Hoppa yfir valmynd

Nr. 286/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 6. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 286/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19050022 og KNU19050023

 

Kæra […] og

[…]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. maí 2019 kærðu […], fd. […], ríkisborgari Georgíu (hér eftir K) og […], fd. […], ríkisborgari Georgíu (hér eftir M), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. maí 2019, um að synja beiðni kærenda um endurupptöku á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. nóvember 2018, þar sem þeim var synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að fallist verði á að mál þeirra vegna umsókna um alþjóðlega vernd verði tekin til meðferðar á ný skv. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og beiðni kærenda um endurupptöku verði tekin til meðferðar á ný.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur komu fyrst hingað til lands 18. júní 2017 og lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. febrúar 2018, sem staðfest var með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 8. maí sama ár, var kærendum synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi skv. 74. gr. laga um útlendinga. Voru kærendur flutt til heimaríkis þann 9. júlí 2018. Kærendur komu aftur hingað til lands og sóttu um alþjóðlega vernd þann 8. nóvember 2018. Með ákvörðunum, dags. 26. nóvember 2018, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Útlendingastofnun veitti nánari rökstuðning fyrir ákvörðununum þann 27. og 29. nóvember 2018. Ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki kærð til kærunefndar útlendingamála en þann 11. apríl 2019 óskuðu kærendur eftir því við Útlendingastofnun að mál þeirra yrði endurupptekið. Með ákvörðun, dags. 8. maí 2019, var beiðni kærenda um endurupptöku málsins hafnað. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 10. maí 2019. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 17. maí 2019, ásamt fylgigögnum. Þá barst viðbótargagn þann 23. maí 2019.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við komu kærenda til landsins hafi K verið barnshafandi og komin átta mánuði á leið. Ákvörðun Útlendingastofnunar frá 26. nóvember 2018 um umsókn kærenda hafi verið tekin áður en K hafi eignast barnið. Fram kemur að kærendur hafi óskað eftir því að mál þeirra yrði endurupptekið, enda hafi sú ákvörðun Útlendingastofnunar verið byggð á atvikum sem hafi breyst verulega þar sem barn þeirra sé nú fætt. Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. maí 2019, segir að í rökstuðningi stofnunarinnar hafi m.a. verið lagt til grundvallar að kærendur gætu leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi í heimaríki. Taldi Útlendingastofnun að þegar hefði verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kærenda að þessu leyti. Þá hefðu kærendur ekki lagt fram nein gögn sem renndu stoðum undir að þau gætu ekki fengið viðeigandi aðstoð heilbrigðisyfirvalda í heimaríki vegna barns þeirra. Var það mat stofnunarinnar að atvik málsins hefðu ekki breyst verulega frá því ákvörðun var tekin þannig að tilefni væri til að endurupptaka mál þeirra, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kærenda kemur fram að umsókn kærenda um alþjóðlega vernd hafi að verulegu leyti verið byggð á því að þeim hafi verið neitað um fæðingarþjónustu í Georgíu. Á því stigi málsins hafi ekki verið fjallað um hvers konar aðstoð yrði í boði fyrir nýfætt barn þeirra sem hafi þá ekki verið komið í heiminn. Byggja kærendur á því að georgísk lög standi í vegi fyrir því að þau muni fá aðstoð fyrir barn sitt þar sem K hafi ekki verið í heimaríki fyrstu vikurnar eftir barnsburð. Þar með hafi atvik málsins breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin í nóvember 2018. Í greinargerð er rakin skýrsla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um grunnheilbrigðisþjónustu í Georgíu fyrir árið 2018. Í skýrslunni segi m.a. að aðgangur að heilbrigðisþjónustu hafi ekki verið tryggður öllum í ríkinu vegna kostnaðar. Nýlega hafi úrbætur verið gerðar vegna þessa en engin reynsla sé komin á nýju reglurnar. Þá hafi því verið lýst yfir af hálfu stofnunarinnar að taka þurfi á því hve mikið borgarar Georgíu þurfi að borga sjálfir fyrir heilbrigðisþjónustu. Telja kærendur að með vísan til þessa muni barn þeirra ekki fá fullnægjandi þjónustu í Georgíu. Í framhaldinu eru rakin ákvæði laga og alþjóðasáttmála um réttindi barna sem hafa sótt um alþjóðlega vernd, m.a. um að til greina komi að minni kröfur séu gerðar til að börn njóti verndar og fái dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá er greint frá því að K hafi glímt við andlega vanlíðan. Með vísan til framangreinds telja kærendur að taka beri umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi upp að nýju.

Í umfjöllun um varakröfu er vísað til þess að K hafi við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd lagt fram samskipti við fulltrúa yfirvalda í Georgíu þar sem komið hafi fram að hún hafi ekki átt rétt á þjónustu fyrir barnshafandi konur. Í hinni kærðu ákvörðun hafi komið fram það mat Útlendingastofnunar að kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn með endurupptöku sem renndu stoðum undir fullyrðingu þeirra um að þau gætu ekki fengið aðstoð heilbrigðisyfirvalda í Georgíu vegna barns þeirra. Byggja kærendur á því að um rangfærslur sé að ræða í ákvörðun Útlendingastofnunar að þessu leyti og að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga hvað þetta atriði varðar, enda hafi stofnunin ekki látið þýða framangreind gögn sem kærendur hafi lagt fram. Þá telja kærendur að þar sem Útlendingastofnun hafi ekki rakið umrædd gögn í ákvörðun sinni vegna umsóknar kærenda um alþjóðlega vernd hafi stofnunin einnig brotið gegn 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana. Loks byggja kærendur á því að þau hafi við meðferð málsins bent á að mikilvægt væri að Útlendingastofnun skoðaði hvort þau hefðu fengið fullnægjandi leiðbeiningar um framhald málsins og málsmeðferð stofnunarinnar. Í hinni kærðu ákvörðun hafi hins vegar ekkert verið fjallað um leiðbeiningarskyldu Útlendingastofnunar sem kærendur telja til marks um óvandaða stjórnsýsluhætti.

Kærendur lögðu einnig fram bréf þann 23. maí 2019. Í bréfinu segir m.a. að ástandið í heimaríki þeirra sé afar slæmt, mannrán tíðkist og fólk búi við hungur. Þá sé landinu stjórnað af mafíu og sé ekki öruggt. Kveða kærendur þessi atriði hafa áhrif á líf þeirra, öryggi og heilsu.

 

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr.

Krafa kærenda um að málið verði endurupptekið og að umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd verði teknar til meðferðar á ný er aðallega byggð á því að þau hafi ekki rétt á heilbrigðisþjónustu fyrir barn sitt í heimaríki þar sem K hafi ekki verið þar í landi á fyrstu 13 vikum meðgöngunnar. Vísa kærendur einnig til umfjöllunar í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigðisþjónustu fyrir barnshafandi konur og ungabörn í Georgíu auk samskipta K við heilbrigðisstofnun í heimaríki sem þau kveða sýna fram á að þau hafi ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð á meðgöngu. Telja kærendur að framangreind atriði leiði til þess að endurupptaka beri mál þeirra á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, enda hafi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 26. nóvember 2018 verið byggð á atvikum sem hafi breyst verulega frá því hún var tekin.

Við meðferð máls kærenda hjá Útlendingastofnun lögðu þau fram gögn um samskipti K við heilbrigðisyfirvöld í heimaríki um þjónustu vegna meðgöngu K. Voru umrædd samskipti borin undir túlk í viðtali við K hjá Útlendingastofnun vegna umsóknar um alþjóðlega vernd, en í samskiptunum mun K hafa óskað eftir skýringum á því af hverju hún hafi ekki rétt á fjárhagslegri aðstoð vegna meðgöngunnar. Hafi K fengið þær upplýsingar að þar sem hún hafi ekki komið aftur til heimaríkis fyrir 13. viku meðgöngunnar ætti hún ekki rétt á fjárhagslegri aðstoð. Vísuðu heilbrigðisyfirvöld til almennra reglna um heilbrigðisþjónustu í Georgíu, sem einnig hafa verið lagðar fram.

Kærunefnd hefur yfirfarið gögn málsins ásamt gögnum um aðstæður í Georgíu, m.a. hvað varðar heilbrigðiskerfi og félagsþjónustu, þá einkum skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2018 (Quality of primary health care in Georgia, WHO, 2018) og skýrslu European Observatory on Health Systems and Policies frá 2017 (Health Care Systems in Transition: Georgia Health system review). Þótt kærendur hafi ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð vegna þungunar K hafa kærendur ekki lagt fram nein gögn sem renna stoðum undir þá málsástæðu að þau muni ekki eiga rétt á heilbrigðisþjónustu í heimaríki fyrir barn sitt. Þrátt fyrir að gagnrýnivert sé að Útlendingastofnun styðjist við 10 ára gamla skýrslu um stöðu heilbrigðiskerfis Georgíu verður ekki annað séð af ofangreindum skýrslum en að heilbrigðisþjónusta sé aðgengileg öllum í heimaríki kærenda og að sérstök áhersla sé á að tryggja grunnheilbrigðisþjónustu fyrir börn og aðra viðkvæma hópa. Af gögnum málsins verður jafnframt ekki annað ráðið en að barn kæranda, sem fæddist […] og hefur verið í eftirliti hér á landi, sé við góða heilsu. Með vísan til framangreinds og rökstuðnings Útlendingastofnunar fyrir ákvörðun sinni, þar sem m.a. var fjallað almennt um aðgengi að heilbrigðisþjónustu verður ekki talið að atvik málsins hafi breyst á þann hátt að tilefni sé til að taka mál kærenda upp að nýju á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærendur byggja einnig á því að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð máls þeirra. Er þessi málsástæða kærenda reist á því að stofnunin hafi í ákvörðun sinni lagt til grundvallar að þeim hafi staðið til boða heilbrigðisþjónusta vegna meðgöngu K, þrátt fyrir að framlögð gögn hafi bent til annars. Þá hafi Útlendingastofnun ekki látið þýða þau gögn sem kærendur hafi lagt fram. Leggur kærunefnd þann skilning í málsástæðu kærenda að krafist sé endurupptöku þar sem ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 26. nóvember 2018, hafi verið byggðar á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd tekur fram að við töku ákvörðunar í máli kærenda, um umsókn þeirra um alþjóðlega vernd, lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærendum stæði til boða aðstoð yfirvalda vegna meðgöngu K, þar á meðal heilbrigðisyfirvalda, en vegna bágra efnahagsaðstæðna hafi þau komið hingað til lands til að eiga barn sitt. Verður ekki annað séð en að stofnunin hafi tekið til skoðunar aðstæður í heimaríki kærenda að því er varðar aðgang að heilbrigðisþjónustu og komist að þeirri niðurstöðu að synja kærendum um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hér á landi. Er það mat kærunefndar að ekki séu skilyrði fyrir endurupptöku málsins á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Vegna athugasemda kærenda um skort á leiðbeiningum til þeirra við meðferð málsins hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að Útlendingastofnun hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt 7. gr. eða 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Í því sambandi er áréttað að kærendur nutu aðstoðar löglærðs talsmanns við meðferð máls þeirra hjá stofnuninni. Að öllu framangreindu virtu verður staðfest sú ákvörðun Útlendingastofnunar að synja beiðni kærenda um endurupptöku máls þeirra.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                              Laufey Helga Guðmundsdóttir

 

 


 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta