Hoppa yfir valmynd

Nr. 436/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 436/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19060029 og KNU19060028

Kæra [...],

[...] og barns þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 18. júní 2019 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir K) og [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 3. júní 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barns þeirra, [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.Kærendur krefjast þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 2. febrúar 2019. Þar sem kærendur höfðu fengið útgefna vegabréfsáritun hjá spænskum yfirvöldum var, þann 12. febrúar 2019, beiðni um viðtöku kærenda og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Spáni, sbr. 4. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá spænskum yfirvöldum, dags. 26. febrúar 2019, samþykktu þau viðtöku kærenda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 3. júní 2019 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 4. júní 2019 og kærðu þau ákvarðanirnar þann 18. júní 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 27. júní 2019 ásamt fylgigögnum. Frekari gögn bárust kærunefnd dagana 16. júlí, 7., 16., 19. og 20. ágúst 2019.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að spænsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknirnar yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Spánar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefðu kærendur ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsóknir þeirra til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Spánar.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barnsins A kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra hennar, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, útlendingalaga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum hennar væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Spánar.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda er fjallað um aðstæður fjölskyldunnar og aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni. Meðal annars kemur fram að K hafi greint frá því að hún fái stundum hraðan hjartslátt og þurfi á lyfjum að halda vegna þess. Andlegt ástand hennar væri þá jafnframt slæmt. M kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun vera kvíðinn og hafa áhyggjur af stöðu fjölskyldunnar. Kærendur hafi mótmælt því að verða send aftur til Spánar, þau hafi alltaf ætlað að koma til Íslands og hafi slæma reynslu af Spáni. Þau eigi þá fjölskyldu hér á landi, en á Spáni þekki þau engan. Í greinargerð er tekið fram að í kjölfar birtingar á ákvörðun Útlendingastofnunar hafi A komist í mikið uppnám. Andleg líðan hennar hafi verið slæm [...]. [...].

Í greinargerð sinni gera kærendur athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. við mat stofnunarinnar á sérstökum tengslum þeirra hér á landi og mat á viðkvæmri stöðu þeirra. Í gögnum um heilsufar A komi fram að eftir birtingu á ákvörðun Útlendingastofnunar hafi [...]. Samkvæmt tölvupósti frá [...]. Kvíða- og depurðareinkenni hafi verið til staðar hjá A ásamt sterkum einkennum áfallastreitu. Telja kærendur að við mat á sérstaklega viðkvæmri stöðu þeirra sé mikilvægt að tekið sé mið af því að hér á landi sé í fylgd foreldra sinna andlega veik [...] stúlka. Telja kærendur því ljóst að þau teljist til einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærendur vísa þá til þess að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli þeirra í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í þeim efnum fjalla kærendur almennt um og gera grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæðinu, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum og fyrri úrskurðum kærunefndar útlendingamála. Með vísan til erfiðrar reynslu og aðstæðna kærenda, ofsafengins ótta A við Spán, stefnu yfirvalda á Spáni hvað varðar málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd og einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd og álags á spænska hæliskerfinu byggi kærendur á því að fyrir hendi séu slíkar sérstakar ástæður sem skyldi íslensk stjórnvöld til að taka beiðni kærenda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kærenda er þá áréttað að börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd, hvort sem þau séu í fylgd umönnunaraðila eða ekki, og íslenskum stjórnvöldum sé skylt að hafa ávallt það sem barni sé fyrir bestu í forgangi þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Kærendur árétta að börnum beri að njóta sérstakrar verndar og umönnunar, bæði skv. alþjóðasamningum og lögum. Telja kærendur ljóst að það þjóni ekki hagsmunum A að vera send til Spánar með foreldrum sínum þar sem þeirra bíði ekkert annað en öryggisleysi og óvissa.  

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barns kærenda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, þ. á m. viðtöl við K, M og A hjá Útlendingastofnun og læknisfræðileg gögn. Það er mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum A sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Barnið A er í fylgd foreldra sinna og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Spánar á umsóknum kærenda er byggð á 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærendur hafi fengið útgefna vegabréfsáritun hjá spænskum yfirvöldum. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja spænsk stjórnvöld um að taka við kærendum, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi.

Eins og áður hefur verið rakið eru kærendur hjón og eru þau hér á landi ásamt dóttur sinni A. Kærunefnd telur ljóst af gögnum máls að A þjáist af [...]. Af læknisfræðilegum gögnum má m.a. ráða að A sé [...] og bæði sofi og nærist illa. Frá því í júní sl. hefur A ítrekað þurft að leita aðstoðar vegna þessara veikinda á [...]. Hefur hún í tvígang verið lögð inn á deildina auk þess að hafa sótt þar viðtöl og frekari þjónustu. Nú síðast var hún lögð inn þann 12. ágúst sl. og í bréfi frá sérfræðilækni á deildinni, dags. 16. ágúst sl., kemur m.a. fram að ástæða innlagnar hafi verið alvarleg geðræn einkenni. Þá kemur þar fram að það sé mat viðkomandi læknis að brottvísun muni hafa alvarleg áhrif á geðheilsu A og mikilvægt sé að fjölskyldunni sé tryggður stöðugleiki sem fyrst. Jafnframt kemur fram í bréfi frá sama sérfræðilækni, dags. 20. ágúst sl., að frekari meðferðar sé þörf í tilviki A, bæði að því er varði greiningar- og meðferðarvinnu. Er þá tekið fram að það sé mat læknisins að verði rof á meðferð hennar muni það hafa alvarleg áhrif á líðan hennar og geðheilsu.

Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að fyrir hendi sé ástæða er varðar heilsufar A sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið. Hefur heilsufar A því vægi við mat á því hvort umsókn hennar skuli vera tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá hefur kærunefnd litið sérstaklega til ummæla sérfræðilækna um þau alvarlegu áhrif á geðheilsu A sem óstöðugleiki og mögulegt rof á meðferð hennar geti haft á líðan hennar á geðheilsu. Að mati kærunefndar væri synjun á efnismeðferð umsóknar A, og flutningur hennar til Spánar, ekki í samræmi við hagsmuni hennar, sbr. framangreind sérviðmið varðandi börn og ungmenni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða kærunefndar að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli A, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, og tilvitnuð ákvæði reglugerðar um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til sjónarmiða um einingu fjölskyldunnar er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kærenda og dóttur þeirra og leggja fyrir stofnunina að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðstæður í viðtökuríki eða um athugasemdir kærenda við ákvarðanir Útlendingastofnunar.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kærenda til efnismeðferðar hér á landi. 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicants‘s applications for international protection in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                              Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta