Hoppa yfir valmynd

Nr. 175/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 175/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030024

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. mars 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2019, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru kæranda má ráða að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 21. desember 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 27. febrúar sl. og þann 11. mars sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Kærandi lagði fram gögn þann 27. mars 2019. Þann 5. apríl sl. barst kærunefnd greinargerð frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til ákvæðis 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga en þar væri að finna upptalningu á því hverjir ættu rétt til fjölskyldusameiningar hér á landi. Um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar væri fjallað í 70. gr. laganna en meðal skilyrða þess væri að makinn hefði rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna. Ljóst væri að maki kæranda dveldi hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga, en það ákvæði veitti ekki rétt til fjölskyldusameiningar skv. 1. mgr. 69. gr. laganna. Kærandi uppfyllti því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda synjað og honum gert að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku ákvörðunar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að ákvörðun Útlendingastofnunar byggi á ónægum upplýsingum og að upplýsingaskylda til kæranda hafi verið brotin. Hafi eiginkona hans komið hingað til lands ásamt syni þeirra og staðið í þeirri trú að þau öll gætu búið hér. Þá eigi hann bágt með að skilja að Útlendingastofnun hafi tekið við umsókn sinni, vitandi að hún grundvallaðist á dvalarleyfi eiginkonu sinnar sem dveldi hér á grundvelli útgefins dvalarleyfis skv. 62. gr. laga um útlendinga. Hefðu kærandi og eiginkona hans vitað að þau ættu ekki rétt á fjölskyldusameiningu hefðu þau ekki komið syni þeirra hingað til lands og í skóla. Í ljósi þess að sonur hans sé [...] ríkisborgari, óskar kærandi eftir að mál hans verði tekið til endurskoðunar og honum verði veitt dvalarleyfi. Að lokum telur kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar brjóta gegn grundvallarréttindum sínum, .s.s réttinum til fjölskyldulífs.

Í tölvupósti kæranda til kærunefndar, dags. 24. mars sl. kemur einnig fram að eiginkona hans hafi sótt um dvalarleyfi á grundvelli sérþekkingar, sbr. 61. gr. laga um útlendinga en hafi síðan fengið útgefið dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laganna. Nú sé fjölskyldan í vandræðum því eiginkona hans vinni 12 tíma vaktir og hafi hún því engan til að gæta sonar þeirra á meðan hún sé í vinnu. Þá beinir kærandi þeirri fyrirspurn til kærunefndar hvort hann geti sótt um fjölskyldusameiningu á einhverjum öðrum grundvelli.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis, skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. laganna, með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Er það skilyrði að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt gögnum málsins er eiginkona kæranda með dvalarleyfi á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga sem samkvæmt upptalningu 1. mgr. 69. gr. veitir ekki rétt til fjölskyldusameiningar. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanleg skilyrði 1. mgr. 69. gr. og 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga til að fá dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Af hálfu kæranda er m.a. byggt á því að framangreint skilyrði eigi ekki við þar sem eiginkonu hans hafi verið veitt dvalarleyfi á röngum grundvelli. Hún hafi sótt um dvalarleyfi á grundvelli sérþekkingar, sbr. 61. gr. laga um útlendinga, en verið veitt dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. sömu laga. Samkvæmt gögnum málsins var eiginkonu kæranda veitt dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 7. september 2018 með gildistíma til 15. ágúst 2019 en leyfið var veitt í kjölfar ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 16. ágúst 2018, þar sem fram kemur að stofnunin veiti vinnuveitanda heimild til að ráða maka kæranda tímabundið til starfa sem „sérhæft starfsfólk í matvælaiðnaði“. Fyrir liggur að ákvörðun Útlendingastofnunar um að veita maka kæranda dvalarleyfi á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga hefur ekki verið kærð til kærunefndar útlendingamála og verður sú ákvörðun því ekki endurskoðuð í þessu máli. Telji eiginkona kæranda að hún uppfylli skilyrði annars konar dvalarleyfis er henni leiðbeint um að beina umsókn um það dvalarleyfi til Útlendingastofnunar.

Kærandi byggir jafnframt á því að hafi rétt til dvalar hér á landi á þeim grundvelli að hann sé aðstandandi EES-borgara en sonur hans er [...] ríkisborgari. Samkvæmt gögnum málsins dvelur sonur kæranda á Íslandi á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga. Í 2. mgr. 82. gr. laga um útlendinga er fjallað um með tæmandi hætti hverjir eru aðstandendur EES- og EFTA-borgara og hafa heimild til að dveljast með EES- eða EFTA-borgara hér á landi. Samkvæmt ákvæðinu teljast m.a. maki EES-eða EFTA-borgara, niðji viðkomandi eða ættingi hans í beinan legg sem er á framfæri borgarans sem aðstandendur. Ljóst er að kærandi, sem foreldri EES- eða EFTA-borgara sem dvelur hér á landi, fellur ekki undir gildissvið ákvæðisins enda er hann ekki á framfæri sonar síns. Kærandi getur því ekki byggt rétt til dvalar á Íslandi skv. XI. kafla laga um útlendinga.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Samkvæmt framansögðu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber honum að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                    Laufey Helga Guðmundsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta