Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 38/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                        

Miðvikudaginn 9. september 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 38/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 3. júlí 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Reykjavíkurborgar að greiða honum skerta fjárhagsaðstoð í júní og júlí 2015.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg eftir að hann lauk 30 mánaða bótarétti hjá Vinnumálastofnun í desember 2014. Kæranda var vísað í þjónustu Vinnumálastofnunar í febrúar 2015 þar sem gert var samkomulag um félagslega ráðgjöf, dags. 23. febrúar 2015. Í samkomulaginu kemur fram að ef mæting í virkniúrræði sé óviðunandi verði fjárhagsaðstoð skert um helming í tvo mánuði á eftir, sbr. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg.

Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 10. júní 2015, var kæranda tilkynnt að fjárhagsaðstoð til hans í júní og júlí 2015 yrði skert þar sem mæting væri óviðunandi í virkniúrræði á vegum Vinnumálastofnunar í apríl og maí 2015. Kærandi áfrýjaði ákvörðun þjónustumiðstöðvar til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 24. júní 2015 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti ákvörðun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um skerðingu fjárhagsaðstoðar tímabilið 1. júní 2015 til 31. júlí 2015 skv. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 24. júní 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 3. júlí 2015. Með bréfi, dags. 6. júlí 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 21. júlí 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 23. júlí 2015, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hann hafi ekki átt bókaðan tíma hjá Atvinnutorgi.  Vinnumálastofnun hafi hringt í hann einu sinni en hann hafi ekki náð að svara símanum. Vinnumálastofnun hafi ekki reynt að ná í hann aftur.

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærumálsins er greint frá aðstæðum kæranda og vísað í 19., 20., og 12. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Á grundvelli laga nr. 40/1991 hafi Reykjavíkurborg sett sér reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Í 1. gr. reglnanna segi að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farboða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991, með síðari breytingum, sbr. og III. kafla reglna þessara.

Í 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, skuli greiða hálfa grunnupphæð til framfærslu sem tilgreind sé í III. kafla reglnanna þann mánuð sem viðkomandi hafni vinnu, svo og mánuðinn þar á eftir. Í 2. mgr. 3. gr. segi síðan að sama eigi við um atvinnulausan umsækjanda sem ekki framvísi minnisblaði atvinnuleitanda, sbr. ákvæði 8. gr. reglnanna, án viðhlítandi skýringa og umsækjanda sem hætt hafi þátttöku í átaksverkefni, nema veigamiklar ástæður sem fram komi við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því. Ljóst sé að kærandi hafi ekki sinnt átaksverkefni á vegum borgarinnar með fullnægjandi hætti. Í samkomulagi um félagslega ráðgjöf, dags. 23. febrúar 2015, komi meðal annars fram að mæta eigi á námskeið Vinnumálastofnunar í samráði við ráðgjafa en kærandi hafi ekki mætt í þrjá tíma af sex á námskeið hjá Vinnumálastofnun. Í samningnum sem gerður hafi verið við kæranda sé skýrt kveðið á um að það sé á ábyrgð kæranda að mæta á námskeið Vinnumálastofnunar í samráði við ráðgjafa, það sé skyldumæting og krafist sé 100% mætingar. Þá komi fram að ef mæting í virkniúrræði sé óviðunandi verði fjárhagsaðstoð skert um helming í tvo mánuði með vísan til 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Kærandi hafi jafnframt skrifað undir að það væri hans hlutverk að vera í reglubundnu sambandi við félagsráðgjafa á þjónustumiðstöð en við það hafi kærandi ekki staðið í maímánuði. Það hafi því verið mat velferðarráðs að skerða bæri fjárhagsaðstoð kæranda á grundvelli 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð á þann hátt að greiða bæri hálfa grunnupphæð til framfærslu þar sem kærandi hafi ekki staðið við samkomulag um félagslega ráðgjöf.

Reykjavíkurborg bendir á að kærandi fái greidda fjárhagsaðstoð fyrsta hvers mánaðar samkvæmt eldra greiðslukerfi Reykjavíkurborgar en nýir umsækjendur fái nú greidda fjárhagsaðstoð í lok mánaðar. Kærandi hafi fengið greidda fjárhagsaðstoð fyrir maí þann 1. maí 2015 en hafi ekki sinnt að mæta í virkniúrræði í maí og því verið sviptur greiðslu 1. júní og 1. júlí 2015 skv. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Velferðarráði beri að fara að þeim reglum sem í gildi séu varðandi fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg auk þess sem gæta beri jafnræðis í afgreiðslum á erindum íbúa borgarinnar. 

Samkvæmt framansögðu megi það ljóst vera að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991 með síðari breytingum.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð í júní og júlí 2015.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. mgr. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg kemur fram að heimilt sé að greiða umsækjanda allt að hálfri grunnupphæð framfærsluaðstoðar hafi hann hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun, þann mánuð og mánuðinn þar á eftir. Sama eigi við um atvinnulausan umsækjanda sem ekki framvísi minnisblaði atvinnuleitanda án viðhlítandi skýringa og umsækjanda sem hætt hafi þátttöku í átaksverkefni nema veigamiklar ástæður, sem fram komi við mat á aðstæðum umsækjanda, mæli gegn því, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglnanna.

Samkvæmt gögnum málsins ritaði kærandi undir samkomulag um félagslega ráðgjöf í febrúar 2015 þar sem fram kemur að markmið félagslegrar ráðgjafar sé að þiggja aðstoð við atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun. Í samkomulaginu kemur fram að það sé á ábyrgð kæranda að vera í reglubundnu sambandi við félagsráðgjafa á þjónustumiðstöð og láta vita af breyttum aðstæðum, til að mynda varðandi vinnusamband, nám, veikindi eða flutninga. Kærandi þurfi að vera í virkri atvinnuleit, mæta í viðtal til atvinnuráðgjafa Vinnumálastofnunar og mæta á námskeið Vinnumálastofnunar í samráði við ráðgjafa. Í samkomulaginu er einnig tekið fram að kærandi skuldbindi sig til þátttöku og 100% mætingar hjá Vinnumálastofnun. Honum sé jafnframt kunnugt um að hætti hann þátttöku eða mæting sé ekki viðunandi verði fjárhagsaðstoð skert um helming í tvo mánuði frá því að mæting varð óviðunandi, sbr. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.

Á grundvelli framangreinds samkomulags var fjárhagsaðstoð kæranda skert í júní og júlí 2015 vegna óviðunandi mætingar í virkniúrræði. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi ekki átt bókaðan tíma hjá Atvinnutorgi og því hafi hann ekki mætt þangað. Vinnumálastofnun hafi hringt í hann einu sinni en hann hafi ekki náð að svara símanum.

Að mati úrskurðarnefndarinnar benda gögn málsins til þess að kærandi hafi ekki sinnt átaksverkefni á vegum Reykjavíkurborgar með fullnægjandi hætti í apríl og maí 2015. Ljóst er að kærandi var upplýstur um að fjárhagsaðstoð yrði skert um helming í tvo mánuði ef mæting hjá Vinnumálastofnun yrði óviðunandi. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð í júní og júlí 2015, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest. 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 24. júní 2015, að greiða A skerta fjárhagsaðstoð í júní og júlí 2015 er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta