Hoppa yfir valmynd

Nr. 394/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 394/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20070042

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 31. júlí 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. júlí 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þess er krafist að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 11. desember 2018. Þann 14. maí 2019 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að umsókn kæranda skyldi ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og var sú niðurstaða stofnunarinnar staðfest með úrskurði kærunefndar þann 12. september 2019. Þann 29. október 2019 sótti kærandi um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara og var þeirri umsókn synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. desember 2019. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 16. desember 2019 og óskaði um leið eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar og féllst kærunefnd á þá beiðni kæranda þann 2. janúar 2020. Með úrskurði, dags. 13. mars 2020, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Hinn 19. mars 2020 óskaði kærandi eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 12. september 2019 og með úrskurði kærunefndar, dags. 8. apríl 2020, var fallist á beiðni kæranda og ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 18. og 20. maí og 5. júní 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 10. júlí 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd en veitti honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 31. júlí 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 24. ágúst 2020. Þá bárust frekari gögn frá kæranda þann 1. október 2020. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 22. október sl. ásamt talsmanni sínum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var hins vegar veitt dvalarleyfi til eins árs á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að hann sé flóttamaður samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með vísan til þess að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi vegna ætlaðrar kynhneigðar. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi átt í ástarsambandi við karlmann í heimaríki sínu og hafi að auki átt í kynferðislegu sambandi við aðra karlmenn. Þá hafi myndband sem sýni hann í kynlífsathöfnum með öðrum karlmanni verið lekið og lögreglan haft afskipti af honum vegna þessa. Samkvæmt opinberum heimildum um aðstæður í heimaríki kæranda eigi hann á hættu að vera handtekinn og áreittur af yfirvöldum vegna þess að stjórnvöld telji sig hafa sannanir fyrir því að hann sé samkynhneigður. Þá sé LGBTI fólk í Nígeríu líklegt til að verða fyrir félagslegri mismunun, einangrun, ofbeldi, kúgun, hótunum og hatursorðræðu og jafnvel árásum af hálfu gerenda sem séu óháðir ríkinu, þ.e. fjölskyldum og öðrum meðlimum samfélagsins. Af þessum ástæðum telji kærandi að líkur standi til þess að hann muni verða fyrir kerfisbundinni mismunun og ofsóknum af hálfu yfirvalda og samborgara sinna í heimaríki, honum verði gert að sæta fangelsisrefsingu auk þess að eiga á hættu að verða líflátinn verði honum gert að snúa aftur. Sú staðreynd að yfirvöld telji kæranda tilheyra þjóðfélagshópi LGBTI og telji sig hafa sannanir fyrir því geri ótta hans ástæðuríkan. Þá vísar kærandi til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð umsókna á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar.

Í greinargerð kæranda er vísað til umfjöllunar um aðstæður LGBTI einstaklinga í Nígeríu úr greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar. Þar hafi kærandi m.a. gert grein fyrir löggjöf í Nígeríu sem snúi að kynhneigð og leggi refsingu t.a.m. við samneyti karlmanna auk þess sem að lög sem banni hjónabönd samkynhneigðra hafi leitt til aukins áreitis og hótana á grundvelli kynhneigðar. Þá hafa ýmis ríki innan Nígeríu sett lög sem takmarki réttindi LGBTI einstaklinga. Samkynhneigð sé almennt litin hornauga í Nígeríu og þá sé LGBTI fólk í aukinni hættu á að verða fyrir ýmiss konar mismunun, áreiti og ofbeldi.

Í greinargerð sinni fjallar kærandi um mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika frásagnar hans. Þar sé m.a. gerð athugasemd við misræmi í frásögn kæranda er varðar það hvernig hann hafi kynnst fyrrum unnusta sínum en misræmi sé á milli frásagnar kæranda í þjónustuviðtali, þar sem kærandi naut hvorki aðstoðar túlks né talsmanns, og í síðari viðtölum hjá Útlendingastofnun vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd, þar sem kærandi naut aðstoðar talsmanns. Þjónustuviðtal sé tekið skömmu eftir komu fólks til landsins og er tilgangur þess að meta þjónustuþörf umsækjenda um alþjóðlega vernd en ekki að leggja dóm á þörf þeirra fyrir alþjóðlega vernd. Umsækjendum um alþjóðlega vernd er gerð grein fyrir þessu í viðtalinu og er þetta ástæðan fyrir því að ekki sé talin þörf á að taka þessi viðtöl að löglærðum talsmanni viðstöddum. Í þjónustuviðtali kvaðst kærandi m.a. vera andlega heill heilsu, en síðar hafi komið í ljós að svo sé ekki. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. febrúar 2020 í máli nr. E-3366/2018 þar sem ítarlega hafi verið fjallað um trúverðugleikamat í málum sem varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Viðtal var tekið við kæranda, m.a. þann 5. júní 2020, hjá Útlendingastofnun til þess að gefa kæranda kost á að skýra misræmi í frásögn sinni varðandi það hvernig hann hafi kynnst fyrrum unnusta sínum. Í því viðtali hafi komið fram annað misræmi, sem Útlendingastofnun hafi tekið upp í ákvörðun sinni, en ekki verði séð að kærandi hafi fengið tækifæri til að gefa nánari skýringar á misræminu en ljóst sé að fjölmargar skýringar gætu verið því að baki. Um sé að ræða alvarlegt brot á rannsóknarreglunni en ætli stjórnvöld að byggja synjun um alþjóðlega vernd á slíku atriði ber þeim brýn skylda til þess að leita þeirra skýringa. Annars sé hætta á því að stjórnvöld gerist brotleg við grundvallarreglu þjóðaréttar um bann við endursendingum fólks þangað sem líf þess eða frelsi er í hættu.

Líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun þá þjáist kærandi af geðrænum kvillum auk áfallastreituröskunar. Því sé óumdeilt að kærandi hafi upplifað atburði og áföll sem hafi haft varanleg andleg og líkamleg áhrif á hann. Þá sé staðfest að hann beri ör á líkamanum sem sé í samræmi við frásögn hans. Þetta styðji framburð kæranda er varðar flótta hans frá heimaríki og skýringar á því misræmi sem upp hafi komið í málinu.

Samkvæmt grundvallarreglunni um non-refoulement ber stjórnvöldum í öllum ákvörðunum sínum að láta umsækjanda um alþjóðlega vernd njóta vafans, þegar vafi leikur á um það hvort viðkomandi þurfi á vernd að halda. Vísar kærandi þessu til stuðnings til handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttafólks. Þrátt fyrir minniháttar innbyrðis misræmi, sem kærandi hafi veitt skýringar á, verður ekki fram hjá því litið að frásögn hans sé í samræmi við opinberar og áreiðanlegar upplýsingar um aðstæður í heimaríki hans. Með vísan til framangreinds, frásagnar kæranda og tilvísaðra heimilda sé á því byggt að ótti kæranda við ofsóknir sé ástæðuríkur. Þá eigi hann enga möguleika á vernd yfirvalda í heimaríki sínu. Kærandi sé því flóttamaður samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Með því að senda kæranda til heimaríkis yrði enn fremur brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga auk 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað útrunnu vegabréfi. Vegabréfið var sent til Flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum í áreiðanleikakönnun. Niðurstöður þeirrar könnunar báru með sér að ekki hafi verið að sjá fölsunarmerki í vegabréfinu. Var það því mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé nígerískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Nigeria (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Background Note – Nigeria (U.K. Home Office, janúar 2020);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Actors of Protection (U.K. Home Office, 28. mars 2019);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Country Background Note (U.K. Home Of-fice, 4. júlí 2019);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Medical and Healthcare issues (U.K. Home Office, janúar 2020);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Sexual orientation and gender identity or expression (U.K. Home Office, apríl 2019);
  • DFAT Country Information Report – Nigeria (Department of Foreign Affairs and Trade, 9. mars 2018);
  • EASO COI Meeting Report – Nigeria – Practical Cooperation Meeting 12-13 June 2017 – Rome (European Asylum Support Office, 21. ágúst 2017);
  • EASO Country Guidance – Nigeria – Guidance note and common analysis (European Asy-lum Support Office, febrúar 2019);
  • EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Actors of Protection (European Asy-lum Support Office, 25. nóvember 2018);
  • EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Country Focus (European Asylum Support Office, 4. júní 2017);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Security Situation (European Asy-lum Support Office, 25. nóvember 2018);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Targeting of individuals (European Asylum Support Office, 25. nóvember 2018);
  • Freedom in the World 2020 – Nigeria (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Mental health disorders in Nigeria: A highly neglected disease (Ann Nigerian Med, 15. maí 2017);
  • Nigeria 2018 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, maí 2019);
  • Nigeria 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Nigeria 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Nigeria 2018 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, maí 2019);
  • Nigeria: People with mental health conditions chained, abused (Human Rights Watch, 11. nóvember 2019);
  • The World Factbook – Nigeria (Central Intelligence Agency, 20. apríl 2020);
  • Upplýsingar af vefsíðu Interpol (www.interpol.int);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 10. nóvember 2020) og
  • World Report 2020 – Nigeria (Human Rights Watch, janúar 2020).

Nígería er sambandslýðveldi með um 214 milljónir íbúa. Nígería var nýlenda Bretlands fram að sjálfstæði þess árið 1960 og sama ár gerðist Nígería aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1993. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991. Ríkið fullgilti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2001 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2009. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um trúfrelsi frá árinu 2019 er talið að um helmingur íbúa landsins séu múslimar og hinn helmingurinn kristinn. Þar kemur fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá Nígeríu og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar svæða í Norður-Nígeríu séu múslimar og í Suður-Nígeríu séu kristnir í meirihluta. Bæði kristnir og múslimar hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóðasambands sakamálalögreglu (e. Interpol) er löggæsla ríkisins aðallega í höndum ríkislögreglu Nígeríu sem talin er samanstanda af rúmlega 350.000 lögregluþjónum. Ríkislögreglan annist löggæslustörf í öllum 36 fylkjum Nígeríu og höfuðborginni Abuja. Hlutverk ríkislögreglunnar sé að vernda einstaklinga og eignir, koma í veg fyrir afbrot, upplýsa og rannsaka glæpi auk þess að sækja afbrotamenn til saka. Samkvæmt skýrslum EASO frá 2017 og 2018 séu nokkrar sérhæfðar deildir innan ríkislögreglunnar sem annist sértæk brot. Ríkislögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir spillingu og mannréttindabrot af ýmsum rannsakendum og samtökum. Dæmi séu um að lögregluþjónar hafi orðið uppvísir að því að kúga fé af almennum borgurum og sleppa sakborningum gegn mútugreiðslum. Þá hafi mannréttindasamtök greint frá því að u.þ.b. 100.000 lögregluþjónar hafi veitt efnamiklum einstaklingum persónulega þjónustu. Þá sé mikill skortur á lögreglumönnum í ríkinu, auk þess sem þjálfun lögreglumanna sé ábótavant og skortur sé á fjármagni frá ríkinu. Í ríkinu séu þó til staðar formlegar kvörtunarleiðir vegna misferlis lögreglu í starfi eða spillingar en þó tíðkist í miklum mæli að leysa slík mál á óformlegan hátt. Þá skorti skilvirkar leiðir til að eiga við, rannsaka og refsa vegna ofbeldis eða spillingar öryggissveita. Mútuþægni sé víðfeðmur vandi í ríkinu og samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 hafi stofnanir sem annist kvörtunarmál í ríkinu greint frá uppsögnum lægra settra lögreglumanna vegna kvartana almennings um fjárkúganir af hálfu lögreglu. Þó hafi fá mál verið rannsökuð eða farið fyrir dómstóla.

Fram kemur í ofangreindum gögnum, t.a.m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019, að töluverð spilling sé innan dómskerfisins, auk þess sem skortur sé á þjálfun dómara. Þó kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 að þrátt fyrir veikleika í stjórnkerfinu standi þeim sem óttist einstaklinga sem starfi ekki fyrir ríkið almennt til boða vernd. Komið hafi verið á fót embætti umboðsmanns í Nígeríu árið 2004 (e. The Public Complaints Commission) en um sé að ræða sjálfstæða og óháða stofnun sem taki á móti kvörtunum borgara og tryggi rétt þeirra gagnvart nígerískum stjórnvöldum endurgjaldslaust. Hægt sé að nálgast skrifstofur umboðsmanns í öllum 36 fylkjum Nígeríu og þrátt fyrir að störf umboðsmannsins verði að einhverju leyti fyrir áhrifum vegna afskipta stjórnvalda þá sé um að ræða virkt úrræði fyrir borgara Nígeríu. Þá kemur fram að ýmsar eftirlitsnefndir starfi í Nígeríu sem almenningur geti beint kvörtunum sínum til, s.s. mannréttindanefndin (e. The National Human Rights Commission (NHRC)) sem hefur það hlutverk að rannsaka meint brot gegn mannréttindum. Þá geti almennir borgarar beint kvörtunum til umboðsmannsins í Nígeríu ef þeir eru ósáttir við málsmeðferð stjórnvalda. Jafnframt geti almenningur leitað til nígeríska lögregluráðsins (e. The Nigerian Police Council) og framkvæmdastjórn lögreglunnar (e. Police Service Commission) sem hafi eftirlit með störfum lögreglunnar.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2020 kemur fram að í Nígeríu séu átta sjúkrahús sem sérhæfð séu í taugageðlækningum staðsett víðsvegar um landið. Geðdeildir séu jafnframt á öllum háskólasjúkrahúsum, auk þess sem starfrækt séu sex opinber geðsjúkrahús í mismunandi fylkjum í landinu. Þá kemur fram að meðferð við geðsjúkdómum sé aðgengileg á almennum sjúkrahúsum og í Nígeríu sé meðferð í boði við öllum geðsjúkdómum. Um 300 geðlæknar starfi í Nígeríu en skortur virðist vera á geðheilbrigðisstarfsfólki og fjöldi þeirra ekki í samræmi við íbúafjölda landsins. Almennir heilbrigðisstarfsmenn hafi þó fengið þjálfun í greiningu algengra geðsjúkdóma og á fjölda opinberra og einkarekinna sjúkrahúsa hafi sjúklingar aðgengi að geðlæknum, geðhjúkrunarfræðingum og sálfræðingum, ráðgjöf og lyfjameðferð. Þá sé einnig boðið upp á meðferð í búsetuúrræðum og heimaþjónustu. Veruleg misskipting sé á fjölda geðheilbrigðisstarfsfólks milli landshluta en talið sé að norðaustur hluti landsins eigi undir högg að sækja hvað það varðar samanborið við aðra landshluta. Geðræn veikindi séu þó ennþá fordæmd í Nígeríu og fjölskyldur eigi það til að fela veikindin eða telji þau stafa af bölvunum eða göldrum.

Í skýrslu frá EASO kemur einnig fram að andlega veikir einstaklingar verði fyrir mismunun og félagslegri skömm og að margir þeirra njóti takmarkaðrar heilbrigðisþjónustu. Þá bera gögnin, s.s. umfjöllun samtakanna Human Rights Watch, einnig með sér að andlega veikir einstaklingar hafi verið lokaðir inni á stofnunum og orðið fyrir alvarlegri misnotkun. Slíkum stofnunum hafi þó í einhverjum mæli verið lokað af lögreglu. Skýrsla breska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2019 ber með sér að það geti verið erfitt fyrir almenna borgara að fá aðgang að heilbrigðisþjónustu í Nígeríu og þá geti LGBTQ+ einstaklingar orðið fyrir frekari hindrunum. Þrátt fyrir það séu aðilar sem bjóði upp á heilbrigðisþjónustu fyrir LGBTQ+ einstaklinga, þar sem áhersla sé lögð á baráttuna við HIV veiruna og alnæmi.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá því í mars 2020 kemur fram að aðstæður í fangelsum í Nígeríu séu almennt mjög slæmar. Fangar hafi m.a. ekki aðgengi að helstu nauðsynjavörum eða heilbrigðisþjónustu og hreinlæti sé ábótavant. Þá kemur fram að almennt séu fangar með geðræn vandamál vistaðir með öðrum föngum og fái enga sérhæfða þjónustu þó finna megi þess einstaka dæmi að fangelsi bjóði föngum með geðræn vandamál sérstaka aðstöðu.Samkvæmt skýrslu áströlsku utanríkisþjónustunnar frá árinu 2018 og bresku innanríkisþjónustunnar frá árinu 2019 verða samkynhneigðir fyrir töluverðri mismunun í Nígeríu. Samkvæmt nígerískum lögum séu kynferðisathafnir milli samkynja einstaklinga refsiverðar en slík brot varði fangelsisrefsingu samkvæmt nígerískum hegningarlögum. Þá hafi árið 2014 tekið gildi lög sem banni samkynja hjónabönd. Heimildirnar beri með sér að lög sem varði kynhneigð fólks sé sjaldan framfylgt í reynd en þau stuðli þó að neikvæðu viðhorfi til samkynhneigðra en mannréttindasamtök hafi bent á að lögregluyfirvöld og almenningur hafi notað lögin til að réttlæta mannréttindabrot gegn LGBTQ+ fólki. Samkvæmt skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2019 liggur dauðarefsing við því að stunda kynferðislegar athafnir með einstaklingi af sama kyni á þeim svæðum Nígeríu sem hafa tekið upp Sharia lög. Dómstólar hafi þó ekki kveðið upp slíkan dóm árið 2019 en fyrri ár hafi einstaklingar sem hafi verið fundnir sekir um kynferðislegar athafnir með einstaklingi af sama kyni verið dæmdir til hýðingar.Í skýrslu sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2019 kemur fram að Evrópusambandið og alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM) starfi saman í sérstöku átaksverkefni er lúti að endursendingu fólks til Nígeríu. (e. Nigerian Immigration Service), nefnd ríkisins fyrir flóttamenn, innflytjendur og fólk innri flótta (e. the National Commission for Refugees, Migrants and Internally Displaced Persons), NAPTIP, almannavarnir ríkisins og ETAHT (e. Edo State Taskforce against Human Trafficking) veiti ýmsa þjónustu vegna móttöku og aðlögunar einstaklinga sem snúi aftur til Nígeríu. Grunnþjónusta sé veitt, m.a. ferðir áfram til heimabæjar eða þorps, símar til frekari samskipta, matur, skammtíma húsnæði, heilbrigðisþjónusta og vernd. Þá sé einstaklingum með sérþarfir jafnframt vísað til heilbrigðisstofnana, sálfræðinga, í ráðgjöf og veitt aðstoð við fjölskyldusameiningu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna. Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandi með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á að ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærunefnd hefur jafnframt litið til leiðbeininga Flóttamannastofnunarinnar er varðar kröfur um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar (Guidelines on International Protection No. 9: Claims to Refugee Status based on Sexual Orientation and/or Gender Identity within the context of Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or its 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, UN High Commissioner for Refugees, október 2012).

Krafa kæranda er byggð á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi vegna ætlaðrar kynhneigðar. Þá sé hann í hættu í heimaríki þar sem tilteknir aðilar og lögregluyfirvöld séu á eftir honum eftir að myndbandi af kæranda og öðrum karlmanni að stunda kynlíf hafi verið lekið og sýnt lögreglu.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, viðtali hjá kærunefnd þann 22. október 2020, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Kærandi hefur greint frá því við meðferð málsins að hann óttist ofsóknir í heimaríki vegna ætlaðrar samkynhneigðar. Kærandi hefur greint frá því að hann hafi átt í fjögurra ára sambandi við karlmann í heimaríki að nafni […] og hefur kærandi greint frá aðdragandanum að sambandi þeirra í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Kærandi hafi verið staddur á bílastæði við skólann sinn og verið mikið niðri fyrir þegar að […] hafi nálgast hann. […] hafi boðið fram aðstoð sína og foreldra sinna og í kjölfarið hafi kærandi flutt inn til þeirra. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að auk þess að bjóða honum að búa hjá sér þá hafi foreldrar […] boðist til að greiða skólagjöld hans. Aðspurður kvaðst kærandi ekki hafa þekkt […] áður en hann hafi hitt hann á bílastæðinu. [...] Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að fyrst um sinn hafi honum ekki líkað það sem hafi verið í gangi á milli þeirra en hann hafi ekki átt annarra kosta völ þar sem að hann hafi viljað klára námið sem hann hafi stundað á þeim tíma. Af frásögn kæranda að dæma hafi kærandi í framhaldinu vanist samneyti þeirra og orðið ástfanginn af [...].

Kærandi lagði við meðferð málsins fram tvær ljósmyndir sem hann kveður vera af sér ásamt [...] og öðrum skólabróður þeirra við útskriftarathöfn. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi spurður að því hvort hann gæti lagt fram einhver frekari gögn sem væru til þess fallin að sýna fram á samband sitt við [...], s.s. myndir eða samskipti þeirra á milli í gegnum samskiptaforrit. Kærandi kvaðst ekki eiga neitt slíkt og vildi ekki eiga það þar sem að minningin um [...] væri of sár og að hann hafi auk þess týnt símanum sínum á leiðinni til Evrópu. Aðspurður í viðtali hjá kærunefnd um frekari upplýsingar um [...] og foreldra hans gat kærandi ekki greint frá því hvað [...] hafi verið gamall eða eiginnöfnum foreldra hans. Að mati kærunefndar dregur það úr trúverðugleika frásagnar kæranda að hann geti ekki á nokkurn hátt sýnt fram á samband sitt við [...] sem hann kvað hafa verið stóru ástina í lífi sínu. Þá sé það að mati kærunefndar ekki til þess fallið að styðja við trúverðugleika kæranda að hann viti ekki nöfn foreldra mannsins sem hann hafi átt í nánu sambandi við í fjögur ár og hafi boðið honum inn á heimili sitt, fætt hann og klætt í rúmt ár og greitt fyrir hann skólagjöld í háskóla.

Ákveðins misræmis hefur auk þess gætt í frásögn kæranda hvað varðar það hvenær og hvernig fjölskylda hans hafi komist að því að hann væri samkynhneigður. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun, dagana 18. og 20. maí 2020, var kærandi spurður að því hvort fjölskylda hans hafi vitað af sambandi hans við […] og svaraði kærandi á þá leið að þau hafi ekki vitað af sambandi þeirra og tók hann sérstaklega fram að hann hafi sagt þeim frá því eftir að hann hafi yfirgefið heimaríki sitt. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 5. júní 2020, greindi kærandi frá því að foreldrar hans hafi vitað að hann væri samkynhneigður áður en hann hafi yfirgefið heimaríki sitt og hélt hann sig við þann framburð í viðtali hjá kærunefnd.

Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi spurður frekar út í kynhneigð sína m.a. um það hvenær hann hafi fyrst komist að því að hann væri samkynhneigður. Kærandi kvaðst ávallt hafa verið gagnkynhneigður, hann hafi verið í sambandi við konu í heimaríki og eignast með henni son sem sé núna 11 ára. Sonurinn búi hjá móður sinni og ömmu en kæranda og barnsmóður hans hafi sinnast og þau því skilið. Kærandi haldi góðu sambandi við son sinn í heimaríki. Hann hafi ekki borið tilfinningar til annarra karlmanna fyrr en hann hafi hafið samband sitt við [...]. Þá hafi honum ekki líkað þetta í fyrstu en með tímanum hafi hann vanist þessu og orðið háður sambandi sínu við [...]. Aðspurður um það hvort kærandi hafi verið opinn með kynhneigð sína á Ítalíu og hér á landi kvaðst hann ekki hafa verið það og að hér á landi hafi hann hafið samband við konu og gifst henni. Þau hafi síðar skilið. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi að mati nefndarinnar óskýr í svörum varðandi kynhneigð sína og átti hann í erfiðleikum með að svara spurningum þar að lútandi. Kærandi tók þó fram að á þeim tímapunkti sem viðtalið fór fram þá bæri hann tilfinningar til kvenna en hann gæti ekki sagt til um framtíðina. Aðspurður í viðtölum hjá Útlendingastofnun dagana 18. og 20. maí 2020, hvort hann væri samkynhneigður, svaraði kærandi á þá leið að hann vilji ekki vera samkynhneigður og að það sé í fortíð hans. Þá kvað kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 5. júní sl. að hann hafi tjáð móður sinni að hann sé ekki lengur samkynhneigður.

Þá hefur kærandi greint frá því að hann óttist tiltekna aðila og lögregluna í heimaríki vegna myndbands sem sýni hann stunda kynlíf með öðrum karlmanni. Kærandi hefur greint frá því að hann hafi komist í kynni við karlmann frá Asíu í gegnum veraldarvefinn. Maðurinn hafi beðið kæranda um að taka upp myndband af sér að stunda kynlíf með öðrum karlmanni og hafi ætlað að greiða þriðja aðilanum fyrir þátttöku í myndbandinu. Kærandi hafi rætt við son leigusala síns sem hafi samþykkt að taka þátt í gerð myndbandsins. Að lokinni myndbandsupptökunni hafi sonur leigusalans fært myndbandið af síma kæranda og yfir á eigin síma án vitundar kæranda. Nokkrum dögum síðar hafi nágranni hans gert honum viðvart að leigusalinn hafi ásamt lögreglunni verið að leita að honum vegna myndbandsins. Kærandi hafi af þeim sökum ákveðið að flýja heimaríki sitt. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings frásögn hans er þetta varðar. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi spurður nánar út í manninn sem hafi beðið hann um að taka upp myndbandið en gat kærandi ekki gefið neinar frekari upplýsingar um hann, hvorki nafn né nánari búsetu. Þá gat kærandi ekki greint frá því í gegnum hvaða miðil þeir hafi átt samskipti auk þess sem að hann gaf ekki trúverðuga skýringu á því hvers vegna hann gæti ekki lagt fram nein gögn um samskipti þeirra.

Þá var kærandi jafnframt spurður nánar út í unga manninn sem hann hafi beðið um að vera þátttakandi í myndbandinu. Kærandi kvaðst hafa þekkt hann en átti í viðtalinu erfitt með að muna nafn hans. Aðspurður um hvort umræddur maður væri samkynhneigður svaraði kærandi neitandi. Kærandi hefur greint frá því að hann hafi ekki fengið borgað fyrir að gera myndbandið en að asíski maðurinn hafi borgað unga manninum fyrir að taka þátt. Í viðtali hjá kærunefnd gat kærandi ekki svarað því hversu háa upphæð hann hefði borgað þrátt fyrir að kærandi hafi greint frá því að hann hafi fengið peningana senda og komið þeim áfram til unga mannsins. Með hliðsjón af upplýsingum um heimaríki kæranda hvað varðar aðstæður samkynhneigðra þá er það mat kærunefndar að frásögn kæranda hvað varðar samskipti hans við ofangreindan asískan mann, að hann hafi greitt öðrum manni til þess að stunda með sér kynlíf og tekið það upp á myndband ótrúverðuga í heild sinni og verður hún því ekki lögð til grundvallar í málinu.

Kærandi greindi frá því í viðtali hjá kærunefnd að lögreglan og foreldrar […] og mannsins séu að leita að honum í heimaríki. Í viðtalinu var kærandi spurður nánar út í þetta, m.a. hvernig hann vissi að þessir aðilar væru að leita að honum, en kærandi gat ekki gefið nein svör. Að mati nefndarinnar gáfu svör kæranda til kynna að hann hefði ekki upplýsingar þess efnis að einhver væri að leita að honum.

Þann 4. nóvember 2020 bárust kærunefnd gögn frá ítölskum stjórnvöldum. Um var að ræða umsókn kæranda um alþjóðlega vernd þar í landi og niðurstöðu stjórnvalda í máli hans og fékk nefndin túlk til þess að þýða gögnin. Samkvæmt frásögn kæranda hjá ítölskum stjórnvöldum þá hafi hann óttast mannræningja í heimaríki. Í ákvörðun ítalskra stjórnvalda kemur fram að föðurbróðir kæranda hafi fengið þjófa til þess að ræna fjármunum frá föður kæranda sem hafi endað með því að faðir hans hafi verið drepinn. Þá hafi föðurbróðir kæranda fengið mannræningja til þess að drepa kæranda í því skyni að fá arf sem hann hafi erft eftir föður sinn. Mannræningjarnir hafi hins vegar vorkennt kæranda og ákveðið að hjálpa honum að flýja. Gögnin bera með sér að verulegt ósamræmi sé á milli frásagnar sem kærandi gaf annars vegar hjá ítölskum stjórnvöldum og hins vegar íslenskum stjórnvöldum. Í gögnunum er hvergi minnst á að kynhneigð kæranda eða ástæður tengdar henni hafi verið ástæða þess að kærandi hafi ákveðið að flýja heimaríki sitt. Kæranda var gefið færi á að koma fram með skýringar og andmæli við ofangreindu misræmi á ástæðum flótta hans frá heimaríki. Í svari kæranda, dags. 12. nóvember sl., gaf kærandi þá skýringu að þegar hann hafi komið til Ítalíu þá hafi hann séð nokkra menn sem hann hafi þekkt úr nærumhverfi sínu í heimaríki. Í viðtölum hjá ítölskum stjórnvöldum hafi verið notast við nígeríska túlka og þá hafi hópur manna ráðist á samkynhneigðan mann í búðunum sem hann hafi dvalið í. Kærandi hafi vegna þessa óttast að saga hans færi á kreik í nígeríska samfélaginu á Ítalíu og að það myndi komast upp um það í heimaríki hvar hann væri. Kærandi hafi því ekki þorað að segja sögu sína og hafi hann ráðfært sig við félaga úr búðunum sem hafi stungið upp á þeirri sögu sem kærandi hafi sagt í viðtölum á Ítalíu. Að mati kærunefndar eru umrædd gögn frá ítölskum stjórnvöldum til þess fallin að draga verulega úr trúverðugleika frásagnar kæranda varðandi kynhneigð sína og atburði í heimaríki. Þá eru skýringar kæranda á misræminu, með hliðsjón af heildarmati á framburði kæranda og gögnum málsins, ekki trúverðugar að mati nefndarinnar.

Kærandi hefur hvorki lagt fram gögn sem styðja við frásögn hans þess efnis að hann hafi átt í sambandi við karlmann í heimaríki né gögn sem sýna fram á þá atburðarás sem hann kveður hafa orðið til þess að hann hafi flúið frá heimaríki. Kærandi átti í viðtali hjá kærunefnd í erfiðleikum með að svara spurningum um atriði sem hann hefði að mati nefndarinnar átt að geta gefið svör við. Þá hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn sem þykja til þess fallin að styðja við frásögn hans af þeim atvikum sem hann hefur lagt til grundvallar umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Það er því mat kærunefndar að óljós og óskýr framburður kæranda, skortur á gögnum og misræmi leiði til þess, heildstætt metið, að frásögn kæranda af atburðum og ástæðum flótta sé ótrúverðug og verði ekki lögð til grundvallar í málinu. Kærunefnd telur að þótt ekki sé hægt að útiloka að kærandi hafi átt í kynferðislegu samneyti við karlmann í heimaríki þá hafi hann greint frá því að enginn nema foreldrar hans hafi vitað af sambandi þeirra. Verður því ekki talið að það að kærandi hafi stundað kynlíf með öðrum karlmanni í heimaríki sé almenn vitneskja í heimaríki hans. Þá kveðst kærandi vera gagnkynhneigður og kvaðst jafnframt hafa tjáð móður sinni það sem hafi tekið kæranda í sátt á ný. Samkvæmt framansögðu verður því ekki lagt til grundvallar í málinu að kærandi sé samkynhneigður og að hann hafi ástæðu til að óttast lögreglu eða aðra aðila í heimaríki af þeim sökum. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki hans af öðrum ástæðum.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlending, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 11. desember 2018. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd og þar til ákvörðun Útlendingastofnunar var tekin þann 10. júlí 2020 voru liðnir rúmir 18 mánuðir. Kærandi hafði því ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er um í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og á þeim grundvelli var kæranda veitt dvalarleyfi með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. júlí 2020.

Kærunefnd telur að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar um að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda að því er varðar synjun á umsókn um alþjóðlega vernd.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                          Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta