Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2014

 Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 A

gegn

ríkislögreglustjóra

 

Kærandi, sem er karl, kærði skipun í stöðu lögreglufulltrúa við Lögregluskóla ríkisins en hann taldi sig hæfari en kona sem skipuð var. Í rökstuðningi ríkislögreglustjóra, er skipaði í stöðuna, var vísað til ákvæða 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en konan sem skipuð var hafi verið jafnhæf kæranda til að gegna umræddri stöðu. Í umsögn Lögregluskóla ríkisins um umsækjendur kom fram að miðað við mat skólans á þörfum starfseminnar væru þrír karlmenn hæfastir til að gegna stöðunni. Kærunefnd taldi að kærði hefði ekki framkvæmt sjálfstæða úrvinnslu umsókna með tilliti til annarra viðmiða er hann taldi rétt að leggja til grundvallar skipuninni. Var því niðurstaða nefndarinnar sú að kærði hefði við skipunina brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 20. október 2014 er tekið fyrir mál nr. 4/2014 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 16. júní 2014, kærði B hrl., f.h. A, ákvörðun ríkislögreglustjóra um að skipa konu í stöðu lögreglufulltrúa við framhaldsdeild Lögregluskóla ríkisins. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 23. júní 2014. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 11. ágúst 2014, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 12. ágúst 2014. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 1. september 2014, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 3. september 2014. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 18. september 2014, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 19. september 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust kærunefndinni 1. október 2014 og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 2. október 2014. Loks bárust nefndinni frekari athugasemdir kæranda 6. október 2014 og voru þær kynntar kæranda með bréfi, dagsettu 7. október 2014.
  4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

    MÁLAVEXTIR 
  5. Kærði auglýsti laust starf lögreglufulltrúa við framhaldsdeild Lögregluskóla ríkisins þann 3. desember 2013. Í auglýsingu kom fram að ríkislögreglustjóri myndi skipa í stöðuna frá og með 1. febrúar 2014. Helstu verkefni voru talin þessi: Annast skipulagningu og framkvæmd starfsþróunarnámskeiða fyrir lögreglumenn og eftir atvikum aðra starfsmenn lögreglunnar og því væri reynsla af verkefnastjórnun góður kostur, einnig kennsla tiltekinna námskeiða og að sinna verkefnum í grunnnámsdeild eða öðrum verkefnum innan stofnunarinnar. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar hæfniskröfur: Próf frá Lögregluskóla ríkisins, tveggja ára starfsreynsla sem lögreglumaður, góð fagleg þekking á málefnum lögreglunnar, gott vald á íslensku, góð almenn tölvukunnátta, góð enskukunnátta nauðsynleg og tök á að minnsta kosti einu Norðurlandamáli. Kennaramenntun, reynsla af fjarkennslu eða önnur framhaldsmenntun sem nýtist í starfinu var talin góður kostur ásamt reynslu af þjálfun eða kennslu.
  6. Alls bárust 18 umsóknir. Á grundvelli reglna kærða nr. 5/2012, um skipun/setningu í embætti lögreglufulltrúa, aðalvarðstjóra, rannsóknarlögreglumanns, varðstjóra og lögreglumanns, er tóku gildi 1. ágúst 2012, fékk stjórn Lögregluskóla ríkisins umsóknirnar til umsagnar á hæfi og hæfni umsækjenda. Með bréfi, dagsettu 10. janúar 2014, sendi stjórnin kærða umsögn sína. Í niðurstöðu umsagnarinnar kom fram að í framhaldsdeild væri lögð áhersla á að efla þekkingu og færni lögreglunnar í lögreglurannsóknum og að þrír umsækjendur stæðu efstir á því sviði, allt karlmenn. Allir umsækjendur sem uppfylltu öll almenn hæfisskilyrði samkvæmt auglýsingu um stöðuna voru boðaðir í viðtal. Tekin var ákvörðun um að skipa konu í starfið og var kærandi upplýstur um það með bréfi, dagsettu 3. febrúar 2014. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir skipuninni með bréfi, dagsettu 6. febrúar 2014, og barst rökstuðningur kærða með bréfi, dagsettu 18. febrúar 2014. Með bréfi, dagsettu 25. febrúar 2014, óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi og gögnum og barst rökstuðningur kærða með bréfi, dagsettu 13. mars 2014.  

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  7. Kærandi gerir kröfu um að kærunefnd jafnréttismála úrskurði um að með ráðningu í starf lögreglufulltrúa við Lögregluskóla ríkisins hafi kærði brotið 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Fallist kærunefndin á kröfu kæranda krefst hann þess að kærða verði gert að greiða kæranda málskostnað, sbr. 5. mgr. 5. gr. laganna.
  8. Kærandi vísar til þess að kæra hans styðjist við heimild 1. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 og byggir á því að við ráðningu í framangreint starf hafi 26. gr. laganna verið brotin og kynferði verið látið ráða við ákvörðunina fremur en hæfni til starfans. Fram komi í rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni að litið hafi verið til markmiðs jafnréttislaga samkvæmt 1. gr. laga nr. 10/2008 við ráðninguna. Kærandi telur að jafnréttissjónarmið komi ekki til skoðunar nema tveir umsækjendur séu jafnhæfir og svo hafi ekki verið í málinu. Markmið jafnréttislaganna sé að koma á jafnrétti og veita konum og körlum jöfn tækifæri en ekki sé að sjá að kærði hafi haft það markmið í heiðri við framangreinda ráðningu. Kærandi gerir athugasemd við að kærði hafi neitað kæranda um gögn er varði frammistöðu í starfsviðtali þess sem ráðin var. Svarbréf kærða, dagsett 13. mars 2014, sé ekki til þess fallið að kærandi geti gert samanburð á sér og þeim einstaklingi sem hafi verið skipaður í starfið. Þrátt fyrir að kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni sé honum enn allsendis óljóst af hverju viðkomandi einstaklingur hafi verið ráðinn í stað hans. Í rökstuðningi kærða sé hvorki að finna samanburð á hæfni kæranda og þess sem var ráðin né hafi kærði tiltekið atriði sem hafi komið fram í viðtali. Með því hafi kærði skirrst við að færa fram mikilvæg gögn í málinu sem hefði verið eðlilegt í ljósi góðrar stjórnsýslu.
  9. Kærandi greinir frá starfsreynslu þeirrar er starfið hlaut en hún sé afar takmörkuð þrátt fyrir að lágmarksskilyrði um rúmlega tveggja ára starfsreynslu í lögreglu eftir útskrift úr Lögregluskóla ríkisins sé fullnægt. Kærandi hafi starfað í lögreglunni í 14 ár og starfsreynsla hans sé víðtæk. Starf lögreglufulltrúa við lögregluskólann geri meðal annars kröfur til þess að viðkomandi fulltrúi geti byggt á víðtækri reynslu og hæfileikum til að miðla til lögreglumannsefna og annarra lögreglumanna. Kærandi hafi yfirgripsmikla þekkingu, menntun og reynslu á sviði rannsókna alvarlegra brota, skipulagðrar brotastarfsemi, skipulagi lögreglurannsókna og í yfirheyrslum. Kærandi hafi sótt ellefu sérhæfð námskeið og haft umsjón með verkefnastjórnun á yfirgripsmiklum og vandmeðförnum verkefnum er snúi að handrukkurum, útlaga mótorhjólaklíkum og stýringu á götuhópi fíkniefnadeildar. Kærandi fullyrðir að með samanburði á störfum hans innan lögreglunnar og hinu auglýsta starfi sé það ljóst að reynsla hans sé ekki einungis eins og best verði á kosið heldur einnig æskileg til að stuðla að auknu öryggi við uppbyggingu og fræðslu framtíðarefna á sviði löggæslu á Íslandi. Kærandi sé með yfirburðaþekkingu, reynslu og menntun á öllum þessum sviðum samanborið við þá sem hafi verið skipuð í starfið. Þekking hennar á þeim þáttum sem hafi verið lögð áhersla á í framhaldsdeild lögregluskólans sé afar takmörkuð. Kærandi telur að kærði hafi gerst brotlegur við jafnréttislög og látið kynferði eitt ráða för við skipun í starfið. Sú sem hafi verið skipuð sé ekki bara minna hæf heldur verulega minna hæf en kærandi miðað við fyrirliggjandi kröfur.
  10. Kærandi telur sig mun hæfari hvað varðar menntun, starfsaldur og starfsreynslu sem nýtist beint í umræddu starfi. Þá telur hann sig uppfylla betur þau skilyrði sem hafi verið sett vegna starfsins. Hann hafi lokið B.Sc.-prófi í viðskiptafræði og fjögurra ára námi í lögfræði er hann lagði inn umsókn um starfið. Kærandi hafi verið á forsetalista Háskólans C í viðskiptafræði og útskrifast með hæstu einkunn úr BA-námi í lögfræði í janúar 2013. Kærandi hafi lokið á annan tug námskeiða erlendis, ýmsum námskeiðum hérlendis og hafi verið með hærri lokaeinkunn úr lögregluskólanum en sú er starfið hlaut.
  11. Kærandi gagnrýnir rökstuðning kærða er varðar jafnréttislögin og greinir frá því að hlutfall kvenna eftir ráðninguna sé 50% í framhaldsdeild lögregluskólans en 25% af lögreglumönnum grunn- og framhaldsdeildar skólans. Heildarhlutfall kvenna við lögregluskólann sé mun hærra en innan lögreglunnar í heild.
  12. Kærandi bendir á að í rökstuðningi kærða sé því haldið fram að menntun í réttarsálfræði og reynsla á sviði barnaverndarmála nýtist vel í starfi hjá lögregluskólanum en slík hæfniviðmið hafi ekki verið tiltekin í auglýsingu um starfið og því hvorki málefnaleg né lögmæt viðmið. Hvorki réttarsálfræði né barnaverndarmál séu í námskrá lögregluskólans en lögfræði sé hins vegar einn af grunnþáttum í kennslunni og mikil áhersla hafi verið lögð á kennslu í efnahagsbrotum síðustu ár. Ekki verði séð að menntun í réttarsálfræði muni koma betur að gagni við kennslu í lögregluskólanum en menntun kæranda en mat valnefndar á kæranda endurspegli þá afstöðu. Kærandi telur mat kærða á menntun þeirrar er starfið hlaut mjög huglægt og til þess fallið að réttlæta veitingu stöðunnar andstætt meiri hæfni kæranda. Þá bendir kærandi á að réttarsálfræðingur skrifi undir rökstuðning kærða. Þegar um huglæg atriði sé að ræða þurfi þau að vera studd gögnum en engin slík hafi verið lögð fram af kærða. Hvorki nám í réttarsálfræði né reynsla í barnaverndarmálum geti vegið þyngra en skylda stjórnvalds að ráða þann hæfasta í starfið. Að mati kæranda hafi ekki verið færð málefnaleg rök fyrir því að minna hæfur aðili hafi verið ráðinn í starfið önnur en þau að kynferði hafi ráðið för. Þannig verði hvorki séð að hinir tilgreindu þættir sem sé hampað af hálfu kærða í fari þeirrar er starfið hlaut hafi verið sérstaklega tilgreindir í auglýsingu né samkvæmt áhersluatriðum sem Lögregluskóli ríkisins hafi lagt upp með.
  13. Kærandi bendir á að þegar borin séu saman þau atriði sem hafa skuli til hliðsjónar við mat á því hvort um mismunun á grundvelli kynferðis sé að ræða, þ.e. menntun, sérþekking og aðrir sérstakir hæfileikar, verði ekki séð að sú er starfið hlaut komist í námunda við kæranda að neinu leyti. Því sæti undrun að kærði hafi tekið þá ákvörðun að velja hana fram yfir kæranda. Kærandi vísar til meginreglu stjórnsýsluréttar um að skylt sé að velja þann umsækjanda sem sé hæfastur með tilliti til þeirra lögmætu sjónarmiða sem lögð séu til grundvallar hverju sinni. Þannig sé stjórnvaldi óheimilt að synja hæfasta umsækjandanum og ráða í hans stað óhæfari einstakling.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA
  14. Í greinargerð kærða kemur fram að skipun í stöðu lögreglufulltrúa við Lögregluskóla ríkisins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði jafnréttislaga. Við mat á hæfni og kostum umsækjenda hafi að öllu leyti verið byggt á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum, þar með talið mati á menntun, reynslu og öðrum kostum, sem kærði hafi talið rétt að leggja til grundvallar við hið endanlega mat. Kærði telur því að matið geti ekki komið til endurskoðunar hjá kærunefndinni.
  15. Kærði bendir á að hann hafi leitað umsagnar hjá stjórn Lögregluskóla ríkisins á hæfni umsækjenda en ekki umsagnar valnefndar líkt og haldið sé fram í kæru. Álitsbeiðni kærða hafi verið umfram lagaskyldu og því á engan hátt bindandi fyrir kærða en umsögnin hafi þó verið höfð til hliðsjónar við ákvörðun um skipun í starfið. Skipunarvaldið hafi hins vegar alfarið verið hjá kærða, sbr. 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996. Mat stjórnar lögregluskólans á því hverjir væru hæfustu umsækjendurnir hafi verið byggt á sjónarmiðum um rannsóknarreynslu, viðbótarmenntun og færni sem nýtist í starfi. Þá hafi verið haft til hliðsjónar að efling rannsókna alvarlegra brota og viðbrögð lögreglu við skipulagðri glæpastarfsemi vegi þungt í framtíðaráformum lögregluskólans, sem og almennt skipulag lögreglurannsókna, efling yfirheyrslufærni og þekkingar lögreglunnar á því sviði en stjórn lögregluskólans hafi ekki talið kæranda hæfasta umsækjandann. Kærði hafi tekið mið af umsögn stjórnar skólans en ekki fallist að öllu leyti á sjónarmið hennar.
  16. Kærði vísar til þess að umsækjandi um opinbert starf eigi almennt ekki rétt á því að veitingarvaldshafi lýsi í rökstuðningi sínum hvaða ástæður hafi ráðið því að hann hafi ekki verið ráðinn til starfans. Kæranda hafi verið veittur ítarlegur rökstuðningur þar sem vísað hafi verið til réttarreglna og greint frá þeim meginsjónarmiðum sem hafi verið ráðandi við mat og val á hæfasta umsækjandanum. Jafnframt hafi verið upplýst um þau málsatvik og atriði sem hafi haft verulega þýðingu við úrlausn málsins. Rökstuðningurinn hafi því uppfyllt skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og því hafi ekki verið ástæða til frekari rökstuðnings af hálfu kærða.
  17. Við mat á hæfni umsækjenda hafi kröfur í auglýsingu um starfið verið hafðar til hliðsjónar sem og lögbundið hlutverk Lögregluskóla ríkisins. Almennt hafi verið gengið út frá því við skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf að umfram þau sjónarmið sem fram komi í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sé það á valdi þess stjórnvalds sem veiti viðkomandi starf að ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðun verði byggð. Leiði þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ekki til sömu niðurstöðu verði enn fremur að líta svo á að það sé undir mati stjórnvaldsins komið á hvaða sjónarmið skuli lögð áhersla, enda séu þau málefnaleg. Þá hafi verið gengið út frá því að það sé meginregla í stjórnsýslurétti að velja beri þann umsækjanda sem sé talinn hæfastur til að gegna viðkomandi starfi. Það hafi því verið á valdi kærða að meta hvaða málefnalegu sjónarmið bæri að leggja til grundvallar, umfram þau sem fram kæmu í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og auglýsingu, sem og hvaða sjónarmið bæri að leggja sérstaka áherslu á. Kærði hafi því hvorki verið bundinn af þeim sjónarmiðum sem stjórn lögregluskólans hafi lagt til grundvallar í umsögn sinni né af þeirri áherslu sem stjórnin hafi lagt á einstök sjónarmið. Sjónarmið stjórnar lögregluskólans geti því ekki haft úrslitaþýðingu við mat á hæfi umsækjenda.
  18. Kærði rekur menntun þeirrar er starfið hlaut og hafnar því alfarið að umsækjandi með BA-gráðu í lögfræði sé hæfari til að gegna umræddri stöðu en umsækjandi með M.Sc.-gráðu í réttarsálfræði enda sé M.Sc.-gráða hærri menntunarstig en BA- og B.Sc.-gráður. Því telji kærði að það sé hafið yfir vafa að sú sem skipuð var sé með meiri menntun en kærandi. Við mat á menntun umsækjenda sé eðlilegt og málefnalegt að horfa til eðlis og inntaks þess náms sem um ræðir. Sálfræði sé ein af námsgreinum skólans, rétt eins og lögfræði, og réttarsálfræði sé kennd við skólann í sérstöku fagi sem kallist félagsvísindi. Það hafi verið mat kærða að sálfræðilegur bakgrunnur þeirrar sem skipuð var myndi nýtast vel við kennslu í skólanum og falla vel að starfi skólans með hliðsjón af eðli og inntaki þeirrar kennslu sem þar færi fram. Þá megi jafnframt líta til þess að skólastjóri lögregluskólans sé lögfræðingur að mennt og því telur kærði að sálfræðimenntun sé góð viðbót við starfslið skólans. Enn fremur hafi verið haft til hliðsjónar að konan hafi bæði þekkingu og reynslu af vísindarannsóknum og notkun sálfræði við rannsókn brota úr meistaranámi í réttarsálfræði, en lögregluskólinn sé vettvangur rannsókna í lögreglufræðum. Kærði hafnar því að menntun þess sem undirritaði rökstuðning til kæranda hafi haft áhrif á ákvörðun kærða um skipun í starfið og bendir á að í umboði kærða hafi einstaklingur með BA-gráðu í lögfræði einnig undirritað rökstuðninginn.
  19. Í auglýsingu um starfið hafi verið gerð krafa um tveggja ára starfsreynslu sem lögreglumaður en hvorki hafi verið gerð krafa um lengri starfsreynslu né tekið fram í að lengri starfsreynsla væri sérstaklega æskileg. Kærði bendir á að starfsreynsla í almennri löggæslu gæti ekki haft úrslitaþýðingu við mat á hæfni umsækjenda um starf í lögregluskólanum. Í starfinu felist einkum að halda utan um námskeið í lögreglufræðum og stuðla að fræðslu og aukinni menntun lögreglumanna og sé því annars eðlis en almenn löggæsla. Því hafni kærði þeirri röksemd kæranda að starfsaldur hans við löggæslustörf leiði til þess að hann teljist hæfari. Kærði rekur starfsreynslu þeirrar er starfið hlaut og tekur fram að reynsla hennar sem ráðgjafi í barnaverndarmálum og ráðgjafi við geðræktarmiðstöð og starfsendurhæfingu hafi verið talinn mikill kostur fyrir lögregluskólann. Jafnframt hafi hún sinnt verkefnastjórnun og þjálfun í starfi en reynsla af verkefnastjórnun hafi verið sérstaklega tilgreind sem kostur í auglýsingu um starfið. Þá hafi sjónarmið um rannsóknarreynslu og yfirheyrslutækni einnig verið höfð til hliðsjónar. Kærði hafi litið til starfsreynslu, þekkingar kæranda og annarra eiginleika hans sem hafi leitt til þess að hann hafi verið talinn meðal þriggja hæfustu umsækjenda. Því sé hins vegar hafnað að konan sem hafi verið skipuð sé verulega minna hæf heldur en kærandi.
  20. Kærði tekur fram að við mat á hæfni umsækjenda hafi farið fram samanburður á öllum umsækjendum með hliðsjón af umsóknargögnum, umsögn Lögregluskóla ríkisins og mati á frammistöðu í viðtölum en stjórn lögregluskólans hafi tekið starfsviðtöl við tiltekna umsækjendur. Vegna eðlis umrædds starfs hafi svokölluð frammistaða í starfsviðtali, þ.e. umfram þær upplýsingar sem fram komi í starfsumsókn og leiddu af ferilskrá, ekki mikið vægi, en þó hafi verið litið til frammistöðu í viðtali sem og matseinkunna umsækjenda sem hafi verið gefnar af stjórn skólans við endanlegt mat á umsækjendum. Kærði vísar til þess að þegar hæfni kæranda og konu þeirrar sem skipuð var sé borin saman heildstætt verði á engan hátt fallist á að lengri starfsaldur kæranda innan lögreglunnar hefði átt að vega þyngra en menntunarstig og eðli menntunar hennar. Þá verði á engan hátt talið að mat það sem kærði lagði til grundvallar hafi verið ómálefnalegt eða ólögmætt. Eftir heildarmat á öllum umsækjendum með tilliti til menntunar, reynslu og annarra sérstakra kosta hafi kærði talið að konan væri að minnsta kosti jafnhæf öðrum umsækjendum sem til álita komu til að gegna umræddu starfi. Kærði telur að það sé ekki á valdsviði kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða, þá sérstaklega það sjónarmið að leggja meiri áherslu á menntun en á starfsaldur innan lögreglunnar, enda verði að líta svo á að hlutverk kærunefndar sé bundið við það að gæta að því að mat veitingarvaldshafa hafi verið málefnalegt og hafi uppfyllt lögmæt skilyrði.   
  21. Eftir yfirferð á öllum gögnum hafi niðurstaða kærða verið sú að þrír umsækjendur væru jafnhæfir til að gegna starfi lögreglufulltrúa við lögregluskólann, ein kona og tveir karlar. Því hafi kærði litið til markmiðs jafnréttislaga, sbr. 1. gr. laganna, og dómaframkvæmdar á sviði jafnréttismála um skýringu á þeim lögum. Starfandi kvenlögreglufulltrúar í lögreglu á Íslandi hafi aðeins verið 18,9% og þegar ákvörðun hafi verið tekin um að skipa konu í starfið hafi engin lögreglukona verið starfandi við Lögregluskóla ríkisins. Þar sem um þrjá jafnhæfa umsækjendur hafi verið að ræða, tvo karla og eina konu, hafi bæði verið rétt og skylt að veita konunni starfið. Með vísan til framangreinds sé því hafnað að brotið hafi verið gegn ákvæðum jafnréttislaga við skipun í stöðu lögreglufulltrúa. Þá sé málskostnaðarkröfu kæranda jafnframt hafnað.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  22. Kærandi tekur fram að hann sé ekki ósáttur við að kona hafi verið skipuð í starfið. Hann telji hins vegar að kærði hafi brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008. Af greinargerð kærða verði vart annað ráðið en að það hafi verið ásetningur kærða að ráða í starfið eftir kyni umsækjanda en ekki á grundvelli málefnalegra og lögmætra sjónarmiða. Þau málefnalegu sjónarmið sem kærði kveðst hafa haft að leiðarljósi séu haldlítil eftir á skýring. Almenningur verði að geta treyst því að handhafar stjórnvalds gæti að góðri og vandaðri stjórnsýslu en vandséð sé að kærði hafi haft það að leiðarljósi við ráðningu í umrætt starf. Kærandi vísar til ummæla kærða á opnum fundi aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynjanna en þau verði vart skilin öðruvísi en að kærði hafi ætlað sér með handafli að rétta stöðu kvenna innan lögreglunnar án tillits til lögmætra sjónarmiða og vandaðrar stjórnsýslu.
  23. Kærandi vísar til þess að í gögnum málsins sé ekki að finna staðfestingu um menntun, menntunarstig eða lengd náms þeirrar er skipuð var. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga beri stjórnvöldum meðal annars að sannreyna eftir atvikum hvort upplýsingar sem málsaðilar veita séu réttar. Það virðist hvorki hafa verið gert né kannað hvort nám hennar væri metið hér á landi til jafns við nám í sálarfræði við íslenska háskóla. Því hljóti að vera erfitt fyrir kærða að fullyrða að ákvarðanir hans hafi verið í samræmi við lög svo og að sú er starfið hlaut hafi verið jafnhæf kæranda.
  24. Kærandi bendir á að sérstök valnefnd hafi tekið viðtöl við alla umsækjendur og að kærandi hafi fengið hæstu einkunn allra umsækjanda. Niðurstaða valnefndar hafi verið lögð fyrir stjórn Lögregluskóla ríkisins sem hafi metið þrjá umsækjendur jafnhæfa til starfans, þar á meðal kæranda. Það séu því rangfærslur hjá kærða að vísa til þess að kærandi hafi ekki verið talinn hæfasti umsækjandinn af stjórn skólans. Kærandi hafnar því að kærði hafi veitt ítarlegan rökstuðning og samanburð á hæfni hans og þeirrar er starfið hlaut og að málsatvik sem hafi haft verulega þýðingu hafi verið upplýst.
