Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 43/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                      

Miðvikudaginn 14. október 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 43/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

B hefur, f.h. A, með kæru, dags. 7. júlí 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 10. júní 2015, á umsókn hans um styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi óskaði eftir þjónustu ráðgjafa hjá Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar þann 14. janúar 2015. Kærandi greindi ráðgjafa frá aðstæðum sínum í viðtali þann 29. janúar 2015 og óskaði eftir flutningsstyrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu sem fjölskyldumeðlimur hans hafði þá þegar greitt. Kærandi var upplýstur um að ekki væri unnt að verða við beiðni hans þar sem það samræmdist ekki reglum Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð. Umboðsmaður kæranda hafði samband við Fjölskylduþjónustuna og óskaði eftir að mál kæranda yrði endurskoðað og tekið fyrir á fundi. Með bréfi Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, dags. 11. febrúar 2015, var umsókn kæranda synjað með vísan til 21. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi áfrýjaði afgreiðslu Fjölskylduþjónustunnar til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 13. mars 2015 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir niðurstöðu afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um lán/styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu. Skv. 4. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð skal leggja fram umsókn um fjárhagsaðstoð í lögheimilissveitarfélagi en fyrir liggur að umsækjandi flutti lögheimili sitt til Reykjavíkur áður en umsókn var lögð fram og leiguhúsnæði það sem um ræðir er þar.

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. mars 2015. Umboðsmaður kæranda gerði athugasemdir við bókun fjölskylduráðsins þar sem kærandi hafði verið fluttur til Reykjavíkur þegar umsókn hans barst. Mál kæranda var því tekið fyrir á fundi fjölskylduráðs á ný þann 5. júní 2015 og samþykkt svohljóðandi bókun:

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir niðurstöðu afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um lán/styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu með vísan til 21. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Þar er sett skilyrði um að húsaleigubætur renni til greiðslu skuldar þar til hún er að fullu greidd, en fyrir liggur að húsnæði það sem um ræðir er í öðru sveitarfélagi svo ofangreint skilyrði verður ekki uppfyllt.

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 10. júní 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 28. júlí 2015. Með bréfi til Hafnarfjarðarbæjar, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð sveitarfélagsins þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt öðrum gögnum málsins. Beiðni úrskurðarnefndarinnar var ítrekuð með bréfi, dags. 27. ágúst 2015 og tölvupósti 4. september 2015. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst úrskurðarnefndinni 16. september 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 17. september 2015, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 8. október 2015.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá aðstæðum kæranda. Hann hafi verið búsettur í leiguíbúð í Hafnarfirði um margra ára skeið en hafi þurft að rýma íbúðina þann 1. febrúar 2015. Kæranda hafi þá gefist kostur á að leigja einstaklingsíbúð í Reykjavík en þurft að greiða 351.000 krónur í tryggingagjald. Kærandi hafi því sótt um fjárhagsaðstoð í sínu sveitarfélagi til að eiga kost á tryggu húsnæði til frambúðar en hann hafi ekki lánstraust hjá lánastofnunum. Hafnarfjarðarbær hafi synjað kæranda um umbeðna fjárhagsaðstoð og því hafi fjölskyldumeðlimur hans greitt tryggingagjaldið til þess að gera honum kleift að búa í öruggu húsnæði.

Kærandi bendir á að samkvæmt Félagsmálasáttmála Evrópu eigi kerfið að vera fyrsti aðstandandi einstaklings en ættingjar komi þar á eftir. Persónulegar aðstæður einstaklinga séu misjafnar og því þurfi opinbert öryggisnet að taka við þar sem getu einstaklings og fjölskyldu sleppi, af hvaða ástæðum sem það sé. Kærandi fer því fram á að Hafnarfjarðarbær sjái til þess að hann geti staðið skil á tryggingagjaldinu sem hann hafi þegar fengið að láni. Hafnarfjarðarbær hafi verið á þessum tíma fyrsti aðstandandi kæranda og beri því ábyrgð á velferð hans til búsetu í tryggu húsnæði. Einnig sé mikilvægt að kærandi geti haldið mannlegri reisn og að hann geti sjálfur staðið skil á því sem að honum lítur en þurfi ekki að fara bónleið til ættingja.   

 

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi óskað eftir flutningsstyrk eða láni frá Fjölskylduþjónustunni vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu. Kærandi hafi verið upplýstur um að ekki væri unnt að verða við beiðni hans þar sem engin heimild væri í reglum Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð til að veita styrki vegna búferlaflutninga og ekki væri heimilt að veita lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu nema tryggt væri að skuldin yrði greidd með húsaleigubótum. Þar sem kærandi væri að flytja í annað sveitarfélag yrði það ekki gerlegt.

Í reglum Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð sé ekki sérstök heimild til að veita fjárhagsaðstoð vegna búferlaflutninga en eingöngu sé um að ræða möguleika á lánum vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu í þeim tilvikum sem óskað er eftir fjárhagsaðstoð vegna flutninga. Kveðið sé á um þá aðstoð í 21. gr. reglnanna en þar komi fram að gildistími húsaleigusamnings skuli vera að minnsta kosti tólf mánuðir og samkomulag um að húsaleigubætur eða hluti þeirra renni til Fjölskylduþjónustunnar þar til lánið sé að fullu greitt. Kærandi hafi fært lögheimili sitt til Reykjavíkur þann 7. febrúar 2015 og því hafi verið ljóst að ef hann ætti rétt á húsaleigubótum myndi hann fá þær greiddar frá Reykjavíkurborg. Þar sem hann hafi ekki átt rétt á greiðslu húsaleigubóta í Hafnarfirði hafi ekki verið unnt að uppfylla skilyrði reglnanna þar um og því hafi beiðni hans verið synjað.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ frá 3. apríl 2014. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í reglum Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð er ekki að finna ákvæði sem kveða á um styrkveitingar vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu. Í 21. gr. reglnanna er hins vegar kveðið á um lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu; þar segir:

Heimilt er að veita einstaklingum með tekjur undir grunnfjárhæð lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu. Skilyrði er að viðkomandi geti greitt áfallandi mánuð sjálfur. Þinglýstur húsaleigusamningur skal liggja fyrir eða önnur staðfesting um að samningur eigi við rök að styðjast. Miða skal við að leigufjárhæð sé í samræmi við leigu á almennum markaði. Heimilt er að veita lán fyrir allt að þriggja mánaða fyrirframgreiðslu. Gildistími húsaleigusamnings skal vera a.m.k. 12 mánuðir og samkomulag um að húsaleigubætur eða hluti þeirra renni til Fjölskylduþjónustunnar þar til lánið er að fullu greitt.

Umsókn kæranda um styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu var synjað á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 21. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ.

Í 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um grunnfjárhæð framfærslustyrks. Þar kemur fram að framfærslugrunnur taki mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og breytist í janúar ár hvert miðað við vísitölu neysluverðs. Grunnfjárhæð fyrir einstakling er 158.552 krónur á mánuði á árinu 2015. Í 10. gr. reglnanna segir að frá upphæð fjárhagsaðstoðar dragist heildartekjur, sbr. 12. gr. Fram kemur í 1. mgr. 12. gr. að allar tekjur umsækjanda og maka ef við eigi, í þeim mánuði sem sótt sé um og mánuðinum á undan, séu taldar með við mat á fjárþörf. Með tekjum sé átt við allar tekjur og greiðslur til umsækjanda og maka, þ.e. atvinnutekjur, greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins nema greiðslur með börnum o.s.frv., og komi þær til frádráttar. Miða skuli við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá. Í gögnum málsins liggja fyrir upplýsingar um tekjur kæranda og ljóst er að þær eru yfir framangreindri grunnfjárhæð. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllti kærandi ekki skilyrði 21. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ.     

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Hafnarfjarðarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Synjun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn A um styrk vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta