Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 51/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 51/2017

Miðvikudaginn 18. október 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. febrúar 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála lækkun mánaðarlegra greiðslna ellilífeyris til kæranda vegna makalífeyris.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Maki kæranda lést X. Í kjölfarið sendi Tryggingastofnun ríkisins kæranda tvö bréf 25. nóvember 2016, annars vegar bréf er varðaði dánarbú maka kæranda og hins vegar bréf þar sem vakin var athygli kæranda á mögulega breyttum forsendum lífeyrisgreiðslna í kjölfar andláts maka, t.d. vegna makalífeyris. Kærandi lagði fram nýja tekjuáætlun til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. nóvember 2016. Þessi nýja tekjuáætlun breytti ekki greiðslum kæranda í desember 2016 en tekjuforsendur samkvæmt henni voru notaðar við gerð tekjuáætlunar vegna ársins 2017. Kæranda var ekki sérstaklega tilkynnt um mánaðarlegar greiðslur ársins 2017 en upplýsingar um þær voru aðgengilegar á Mínum síðum, rafrænu þjónustusvæði stofnunarinnar. Mánaðarlegar greiðslur til kæranda lækkuðu 1. janúar 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með tölvubréfi 18. febrúar 2017 lagði kærandi fram frekari gögn og voru þau kynnt Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 31. mars 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með tölvubréfi, dags. 24. apríl 2017. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 25. apríl 2017. Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. apríl 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfur um að farið sé yfir hvort lagalega hafi verið rétt að lækka tekjutryggingu hennar þegar hún fékk makalífeyri í kjölfar andláts maka.

Kærandi spyr hvort það sé ekki á gráu svæði og hvort það sé réttlætanlegt að mánaðarlegar greiðslur hennar frá Tryggingastofnun lækki þegar hún fái makalífeyri eftir maka sinn, sem hafi greitt í lífeyrissjóð B, sem sé fjármagnaður af ríkinu.

Í athugasemdum kæranda ítrekar hún óánægju sína með að makalífeyrir hafi áhrif á greiðslur hennar.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að kærð sé skerðing á ellilífeyri vegna makalífeyris.

Til 1. janúar 2017 hafi ellilífeyri verið skipt, samkvæmt 17. og 22. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, í ellilífeyri og tekjutryggingu. Lífeyrissjóðsgreiðslur hafi ekki haft áhrif á útreikning ellilífeyris en hafi á hinn bóginn haft áhrif á útreikning tekjutryggingar hafi þær verið umfram 328.800 kr. á ári, sbr. 16. og 22. gr. laganna.

Frá 1. janúar 2017 sé tekjutrygging ekki lengur greidd en ellilífeyrir, sem komi í stað ellilífeyris, tekjutryggingar og sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu, sé greiddur á grundvelli 17. gr. og 23. gr. laganna. Lífeyrissjóðsgreiðslur hafi áhrif á útreikning ellilífeyris eins og aðrar skattskyldar tekjur, sbr. 16. laganna.

Makalífeyrir, þ.e. lífeyrissjóðsgreiðslur sem greiðast til eftirlifandi maka, teljist vera skattskyldar tekjur eftirlifandi maka og lúti sömu reglum og lífeyrissjóðsgreiðslur sem réttur til hafi myndast á grundvelli iðgjaldsgreiðslna hans sjálfs. Makalífeyrir sé því ekki undanþeginn því að teljast til tekna við útreikning á ellilífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Kæranda hafi 25. nóvember 2016 verið send upplýsingabréf annars vegar sem lífeyrisþega við fráfall maka og hins vegar sem fulltrúa dánarbúsins. Í bréfum þessum hafi ekki verið að finna ákvarðanir heldur upplýsingar. Þar hafi meðal annars komið fram ábending um rétt til makalífeyris.

Kærandi hafi skilaði inn tekjuáætlunum þann 30. nóvember 2016 fyrir árin 2016 og 2017 þar sem hún hafi upplýst um væntanlegan makalífeyri sinn. Farið hafi verið yfir þær daginn eftir og tekjuskráningu vegna 2017 breytt í samræmi við tekjuáætlun þess árs. Ekki hafi verið sent bréf um áætlaðar greiðslur ársins 2017 þar sem upplýsingar um fjárhæðir greiðslna vegna ársins 2017 hafi ekki legið þá fyrir. Tekjuskráningu vegna ársins 2016 hafi ekki verið breytt þar sem greiðslur fyrir alla mánuði ársins höfðu farið fram þegar farið hafi verið yfir tekjuáætlunina. Yfirferð yfir tekjur ársins 2016 og áhrif tekna á útreikning ellilífeyris fyrir það ár muni fara fram þegar endurreikningur og uppgjör ársins fari fram síðar á þessu ári.

Þann 13. mars 2017 hafi kæranda verið tilkynnt um breyttar greiðslur í framhaldi af reglubundnu eftirliti en komið hafi í ljós að lífeyrissjóðstekjur kæranda hafi verið hærri samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra en gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætlun fyrir árið 2017.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur málsins snýr að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun ellilífeyrisgreiðslna til kæranda frá 1. janúar 2017 vegna makalífeyrisgreiðslna. Kæranda var ekki tilkynnt um breytingu á mánaðarlegum greiðslum en upplýsingar um greiðslur og forsendur þeirra voru aðgengilegar á Mínum síðum, rafrænni þjónustu Tryggingastofnunar.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er fjallað um skilyrði þess að eiga rétt á ellilífeyri.

Með 5. gr. laga nr. 116/2016, var 22. gr. laga um almannatryggingar breytt á þá leið að tekjutrygging greiðist ekki lengur með ellilífeyrisgreiðslum. Ákvæðið tók gildi þann 1. janúar 2017. Frá gildistöku laganna fá ellilífeyrisþegar greiddan einn bótaflokk, þ.e. ellilífeyri, í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um tekjutengingu lífeyristrygginga. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur í 7. gr. og falla lífeyrissjóðstekjur þar undir. Við vinnslu frumvarps til framangreindra laga nr. 116/2016 áttu sér stað þau mistök að það gleymdist meðal annars að taka út tilvísun í bótaflokkinn ellilífeyri samkvæmt 17. gr. í 3. mgr. 16. gr. laganna. Svohljóðandi var því 3. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar:

„Þegar um er að ræða elli- og örorkulífeyri skv. 17. og 18. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Með 1. gr. laga nr. 9/2017, sem voru sett 28. febrúar 2017, var 3. mgr. 16. gr. breytt á þá leið að: „[í] stað orðanna „elli- og örorkulífeyri skv. 17. og 18. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. og 56. gr.“ í 3. mgr. kemur: örorkulífeyri skv. 18. gr.“ Með 3. gr. laganna var breytingin látin gilda um þá sem höfðu öðlast rétt til ellilífeyris 1. janúar 2017 og síðar.

Í 2. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Ellilífeyrisþegi skal hafa 25.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris.

Tekjuáætlun kæranda gerði ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum, þ.á m. greiðslum makalífeyris, en um er að ræða tekjustofn sem hefur áhrif á bótarétt, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna og einnig 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Makalífeyrir eru lífeyrissjóðstekjur og er því ekki undanþeginn því að teljast til tekna við útreikning á ellilífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi meðhöndlað makalífeyri kæranda eins og lög kveða á um. Að því virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun ellilífeyrisgreiðslna til handa kæranda frá 1. janúar 2017 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun á ellilífeyrisgreiðslum til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta