Hoppa yfir valmynd

Nr. 503/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. júlí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 503/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24010061

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 22. janúar 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. janúar 2024, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í fimm ár.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að endurkomubann hans verði ákveðið til tveggja ára. Þar að auki krefst kærandi þess að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi inn á Schengen-svæðið 11. nóvember 2022, sbr. stimpil í vegabréfi nr. [...], útgefnu 24. janúar 2022, með gildistíma til 23. janúar 2032. Lögregla hafði afskipti af honum 11. janúar og 13. apríl 2023. Í síðarnefndum afskiptum hafði kærandi dvalið á Schengen-svæðinu í 154 daga og var honum birt tilkynning um hugsanlega brottvísun ásamt ákvörðun lögreglustjóra um tilkynningarskyldu. Að sögn lögreglu yfirgaf kærandi landið 20. apríl 2023, með flugi til Mílanó en ekki liggur fyrir stimpill út af Schengen-svæðinu. Kærandi kom aftur inn á Schengen-svæðið 6. júní 2023, samkvæmt stimpli í vegabréfi nr. [...], útgefnu 2. maí 2023, með gildistíma til 1. maí 2033. Lögregla hafði afskipti af kæranda 13. og 18. júlí 2023. Útlendingastofnun tók ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda, á grundvelli 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga 19. júlí 2023 vegna ólögmætrar dvalar. Kærandi yfirgaf landið sjálfviljugur samkvæmt stimpli, dags. 25. júlí 2023, og var endurkomubann hans fellt úr gildi, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kom næst inn á Schengen-svæðið 3. október 2023, samkvæmt stimpli í vegabréfi nr. [...], útgefnu 29. september 2023, með gildistíma til 28. september 2033. Lögregla hafði afskipti af kæranda 20. desember 2023 og sýndi hann fram á farmiða til Varsjár 25. desember 2023. Lögregla hafði næst afskipti af kæranda 7. janúar 2024 vegna gruns um ólögmæta dvöl á landinu. Kæranda var síðan birt tilkynning Útlendingastofnunar, dags. 9. janúar 2024, þar sem fram kom að til skoðunar væri að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Með tilkynningunni var kæranda veittur þriggja daga frestur til þess að leggja fram skriflega greinargerð vegna málsins. Kærandi lagði fram greinargerð vegna málsins, dags. 16. janúar 2024 en ákvörðun var tekin í máli hans 17. janúar 2024, þrátt fyrir að vera dags. 15. janúar 2024. Með ákvörðuninni var kæranda gert að sæta brottvísun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og fimm ára endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur m.a. fram að dvöl kæranda á Schengen-svæðinu utan Póllands, þar sem hann hefur að eigin sögn heimild til dvalar, hafi verið ólögmæt. Þar að auki leggur Útlendingastofnun til grundvallar að öflun nýrra vegabréfa hafi verið gerð í þeim tilgangi að blekkja stjórnvöld varðandi dvalarheimild. Enn fremur telur Útlendingastofnun að framvísun flugmiða, dags. 25. desember 2023, gagnvart lögreglu 20. desember 2023 hafi verið gerð með það að markmiði að blekkja stjórnvöld og koma í veg fyrir að kæranda yrði frávísað á landamærunum. Þá taldi Útlendingastofnun ekkert hafa komið fram í málinu sem benti til þess að 102. gr. laga um útlendinga kæmi í veg fyrir brottvísun og endurkomubann kæranda. Á grundvelli e-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga var frestur til sjálfviljugrar heimfarar felldur niður. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 17. janúar 2024 og kærði hann ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 22. janúar 2024. Greinargerð og önnur fylgigögn voru lögð fram með tölvubréfi, dags. 2. febrúar 2023. Samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra var ákvörðun Útlendingastofnunar framkvæmd með flutningi til heimaríkis 25. janúar 2024. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var kæranda gert að sæta gæsluvarðhaldi, eigi lengur en til 26. janúar 2024, sbr. úrskurði Landsréttar nr. 17/2024, dags. 10. janúar 2024 og nr. 56/2024, dags. 23. janúar 2024. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. S-3245/2023, dags. 22. janúar 2024, var kærandi sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með úrskurði kærunefndar nr. 503/2024, dags. 13. maí 2024, var beiðni kæranda hafnað.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til aðstæðna sinna og málsatvika. Kærandi telur að ákvörðun Útlendingastofnunar brjóti í bága við ákvæði laga um útlendinga, reglugerð um útlendinga, reglugerð um för yfir landamæri og ákvæði stjórnsýslulaga. Í ákvörðuninni komi fram að kærandi hafi brotið alvarlega og margsinnis gegn ákvæðum laga um útlendinga og hafi af ásetningi reynt að villa um fyrir íslenskum stjórnvöldum. Að sögn kæranda er ásökununum haldið fram án rökstuðnings og hafni kærandi þeim. Kærandi sótti um dvalarleyfi í Póllandi 4. október 2023 og njóti réttar til dvalar þar í landi eins og gögn frá pólskum stjórnvöldum geti staðfest. Kærandi hafi því ekki dvalið á Schengen-svæðinu umfram heimild.

Kærandi telur þá málsmeðferð sem hann hafi hlotið brjóta í bága við ákvæði stjórnsýsluréttarins sem valdi því að ákvörðunin teljist ólögmæt og beri kærunefnd því að fella ákvörðunina úr gildi. Í fyrsta lagi telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Kærandi vísar til þess að það hafi verið Útlendingastofnun mikið kappsmál að taka ákvörðun sem allra fyrst án fullnægjandi rannsóknar. Í því samhengi vísar kærandi einkum til dvalarheimildar sinnar í Póllandi sem ekki hafi verið nægjanlega rannsökuð enda sýni heimildin fram á lögmæti dvalar kæranda á Schengen-svæðinu. Útlendingastofnun hafi óskað eftir framlagningu gagna af hálfu kæranda 17. janúar 2024 en síðar sama dag hafi kæranda verið birt ákvörðun sem dagsett sé 15. janúar 2024. Kærandi byggir einnig á því að nýjar upplýsingar sem fram komi með andmælum geti leitt til frekari rannsóknar á ákveðnum þáttum málsins og vísar til álita umboðsmanns Alþingis því til stuðnings. Enn fremur hafi Útlendingastofnun borið að leiðbeina kæranda um framlagningu tiltekinna upplýsinga og upplýsa hann um áhrif þess ef umræddar upplýsingar yrðu ekki veittar af hálfu kæranda. Leiðbeiningar af hálfu Útlendingastofnunar hefðu verið sérstaklega mikilvægar í ljósi þess að stofnunin taldi stimpil í vegabréfi kæranda frá pólskum yfirvöldum ekki nægjanlegan.

Þar að auki telur kærandi mat Útlendingastofnunar um að kærandi hafi ætlað sér að blekkja íslensk stjórnvöld óforsvaranlegt. Ekki liggi fyrir á grundvelli hvaða gagna Útlendingastofnun byggir mat sitt. Að sögn kæranda virðast ásakanir stofnunarinnar byggjast á huglægu mati. Kærandi mótmælir því að hafa blekkt lögreglu með framvísun farmiða úr landi 25. desember 2023. Kærandi hafi ekki fengið afhent gögn sem staðreyni fullyrðingar stofnunarinnar um meinta ólögmæta dvöl. Þá mótmælir kærandi harðlega þeirri trú Útlendingastofnunar að nýrra vegabréfa hafi verið aflað með það fyrir augum að komast hjá því að hlíta reglum um lögmæti dvalar. Sú trú Útlendingastofnunar byggi ekki á neinum hlutlægum gögnum. Kærandi hafi tilkynnt að vegabréf hans hafi týnst, með tilheyrandi umstangi og kostnaði fyrir hann og telur hann það óforsvaranlegt af stofnuninni að draga langsóttar ályktanir af aðstæðum hans. Þá byggir kærandi einnig á því að auðkenni hans sé það sama og séu upplýsingar um komu og för hans á Schengen-svæðið skráðar í Schengen-upplýsingakerfið. Kærandi telur að ályktanir Útlendingastofnunar séu órökstuddar og ekki byggðar á forsvaranlegu mati.