  25. Kærandi tekur fram að á Íslandi séu ekki lögfestar reglur um hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar við skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf. Jafnvel þó veitingarvaldshafi hafi ákveðið svigrúm um hvaða atriði hann ætli að leggja til grundvallar varðandi ráðningu í starf verði að horfa til áhersluatriða sem fram komi í auglýsingu. Jafnframt verði þau sjónarmið sem veitingarvaldshafi leggur til grundvallar að vera málefnaleg og uppfylla ákveðnar kröfur um málsmeðferð og efni til að unnt sé að taka afstöðu til þess, með tilliti til fyrirliggjandi gagna eða upplýsinga, hvort umþrætt ákvörðun standist ákvæði jafnréttislaga. Þau gögn liggi hins vegar ekki fyrir.
  26. Kærandi bendir á að umfjöllun kærða, um að lögfræðingur sé nú þegar við störf hjá Lögregluskóla ríkisins og því hafi verið nauðsynlegt að víkka fagþekkingu innan skólans, meðal annars á sviði barnaverndarmála, skjóti skökku við þar sem nú þegar sé starfandi kennari við skólann sem hafi víðtæka þekkingu og reynslu á sviði barnaverndarmála. Rökstuðningur kærða sé því ekki trúverðugur hvað þetta varðar. Kærði fullyrði að sú sem starfið hlaut sé réttarsálfræðingur og með BA-gráðu í sálfræði án þess að það liggi fyrir staðfesting á menntun og menntunarstigi hennar. Kærandi hafni því þeirri staðhæfingu að það sé hafið yfir allan vafa að hún sé með meiri menntun en hann. Þegar reynsla og menntun kæranda og þeirrar sem starfið hlaut sé borin saman miðað við námsvísi framhaldsdeildar Lögregluskóla ríkisins verði að telja að menntun og reynsla kæranda sé betur til starfans fallin.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA
  27. Kærði ítrekar að skipunin hafi að öllu leyti verið á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, í samræmi við auglýsingu um starfið sem og í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008 og ákvæða stjórnsýslulaga. Kærði hafnar fullyrðingum kæranda og túlkun hans á ummælum kærða á opnum fundi aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynjanna og bendir á að fundurinn hafi verið haldinn tæpum mánuði eftir að skipað hafi verið í stöðuna.
  28. Kærði tekur fram að hvergi sé því haldið fram að sú er skipuð hafi verið í starfið sé réttarsálfræðingur heldur sé vísað til þess að hún hafi M.Sc.-gráðu í réttarsálfræði frá háskóla í D. Upplýsingar um menntun hennar hafi legið fyrir hjá lögreglunni og lögregluskólanum og því hafi ekki verið tilefni til að kalla eftir frekari upplýsingum. Meistaragráða hennar teljist fullgilt meistaranám hér á landi og að mati kærða sé það hafið yfir allan vafa að M.Sc.-gráða sé hærra menntunarstig en BA- og B.Sc.-gráður. Nám sem ekki sé lokið á þeim tíma sem sótt er um embætti geti ekki verið metið til jafns við nám sem sé lokið. Það hafi verið litið til menntunar kæranda á sviði lögfræði við mat á hæfni hans og hún hafi verið talin vel til þess fallin að nýtast í starfinu. Þannig hafi menntun hans og aðrir eiginleikar leitt til þess að hann hafi verið talinn jafnhæfur og sú er skipuð var í starfið. Sjónarmiðum kæranda um að menntun hans hafi verið betur til þess fallin að nýtast í starfi sé því hafnað. Starfsreynsla innan lögreglu hafi sannanlega haft þýðingu við mat á hæfni umsækjenda en það hafi ekki haft úrslitaþýðingu.
  29. Kærði bendir á að honum sé ekki skylt að lögum að afla umsagna, þar á meðal umsagnar skólastjórnar lögregluskólans, vegna stöðuveitinga og því séu umsagnir ekki bindandi fyrir kærða sem handhafa veitingarvalds. Stjórn lögregluskólans hafi ekki mælt með að kærandi yrði skipaður í umrædda stöðu og því sé ekki rétt að kærandi hafi verið metinn hæfastur umsækjenda af hálfu lögregluskólans.
  30. Kærði tekur fram að þau sjónarmið sem hafi verið lögð til grundvallar við mat á hæfni umsækjenda hafi verið lögmæt og málefnaleg en samanburðurinn hafi leitt til þess að kærandi og sú er skipuð hafi verið í starfið hafi verið talin jafnhæf til að sinna starfinu. Að mati kærða hafi því mati ekki verið hnekkt. Kærða hafi því bæði verið rétt og skylt að veita konunni starfið enda hafi fáar konur verið á starfssviðinu.

    NIÐURSTAÐA
  31. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  32. Staða lögreglufulltrúa við framhaldsdeild Lögregluskóla ríkisins var auglýst 3. desember 2013. Í auglýsingu um starfið, nr. 34/2013, er verkefnum lögreglufulltrúans lýst þannig að hann muni annast skipulagningu og framkvæmd starfsþróunar-námskeiða fyrir lögreglumenn og eftir atvikum aðra starfsmenn lögreglunnar. Hluti af starfsskyldum viðkomandi felist í kennslu tiltekinna námskeiða og viðkomandi kunni einnig að verða falið að sinna verkefnum í grunnnámsdeild eða öðrum verkefnum innan stofnunarinnar. Um hæfnisskilyrði segir að umsækjendur skuli hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins og samkvæmt 3. mgr. 14. gr. reglugerðar um starfsstig innan lögreglunnar, nr. 1051/2006, skuli sá er hljóti skipun í starfið hafa starfað sem lögreglumaður í að minnsta kosti tvö ár frá því hann lauk prófi. Áskilið var að umsækjendur hefðu góða faglega þekkingu á málefnum lögreglunnar, gott vald á íslensku og góða almenna tölvukunnáttu. Þá var tiltekið að umsækjendur þyrftu að hafa góða enskukunnáttu og tök á a.m.k. einu Norðurlandamáli. Einnig var tekið fram að reynsla af verkefnastjórnun væri góður kostur. Loks var tiltekið að kennaramenntun, reynsla af fjarkennslu eða önnur framhaldsmenntun sem nýttist í starfinu væri góður kostur ásamt því að hafa reynslu af þjálfun og kennslu. Í auglýsingunni kom fram að í ljósi ríkjandi kynjahlutfalls innan lögreglu og jafnréttisáætlunar lögreglunnar væru konur hvattar til að sækja um.
  33. Samkvæmt 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, eins og hún hljóðaði á þeim tíma er ráðið var í það starf lögreglufulltrúa sem til umfjöllunar er í þessu máli, skipaði ríkislögreglustjóri í störf lögreglumanna. Á þessum tíma, þ.e. fyrir þá lagabreytingu er varð með lögum nr. 51/2014, er tók gildi 27. maí 2014, var ekki lögboðið að afla umsagnar áður en ráðið væri í starf lögreglufulltrúa. Þann 23. júlí 2012 hafði kærði sent öllum lögreglustjórum og Lögregluskóla ríkisins umburðarbréf ásamt reglum kærða nr. 5/2012, um málsmeðferð um setningar eða skipanir lögreglumanna í embætti, en reglurnar tóku gildi 1. ágúst 2012. Á grundvelli reglna þessara mun Lögregluskóli ríkisins hafa veitt umsögn um umsækjendur um framangreint starf lögreglufulltrúa.
  34. Stjórn Lögregluskóla ríkisins mun hafa tekið viðtöl við alla þá 16 umsækjendur er uppfylltu hæfniskröfu um tveggja ára starfsaldur. Skólinn ritaði ríkislögreglustjóra bréf, dags. 10. janúar 2014, er bar yfirskriftina „greinargerð með starfsumsóknum og tillaga Lögregluskóla ríkisins um afgreiðslu“. Í bréfinu greinir að nýr starfsmaður þurfi að geta unnið að því að skipuleggja og stjórna verkefnum frá upphafi til enda, vinna námsefni og ritstýra, æskilegt sé að umsækjendur hafi breiða reynslu og hæfileika til að geta miðlað henni til lögreglumannsefna. Í niðurstöðukafla bréfsins greinir að meðal áhersluatriða í framhaldsdeild sé að efla þekkingu og færni lögreglunnar í lögreglurannsóknum, efling rannsókna alvarlegra brota og viðbrögð lögreglu við skipulagðri glæpastarfsemi vegi þungt í framtíðaráformum skólans sem og almennt skipulag lögreglurannsókna og efling yfirheyrslufærni og þekking lögreglunnar á því sviði. Þá er tekið fram að þrír umsækjenda standi að mati bréfritara efstir á þessu sviði þar sem þeir hafi allir víðtæka rannsóknarreynslu en einnig viðbótarmenntun og færni sem myndi nýtast í starfi í skólanum. Umræddir þrír umsækjendur voru kærandi og tveir aðrir karlmenn. Loks greinir í bréfinu, án þess að það sé rökstutt frekar, að tillaga Lögregluskóla ríkisins sé að annar umræddra meðumsækjenda kæranda verði skipaður til starfans. 
  35. Ekki liggur neitt fyrir um það að kærði hafi, að fenginni framangreindri umsókn, tekið umsækjendur í viðtal eða unnið skrifleg gögn um mat á umsækjendum. Í rökstuðningi til kæranda fyrir ráðningunni kvaðst kærði hafa metið hæfni umsækjenda einkum á grundvelli menntunar, starfsaldurs, reynslu í starfi auk þáverandi starfsstigs umsækjenda. Hafi þrír umsækjendur verið metnir hæfastir, sú er ráðin var, kærandi, og annar karlkyns umsækjandi, sem ekki var sá er í bréfi Lögregluskóla ríkisins hafði verið talinn hæfastur. Í rökstuðningnum greinir að á þessum tíma hafi konur aðeins verið 18,9% af starfandi lögreglufulltrúum og engin kona hafi verið starfandi við lögregluskólann. Frá 1. febrúar hafi þó ein kona verið skipuð lögreglufulltrúi við grunnnámsdeild skólans, fjórir karlmenn hafi gegnt stöðu lögreglufulltrúa, tveir karlmenn hafi gegnt stöðu yfirlögregluþjóns og skólastjóri skólans hafi verið karlmaður. Á grundvelli þess að sú er ráðin var hafi verið jafnhæf tveimur karlmönnum, og í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008, einkum 26. gr., hafi konan verið ráðin.
  36. Kærandi lauk grunnnámi frá Lögregluskóla ríkisins í desember 2002. Hann lauk diploma-prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum C í janúar 2010, B.Sc.-prófi í viðskiptafræði frá þeim skóla vorið 2010 og BA-prófi í lögfræði frá sama skóla í janúar 2013. Hann hafði á árunum 2004 til 2009 lokið sjö námskeiðum frá framhaldsdeild Lögregluskóla ríkisins og á árunum 2004 til 2012 lokið átta námskeiðum hjá erlendum aðilum. Kærandi hafði starfað innan lögreglunnar í 14 ár, við almenna löggæslu, í fyrirkallsdeild, fíkniefnadeild, í deild varðandi skipulagða glæpastarfsemi og hjá Sérstökum saksóknara.
  37. Sú er ráðin var í starf lögreglufulltrúa lauk grunnnámi frá Lögregluskóla ríkisins í desember 2009. Hún lauk BA-prófi frá E, vorið 2004. Gögn málsins benda til að um sé að ræða próf í sálfræði en staðfesting þess lá ekki fyrir er ráðningin átti sér stað. Sú er ráðin var lauk M.Sc.-prófi í réttarsálfræði (e. applied forensic psycology) frá D í janúar 2009. Greint er frá tveimur námskeiðum sem hún hafði lokið eftir útskrift úr grunnnámi Lögregluskóla ríkisins. Hún hafði starfað innan lögreglunnar í rúm fjögur ár, lengst í almennri deild, hjá landamæradeild í fimm mánuði en í rannsóknardeild í níu mánuði. Sú er ráðin var hafði einnig, eftir að hún lauk framangreindum prófum, starfað sem ráðgjafi við endurhæfingu og hjá geðræktarmiðstöð í eitt ár og átta mánuði. Áður hafði hún starfað sem ráðgjafi í barnavernd í tæp tvö ár.
  38. Eins og að framan greinir hafði kærandi, er hann sótti um starf lögreglufulltrúa hjá Lögregluskóla ríkisins, 14 ára starfsreynslu úr ýmsum deildum lögreglunnar. Sú er ráðin var hafði rúmlega fjögurra ára starfsreynslu, lengst af í almennri deild. Var starfsreynsla hans innan lögreglunnar umtalsvert lengri og fjölbreyttari en hennar.
  39. Í bréfi Lögregluskóla ríkisins hafði verið lögð áhersla á að hinn nýi starfsmaður skyldi hafa breiða reynslu og hæfileika til að geta miðlað henni til lögreglumannsefna. Þá eru tiltekin nokkur atriði sem nauðsynlegt verði að leggja áherslu á vegna starfa lögreglunnar á komandi árum, þ.e. efling rannsókna alvarlegra brota, viðbrögð lögreglu við skipulagðri glæpastarfsemi, almennt skipulag lögreglurannsókna og efling yfirheyrslufærni. Niðurstaða bréfritara var að kærandi væri einn þriggja umsækjenda er féllu best að þessum markmiðum.
  40. Kærði hefur fyrir kærunefnd jafnréttismála upplýst að þau sjónarmið er hann hafi lagt til grundvallar stöðuveitingunni hafi falið í sér aðrar áherslur en komu fram í bréfinu þrátt fyrir að hann hafi tekið mið af umsögninni. Hann hafi vegið hátt menntunarstig þeirrar er ráðin var og þá menntun sem var til þess fallin að efla skólann á móti langri starfsreynslu kæranda innan lögreglunnar og menntunar hans á sviði lögfræði.
  41. Nálgun kærða sýnist af þessu hafa verið mjög ólík þeirri sem Lögregluskóli ríkisins beitti. Þrátt fyrir þennan framgangsmáta verður ekki séð að kærði hafi borið umsækjendur saman á neinn heildstæðan hátt með tilliti til viðmiða sem hann taldi rétt að leggja til grundvallar og ekki voru meðal áhersluatriða stjórnar lögregluskólans og hefur hann raunar ekki haldið því fram að svo hafi verið. Þannig liggur ekki fyrir nein sjálfstæð úrvinnsla umsóknanna á vegum kærða. Slíkt var þó afar mikilvægt, einkum sökum þess að umsagnaraðilinn, sem var jafnframt væntanlegur vinnuveitandi hins nýja starfsmanns, hafði látið í té ítarlega og rökstudda umsögn um umsækjendur með tilliti til mats síns á þörfum starfseminnar.
  42. Kærði hefur rökstutt skipun þeirrar er skipuð var með vísan til ákvæða laga nr. 10/2008 og staðhæft að hún hafi verið jafnhæf kæranda án þess að heildstæður samanburður hafi legið fyrir í þeim efnum. Af þessum sökum og með vísan til þeirra ástæðna sem raktar eru að framan telur kærunefnd að kærði hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi ráðið skipun í stöðu lögreglufulltrúa umrætt sinn. Braut því kærði við skipun í stöðuna gegn ákvæðum 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  43. Með hliðsjón af atvikum málsins og með vísan til 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 telur kærunefnd rétt að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi og þykir hann hæfilega metinn 300.000 krónur.

 

  Ú r s k u r ð a r o r ð

Ríkislögreglustjóri braut gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun lögreglufulltrúa hjá Lögregluskóla ríkisins 1. febrúar 2014.

Kærði greiði kæranda, A, 300.000 krónur í málskostnað.

 

Erla S. Árnadóttir

 Björn L. Bergsson

 Þórey S. Þórðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta