Hoppa yfir valmynd

Nr. 1/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 1/2019

Miðvikudaginn 27. mars 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 3. janúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. janúar 2019 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 26. nóvember 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. janúar 2019, var umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa synjað þar sem að ekki voru liðin fimm ár frá síðustu úthlutun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. janúar 2019. Með bréfi, dags. 4. janúar 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. janúar 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. janúar 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hans um uppbót/styrk til bifreiðakaupa verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kæranda hafi verið synjað um uppbót til kaupa á bifreið þar sem ekki hafi verið liðin fimm ár frá seinustu greiðslu en fimm ár verði liðin […]. Kærandi uppfylli önnur skilyrði samkvæmt bréfi Tryggingastofnunar.

Kærandi hafi síðast fengið 300.000 kr. í styrk og 180.000 kr. í lán. Bifreiðar á því verði eigi ekki mikið eftir. Fimm ára reglan sé óhentug ef einstaklingur geti einungis keypt bifreið fyrir þá fjárhæð. Fyrir X síðan hafi vélin í bifreið kæranda farið og hafi hann ekki haft ráð á viðgerð. Kærandi hafi verið upp á góðvild annarra kominn með lánsbifreiðar og lánsbifreið hans sé […] þannig að hann eigi erfitt með að nota hana.

Kærandi sé háður bifreið, hann sé hjá B og sé að [...] í C. Því sé mikilvægt að kærandi hafi öruggan aðgang að bifreið. Kærandi óski eftir því að Tryggingastofnun endurskoði ákvörðun sína, meðal annars á grundvelli þess að aðeins […] séu í að réttindin endurnýist.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Með breytingalögum nr. 120/2009, sem tóku gildi 1. janúar 2010, hafi eftirfarandi málslið verið bætt við þessa málsgrein:

„Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“

Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sé sett með heimild í lögum um félagslega aðstoð. Í 3. gr. hennar sé fjallað um uppbætur vegna kaupa á bifreiðum. Þar komi fram skilyrði fyrir greiðslu þessara uppbóta og eins upphæðir þeirra. Þar komi meðal annars fram að uppbót sé einungis heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. 

Í 7. mgr. þessarar 3. gr. reglugerðarinnar segi:

„Óheimilt er að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.”

Kærandi hafi sótt um uppbót/styrk til bifreiðakaupa með umsókn, dags. X. Með bréfi, dags. X, hafi umsókn hans um uppbót til bifreiðakaupa verið samþykkt. Í bréfinu hafi meðal annars komið fram að kæranda væri ekki heimilt að selja bifreiðina innan fimm ára án sérstaks leyfis Tryggingastofnunar og að kærandi þyrfti að skila inn sérstakri yfirlýsingu þess efnis áður en greiðsla færi fram. Kærandi hafi skilaði inn slíkri yfirlýsingu þann X um kaup á [...] bifreið nr. D.

Þann 26. nóvember 2018 hafi borist ný umsókn um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa ásamt læknisvottorði. Nýtt læknisvottorð hafi ekki þótt gefa ástæðu til þess að gera breytingu á fyrra hreyfihömlunarmati og því hafi umsókn verið metin ótímabær þar sem ekki hafi verið liðin fimm ár frá síðustu úthlutun. Þar sem kærandi hafi fengið greidda uppbót í X sé ekki heimilt að úthluta kæranda slíkri uppbót fyrr en í X. Umsókn kæranda hafi því verið synjað með bréfi, dags. 2. janúar 2019.

Eins og áður hafi verið rakið sé Tryggingastofnun ekki heimilt að veita uppbót vegna bifreiðakaupa vegna sama einstaklings nema á fimm ára fresti. Rétt sé að vekja athygli á því að reglan sé afdráttarlaus og án undantekninga í 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi fram þröng undantekningarheimild til þess að heimila sölu á bifreið áður en fimm ár séu liðin frá því að kæranda hafi verið veitt uppbót, en það sé vegna þess að bifreið hafi eyðilagst eða bótaþegi látist. Athygli kæranda hafi verið vakin á þessu í bréfum stofnunarinnar.

Í framkvæmd hafi verið horft til þess að til að bifreið teljist eyðilögð í skilningi ákvæðisins þá þurfi að liggja fyrir mat fagaðila á því að bifreiðin sé ónýt og að minnsta kosti sé bifreiðin ekki lengur í umferð samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu. Einnig sé horft til þess hvort kærandi hafi einfaldlega selt bifreiðina eða fengið bætur frá tryggingunum vegna tjónsins.

Það sé rétt að vekja athygli á því að þessi framkvæmd Tryggingastofnunar byggi eingöngu á orðalagi 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar og sambærilegu ákvæði í fyrri reglugerð. Framkvæmdin hafi verið svona frá því áður en að fimm ára reglan hafi verið lögfest með breytingalögum nr. 120/2009. Það megi færa fyrir því rök að framkvæmdin standist ekki afdráttarlaust orðalag hinnar breyttu 10. gr. laga um félagslega aðstoð, þ.e. að með réttu ætti ekki að vera heimilt að veita nýja uppbót/styrk til bifreiðakaupa þó að bifreið hafi eyðilagst.

Tryggingastofnun hafi skoðað gögn málsins, bæði þau sem hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins hjá stofnuninni og þau sem hafi borist með kæru.

Rétt sé að byrja á að taka fram að við afgreiðslu umsóknar kæranda hjá Tryggingastofnun hafi ekki legið fyrir að umsókn um uppbót vegna bifreiðakaupa hafi verið á grundvelli þess að fyrri bifreið hafi eyðilagst. Í umsókninni og fylgigögnum hafi ekkert komið fram sem hafi gefið til kynna annað en að um hefðbundna umsókn hafi verið að ræða.

Það hafi ekki komið fram fyrr en með kæru að fyrri bifreið kæranda hafi eyðilagst, en ekki hafi verið skilað inn neinu mati fagaðila á ástandi þeirrar bifreiðar sem átt hafi að eyðileggjast. Í ljósi þeirra upplýsinga hafi stofnunin skoðað málið sérstaklega til að kanna hvort afla þyrfti frekari gagna í málinu. Það hafi verið niðurstaða Tryggingastofnunar að þess þyrfti ekki.

Kærandi hafi fengið uppbót til bifreiðakaupa í X vegna kaupa á bifreiðinni D, sem var X árgerð af [...] og hafi hann selt bifreiðina þann X. Tryggingastofnun geri þá kröfu til þeirra sem þiggi uppbót/styrk til bifreiðakaupa að bifreiðin sé í eigu bótaþega í fimm ár. Stofnunin hafi hins vegar haft það sem vinnureglu að krefjast ekki endurgreiðslu á uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa kaupi bótaþeginn sambærilega bifreið innan skamms tíma frá því að fyrri bifreið hafi verið seld. Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar virðist kærandi hafa verið […]. Frá og með kaupum á þeirri bifreið sem hann hafi fengið greidda uppbót til kaupa á, þ.e. D, hafi hann keypt og selt X bifreiðar. Eignarhald á þeim hafi varað allt frá X til X, en aldrei lengur. Af þessum X bifreiðum hafi X verið afskráðar, en rétt sé að vekja athygli á því að bifreiðin D hafi ekki verið afskráð.

Afar óljóst sé til hvaða bifreiðar kærandi vísi þegar hann tali um að bifreið hans hafi gefið upp öndina fyrir X síðan. Telja verði þó að þar sé vísað til bifreiðarinnar E, sem sé X árgerð af [...], sem kærandi hafi átt frá X til X.

Tryggingastofnun telji það ekki í samræmi við markmið 10. gr. laga um félagslega aðstoð eða reglugerðar nr. 170/2009 að fallast eigi á það að veita eigi kæranda undanþágu frá 10. gr. laganna þar sem einungis sé heimilt að veita uppbót/styrk til bifreiðakaupa á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sú bifreið, sem kærandi hafi upphaflega fengið veitta uppbót til kaupa á, sé ekki afskráð hjá Samgöngustofu. Flestar af þeim X bifreiðum sem kærandi hafi keypt og selt á tímabilinu séu einnig enn skráðar í umferð. Sú staða að hann hafi á einhverjum tímapunkti keypt aðra og eldri bifreið, sem síðan hafi bilað, veiti honum ekki rétt á nýrri uppbót til bifreiðakaupa. 

Tryggingastofnun telji að sér hafi ekki verið heimilt að víkja frá þeirri meginreglu að einungis sé heimilt að veita uppbót/styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrks til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði verður einstaklingi ekki veitt uppbót/styrkur vegna bifreiðakaupa fyrr en að fimm árum liðnum frá síðustu greiðslu til hans. Ágreiningslaust er að kærandi fékk uppbót til kaupa á bifreið X og uppfyllir því ekki skilyrði laganna um fimm ára frest. Skal þá litið til þess hvort skilyrði séu til að víkja frá lögboðnum tímamörkum. Í kæru greinir kærandi frá því að honum hafi verið synjað um uppbót vegna bifreiðakaupa og gagnrýnir þá ákvörðun. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu uppbótar til bifreiðarkaupa.

Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga var sett með stoð í 2. mgr. 14. gr., sbr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir að óheimilt sé að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Í 2. málsl. sömu málsgreinar segir að heimilt sé að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.

Samkvæmt gögnum málsins keypti kærandi bifreiðina D í tengslum við veitingu uppbótar þann X. Samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá Samgöngustofu var framangreind bifreið skráð í eigu kæranda frá X til X. Jafnframt liggur fyrir að kærandi skrifaði undir yfirlýsingu vegna bifreiðakaupa, dags. X, þar sem hann lýsir því yfir að honum sé kunnugt um að samkvæmt reglugerð nr. 170/2009 sé honum óheimilt að selja bifreiðina fyrr en fimm árum eftir greiðslu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar. Þá liggur og fyrir að kærandi hefur verið skráður eigandi X bifreiða frá því að hann keypti framangreinda bifreið D og að X þeirra hafi verið afskráðar. Bifreiðin D hefur ekki verið afskráð samkvæmt gögnum málsins.

Kærandi greinir frá því í kæru að bifreið hans hafi „gefið upp öndina“ fyrir X síðan þar sem vél bifreiðarinnar hafi gefið sig og hann hafi ekki haft efni á viðgerð. Eins og áður hefur komið fram barst kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála 3. janúar 2019. Þar sem kærandi seldi bifreiðina D þann X telur úrskurðarnefndin að framangreind málsástæða kæranda eigi ekki við um þá bifreið. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála á heimild 2. málsl. 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, til að víkja frá fimm ára tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu, einungis við um þá bifreið sem uppbót var veitt til kaupa á. Kærandi hefur ekki byggt á því að bifreiðin D hafi eyðilagst þegar hún var í hans eigu og ekkert í gögnum málsins bendir til þess. Með hliðsjón af öllu framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. janúar 2019 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. janúar 2019 á umsókn A, um uppbót/styrk til kaupa á bifreið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta