Hoppa yfir valmynd

Nr. 475/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 1. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 475/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22100045

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 210/2021, dags. 12. maí 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 15. febrúar 2021 um að taka ekki umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 17. maí 2021.

    Hinn 24. maí 2021 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og var þeirri beiðni synjað með úrskurði kærunefndar nr. 281/2021, dags. 11. júní 2021. Hinn 29. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Var þeirri beiðni synjað með úrskurði kærunefndar nr. 676/2021, dags. 16. desember 2021. Þá barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku að nýju 18. október 2022.

    Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

     

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á tvíþættum grundvelli, annars vegar á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli hans og hins vegar að ákvörðun í málinu hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum. Kærandi vísar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-351/2022 frá 13. október 2022. Dómurinn hafi slegið því föstu að ekki hafi verið réttmætt að leggja til grundvallar að umsækjandi í því máli bæri ábyrgð á þeirri töf sem varð á meðferð máls hans og leiddi til þess að ekki varð af flutningi innan 12 mánaðar frestsins sem kveðið sé á um í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

    Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að hann hafi ekki verið upplýstur með formlegum og sannanlegum hætti á móðurmáli sínu um skyldur sínar gagnvart Útlendingastofnun og afleiðingar þess að mæta ekki í sýnatöku eða framvísa ekki bólusetningarvottorði. Kærandi vísar til þess að í máli hans liggi ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um hvernig staðið hafi verið að upplýsingagjöf af hálfu stoðdeildar ríkislögreglustjóra eða hvort túlkað hafi verið frá ensku eða íslensku yfir á móðurmál hans.

    Í öðru lagi byggir kærandi á því að það sé ekki í samræmi við 11. gr. laga um útlendinga að birta tilkynningu um frávísun frá Íslandi án nokkurs samráðs við lögmann viðkomandi aðila. Kærandi telur að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur feli í sér áfellisdóm hvað varði birtingu og framkvæmd ákvarðana Útlendingastofnunar af hálfu stoðdeildar. Af dómnum megi ráða að það verklag sem hafi verið viðhaft gagnvart aðilum sem hafi ílengst hér vegna heimsfaraldurs, m.t.t. framkvæmdar um brottvísun hafi verið ófullnægjandi. Kærandi telur að endurupptaka þurfi mál hans vegna ófullnægjandi verklags. Kærandi telur því óásættanlegt að skella skuldinni á umsækjendur og synja þeim um efnismeðferð vegna ófullnægjandi verklags.

    Kærandi telur skýr og haldgóð rök fyrir því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í máli hans. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, meginreglu 11. gr. laga um útlendinga, hagsmunum þeim sem í húfi séu og hvernig nýfallinn dómur Héraðsdóms Reykjavíkur breytir niðurstöðu málsins sé ljóst að fullt tilefni sé til endurupptöku málsins.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum en ekki við komu til landsins. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 28. nóvember 2020 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 28. nóvember 2021. Hinn 29. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á þeim grundvelli að meira en 12 mánuðir væru liðnir frá því hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Með úrskurði kærunefndar í máli nr. 676/2021, dags. 16. desember 2021, var það niðurstaða kærunefndar að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hefðu verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Var því ekki fallist á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans.

Í tengslum við fyrri endurupptökubeiðni kæranda barst kærunefnd tölvubréf frá stoðdeild 8. desember 2021, þar sem fram kemur að stoðdeild hafi borist verkbeiðni í máli kæranda 5. júlí 2021. Hinn 19. ágúst 2021 hafi verið haft samband við kæranda símleiðis og hann boðaður í viðtal. Kærandi hafi greint frá því að vera veikur en að hann kæmist 26. ágúst 2021. Hinn 26. ágúst 2021 hafi kærandi sent smáskilaboð um að hann kæmist ekki þar sem hann væri að fara í mosku. Kærandi hafi þá verið boðaður í viðtal 30. ágúst 2021. Í viðtalinu hafi kærandi greint frá því að hann væri tilbúinn til þess að fara til viðtökuríkis en hann þyrfti að fá tíma til að ganga frá sínum málum hér á landi fyrst. Stoðdeild hafi samþykkt það og kærandi hafi ætlað að hafa samband þegar hann væri reiðubúinn til þess að fara. Hinn 1. október 2021 hafi kærandi sent smáskilaboð þess efnis að hann væri tilbúinn að fara til viðtökuríkis 5. október 2021 sem stoðdeild hafi samþykkt. Kærandi hafi greint frá því að hann væri bólusettur fyrir Covid-19 og honum hafi verið gert grein fyrir því að hann þyrfti að óska eftir bólusetningarvottorði sem hann kvaðst ætla að gera. Í kjölfarið hafi stoðdeild hafið undirbúning á flutningi kæranda til viðtökuríkis og m.a. bókað flugmiða til Ítalíu. Hinn 4. október 2021 hafi starfsmaður stoðdeildar haft samband við kæranda til að kanna hvort hann þyrfti aðstoð vegna fyrirhugaðs flutnings en kærandi hafi þá greint frá því að honum hefði snúist hugur. Starfsmaður stoðdeildar hafi þá farið að dvalarstað kæranda en hann hafi ekki verið þar. Í kjölfarið hafi flugmiði kæranda til Ítalíu verið afbókaður.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-351/2022 frá 13. október 2022, var það niðurstaða dómsins að þar sem stefnandi í því máli skildi takmarkaða ensku hefði verið fullt tilefni til að tryggja að hann skildi inntak Tilkynningar um framkvæmd ákvörðunar um frávísun frá Íslandi til Grikklands og mikilvægi þess að mæta til Covid-19 sýnatöku degi síðar. Að mati dómsins stæðist ekki grunnforsenda úrskurðarins um að stefnandi hefði tafið afgreiðslu málsins með því að mæta ekki í sýnatöku nema því yrði slegið föstu að stefnandi hefði áttað sig á því hvar og hvenær sýnatakan ætti að fara fram. Þá hafi neðanmálsgrein í fyrirliggjandi tilkynningu, sem fjallaði m.a. um hugsanlega ábyrgð stefnanda á töfum, einungis verið á íslensku. Samkvæmt 11. gr. laga um útlendinga sé skylt að veita útlendingum leiðbeiningar um réttindi sín og meðferð máls á tungumáli sem ætla má með sanngirni að þeir geti skilið. Tók dómurinn fram að horfa yrði til íþyngjandi áhrifa þess að tafir á málsmeðferð væru taldar á ábyrgð umsækjanda um alþjóðlega vernd, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Dómurinn taldi því ekki réttmætt að leggja til grundvallar að stefnandi bæri ábyrgð á þeirri töf sem varð á meðferð máls hans og leiddi til þess að ekki varð af flutningi hans innan 12 mánaða frestsins. Hafi því úrskurður kærunefndar að þessu leyti verið byggður á efnisannmarka sem teljist verulegur. Af þeirri ástæðu var fallist á kröfu stefnanda um að ógilda úrskurð nefndarinnar frá 18. nóvember 2021 þar sem beiðni stefnanda var synjað um endurupptöku málsins.

Í því máli sem hér er til meðferðar sýndi kærandi upphaflega samstarfsvilja við framkvæmd flutnings hans til Ítalíu. Flytja átti kæranda til Ítalíu 5. október 2021 en þegar starfsmenn stoðdeildar höfðu samband við kæranda vegna fyrirhugaðs flutnings 4. október 2021 hafi kærandi breytt afstöðu sinni. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kallaður hafi verið til túlkur á móðurmáli kæranda í samskiptum hans við starfsmenn stoðdeildar. Þá liggur ekki fyrir hvort kærandi hafi verið upplýstur með formlegum og sannanlegum hætti um skyldur sínar gagnvart stjórnvöldum. Þrátt fyrir að gögn málsins bendi til þess að kærandi hafi áttað sig á því að samskipti hans við starfsmenn stoðdeildar tengdust framkvæmd frávísunar hans frá landinu telur kærunefnd, með hliðsjón af framangreindum dómi héraðsdóms, að ekki sé hægt að slá því föstu að kærandi hafi með sanngirni skilið þær leiðbeiningar sem honum hafi verið kynntar.Með hliðsjón af framangreindu er því ekki grundvöllur fyrir kærunefnd til að ákvarða að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er uppfyllt og ber að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

Í ljósi framangreinds er því fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for interantional protection in Iceland.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sandra Hlíf Ocares                                        Gunnar Páll Baldvinsson


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta