Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 58/2012

Mánudaginn 24. febrúar 2014

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 22. febrúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 14. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. mars 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 27. mars 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1964. Hann býr ásamt sambýliskonu og tveimur börnum í 108,2 fermetra einbýlishúsi hennar að B götu nr. 51 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er kvikmyndagerðarmaður og fæst aðallega við eftirvinnslu kvikmynda og vinnu við auglýsingar. Hann stundar rekstur sinn í nafni X ehf. sem er félag að öllu leyti í hans eigu. Mánaðarlegar nettótekjur hans eru 202.465 krónur að meðtöldum barnabótum.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til efnahagshrunsins haustið 2008 og þess að rekstraráætlanir hans hafi ekki gengið eftir. Hann hafi stofnað til skulda í trausti þess að rekstrargrundvöllur væri fyrir félagi hans. Útlitið hafi gefið tilefni til þess að reksturinn gæti staðið undir launagreiðslum og afborgunum lána. Áætlanir hafi ekki gengið eftir og í kjölfar hrunsins hafi ekki verið forsendur fyrir gerð auglýsinga og framlög til kvikmyndagerðar hafi verið skert mikið. Af þessum ástæðum hafi róðurinn verið þungur fyrir kæranda og nú sé hann kominn í veruleg vanskil.

Kærandi greinir frá því að fjárhagur hans og sambýliskonu hans hafi ávallt verið aðskilinn. Þegar farið hafi að halla undan fæti hjá kæranda hafi hann ekki getað greitt af skuldum sínum, þar á meðal skuldum vegna fasteignar þeirra. Hafi sambýliskonan yfirtekið áhvílandi lán frá Íbúðalánasjóði gegn því að hann afsalaði sér 40% eignarhluta sínum í eigninni til hennar.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 16.407.773 krónur og falla þar af 9.782.350 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun eru námslán. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2008.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 28. febrúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. febrúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði ógilt og honum heimilað að leita samnings til greiðsluaðlögunar á grundvelli lge.

Kærandi mótmælir sérstaklega túlkun umboðsmanns skuldara á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Kærandi telur einnig að brotið hafi verið gegn andmælarétti hans samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stór hluti skattskulda kæranda byggi á áætlunum. Hefði umboðsmaður skuldara vakið athygli hans á skattskuldunum og því að þær gætu hugsanlega komið í veg fyrir að hann gæti sótt um greiðsluaðlögun hefði kæranda gefist ráðrúm til að skila leiðréttingarskýrslum og þannig lækkað áætlaða skattskuld.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 10/2011.

Kærandi gegni stöðu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra og prókúruhafa í félaginu X ehf. og stöðu stjórnarformanns og prókúruhafa í félaginu Y ehf. en í málinu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á félögunum. Meiri hluti skattskuldanna er vegna virðisaukaskatts. Hafi kærandi stöðu sinnar vegna borið ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 vegna vanskila á umræddum sköttum.

Af gögnum tollstjóra verði ráðið að X ehf. skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 11.339.674 krónur og að Y ehf. skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 2.680.307 krónur. Samanlagt nemi virðisaukaskattskuldir félaganna 14.019.981 krónu. Þar af nemi þær virðisaukaskattskuldir X ehf. sem byggi á gögnum frá félaginu sjálfu og álagningu ríkisskattstjóra 7.059.504 krónum en 4.280.170 krónur byggi á áætlun. Allar virðisaukaskattskuldir Y ehf. byggi á áætlun.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi skuldir kæranda 16.407.733 krónum og að auki sé hann í 500.000 króna sjálfskuldarábyrgð vegna félagsins V ehf. Eignir kæranda séu bifreiðin D og sé áætlað verðmæti hennar um 729.000 krónur. Verði því að telja eignir kæranda óverulegar að teknu tilliti til skulda.

Ekki verði hjá því komist að líta til þeirrar ábyrgðar sem hafi hvílt á kæranda sem stjórnarformanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa í nefndum einkahlutafélögum til að hafa eftirlit með og standa skil á virðisaukaskattskýrslum og vörslusköttum sem innheimtir séu í starfsemi félaganna og þeim sektum sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði fjárhæðir virðisaukaskattskuldanna verulega háar og við þeim liggi þungar sektir auk þess sem eignastaða kæranda sé neikvæð og fjárhagur hans erfiður.

Fjárhagsstaða viðkomandi einkahlutafélags hafi almennt ekki áhrif á þessa skyldu eða refsiábyrgð sem henni tengist. Um sé að ræða vörslufé en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum.

Kærandi telji að umboðsmaður skuldara hafi brotið gegn andmælarétti kæranda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í andmælaréttinum felist að aðili skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í málinu liggi fyrir gögn frá tollstjóra er varði þær vörsluskattskuldir er leitt hafi til synjunar á beiðni kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun sé greint á milli virðisaukaskattskulda er byggi á innsendum gögnum kæranda vegna félagsins X ehf., skulda sem byggist á áætlun skattstjóra vegna sama félags og skulda sem byggi á áætlun skattstjóra vegna félagsins Y ehf. Svo sem rakið sé í ákvörðuninni nemi virðisaukaskattskuldir sem byggi á gögnum frá kæranda vegna X ehf. alls 7.059.504 krónum. Hafi þær skuldir einar og sér þótt nægilega háar til að óhæfilegt þætti að veita kæranda heimild til samningsumleitana um greiðsluaðlögun með hliðsjón af fjárhag og eignastöðu kæranda.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana þar sem skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi er varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Við beitingu ákvæðisins eigi þannig að fara fram samanburður á þeim skuldum sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu og fjárhag skuldara. Í hinni kærðu ákvörðun fari fram heildstætt mat á aðstæðum kæranda þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að vörsluskattskuld geti ekki talist smávægileg með hliðsjón af fjárhag hans.

Umboðsmaður rekur einnig tilgang lge. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Samkvæmt þessu sé nauðsynlegt að fyrir liggi tæmandi upplýsingar um skuldir umsækjanda á tímabili greiðsluaðlögunar. Telja verði að almennt ríki nokkur óvissa um fjárhag þeirra aðila sem hafi sem forsvarsmenn einkahlutafélaga látið hjá líða að standa skil á vörslusköttum viðkomandi félaga. Þannig geti komið til þess hvenær sem er frá því að vanskil hefjist og þar til sök sé fyrnd að þeir þurfi að sæta sektum vegna vanskila félags á vörslusköttum. Í flestum tilvikum bresti þá forsendur fyrir greiðsluaðlögunarsamningi, ekki síst þegar skuldir vörsluskatta séu miklar

Með hliðsjón af því sem að framan sé rakið sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Þyki því óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun um heimild til greiðsluaðlögunar byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá er kærandi stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi í félaginu X ehf., en félagið er að öllu leyti í eigu kæranda. Því hvíldi á honum sú skylda fyrirsvarsmanna félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri fjárhæðinni. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem fyrirsvarsmann X ehf.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að virðisaukaskattskuld X ehf. sem byggi á gögnum frá félaginu sjálfu nemi 7.059.504 krónum. Kærandi hefur hvorki dregið þá fjárhæð í efa né hlutast til um leiðréttingu á henni. Verður því að miða við að hér sé um rétta fjárhæð að ræða. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Í þessu sambandi verður jafnframt að líta til þess að samkvæmt gögnum málsins stafa elstu vanskil félagsins á virðisaukaskatti frá árinu 2007, þ.e. fyrir efnahagshrunið haustið 2008.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um ríflega 15.000.000 króna. Skuldir vegna ógreiddra vörsluskatta X ehf. nema alls 7.059.504 krónum samkvæmt því sem greinir hér að framan. Þetta verður að telja mjög háa fjárhæð. Skuldir þessar eru 43% af heildarskuldum kæranda. Skuldir þessar falla ekki undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag kæranda að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærandi telur umboðsmann skuldara ekki hafa gætt andmælaréttar 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rök kæranda eru þau að ef umboðsmaður hefði vakið athygli kæranda á því að skattskuldir gætu hugsanlega komið í veg fyrir greiðsluaðlögun hefði honum gefist ráðrúm til að skila leiðréttingarskýrslum og lækkað þannig áætlaða skattskuld. Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem fyrirsvarsmann X ehf. Fyrir kærunefndinni hefur kærandi hvorki mótmælt þeim virðisaukaskattskuldum félagsins sem byggjast á álagningu né komið að andmælum varðandi umræddar skattskuldir svo sem honum var boðið með bréfi kærunefndarinnar 27. mars 2012. Ekki hefur hann heldur haldið því fram að skuldir þessar séu rangar eða byggðar á röngum forsendum. Verður kærunefndin þar af leiðandi að ganga út frá því að kærandi hafi í fyrsta lagi notið andmælaréttar í þessu tilliti við málsmeðferð á kærustigi og í öðru lagi að hann hafi ekki efnisleg andmæli við nefndum gögnum og telji að um réttar kröfur og réttar fjárhæðir sé að ræða. Eins og á stefndur í málinu er það mat kærunefndarinnar að hinn meinti annmarki á málsmeðferð umboðsmanns skuldara hafi ekki skaðað hagsmuni kæranda. Að mati kærunefndarinnar telst annmarkinn því ekki verulegur og leiðir þar með ekki til ógildingar ákvörðunarinnar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta