Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 37/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                              

Miðvikudaginn 9. september 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 37/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 3. júlí 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 19. júní 2015, á umsókn hennar um námsstyrk á haustönn 2015.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um námsstyrk hjá Hafnarfjarðarbæ með umsókn, dags. 4. mars 2015, vegna haustannar 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, dags. 22. maí 2015, á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði um félagslega erfiðar aðstæður, sbr. 17. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi áfrýjaði afgreiðslu Fjölskylduþjónustunnar til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 19. júní 2015 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir niðurstöðu afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um skólastyrk. Í 4. mgr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ segir að kanna skuli rétt umsækjanda um fjárhagsaðstoð til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Í ljós hefur komið að umsækjandi nýtur réttar til atvinnuleysisbóta og er því umsókn um fjárhagsaðstoð synjað.

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 19. júní 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 3. júlí 2015. Með bréfi til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 6. júlí 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun, ásamt öðrum gögnum málsins. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 6. ágúst 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 10. ágúst 2015, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hún sé einstæð móðir með eitt barn og búi í foreldrahúsum. Hún hafi verið með kvíða og félagsfælni frá 12 ára aldri og því treysti hún sér ekki út á vinnumarkaðinn. Hún vonist til þess að vinna sig út úr þessu andlega vandamáli og að hún verði hæf til að fara út á vinnumarkaðinn með aukinni menntun. Hún þurfi á skólastyrk að halda í tvö ár til að klára stúdentsprófið og þá geti hún farið í háskóla og tekið námslán. Kærandi tekur fram að með því að synja henni um skólastyrk sé í raun verið að loka á möguleika hennar í framtíðinni til að lifa mannsæmandi lífi því hún fái ekki há laun ef hún er ómenntuð.

 

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi sent inn skriflega beiðni um þjónustu hjá Fjölskylduþjónustunni í Hafnarfirði 4. mars 2015 en hafi ekki komið í viðtali hjá félagsráðgjafa fyrr en 5. maí 2015. Í viðtalinu hafi hún óskað eftir fjárhagsaðstoð í formi skólastyrks en hún væri í fæðingarorlofi fram í maímánuð en hafi áður verið á atvinnuleysisbótum í um það bil eitt ár. Kærandi hafi tekið fram að hún hefði undanfarið tekið fimm einingar í fjarnámi, hyggðist taka aðrar fimm í sumarskóla og hefja svo fullt nám við B haustið 2015. Kæranda hafi verið bent á að hún ætti enn rétt á atvinnuleysisbótum og gæti mögulega tekið einhverjar námseiningar með þeim. Kærandi hafi tekið fram að hún hefði meiri áhuga á að klára námið sem fyrst og að hún væri komin með daggæslu fyrir barn sitt.

Umsókn kæranda hafi verið synjað með vísan til 17. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði um félagslega erfiðar aðstæður. Þegar metið sé hvort félagslegir erfiðleikar eru fyrir hendi sé meðal annars litið til fjölskylduaðstæðna, hvort umsækjandi njóti stuðnings fjölskyldu eða annarra, hvort um neysluvandamál sé að ræða eða önnur vandamál, svo sem ofbeldi á heimili, erfiðar uppeldisaðstæður, atvinnumöguleikar með námi og fleira. Aðstæður kæranda hafi ekki verið með þeim hætti að þær féllu að skilyrðum reglnanna um námsstyrk og því hafi umsókn hennar verið synjað. Í áfrýjun kæranda til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar hafi verið greint frá aðstæðum hennar og að hún væri á atvinnuleysisbótum sem myndu falla niður við upphaf námsins.

Hafnarfjarðarbær bendir á að þar sem kærandi hafi átt rétt á fullum atvinnuleysisbótum hafi það verið niðurstaða fjölskylduráðs að synja bæri umsókn hennar um skólastyrk á þeirri forsendu.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ frá 3. apríl 2014. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um námsstyrk.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 17. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um námsstyrki frá sveitarfélaginu; þar segir:

Heimilt er að veita lán/styrk til einstaklinga sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður og hafa ekki lokið grunnskóla eða framhaldsskóla, sem stuðning við markmið í vinnu með félagsráðgjafa sem miðar m.a. að efnahagslega sjálfstæðu lífi viðkomandi. Samþykktir varðandi námskostnað skulu teknar fyrir hverja önn, þannig að aðstoð greiðist áfram þegar umsækjandi sýnir eðlilega námsframvindu. Aðstoðin miðast við fjárhagsaðstoð til framfærslu ásamt almennum skólagjöldum og bókakostnaði.

Leggja skal inn umsókn um námsstyrki fjórum vikum áður en nám hefst.

Umsókn kæranda um námsstyrk var synjað á þeirri forsendu að hún ætti rétt á atvinnuleysisbótum en samkvæmt 4. mgr. 1. gr. reglna sveitarfélagsins skal kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá atvinnuleysistryggingum. Óumdeilt er að kærandi átti ónýttan rétt til atvinnuleysisbóta þegar hún lagði inn umsókn um námsstyrk hjá sveitarfélaginu. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á námsstyrk á haustönn 2015.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Hafnarfjarðarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

  

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Synjun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn A um námsstyrk á haustönn 2015 er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta