Mál nr. 4/2021B. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. maí 2021
í máli nr. 4/2021B:
Andersson Water AWAB AB
gegn
Veitum ohf. og
Varma og Vélaverki ehf.
Lykilorð
Endurupptökubeiðni hafnað.
Útdráttur
Hafnað var kröfu V um að ákvörðun kærunefndar útboðsmála í máli nr. 4/2021 frá 26. febrúar 2021 yrði endurupptekin.
Með kæru 22. janúar 2020 kærði Andersson Water AWB AB (nú Anderson Water Sweden AB) útboð Veitna ohf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „VEIK-2020-11 Klettagarðar and Ánanaust WTPs. Step screens, washing and conveyor equipment“. Kærandi krefst þess að ákvörðun varnaraðila um að velja tilboð Varma og Vélaverks ehf. í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og að útboðið verði auglýst á nýjan leik. Þá krefst kærandi málskostnaðar.
Með greinargerð Varma og Vélaverks 1. febrúar 2021 krefst félagið þess að kröfum kæranda verði vísað frá en til vara að þeim verði hafnað og að kæranda verði gert að bera sinn eigin kostnað af málinu. Með greinargerð varnaraðila 9. sama mánaðar krefst hann þess að kröfum kæranda verði vísað frá en til vara að þeim verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að stöðvun samningsgerðar verði aflétt og að kæranda verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs.
Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 26. febrúar 2021 hafnaði nefndin kröfu varnaraðila um að aflétt yrði banni við samningsgerð milli hans og Varma og Vélaverks ehf. í kjölfar hins kærða útboðs.
Varnaraðili og Varmi og Vélaverk ehf. skiluðu, hvor í sínu lagi, frekari athugasemdum 9. mars 2021. Í athugasemdum varnaraðila kom fram krafa um að framangreind ákvörðun nefndarinnar yrði endurupptekin. Kæranda voru kynntar athugasemdirnar og skilaði hann frekari athugasemdum 29. sama mánaðar. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um endurupptöku ákvörðunar kærunefndar útboðsmála 26. febrúar 2021, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.
I
Í júlí 2020 auglýsti varnaraðili eftir tilboðum í síunarbúnað („step screens, washing and conveyor equipment“) fyrir skólphreinsistöðvar að Klettagörðum og við Ánanaust í Reykjavík. Í grein 1.1.2 í útboðsgögnum kemur fram að tilgangur útboðsins sé að endurnýja vélrænan skimunarbúnað og skjámeðhöndlunartæki, þar með talið þvotta- og færibönd, í umræddum skólphreinsistöðvum og að bjóðendur skuli sjá um framleiðslu, flutning og hönnun og allt annað tilheyrandi til að útvega fullkominn og fullnægjandi rekstrarbúnað. Í grein 1.1.4 segir að um sé að ræða almennt útboð sem framkvæmt sé í samræmi við lög nr. 65/1993, reglugerð nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutning og póstþjónustu og XI og XII kafla laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Í grein 1.1.1.5 í útboðsgögnum er tekið fram að tæknileg geta bjóðanda skuli vera nægilega örugg svo að hann geti efnt skuldbindingar sínar gagnvart varnaraðila. Aðalframleiðandi bjóðanda skuli hafa skjalfesta reynslu af að minnsta kosti þremur sambærilegum verkefnum á síðastliðnum fimm árum. Sambærileg verkefni séu verkefni þar sem framleiðandi hafi afhent vörur sem hafi verið að sambærilegum eða hærri gæðum og magni en gerð sé krafa um í útboðsgögnum og þar sem verðmæti hvers verkefnis sé að lágmarki 50% af tilboðsfjárhæð bjóðanda og vörurnar afhentar á réttum tíma. Samkvæmt grein 3.1.3 skal tæknilegur ráðgjafi koma fram fyrir hönd bjóðanda og vera viðstaddur uppsetningu og gangsetningu boðins búnaðar og veita aðstoð í þeim efnum. Tæknilegur ráðgjafi bjóðanda skal hafa komið að þremur sambærilegum verkefnum í tengslum við skólphreinsistöðvar á síðastliðnum þremur árum. Í greininni er tekið fram að til þess að verkefni geti talist sambærileg þurfi þau að hafa verið sambærileg að umfangi eða umfangsmeiri og verðmæti hvers verkefnis að lágmarki 50% af tilboðsfjárhæð bjóðanda.
Þrjú tilboð bárust og við opnun þeirra 3. september 2020 kom í ljós að tilboð kæranda var lægst að fjárhæð 1.100.000 evrur. Tilboð Iðnvers ehf. var næstlægst að fjárhæð 1.127.114 evrur, en tilboð Varma og Vélaverks ehf. nam 1.130.500 evrum. Þá nam kostnaðaráætlun varnaraðila 1.000.000 evrum. Varnaraðili tilkynnti um val á tilboði kæranda 25. september 2020. Í kjölfar tilkynningarinnar bárust varnaraðila athugasemdir við tilboð kæranda frá öðrum bjóðanda. Varnaraðili ákvað að taka tilboð kæranda til nánari skoðunar og óskaði eftir frekari gögnum og upplýsingum frá kæranda með bréfi 2. október 2020. Í kjölfar samskipta á milli varnaraðila og kæranda ákvað varnaraðili að hafna tilboði kæranda og var tilkynning þess efnis send kæranda 7. október 2020. Varnaraðili hafnaði tilboði Iðnvers ehf. 17. nóvember 2020 með vísan til þess að það uppfyllti ekki lágmarkskröfur útboðsgagna. Í kjölfarið tók varnaraðili tilboð Varma og Vélaverks ehf. til nánari skoðunar og hélt meðal annars skýringarfundi með þeim bjóðanda. Varnaraðili ákvað að taka tilboði Varma og Vélaverks ehf. og var tilkynning þess efnis send bjóðendum 15. janúar 2021.
Svo sem fyrr greinir tók kærunefnd útboðsmála þá ákvörðun 26. febrúar síðastliðinn að hafna kröfu varnaraðila um að aflétta banni við samningsgerð á milli hans og Varma og Vélaverks ehf. í kjölfar hins kærða útboðs. Ákvörðunin byggðist á að verðmæti eins af þremur sambærilegum verkefnum tæknilegs ráðgjafa Varma og Vélaverks ehf., eins og það birtist í tilboðsgögnum félagsins, uppfyllti ekki áskilnað greinar 3.1.3 í útboðsgögnum um að vera 50% af tilboðsfjárhæð félagsins.
II
Varnaraðili byggir beiðni sína um endurupptöku á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísað er til þess að fyrrgreind ákvörðun kærunefndar útboðsmála hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum og gögnum þar sem nefndin hafi ekki tekið tillit til allra fyrirliggjandi gagna. Í meginatriðum byggir varnaraðili á að fyrir liggi upplýsingar sem staðfesti að tæknilegur ráðgjafi Varma og Vélaverks ehf. hafi komið að þeim verkefnum sem séu tilgreind sem sambærileg verkefni framleiðanda á eyðublaði nr. 7 í tilboðshefti félagsins. Í tilboðsgögnum félagsins hafi gleymst að bæta virðisaukaskatti við verðmæti verkefnanna en Varmi og Vélaverk ehf. hafi leiðrétt fjárhæðirnar 11. september 2020 í kjölfar fyrirspurnar varnaraðila, eins og félaginu hafi verið heimilt samkvæmt 4. mgr. 77. gr. reglugerðar nr. 340/2017. Verðmæti allra verkefnanna, að teknu tilliti til leiðréttingarinnar, sé meira en 50% af tilboðsfjárhæð félagsins og uppfylli skilyrði greinar 1.1.1.5 í útboðsgögnum. Félagið hafi afhent uppfærða töflu af fyrri verkum þar sem virðisaukaskatti hafi verið bætt við og hafi það skjal verið á meðal gagna sem hafi verið afhent kærunefnd útboðsmála 16. febrúar 2021. Til stuðnings því að tæknilegur ráðgjafi félagsins hafi komið að sambærilegum verkefnum framleiðanda vísar varnaraðili til tölvupósts til nefndarinnar 24. febrúar 2021. Þar hafi komið fram að við mat á reynslu tæknilegs ráðgjafa Varma og Vélaverks ehf hafi verið byggt á tilboðsgögnum félagsins. Félagið hafi jafnframt staðfest við varnaraðila að tæknilegur ráðgjafi þess hafi komið að þeim verkefnum sem tilgreind séu sem fyrri sambærileg verkefni og uppfylli með þeim hætti þær kröfur sem gerðar séu til reynslu tæknilegs ráðgjafa. Meðfylgjandi framangreindum tölvupósti var tölvupóstur 24. febrúar sama ár frá Varma og Vélaverki ehf. til varnaraðila. Þar kom fram að félagið gæti staðfest að tæknilegur ráðgjafi þess hafi unnið „við öll þau verkefni sem við listum upp í kafla 7. Similiar Contracts í tilboðsbókinni“.
Í athugasemdum kæranda til nefndarinnar 29. mars 2021 bendir hann meðal annars á að Varma og Vélaverk ehf. hafi ekki gert breytingar á umfangi sambærilegra verkefna tæknilegs ráðgjafa áður en tilboð félagsins hafi verið valið. Leiðrétting félagsins sem hafi komið fram í tölvupósti 11. september 2020 taki einungis til sambærilegra verkefna framleiðanda samkvæmt grein 1.1.1.5 í útboðsgögnum en ekki sambærilegra verkefna tæknilegs ráðgjafa samkvæmt grein 3.1.3. Varnaraðili hafi ekki óskað eftir skýringum varðandi þau verkefni sem séu tilgreind samkvæmt grein 3.1.3 og geti að sjálfsögðu ekki ályktað að leiðrétting á fjárhæðum sambærilegra verkefna framleiðanda skuli einnig taka til sambærilegra verkefna tæknilegs ráðgjafa, sérstaklega í ljósi þess að skilyrði greinanna séu ekki orðuð með sama hætti. Þá sé enn fremur ljóst með hliðsjón af svari varnaraðila 24. febrúar 2021 við fyrirspurn kærunefndar útboðsmála að engin frekari gögn eða upplýsingar liggi fyrir um hæfi tæknilegs ráðgjafa og sé því augljóst að tilboð Varma og Vélaverks ehf. uppfylli ekki áskilnað greinar 3.1.3.
III.
Svo sem greinir í útboðsgögnum fór hið kærða útboð fram á grundvelli reglugerðar nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu en með henni var innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/25/EB frá 26. febrúar 2014. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup eiga ákvæði XI. og XII. kafla laganna við um útboðið. Samkvæmt 7. mgr. 108. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, sem er að finna í XI. kafla laganna, gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993 um meðferð mála fyrir kærunefnd útboðsmála að öðru leyti en kveðið er á um í lögum nr. 120/2016. Um endurupptöku mála fyrir kærunefnd útboðsmála fer því eftir 24. gr. laga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný, eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun, ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Þótt ákvörðun kærunefndar útboðsmála, þar sem tekin er afstaða til kröfu um að aflétta banni við samningsgerð samkvæmt 2. mgr. 107. og 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup, sé í eðli sínu til bráðabirgða á meðan mál sætir efnislegri úrlausn, verður að líta svo á að heimilt sé að óska eftir endurupptöku hennar samkvæmt 24. gr. laga nr. 37/1993, sbr. til hliðsjónar ákvörðun kærunefndar útboðsmála 25. febrúar 2021 í máli nr. 51/2020B.
Svo sem fyrr greinir tók kærunefnd útboðsmála ákvörðun 26. febrúar síðastliðinn þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að aflétt yrði banni við samningsgerð milli hans og Varma og Vélaverks ehf. í kjölfar hins kærða útboðs. Í forsendum fyrrgreindrar ákvörðunar kom meðal annars fram að samkvæmt grein 3.1.3 í útboðsgögnum þyrfti tæknilegur ráðgjafi bjóðanda að hafa komið að þremur „sambærilegum verkefnum“ á síðastliðnum þremur árum og að verðmæti hvers verkefnis þyrfti að nema að lágmarki 50% af tilboðsfjárhæð bjóðanda. Í tilboðsgögnum Varma og Vélaverks ehf. væri að finna útlistun á þremur sambærilegum verkefnum tæknilegs ráðgjafa félagsins og kæmu þar fram fjárhæðir hvers verkefnis. Af tilboðsgögnunum yrði ráðið að tilgreind fjárhæð eins af þessum þremur verkefnum væri 4,4 milljónir sænskra króna („MSEK 4,4“) og að miða yrði við að verðmæti þessa verkefnis væri ekki 50% af tilboðsfjárhæð Varma og Vélaverks ehf. og uppfyllti þar af leiðandi ekki skilyrði greinar 3.1.3 í útboðsgögnum. Þegar af þessari ástæðu taldi nefndin verulegar líkur á að tilboð Varma og Vélaverks ehf. hafi ekki uppfyllt kröfur greinar 3.1.3 í útboðsgögnum og að brotið gæti leitt til ógildingar á vali varnaraðila á tilboðinu.
Eins og rakið hefur verið er beiðni varnaraðila um endurupptöku byggð á því að tæknilegur ráðgjafi Varma og Vélaverks ehf. hafi komið að sambærilegum verkefnum framleiðanda félagsins sem séu, að teknu tilliti til leiðréttinga félagsins, öll meira en 50% af tilboðsfjárhæð félagsins og ráðgjafinn uppfylli þar með skilyrði greinar 3.1.3 í útboðsgögnum. Þessu til stuðnings er meðal annars vísað til tölvupósts varnaraðila til kærunefndar útboðsmála 24. febrúar 2021 og staðfestingar Varma og Vélaverks ehf. sem kemur fram í tölvupósti félagsins til varnaraðila sama dag.
Umræddir tölvupóstar og önnur gögn sem er vísað til í athugasemdum varnaraðila lágu fyrir í málinu er nefndin tók umrædda ákvörðun. Þá er til þess að líta að í tilboðsgögnum Varma og Vélaverks ehf. er annars vegar gerð grein fyrir þremur sambærilegum verkefnum framleiðanda félagsins og hins vegar þremur sambærilegum verkefnum tæknilegs ráðgjafa þess. Í fyrrgreindri ákvörðun nefndarinnar var við mat á skilyrðum greinar 3.1.3 í útboðsgögnum miðað við verðmæti sambærilegra verkefna tæknilegs ráðgjafa Varma og Vélaverks ehf., eins og þau birtust í tilboðsgögnum félagsins. Þá var litið til þeirra gagna sem lágu fyrir að því marki sem nefndin taldi þau hafa þýðingu við úrlausn um kröfu varnaraðila um afléttingu á stöðvun samningsgerðar. Að framangreindu gættu hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að umrædd ákvörðun kærunefndar útboðsmála hafi byggst á ófullnægjandi gögnum eða röngum upplýsingum um málsatvik. Verður því ekki talið að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga sé fullnægt þannig að fallast megi á endurupptöku fyrrgreindrar ákvörðunar. Kröfu varnaraðila um endurupptöku ákvörðunar kærunefndar útboðsmála frá 26. febrúar 2021 í máli nr. 4/2021 verður því hafnað. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn máls nr. 4/2021 endanlegs úrskurðar kærunefndar.
Ákvörðunarorð:
Kröfu varnaraðila, Veitna ohf., um að ákvörðun kærunefndar útboðsmála frá 26. febrúar 2021 í máli nr. 4/2021 verði endurupptekin, er hafnað.
Reykjavík, 18. maí 2021
Ásgerður Ragnarsdóttir
Sandra Baldvinsdóttir
Auður Finnbogadóttir