Kærandi telur að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglunni við málsmeðferð sína, bæði varðandi gæsluvarðhald í 18 daga og ákvarðanatöku Útlendingastofnunar. Þá hafi endurkomubann á Schengen-svæðið verulega íþyngjandi áhrif á kæranda, þar sem hann eigi maka í Þýskalandi og auk þess sem það hafi áhrif á dvalarheimild hans í Póllandi. Þá gerir kærandi athugasemdir við lengd endurkomubannsins en kærandi krefst þess til vara að endurkomubann hans verði stytt í tvö ár. Enn fremur hafi kæranda verið neitað um beiðnir sínar um sjálfviljuga heimför og hafi stjórnvöldum borið að sýna hóf við valdbeitingu. Kærandi gerir sérstaka athugasemd við flutning til heimaríkis en í samræmi við tilskipun 2008/115/EB hefði átt að senda hann til Póllands, enda hafi hann heimild til dvalar þar.

Kærandi telur að brotið hafi verið gegn andmælarétti sínum. Hann hafi í fyrstu fengið þriggja daga frest frá birtingu tilkynningar um hugsanlega brottvísun 10. janúar 2024. Hluta gagna málsins hafi kærandi fengið 12. janúar s.á. og var ómögulegt fyrir hann að fá heildarmynd af ástæðum málsins. Kærandi byggir á því að tilkynningin hafi innihaldið rangfærslur og hafi kærandi verið í gæsluvarðhaldi á röngum forsendum. Frekari gögn hafi borist frá Útlendingastofnun síðdegis 15. janúar 2024 en ákvörðun birt fyrir kæranda degi síðar, 16. janúar 2024. Sama dag hafi ákvörðunin verið endurupptekin og kæranda veittur sólarhringsfrestur til að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þá vísar kærandi til tölvubréfasamskipta við Útlendingastofnun en af niðurstöðu málsins hafi kærandi haft sérstaka þörf á hóflegum fresti til að útskýra, leiðrétta og koma viðhorfum sínum á framfæri. Þá hafi Útlendingastofnun tekið ákvörðun í máli kæranda að nýju sem hafi verið birt fyrir kæranda um klukkutíma eftir framlagningu andmæla hans. Kærandi byggir á því að stjórnvöldum beri að veita honum hæfilegan tíma til að koma sjónarmiðum á framfæri. Málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi með engu móti samrýmst andmælarétti kæranda. Því til stuðnings vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis sem varðaði útlending í varðhaldi vegna ákvörðunar um brottvísun og endurkomubann, nr. 5261/2008.

Telur kærandi að beiting Útlendingastofnunar á b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga hafi verið efnislega röng sem brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Loks vísar kærandi til 13. gr. reglugerðar um för yfir landamæri. Kærandi hafnar því að dvöl hans hafi verið ólögmæt. Stimpill á ytri landamærum Schengen, dags. 3. október 2023, og stimpill pólskra yfirvalda, dags. 4. október 2023, sýni fram á heimild hans til dvalar í Póllandi. Kærandi hafi komið hingað til lands 20. desember 2023 og liðið höfðu meira en 90 dagar frá brottför hans í júlí 2023. Gögn málsins sýni fram á að mat Útlendingastofnunar hafi verið efnislega rangt. Þá hafi kæranda verið ómögulegt að sjá hvernig ákvæði 13. gr. reglugerðar um för yfir landamæri sýni fram á annað í ljósi stimpla í vegabréfi hans.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna, hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum eða kemur sér hjá því að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi af ásetningi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendinga með því að framvísa farmiða í flug sem kærandi hafi ekki farið í, með það að markmiði að komast hjá frávísun. Einnig byggir Útlendingastofnun ákvörðun sína á því að kærandi hafi ætlað sér að blekkja stjórnvöld með öflun nýrra vegabréfa. Samkvæmt framansögðu byggist ákvörðun Útlendingastofnunar ekki á 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sem fjallar um ólögmæta dvöl. Þá liggur jafnframt fyrir að kærandi hafi verið sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, en refsidómur kæranda var kveðinn upp eftir töku hinnar kærðu ákvörðunar og byggir ákvörðunin því heldur ekki á d-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framansögðu takmarkast endurskoðun kærunefndar við lagagrundvöll ákvörðunarinnar, þ.e. b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og þær málsmeðferðarreglur sem um málið gilda.

Hvað efnishlið málsins varðar leiðir af lögum um útlendinga að útlendingur ber ábyrgð á lögmæti eigin dvalar en brot gegn því geti leitt til beitingar úrræða á grundvelli XII. kafla laga um útlendinga eða refsinga á grundvelli 1. mgr. 116. gr. sömu laga. Að virtum gögnum málsins er ljóst að kærandi hafi a.m.k. þrívegis á árunum 2022-2024 dvalið á Schengen-svæðinu ólöglega. Enn fremur má ráða af gögnum málsins að endurkomur kæranda á Schengen-svæðið 6. júní og 3. október 2023 hafi verið innan 90 daga frá fyrri brottförum. Líkt og fram kemur í 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar um útlendinga, má dvöl á Schengen-svæðinu ekki fara yfir 90 daga á hverju 180 daga tímabili. Af því leiðir að för yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins hafa áhrif að lögum, hvort tveggja varðandi komu og brottför af svæðinu. Samkvæmt framangreindu er ekki unnt að slá því föstu hvort dvöl kæranda sé lögmæt þegar sífellt eru lögð fram ný ferðaskilríki sem ekki geyma upplýsingar um síðustu brottför viðkomandi af Schengen-svæðinu. Samkvæmt framangreindu telur kærunefnd ljóst að endurkomur kæranda á Schengen-svæðið, sbr. stimpil þýskra landamæravarða, dags. 6. júní 2023, og stimpil ungverska landamæravarða, dags. 3. október 2023, hafi ekki verið í samræmi við lög, sbr. til hliðsjónar 1. og 2. mgr. 6. gr. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen landamærareglurnar).

Málatilbúnaður kæranda grundvallast að töluverðu leyti á málsmeðferðarannmörkum, einkum varðandi rannsóknarreglu og andmælarétt stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann beri fyrir sig. Í andmælarétti stjórnsýsluréttar felst tækifæri kæranda til að gæta réttar síns og hagsmuna. Til þess að hann fái notið réttarins verður kærandi að hafa aðgengi að gögnum málsins og nægjanlegt ráðrúm til þess að koma á framfæri sínum sjónarmiðum, gögnum og athugasemdum. Ef um verulega íþyngjandi ákvörðun er að ræða aukast skyldur stjórnvalds til að tryggja að aðili máls eigi raunhæfan kost á því að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun.

Á kærustigi ber kærandi m.a. fyrir sig að hafa notið dvalarheimildar í Póllandi. Við meðferð málsins hafi hann lagt fram skjáskot af skjali sem bendir til þess að hann hafi notið heimildar til dvalar í Póllandi vegna dvalarleyfisumsóknar sem hafi verið til meðferðar hjá pólskum stjórnvöldum. Þá hafi kærandi lagt fram óstaðfesta þýðingu af skjalinu með forritinu Google Lens. Fylgigagnið ásamt þýðingu þess er að forminu til ótraust, það inniheldur t.a.m. enga öryggisþætti á borð við apostille-staðfestingu eða keðjustimplun. Af lestri hinnar kærðu ákvörðunar er óljóst hver afstaða Útlendingastofnunar til dvalarheimildar kæranda í Póllandi var. Í ákvörðuninni kemur fram að kærandi hafi mögulega sýnt fram á lögmæta dvöl þar í landi sem að mati Útlendingastofnunar heimili þó ekki lengri dvöl fyrir hann í öðrum Schengen-ríkjum en engin frekari afstaða liggur fyrir. Í vegabréfi kæranda er að finna stimpil frá pólskum stjórnvöldum, dags. 4. október 2023, sbr. 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um för yfir landamæri. Lögregla á Keflavíkurflugvelli hafði síðan afskipti af kæranda 20. desember 2023. Samkvæmt efni hinnar pólsku dvalarheimildar, sem kærandi lagði fram, var honum heimilt að dvelja í Póllandi í 60 daga frá og með 10. október 2023 og mætti ætla að heimildinni hafi lokið 10. desember 2023. Ekki hafa verið lagðar fram upplýsingar um niðurstöðu pólskra stjórnvalda vegna dvalarleyfisumsóknar kæranda eða hvernig dvalarheimild hans væri háttað eftir 10. desember 2023. Með hliðsjón af framangreindum gögnum og upplýsingum telur kærunefnd að Útlendingastofnun hafi borið að rannsaka málið betur til þess að geta tekið fullnægjandi afstöðu til heimildar kæranda til dvalar hér á landi sem og innan Schengen-svæðisins. Það hefði stofnunin til að mynda getað gert með upplýsingum frá pólskum stjórnvöldum eða kröfu um frekari gagnaframlagningu af hálfu kæranda.

Að auki kemur fram í gögnum málsins og kærandi hefur greint frá því hjá stjórnvöldum hér á landi að vera í hjúskap með einstaklingi sem búsettur er í Þýskalandi en engin afstaða var tekin til þess í ákvörðun Útlendingastofnunar hvort brottvísun kæranda og endurkomubann inn á Schengen-svæðið gæti talist ósanngjörn ráðstöfun gagnvart maka hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá fær kærunefnd ekki séð af gögnum málsins að Útlendingastofnun hafi rannsakað nánar afdrif fyrri vegabréfa kæranda, svo sem hvort þau hafi verið skráð í þar til gerð kerfi um týnd og stolin ferðaskilríki, með atbeina alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra.

Vegna athugasemda kæranda um andmælarétt er ljóst að málið er nokkuð umfangsmikið og leiddi til töku íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar. Frestur kæranda til andmæla varð að taka mið af því. Samkvæmt gögnum málsins sat kærandi í gæsluvarðhaldi frá 8. janúar 2024 þangað til hann var fluttur úr landi 25. janúar 2024. Vegna varðhaldsins var kæranda erfiðara um vik að veita andmæli gegn fyrirhugaðri brottvísun og endurkomubanni. Að sama skapi er gæsluvarðhald íþyngjandi þvingunarúrræði fyrir kæranda sem krefst þess að stjórnvöld flýti málsmeðferð eftir föngum, sbr. til hliðsjónar 9. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt atvikum málsins var kæranda birt tilkynning um hugsanlega brottvísun 10. janúar 2024 en 12. janúar 2024 óskaði lögmaður kæranda eftir að fá afhent gögn málsins frá Útlendingastofnun þar sem gögnin hefðu ekki fengist öll frá lögreglu. Hinn 15. janúar 2024 fékk lögmaður kærandi gögnin afhent frá Útlendingastofnun en degi síðar var hin kærða ákvörðun birt fyrir kæranda. Ákvörðunin var afturkölluð 16. janúar 2024 í kjölfar samskipta fulltrúa Útlendingastofnunar við lögmann kæranda og gagnaframlagningu af hans hálfu. Var uppfærð ákvörðun birt fyrir kæranda 17. janúar 2024 en í millitíðinni fékk kærandi tækifæri til þess að koma á framfæri frekari röksemdum sínum. Samkvæmt framangreindu var hinn upphaflegi þriggja daga andmælafrestur því framlengdur og endanleg ákvörðun í málinu tekin sjö dögum eftir birtingu tilkynningar um hugsanlega brottvísun. Í ljósi þess að kærandi sætti gæsluvarðhaldi, sem krefst þess að stjórnvöld flýti málsmeðferð eftir föngum, og forgangsraði málavinnslu í samræmi við það, telur kærunefnd að kærandi hafi fengið nægt ráðrúm til þess að koma andmælum sínum og skoðunum á framfæri í málinu. Þrátt fyrir það eru tilteknar röksemdir sem lagðar voru fram af kæranda sem kölluðu á frekari rannsókn og gagnaöflun Útlendingastofnunar.

Líkt og fram hefur komið var niðurstaða Útlendingastofnunar reist á b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga en stofnunin taldi að kærandi hefði af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi framvísað villandi upplýsingum og blekkt stjórnvöld á Íslandi og Schengen-svæðinu.

Fyrirliggjandi gögn málsins benda til þess að Útlendingastofnun kunni að hafa verið heimilt að brottvísa kæranda á framangreindum grundvelli. Þá telur kærunefnd að skýringar kæranda á síendurútgefnum vegabréfum séu að nokkru leyti ósannfærandi. Í því samhengi lítur kærunefnd einkum til hegðunar kæranda, en líkt og þegar hefur komið fram er ekki unnt að slá neinu föstu um lögmæti farar yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins þegar ferðaskilríki geymi ekki upplýsingar um síðustu brottför af svæðinu. Af málatilbúnaði kæranda má ráða að hagsmunir hans varða einkum möguleika á dvöl í Póllandi og Þýskalandi, m.a. vegna fjölskyldusjónarmiða. Þrátt fyrir það benda lögregluskýrslur í málinu einkum til þess að kærandi hafi nýtt dvalartíma sinn á Schengen-svæðinu til dvalar á Íslandi þar sem kærandi hafi stundað afbrot, sbr. fyrirliggjandi dóm Héraðsdóms Reykjaness.

Að framangreindu virtu telur kærunefnd ljóst að ýmsir þættir í málinu hafi verðskuldað ítarlegri og vandaðri rannsókn Útlendingastofnunar til þess að ganga úr skugga um dvöl kæranda, málatilbúnað hans, og atriði sem komið gætu í veg fyrir brottvísun og endurkomubann, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Að því leytinu til hafi annmarkar verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar sem hafi haft áhrif á úrlausn málsins, sbr. einkum 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi.

Athugasemdir við hina kærðu ákvörðun:

Í málatilbúnaði sínum gerir kærandi athugasemdir við gæsluvarðhald með hliðsjón af meðalhófssjónarmiðum. Kærunefnd bendir á að gæsluvarðhaldsúrskurðir dómstóla grundvallast á sjálfstæðri kröfugerð og málsmeðferð sem kærunefnd hefur ekki valdbærni til þess að gera athugasemdir við. Þá grundvallaðist hin kærða ákvörðun á b-lið 1. mgr. 98. gr. sem heimilar Útlendingastofnun að fella niður frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. e-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Í ljósi framangreinds gerir kærunefnd ekki athugasemd við að kæranda hafi ekki verið heimiluð sjálfviljug heimför, þrátt fyrir beiðnir hans þar um.

Vegna athugasemda kæranda um flutning hans til heimaríkis bendir kærunefnd á 4. málsl. 5. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þar kemur fram að hafi útlendingur gilda heimild til dvalar í öðru EES- eða EFTA-ríki skuli hann fluttur þangað. Ekki liggur fyrir hvernig dvalarheimild kæranda í Póllandi var háttað eftir 10. desember 2023 og því ekki unnt að slá föstu hvort lögreglu hafi verið heimilt að flytja hann þangað. Hvað sem framangreindu líður vísar kærunefnd til þess að samkvæmt 5. málsl. 5. mgr. 104. gr. laga um útlendinga verða ákvarðanir um framkvæmd ekki kærðar sérstaklega. Því hefur kærunefnd ekki heimildir til þess að taka beina afstöðu til einstakra flutninga.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                            Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta