tilboða. Skoðunin leiddi af sér ábendingu Ríkisendurskoðunar um innkaup löggæslustofnana þar sem því var m.a. beint til lögæslustofnana að virða ákvæði laga um opinber innkaup. Þá var því beint til innanríkisráðuneytisins að skera úr um hvort það samrýmdist störfum lögreglumanna að eiga og/eða starfa hjá fyrirtækjum sem lögæslustofnanir ættu í viðskiptum við.
Í desember 2013 var auglýst útboð útboð Ríkiskaupa, fyrir hönd Ríkislögreglustjórans, nr. 15577 „Aðgerða og búnaðarvesti með kevlarplötum“. Kafli 1.6 í útboðslýsingu ber heitið „Hæfi bjóðenda/þátttakenda“ og undirkafli 1.6.2. nefnist „Persónulegar aðstæður bjóðanda/þátttakanda“. Í síðarnefnda kaflanum er m.a. eftirfarandi ákvæði: „Eigendur, stjórnendur og tengdir aðilar mega ekki vera starfandi lögreglumenn og/eða tengjast lögreglumönnum. Sbr. ábendingu Ríkisendurskoðunar frá 27. september 2011 og bréf Ríkisendurskoðunar til Innanríkisráðuneytisins dagsett 19. október 2011.“
Framkvæmdastjóri kæranda er lögreglumaður, en kærandi er meðal bjóðenda í útboðinu. Tilboð voru opnuð 7. mars 2014 og samkvæmt opnunarfundargerð bárust tvö tilboð, annars vegar frá kæranda að fjárhæð 10.076.490 krónur en hins vegar frá Dynjanda ehf. en upphæð þess hefur ekki komið fram.
II
Kærandi byggir kröfur sínar á því að hið umdeilda ákvæði útboðslýsingar brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar enda feli það í sér mismunun á grundvelli þjóðfélagsstöðu. Kærandi bendir á að samkvæmt 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, megi lögreglumenn eins og aðrir ríkisstarfsmenn stunda tiltekin aukastörf með samþykki yfirmanns síns. Það sé þannig beinlínis í andstöðu við lög nr. 70/1996 að meina bjóðendum sem tengist lögreglumönnum að taka þátt í útboðinu. Þá telur kærandi að skilyrðið sé í beinni andstöðu við tilgang laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, enda eigi lögin að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup og stuðla að hagkvæmni í rekstri með virkri samkeppni. Kærandi heldur því fram að hið umdeilda ákvæði skorti lagastoð. Auk þess fjalli umrædd ábending Ríkisendurskoðunar um útboðsskyldu en ekki almenn hæfisskilyrði lögreglumanna. Kærandi telur að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hafi veitt framkvæmdastjóra kæranda heimild til þess að starfa í þágu kæranda.
III
Varnaraðili Ríkislögreglustjórinn segir að ástæða þess að hið umdeilda ákvæði var sett í útboðslýsingu sé athugasemdir Ríkisendurskoðunar um innkaup löggæslustofnana frá 27. september 2011 og eftirfylgni stofnunarinnar á þeim. Í athugasemdum Ríkisendurskoðunar segi að það sé gagnrýnivert að löggæslustofnanir eigi í viðskiptum við fyrirtæki sem séu í eigu lögreglumanna eða náinn aðila þeim tengdum. Hið umdeilda ákvæði tryggi að athugasemdir Ríkisendurskoðunar nái fram að ganga og byggi á grunnreglum laga um opinber innkaup og meginreglum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það sé meginregla að lögreglumaður hafi embætti sitt að aðalstarfi í þjónustu ríkisins og stundi ekki starfsemi sem sé ósamrýmanleg embætti hans. Frá þessari meginreglu sé gerð takmörkuð undantekning í 20. gr. laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en sú undantekning sé bæði háð skilyrðum og ákvarðanir á grundvelli hennar afturkræfar. Ríkislögreglustjórinn skipi lögreglumenn, þar á meðal framkvæmdastjóra kæranda. Framkvæmdastjóra kæranda hafi ekki verið veitt heimild til þess að starfa í þágu kæranda. Jafnvel þótt slík heimild lægi fyrir væri hún afturkræf. Þá er tekið fram að stjórnsýslulög gildi ekki um opinber innkaup.
Í bréfi Ríkiskaupa 13. febrúar 2014 kom fram að það hefði verið „einhliða ákvörðun Ríkislögreglustjóra“ að hafa hið umdeilda ákvæði í útboðslýsingu.
IV
Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013, skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Hið kærða útboð var auglýst í desember 2013. Kærandi sótti útboðsgögn 25. desember 2013 og gafst þá kostur á að kynna sér efni gagnanna. Kæra barst hins vegar nefndinni 28. janúar 2014. Var þá bersýnilega liðinn 20 daga frestur kæranda samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 94. gr. laga um opinber innkaup til þess að hafa uppi kæru vegna þeirra skilmála útboðsgagnanna sem hann taldi brjóta gegn réttindum sínum. Af þeirri ástæðu verður að vísa kærunni frá nefndinni án þess að nefndin taki efnislega afstöðu til umrædds skilmála.
Úrskurðarorð:
Kæru Hiss ehf. vegna útboðs Ríkiskaupa, fyrir hönd Ríkislögreglustjórans, nr. 15577 „Aðgerða og búnaðarvesti með kevlarplötum“, er vísað frá kærunefnd útboðsmála.
Reykjavík, 18. mars 2014.
Skúli Magnússon
Stanley Pálsson
Ásgerður Ragnarsdóttir