Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 64/2012

Mánudaginn 24. febrúar 2014

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 9. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. febrúar 2012 þar sem umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 14. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 30. apríl 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 9. maí 2012 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.  

 

I. Málsatvik

Kærendur lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun 22. mars 2011. Kærendur eru fædd 1958 og 1953. Þau eru gift og búa í leiguhúsnæði í Svíþjóð. Kærendur voru bæði atvinnulaus og án tekna þegar ákvörðun umboðsmanns lá fyrir.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 2008. Ástæður skuldasöfnunar telja kærendur vera vanefndir verktaka sem tók að sér byggingu húss þeirra í sveitarfélaginu D, sölutregðu eignar kæranda B í sveitarfélaginu E, veikindi kæranda A og atvinnuleysi þeirra beggja.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kærenda 25.856.867 krónur og þar af falla 25.530.416 krónur innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. febrúar 2012 var umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til þess að þau uppfylltu ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Málatilbúnað kærenda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Í kæru kemur fram að meginástæður fjármálavandræða kærenda megi rekja til erlendra lána á húsnæði þeirra og sendibifreið sem var atvinnutæki kæranda B. Hækkanir á erlendu lánunum og erfiðleikar við að selja fasteign hafi leitt til þess að kærendur gátu ekki staðið í skilum. Þegar sendibifreiðin var tekin hafi kærandi B misst atvinnu sína og hafi kærendur þá ekki getað greitt af lánum sínum.

Til að reyna að vinna sig út úr skuldum hafi kærendur sótt um tímabundna vinnu í Noregi. Kærandi B hafi fengið starf en misst í október 2011. Fram kemur í kæru að kærendur hafi verið virk í atvinnuleit og hafi kærandi A nú fengið starf við afleysingar. Ástæða flutninga erlendis hafi verið tímabundið atvinnuleysi og sé ætlun kærenda að flytja til Íslands sumarið 2013 þar sem kærandi B hafi fengið tilboð um starf.

Áður en kærendur fluttu frá Íslandi hafi atvinnuleysisbætur kæranda A verið þeirra einu tekjur. Þau hafi staðið uppi með tvær eignir sem ekki hafi gengið að selja og erlend lán sem sífellt hækkuðu. Skuldir hafi safnast upp vegna töluverðrar tekjulækkunar. Flutningar erlendis hafi að miklu leyti verið byggðir á þeirri von að afla meiri tekna til að geta gengið frá sínum málum. Tekjustaða þeirra hafi batnað töluvert frá því upphafleg umsókn um greiðsluaðlögun var lögð fram.

Það sé einlæg ósk kærenda að geta staðið við skuldir sínar svo þau geti flutt aftur til Íslands og búið nálægt börnum sínum og vinum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna.

Í 4. mgr. 2. gr. lge. sé sett það skilyrði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að umsækjandi sé búsettur og eigi lögheimili hér á landi. Víkja megi frá skilyrðinu ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda, að uppfylltum öðrum skilyrðum greinarinnar.

Umboðsmaður greinir frá því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi í máli nr. 14/2011 staðfest að með tímabundinni búsetu sé átt við að sýnt sé fram á eða gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Ekki verði litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing sé ekki studd neinum gögnum og ekki sé fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tímann í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst sé hvort og þá hvenær verði.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greinargerð kærenda urðu þau atvinnulaus í kjölfar hrunsins. Kærandi A fékk greiddar atvinnuleysisbætur en kærandi B átti ekki rétt á þeim. Kærandi B hafi fengið tímabundið starf í Noregi í tvo mánuði. Hann hafi komið Íslands aftur en kærendur hafi bæði flutt Noregs sumarið 2010 og hafið atvinnuleit. Kærandi A réð sig í afleysingavinnu en varð óvinnufær vegna veikinda sumarið 2011. Hún hóf störf aftur í nóvember 2011. Kærandi B var starfandi frá júlí til október 2011. Kærendur fluttu til Svíþjóðar í árslok 2011 og tóku á leigu íbúð. Samkvæmt upplýsingum frá kærendum eru þau bæði í atvinnuleit í Svíþjóð og kærandi B er að þeirra sögn einnig að leita að starfi á Íslandi. Kærendur segjast stefna að því að koma aftur til Íslands sumarið 2012.

Kærendum hafi verið bent á ákvæði 4. mgr. 2. gr. lge. og þeim gefið tækifæri að leggja fram gögn til stuðnings tímabundinni búsetu, ef um hana væri að ræða. Í framhaldi þess tilkynntu kærendur um flutning þeirra frá Noregi til Svíþjóðar og lögðu fram óundirritaðan leigusamning vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Hvorugt þeirra mun vera í vinnu og því ekki um flutning að ræða vegna tímabundins starfs. Auk þess hafi samfelld búseta þeirra erlendis varað í vel á annað ár og ekki hafi verið lögð fram gögn sem styðji að búseta þeirra hafi í upphafi verið ætluð tímabundin. Það sé því mat umboðsmanns skuldara að kærendur uppfylli ekki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 30. apríl 2012 er fyrri rökstuðningur ítrekaður. Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærendur séu búsett erlendis. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta þeirra sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., var því umsókn kærenda um greiðsluaðlögun synjað.

Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kærenda erlendis sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.

Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum. Þá telur nefndin ekki fullnægjandi í þessu sambandi að skuldari lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands þegar fram líða stundir, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.

Í tilviki kærenda liggur fyrir að þau eru búsett nú í Noregi samkvæmt skráningu í þjóðskrá og hefur kærandi A verið með skráð lögheimili þar síðan 5. ágúst 2010 og kærandi B síðan 13. september 2010. Að mati kærunefndarinnar hafa kærendur ekki sýnt fram á að búseta þeirra sé tímabundin í skilningi laganna.

Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta