Mál nr. 186/2012.
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 186/2012.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 1. júní 2012, var kæranda A, tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiðslum atvinnuleysisbóta til hans yrði hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann hafi verið skráður í nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Kæranda var jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 19. apríl 2012 að fjárhæð 534.596 kr. með 15% álagi. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 26. nóvember 2012. Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn og því beri að vísa málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 8. nóvember 2011 og fékk greiddar bætur í samræmi við rétt sinn.
Með bréfi, dags. 26. apríl 2012, óskaði Vinnumálastofnun eftir skýringum frá kæranda vegna skráningu hans í nám samhliða því að hafa þegið atvinnuleysisbætur og án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Þann 16. maí 2012 bárust Vinnumálastofnun skýringar frá kæranda þar sem hann greinir frá því að hann hafi átt eftir 15,5 ECTS einingar til að klára MSc-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hafi ekki uppfyllt einingafjölda til að fá lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna og ekki haft neinar tekjur og því hafi atvinnuleysisbæturnar komið sér vel. Hann hafi fremur litið á sig sem atvinnuleitanda en nema og sótt um fjölda starfa á þessu tímabili. Hann óskaði því eftir að Vinnumálastofnun myndi fremur líta á hann sem atvinnuleitanda en nema við ákvörðun í máli hans.
Með bréfi, dags. 1. júní 2012, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiðslum atvinnuleysisbóta til hans yrði hætt þar sem hann hafi verið skráður í nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur sem samrýmist ekki ákvæði 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 19. apríl 2012 að fjárhæð 534.596 kr. með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með bréfi, dags. 20. september 2012 var kæranda veittur 90 daga frestur til að greiða skuld sína að fjárhæð 486.711 kr. að meðtöldu 15% álagi, en að öðrum kosti yrði mál hans sent til frekari innheimtu. Þá var kæranda með bréfi þessu gefið færi á að semja um tilhögun endurgreiðslu með því að hafa samband við Greiðslustofu Vinnumálastofnunar.
Í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. nóvember 2012, greinir kærandi frá því að hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 8. nóvember 2011. Hann hafi verið í atvinnuleit og nýtt sér þjónustu frá ráðningarskrifstofunum, sent atvinnuumsóknir og mætt í atvinnuviðtöl. Hann hafi ákveðið að ljúka námi sínu við Háskólann í Reykjavík vorið 2012 með því að taka tvö námskeið. Hann hafi samt sem áður verið á fullu í atvinnuleit og hefði tekið atvinnutilboði ef hann hefði fengið einhver á þessu tímabili. Með því að ljúka námi sínu hafi kærandi styrkt stöðu sína á vinnumarkaði og gert hann að hæfari umsækjanda á vinnumarkaði, hann hafi ekki síst sannfærst um mikilvægi þess að ljúka náminu vegna hvatningar og umræðu á vegum stjórnvalda og átaksins „vinnandi vegar“.
Kærandi vísar til 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem heimilar Vinnumálastofnun að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá sem stundi nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Kærandi telur að í samræmi við ofangreint lagaákvæði hafi hann átt rétt á skertum atvinnuleysisbótum þar sem hann hafi ekki verið í fullu námi. Hann telur því að hann hafi jafnframt verið ranglega tekinn af bótum frá 20. apríl til 20. júlí 2012. Hann hafi verið atvinnulaus og í atvinnuleit á umræddu tímabili en nýtt sér þau úrræði sem í boði voru til að bæta stöðu sína í atvinnuleit.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. janúar 2013, vísar Vinnumálastofnun til þess að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysisbætur launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir.
Vinnumálastofnun greinir frá því að mál þetta varði í fyrsta lagi þá ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tilkynnt var með bréfi, dags. 1. júní 2012, um stöðvun greiðslna atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið skráður í nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur sem sé óheimilt skv. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Var kæranda einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Með erindi, dags. 26. nóvember 2012, var ákvörðun Vinnumálastofnunar kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefndinni innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Mat Vinnumálastofnunar er því að kærufrestur vegna ákvörðunar frá 31. maí 2012 sé nú liðinn.
Í öðru lagi varði málið innheimtubréf stofnunarinnar, dags. 20. september 2012, þar sem stofnunin hafi ítrekað kröfu sína um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Var kæranda leiðbeint um að hafa samband við stofnunina til að greiða eða semja um greiðslu skuldarinnar en að öðrum kosti yrði mál hans sent til frekari innheimtu hjá Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi. Mat Vinnumálastofnunar er að ítrekun á innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta verði ekki talin til stjórnvaldsákvörðunar sem unnt sé að kæra. Efnisákvörðun í málinu hafi verið tekin 31. maí 2012. Að mati Vinnumálastofnunar verður ekki séð að ítrekun á innheimtu kunni að hafa áhrif á kærufrest til úrskurðarnefndarinnar.
Niðurstaða Vinnumálastofnunar hafði þar af leiðandi verið sú að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. janúar 2013.
Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 16. janúar 2013, en þar mótmælir kærandi þeirri niðurstöðu í greinargerð Vinnumálastofnunar að vísa beri málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og óskar eftir því að kæran fái efnislega meðferð.
Kærandi tilgreinir að í bréfi því sem honum var tilkynnt um ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. maí 2012 hafi verið vísað til 24. gr. stjórnsýslulaga sem kveði á um þann rétt aðila að fá mál sitt endurupptekið ef ákvörðun stjórnvalds hefur verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Kærandi hafi talið sig vera að nýta þessa heimild sína þegar hann leitaði til Vinnumálastofnunar og bað um aðstoð við leiðréttingu þessa máls. Kærandi telur að Vinnumálastofnun hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni með því að upplýsa hann ekki á þeim tíma um að það væri nauðsynlegt að leggja fram formlega kæru.
Kærandi mótmælir þeirri niðurstöðu Vinnumálastofnunar að ítrekun á innheimtu hafi ekki áhrif á lengd kærufrests þar sem tilgreint sé í umræddu innheimtubréfi, dags. 20. september 2012, að skv. 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé heimilt að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar.
Kærandi ítrekar jafnframt rökstuðning sinn fyrir kæru og krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi en til vara að 15% álag falli niður ef úrskurðanefndin ákveði að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar.
Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var honum tilkynnt að tafir yrðu á afgreiðslu máls hans vegna gríðarlegs málafjölda fyrir úrskurðarnefndinni.
2.
Niðurstaða
Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæra kæranda, dags. 26. nóvember 2012, barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. desember 2012. Ákvörðun Vinnumálastofnunar og krafa um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta var tilkynnt með bréfi, dags. 1. júní 2012.
Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða bera gögn málsins með sér að kæranda hafi verið ljóst að hann hafi með bréfi, dags. 1. júní 2012, verið krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra bóta en hafi látið hjá líða að kæra þá endurkröfu til úrskurðarnefndarinnar þar til 26. nóvember 2012.
Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufrestum og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Úrskurðarorð
Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.
Brynhildur Georgsdóttir,
formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir Helgi Áss Grétarsson