2/2000 Úrskurður frá 20. júní 2000
Kærður var úrskurður, uppkveðinn 7. apríl 2000 af háskólaráði Háskóla Íslands, þar sem staðfest var sú ákvörðun stjórnar námsbrautar í hjúkrunarfræði við háskólann að synja kæranda um að hefja nám á öðru misseri í hjúkrunarfræði.
Áfrýjunarnefndin felldi úr gildi úrskurð háskólaráðs Háskóla Íslands og heimilaði kæranda að hefja nám á annarri önn í hjúkrunarfræði við háskólann, gegn því að kærandi undirgengist tiltekið próf haustið 2000 og stæðist það. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar kemur meðal annarra atriða fram að þótt kennari ráði prófi geti hann ekki eftir á breytt fyrirfram ákveðnum forsendum prófsins til tjóns fyrir nemendur. Var talið að meðferð kennara og prófdómara á tilteknu prófi í hjúkrunarfræði hafi verið ómálefnaleg og komið niður á kæranda á óréttmætann hátt.
Úrskurður
áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema
í máli nr. 2/2000
I.Með bréfi dagsettu 17. apríl 2000 kærði stúdentaráð Háskóla Íslands, f.h. [umbjóðanda], nemanda í hjúkrunarfræði, úrskurð háskólaráðs Háskóla Íslands frá 7. apríl 2000 um stjórnsýslukæru stúdentaráðs frá 6. mars 2000 vegna þeirrar ákvörðunar námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands að neita [umbjóðanda] um leyfi til að hefja nám á öðru misseri í hjúkrunarfræði. Kæran ásamt úrskurði háskólaráðs barst áfrýjunarnefndinni 2. maí 2000. Fundur með málsaðilum, skv. 2. mgr. 5. gr. reglna nr. 73/1999, var haldinn 29. maí 2000. Málsaðilar fluttu málið munnlega fyrir áfrýjunarnefndinni 8. júní 2000.
Stúdentaráð Háskóla Íslands er hér eftir nefnt kærandi og Háskóli Íslands kærði.
II.
Kærandi krefst þess að [umbjóðanda] verði heimilað að hefja nám á annarri önn í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands, gegn því að hún undirgangist próf í líffærafræði haustið 2000 og standist það.
Kærði krefst þess að úrskurður háskólaráðs Háskóla Íslands frá 7. apríl 2000 verði staðfestur.
III.
Í desember 1999 þreyttu hjúkrunarfræðinemar á fyrstu önn við Háskóla Íslands samkeppnispróf. Var ákveðið að í þetta sinn yrði 69 nemendum leyft að halda áfram námi. Samkvæmt reglum um val stúdenta til náms í hjúkrunarfræði frá 12. maí 1993 er prófað í fimm námsgreinum. Þeim nemendum sem ná lágmarkseinkunn í öllum námsgreinum er raðað eftir lækkandi heildareinkunn. Nái ekki tilskilinn fjöldi nemenda lágmarkseinkunn í öllum námsskeiðum er, samkvæmt F-lið greindra reglna, þeim sem hæsta hafa meðaleinkunn bætt við hópinn þar til tölunni er náð.
Próf í líffærafræði var þungt og höfðu kennari og prófdómari gert sér grein fyrir því áður en það var lagt fyrir nemendur, og ákveðið að taka tillit til þessa við einkunnagjöf með því að sleppa þeim spurningum sem fæstir nemendur gætu leyst. Prófið samanstóð af 100 fjölvalsspurningum og var próftími fjórar klukkustundir eða rúmar tvær mínútur á spurningu. Á prófblaði var þess getið að hvert rétt svar gæfi fjögur stig, mínus eitt stig ef rangt væri svarað og núll stig ef spurningu væri sleppt. Nemendum var ekki gerð grein fyrir því að fyrirsjáanlegt væri að prófið væri of þungt og að einhverjum svörum yrði sleppt af þeim sökum við yfirferð þess. Í ljós kom að fjöldi þeirra nemenda sem náði prófinu fyllti ekki þann kvóta sem leyft yrði að halda áfram námi. Felldu kennari og prófdómari því út nokkrar spurningar og hækkuðu loks alla um 0,5 í því skyni, að því er virðist, að tiltekinn fjöldi nemenda næði lágmarkseinkunn. Áður en einkunnir voru hækkaðar um 0,5 höfðu 58 staðist prófið, en 69 að svo breyttu. Í sameiginlegu bréfi kennara og prófdómara til prófstjóra, dagsettu 1. febrúar 2000, er aðferð við úrvinnslu prófsins þannig lýst:
"Svör nemenda voru tölvufærð og voru útprentanir með niðurstöðum úr fyrstu útreikningum og dreifingu svara vandlega yfirfarin af kennara og prófdómara. Þegar í ljós kom að sjö spurningar skáru sig úr vegna þess hve margir svöruðu rangt eða svöruðu alls ekki (69-80% nemendanna) var ákveðið að fella þær út við endanlegan útreikning einkunna. Einnig var ákveðið að fella út þær þrjár spurningar sem skáru sig úr á þann hátt 100 (sic) eða fleiri nemendur svöruðu rétt (93-95% nemendanna). Þetta var gert til þess að fækka þeim spurningum sem lítið aðgreina svargetu nemenda. Þegar í ljós kom að einkunnir hækkuðu sáralítið við þessar ráðstafanir var ákveðið að draga enn úr heildarþyngd prófsins með því að hækka allar útreiknaðar einkunnir um 0,5."
[umbjóðandi] náði ekki tilskilinni lágmarkseinkunn í líffærafræði. Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram komst hún þó í þeirra 69 sem halda máttu áfram, en eftir að prófinu var breytt og einkunn hækkuð var hún ekki í þeim hópi.
[Umbjóðandi] kvartaði til kennslustjóra, eftir að hafa rætt við kennara um prófið, þar sem hún taldi framangreindar aðgerðir kennara og prófdómara hafa orsakað það að hún var ekki í þeim hópi sem leyft var að halda áfram námi. Stúdentaráð Háskóla Íslands, réttindaskrifstofa stúdenta, fylgdi kvörtun hennar síðan eftir við námsbrautarstjórn í hjúkrunarfræði. Í svari námsbrautarinnar, dagsettu 23. febrúar 2000, er því hafnað að kennari og prófdómari hafi farið með prófið og úrvinnslu þess á óeðlilegan hátt og með því raskað jafnræði nemenda, eða skekkt niðurstöður einstaklinga eða stöðu einstaklinga innan heildarinnar og vísar námsbrautin varðandi rök fyrir þessari niðurstöðu til umsagnar kennslustjóra í bréfi dagsettu 8. febrúar 2000, þar segir m.a:
"Af umsögn kennara og prófdómara má ráða, að sú leið sem þau völdu við einkunnagjöf hafi verið heimil og byggst á málefnalegum sjónarmiðum, en þess er að geta að skv. 2. mgr. 15. gr. laga um Háskóla Íslands standa háskólakennarar fyrir prófum. Ákvörðun kennara og prófdómara um að fella út spurningar og hækka alla um 0,5 raskaði á engan hátt jafnræði nemenda; hér var einungis um að ræða eðlilega leiðréttingu vegna þyngdar prófsins."
Kennslustjóri bendir og á að einkunnir kennara og prófstjóra séu endanlegar, og ennfremur að [umbjóðandi] hafi, hvernig svo sem litið sé á málið, ekki náð tilskilinni lágmarkseinkunn í líffærafræði.
Ágreiningsefninu var vísað til háskólaráðs, sem úrskurðaði hinn 7. apríl 2000 á þann veg að hafnað væri kröfu [umbjóðanda] um að hefja nám á öðru misseri í hjúkrunarfræði.
IV.
Kærandi telur að brotinn hafi verið réttur á [umbjóðanda] þegar henni var synjað um að halda áfram námi á annari önn í hjúkrunarfræði. Krafan er á því byggð að óeðlilega og ómálefnalega hafi verði staðið að yfirferð og einkunnagjöf fyrir greint próf í líffærafræði sem hafi haft úrslitaáhrif um það hverjir fengu að halda áfram námi í hjúkrunarfræði á annarri önn fyrsta árs.
Samkvæmt niðurstöðu einkunna úr prófinu, eins og það var lagt fyrir nemendur og þar sem tilskilinn fjöldi stóðst ekki prófið, hefði átt að fara eftir meðaltalsreglu F-liðar reglna um val stúdenta til náms í hjúkrunarfræði frá 12. maí 1993, sbr. breytingu frá 19. febrúar 1997. Breytingar á prófinu eftir á hafi verið ólögmætar og brotið gegn jafnræði nemenda þar sem innbyrðis hlutfall einkunna hafi raskast við það og staða einstakra nemenda skekkst innan heildarinnar. Það sé grundvallarkrafa að nemendur geti treyst því að þau próf sem lögð séu fyrir ráði úrslitum um einkunnir og þar með niðurstöðu samkeppnisprófa. Ekki verði séð hvernig þær breytingar sem gerðar voru á prófinu endurspegli betur kunnáttu nemenda þar sem teknar hafi verið út spurningar sem hafi sýnt mismunandi kunnáttu þeirra. Fyrir [umbjóðanda] hafi þetta haft þær afleiðingar að hún hafi ekki komist inn í 69 manna hópinn sem heimilað var að halda áfram námi.
Auk framangreinds sé það mikilvæg grundvallarregla og venjuhelguð að nemendur viti vægi spurninga í prófi þegar það er lagt fyrir. Nemendur miði úrlausn sína og þann tíma sem fer í hverja spurningu við uppgefið vægi þeirra. Í því tilviki sem hér um ræðir hafi nemendur eytt tíma sínum í að svara spurningum sem í raun hafi ekki gilt neitt.
Kærandi hafnar þeim rökum sem fram koma í úrskurði háskólaráðs að ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands réttlæti meðferð kennara og prófdómanda á prófinu, en þar segir að "háskólakennarar standi fyrir prófum, en hver deild ráði tilhögun prófa hjá sér að svo miklu leyti sem ekki eru sett bindandi ákvæði um það í lögum eða reglum háskólaráðs." Kærandi telur að framangreindar reglur um val stúdenta til náms í hjúkrunarfræði taki til þess hvernig með skuli fara þegar próf eru of þung, sbr. F-lið þeirra, og auk þess sé kennari bundinn af grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um að stjórnvaldsákvarðanir skuli byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og hinni almennu jafnræðisreglu, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga.
Það geti ekki talist eðlilegt og málefnalegt að það sé ekki próf eins og það er lagt fyrir nemendur sem ráði úrslitum um niðurstöður samkeppnisprófa, heldur prófið í breyttri mynd og án þess að nemendum sé tilkynnt um breytinguna fyrirfram, sérstaklega þegar sniðgengnar séu þær reglur sem settar hafi verið og kynntar nemendum.
V.
Af hálfu kærða er lögð áhersla á þá meginreglu að kennari ráði tilhögun prófa í kennslugrein sinni. Hann sé þó bundinn af grundvallarreglum stjórnsýsluréttar við einkunnagjöf. Því skuli gerðir hans vera byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og gætt skuli hinnar almennu jafnræðisreglu. Einkunn sé fyrst bindandi er hún hafi verið birt, ekki sé um það að ræða að einkunnum hafi í þessu tilviki verið breytt eftir birtingu þeirra, heldur hafi ákveðin leiðrétting verið gerð á prófinu, sem kennari og prófdómari hafi talið vera nauðsynlega. Til þess hafi þeir haft heimild samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands og 48. gr. gildandi reglugerðar nr. 98/1993 fyrir Háskóla Íslands. Þessar breytingar hafi verið byggðar á málefnalegum grunni þar sem tilgangur þeirra hafi verið "að prófið endurspeglaði betur kunnáttu nemenda" og gætt hafi verið jafnræðis þar sem sömu aðferð hafi verið beitt við yfirferð á öllum prófunum.
Að því er varði F-lið reglna um val stúdenta í nám í hjúkrunarfræði frá 12. maí 1993 þá komi hann ekki til álita við einkunnagjöf í einstaka prófum. Tilgangur ákvæðisins sé ekki að taka á því þegar próf reynast of þung heldur eigi það við ef ekki er fyllt tala þeirra nemenda sem heimilt sé að halda áfram námi. Reglunni sé aðeins beitt ef að tilskilinn lágmarksfjöldi nemenda, í þessu tilviki 69, nái ekki tilskildum lágmarkseinkunnum. Hér hafi regla F-liðar því ekki komið til álita.
Að því er varði þau rök kæranda að það sé meginregla að nemendur skuli vita vægi spurninga í prófi fyrirfram, þá vísi kærandi ekki til neinnar heimildar fyrir þeirri reglu. Fallist er á að almennt tíðkist að upplýsa um vægi spurninga og teljist slíkt til vandaðra vinnubragða. Það leiði hins vegar ekki til þess að óheimilt sé að breyta vægi einstakra prófspurninga og hækka einkunn allra nemenda við yfirferð prófsins, komi til dæmis í ljós, eins og í þessu máli, að prófið hafi verið of þungt.
Hafnað er þeirri málsástæðu kæranda að ekki hafi verið farið eftir ákvæðum 2. mgr. 28. gr. reglugerðar Háskóla Íslands en þar segir m.a. að lýsa skuli prófháttum í kennsluskrá. Í kennsluskrá segi að námsmati sé þannig háttað í líffærafærði "að fram fari skriflegt próf með fjölvalsspurningum í desember" og sé þetta fullnægjandi lýsing á prófháttun, eins og segi í úrskurði háskólaráðs: "Ákvæðið verður ekki túlkað á þann hátt, að það geri kröfu til þess, að í kennsluskrá sé greint hvernig yfirferð prófa sé háttað, enda slíkt ekki mögulegt fyrr en að prófi loknu."
VI.
Krafa [umbjóðanda] er rökstudd með því að ef gefið hefði verið fyrir próf í líffærafræði óbreytt eins og það var lagt fyrir nemendur, og ef fylgt hefði verið birtum reglum um val stúdenta til náms í hjúkrunarfræði frá 12. maí 1993, að þá hefði hún komist inn á aðra önn fyrsta námsárs í hjúkrunarfræði samkvæmt F-lið þeirra reglna. Megin úrlausnarefni þessa máls er því hvort meðferð kennara og prófdómara á prófinu hafi verið málefnaleg gagnvart henni.
Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999 standa háskólakennarar fyrir prófum og ræður hver deild fyrirkomulagi prófa hjá sér. Ef prófdómari er til staðar ráða kennari og prófdómari í sameiningu úrlausnarefni í hverri prófgrein og dæma úrlausnir sbr. 48. gr. gildandi reglugerðar fyrir Háskóla Íslands nr. 98/1993. Í kennsluskrá er í kafla um námsbraut í hjúkrunarfræði, sbr. 28. gr. reglugerðarinnar, birtar reglur um val stúdenta til náms í hjúkrunarfræði frá 12. maí 1993 og reglur um framkvæmd prófa á fyrstu önn í hjúkrunarfræði. Í hinum fyrri kemur fram að aðeins tiltekinn fjöldi nemenda fái að halda námi áfram á annarri önn fyrsta námsárs og hvernig sá hópur er valinn auk vægis einstakra greina. Í hinum síðari reglum er fjallað um einkunnagjöf og birtingu þeirra. Um námsmat á námskeiði í líffærafræði er tekið fram að það fari fram með skriflegu fjölvalsspurningaprófi.
Meginreglan er að tiltekinn fjöldi þeirra nemenda sem ná lágmarkseinkunn í öllum námsgreinum fyrstu annar fá að halda áfram námi á annarri önn, samkvæmt B-lið greindra reglna. Séu fleiri jafnir í síðasta sæti skulu þeir allir eiga rétt til að halda áfram. Verði almennur ófullnægjandi árangur hins vegar rakinn til prófsins sjálfs og tilskilinn fjöldi nær ekki lágmarkseinkunn í öllum fögum, skal fara samkvæmt reglu F-liðar sömu reglna og þeim sem hæsta hafa meðaleinkunn þá bætt við hópinn þar til tilskildum fjölda er náð. Þykir þetta ákvæði eiga við hér. Kærandi heldur því fram að ef gefið hefði verið fyrir prófið eins og það var lagt fyrir nemendur og því ekki breytt eftirá, þá myndi hún hafa komist áfram samkvæmt reglu F-liðar. Kærði hefur ekki mótmælt því að svo hefði verið og ekki reynt að sýna fram á að þetta sé rangt.
Fallast verður á það með kæranda að þarna séu til staðar skýrar reglur um hvernig velja skuli nemendur til náms í hjúkrunarfræði. Reglur þessar eru birtar í kennsluskrá og mega nemendur ætla að eftir þeim sé farið. Með því að breyta prófinu eftir á í því skyni að ná þeim árangri að nægilegur fjöldi komi út með lágmarkseinkunn er farið á svig við þá reglu sem sett er í F-lið. Var þetta gert án þess að athygli nemenda væri vakin á því fyrir fram. Eins og fram hefur komið var ljóst áður en prófið var lagt fyrir að það væri of þungt og að einhverjar spurningar yrðu teknar út.
Þrátt fyrir það að einkunn kæranda hækkaði við þær breytingar sem voru gerðar, breyttu þær jafnframt stöðu hennar innan hópsins á afdrifaríkan og afgerandi hátt. Kom þetta til af því tilskilinn fjöldi nemenda náði ekki lágmarkseinkunn að prófinu óbreyttu og hafði hún því möguleika á að komast í hópinn, væri raðað eftir meðaltali einkunna. Eftir breytingarnar sem gerðar voru á prófinu var útkoman sú að tilskilinn fjöldi náði lágmarkseinkunn í öllum fögum, vegna þessa kom ekki til þess að beitt yrði ákvæði F-liðar. Einhverjir nemendur náðu lágmarkseinkunn eftir breytingarnar sem höfðu lægri meðaleinkunn en kærandi. Fallast má á þá skoðun kærða að einkunn hafi ekki verið breytt, í þeim skilningi að einkunn sé ekki orðin til fyrr en hún hefur verið birt. Hins vegar er ljóst að prófinu var breytt eftir að nemendur höfðu þreytt það og einkunnir því aðrar en orðið hefði að óbreyttu prófi. Þótt gætt væri jafnræðis við þær breytingar sem gerðar voru á prófinu í þeim skilningi að þær tóku formlega jafnt til allra nemendanna, leiddu þær þannig til mismununar. Urðu breytingarna til þess að kærandi missti þá stöðu sem hún var í samkvæmt prófinu eins og það var lagt fyrir og urðu breytingarnar henni því til tjóns þrátt fyrir það að einkunn hennar hækkaði.
Það er niðurstaða nefndarinnar að þótt kennari ráði prófi geti hann ekki eftirá breytt fyrirfram ákveðnum forsendum prófs til tjóns fyrir nemanda. Að hækka einkunnir allra nemenda jafnt fellur almennt undir jafnræðisreglu og málefnaleg sjónarmið. En það þykir ekki uppfylla skilyrði málefnalegra forsendna að hækka nemendum í því skyni að ná tilskildum fjölda upp í lágmarkseinkunn þegar of þingt próf hefur verið lagt fyrir og þegar til staðar eru reglur sem kveða á um hvernig með skuli fara í slíkum tilvikum. Breyttist innbyrðis röðun nemenda við þær aðferðir sem notaðar voru og staða [umbjóðanda] versnaði.
Kennari stendur fyrir prófi. Merkir það samkvæmt almennri málvenju, að hann velji prófsefni, semji prófspurningar, leggi þær fyrir nemendur og gefi einkunnir fyrir prófið. Almennt eru próf sá mælikvarði sem notaður er til að meta árangur nemenda. Nemendur eiga því mikilla hagsmuna að gæta varðandi bæði undirbúning prófs og meðferð þess. Á þetta ekki síst við í samkeppnisprófum þar sem einungis tiltekinn fjöldi nemenda fær að halda áfram námi. Við framkvæmd prófs ber kennara því skylda til að gæta sanngirni og jafnræðis og er þessi skylda áréttuð í reglum stjórnsýsluréttar.
Það á við um prófúrlausnir sem aðrar úrlausnir sem vinna þarf úr og meta, að til þess að ljóst megi vera að réttlátlega sé farið með er mikilvægt að verkefnið sé lagt fyrir eins og það er metið og fylgt fyrirfram ákveðnum reglum. Er því venja að gera nemendum fyrir fram grein fyrir vægi úrlausnaratriða á prófi, hversu langan tíma þeir hafa til að leysa úr því og annað er máli skiptir. Einnig hafa verið tekin upp prófnúmer í stað nafna og viðurkenndur réttur nemenda til að skoða prófúrlausn eftir á og fá skýringar á einkunnagjöf. Allt eru þetta eðlilegar réttlætisreglur sem tryggja málefnalega og jafna meðferð prófúrlausna. Verður slíkt verklag að teljast til verkskyldu kennara en ekki einungis til góðra starfshátta.
Að því er atvik máls þessa varðar verður að telja það ótækt að leggja fyrir nemendur próf þar sem fyrir fram hefur verið ákveðið að einhverjar ótilteknar spurningar verði strikaðar út eftir á. Með því ganga nemendur út frá röngum forsendum við mat sitt á því hvernig þeir takast á við prófið og eyða próftíma til ónýtis. Þá er ekki hægt að fyrirbyggja að nemendum sé mismunað með því að strika út ákveðnar spurningar þótt það sé gert með því að taka sömu spurningar út hjá öllum. Í því tilviki sem hér um ræðir voru teknar út sjö spurningar sem 69-80% nemenda svöruðu rangt eða svöruðu ekki. Það hafa samkvæmt því verið 20-30% nemenda sem leystu þessar spurningar á fullnægjandi hátt. Einnig voru felldar út þrjár spurningar sem 93-95% svöruðu rétt. Hér verður sérstaklega að huga að því að um samkeppnispróf var að ræða og því mikið í húfi.
Þegar allt það er virt sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða nefndarinnar að fyrirlögn prófs í líffærafræði og meðferð þess hafi komið niður á [umbjóðanda], á óréttmætan hátt. Eru kröfu kæranda því teknar til greina.
Úrskurðarorð.
[Umbjóðanda] er heimilt að hefja nám á annarri önn í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands, gegn því að hún undirgangist próf í líffærafræði haustið 2000 og standist það.
Reykjavík, 20. júní 2000.
Ólafur K. Ólafsson (sign)
Hjördís Hákonardóttir (sign) Magnús M. Norðdahl (sign)